Print

Mál nr. 308/2001

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Skilorð
  • Hegningarauki

Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. desember 2001.

Nr. 308/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Eiríki Brynjólfi Böðvarssyni

(Magnús Thoroddsen hrl.)

 

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Skilorð. Hegningarauki.

 

E, sem var framkvæmdastjóri og sat í stjórn V ehf., var ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti árið 1999 og staðgreiðslu opinberra gjalda árin 1998 og 1999. E gekkst við brotunum. Var honum gert að sæta fangelsi í 10 mánuði, þar af 7 mánuði skilorðsbundið í þrjú ár, og greiða 25.000.000 króna sekt til ríkissjóðs. Refsing fyrir brotin var ákveðin sem hegningarauki við refsingu samkvæmt dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999 að því leyti, sem þau voru framin fyrir uppsögu héraðsdóms í því máli, en fyrir öll brotin sem hegningarauki við viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Vestfjarða 4. febrúar 2000. Með brotunum rauf E tveggja ára skilorðstíma fyrir sex mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt fyrrnefndum dómi Hæstaréttar. Var sú refsing tekin upp og viðurlög ákveðin í einu lagi. Þá var litið til þess að E sætti nú í þriðja sinn á tæplega þremur árum refsingu fyrir brot meðal annars gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Ekki var fallist á að lögbundið lágmark fésektar stangaðist á við 2. gr. eða 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar eða bryti gegn 1. gr. viðauka nr. 4 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, um mannréttindasáttmála Evrópu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Björn Þ. Guðmundsson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. ágúst 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans samkvæmt héraðsdómi verði milduð.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi gaf ríkislögreglustjóri út ákæru 6. apríl 2001 á hendur ákærða fyrir að hafa látið hjá líða að standa sýslumanninum á Patreksfirði skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 434.237 krónur, sem Vesturskip ehf. tók við í rekstri sínum á tímabilinu frá maí 1999 til loka þess árs, en ákærði var framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður í því. Enn fremur var ákært fyrir að hafa látið ógert að skila til sama sýslumanns samtals 11.592.725 krónum, sem félagið hélt eftir af launum starfsmanna sinna á tímabilinu frá apríl 1998 til desember 1999 til staðgreiðslu opinberra gjalda. Fyrrnefnda brotið var talið varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, og það síðarnefnda við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, auk þess sem bæði brotin voru talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Ákærði hefur gengist við þessum brotum. Verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir brotin, sem þar eru réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður að líta til þess að hann var dæmdur í Héraðsdómi Vestfjarða 12. júní 1998 til að sæta fangelsi í níu mánuði skilorðsbundið fyrir fjárdrátt og skilasvik í rekstri Niðursuðuverksmiðjunnar hf. á árabilinu 1990 til 1992 og fyrir að láta hjá líða í rekstri Útgerðarfélagsins Iðunnar hf. að standa skil á virðisaukaskatti frá nóvember 1993 til febrúar 1994, alls 1.619.229 krónur, og staðgreiddum opinberum gjöldum starfsmanna félagsins frá september 1994 til desember 1995, samtals 3.965.173 krónur. Með dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 524, var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir skilasvik og vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda, en ákærulið vegna vanskila á virðisaukaskatti var vísað frá héraðsdómi, auk þess sem ákæruvaldið féll fyrir Hæstarétti frá sakargiftum um fjárdrátt. Var ákærði dæmdur til að greiða sekt að fjárhæð 4.400.000 krónur og sæta fangelsi í sex mánuði skilorðsbundið í tvö ár frá uppsögu dóms Hæstaréttar. Eftir þetta gekkst ákærði undir viðurlög, 250.000 króna sekt, fyrir Héraðsdómi Vestfjarða 4. febrúar 2000 sem hegningarauka við þennan dóm Hæstaréttar fyrir að vantelja virðisaukaskattsskylda veltu Básafells hf. á tímabilinu frá júlí 1992 til desember 1995 og vanrækja þar með að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð samtals 838.939 krónur. Refsingu fyrir brotin, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir, verður að ákveða sem hegningarauka samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga við refsingu samkvæmt dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999 að því leyti, sem þau voru framin fyrir uppsögu héraðsdóms í því máli 12. júní 1998, en fyrir öll brotin sem hegningarauka við viðurlagaákvörðun Héraðsdóms Vestfjarða 4. febrúar 2000. Verður jafnframt gætt að ákvæði 77. gr. sömu laga við ákvörðun refsingar nú.

Með þeirri háttsemi, sem um ræðir í þessu máli, rauf ákærði tveggja ára skilorðstíma fyrir sex mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999, en rannsókn á brotum hans hófst fyrir lögreglu 15. febrúar 2001, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, eins og henni var breytt með 7. gr. laga nr. 24/1999. Verður sú refsing því tekin upp og viðurlög ákærða ákveðin í einu lagi. Í því sambandi verður að líta til þess að ákærði sætir nú í þriðja sinn á tæplega þremur árum refsingu fyrir brot meðal annars gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum, sbr. 5. tölulið 1. mgr. 70. gr. sömu laga. Að þessu gættu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði sæti nú fangelsi í tíu mánuði, en fresta megi fullnustu sjö mánaða af þeirri refsingu ef hann heldur almennt skilorð samkvæmt 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955, í þrjú ár frá uppsögu þessa dóms.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, skal fésekt fyrir að afhenda ekki innheimtan virðisaukaskatt og afhenda ekki fé, sem haldið var eftir til staðgreiðslu opinberra gjalda, að lágmarki nema tvöfaldri þeirri fjárhæð, sem vanrækt var að greiða. Verður ekki fallist á með ákærða að þetta lögbundna lágmark refsingar stangist á við 2. gr. eða 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem því ákvæði var breytt með 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 18. febrúar 1999, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 544. Ekki verður heldur litið svo á að með þessu sé brotið gegn ákvæði 1. gr. viðauka nr. 4 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu með áorðnum breytingum, en um það dæmdi Hæstiréttur 7. desember 2000 í máli nr. 331/2000. Fjárhæðin, sem ákærði er nú sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á, er samtals 12.026.962 krónur. Verður hann því dæmdur til að greiða 25.000.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms. Skal ákærði sæta ella fangelsi í eitt ár, en við ákvörðun þeirrar vararefsingar er horft til sömu atriða og lögð voru til grundvallar í síðastnefndum dómi Hæstaréttar frá 18. febrúar 1999.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Eiríkur Brynjólfur Böðvarsson, sæti fangelsi í tíu mánuði. Fullnustu sjö mánaða af þeirri refsingu skal frestað og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði í ríkissjóð 25.000.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í eitt ár.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Thoroddsen hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 6. júlí 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 21. júní sl., hefur ríkislögreglustjóri höfðað hér fyrir dómi þann 6. apríl 2001, með ákæru á hendur Eiríki Brynjólfi Böðvarssyni, Urðarvegi 24, Ísafirði, kennitala 091156-2459

 „I.  Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða sem framkvæmdastjóra og stjórnarformanni Vesturskipa ehf., kt. 620897-2059, sem úrskurðað var gjaldþrota 19. apríl 2000, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið sýslumanninum á Patreksfirði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árinu 1999 samtals að fjárhæð kr. 434.237 og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 1999

Maí-júníkr.                                                   126.072

Júlí- ágústkr.                                                436.990

September-októberkr.                                –11.393

Nóvember-desemberkr.                           –117.432                             kr.  434.237

                                                                                              Samtals     kr.  434.237

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II.                    Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Þá er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu

opin­berra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið sýslumanninum á Patreksfirði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Vesturskipa ehf. á árunum 1998 og 1999, samtals að fjárhæð kr. 11.592.725 og sundurliðast sem hér segir:

Greiðslutímabil:

Árið 1998

Apríl                             kr. 1.969.727

Maí                               kr. 1.302.855

Júní                              kr.    649.398

Október                       kr. 1.323.991

Nóvember                   kr.    150.913

Desember                    kr.    126.296                                                                   kr.   5.523.180

Árið 1999

Febrúar                        kr.      99.616

Mars                            kr. 1.575.384

Apríl                             kr.    583.438

Maí                               kr.    953.939

Júní                              kr.    561.914

Júlí                                kr.    591.347

Ágúst                          kr.    284.290

September                   kr.    336.597

Október                       kr.    182.926

Nóvember                   kr.    388.755

Desember                    kr.    511.339                                                                   kr.   6.069.545

                                                                                                         Samtals:       kr. 11.592.725

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262.  gr. almennra hegningarlaga 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.“

Ákærði hefur komið hér fyrir dóm og játað sök.  Með skýlausri játningu hans, sem er í samræmi við rannsóknargögn lög­reglu, telst sök hans nægilega sönnuð og varðar háttsemi hans við tilgreind laga­ákvæði í ákærunni. 

Ákærði hefur lagt fram yfirlýsingu þar sem rakið er að eignir Vesturskipa ehf. hafi rýrnað um 110 milljónir króna í ársbyrjun 1999 er veiðileyfi hafi orðið verðlaus í kjölfar breytinga á lögum um stjórnun fiskveiða.  Hafi rekstur félagsins þó ekki verið stöðvað­ur þá þegar þar sem fyrirsvarsmenn þess, þar á meðal ákærði, hafi verið vongóðir um að ríkissjóður myndi bæta tjón af þessum sökum.  Félagið er nú gjaldþrota.

Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar skv. 1. mgr. 262. gr. almennra hegn­ingar­laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995.  Samkvæmt síðarnefndu ákvæðunum tveimur skal fésekt vera allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var að standa skil á og aldrei lægri en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni.  Samkvæmt nefndu hegningarlagaákvæði varðar hátt­semi ákærða fangelsi allt að 6 árum og er heimilt að dæma fésekt að auki samkvæmt ákvæðum skattalaga.

Ákærði sætti á árunum 1975 til 1985 tvívegis sektum og eitt sinn varðhaldi fyrir brot gegn umferðar- og áfengislögum.  Hæstiréttur Íslands dæmdi hann þann 18. febrúar 1999 í 6 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár og 4.400.000 kr. sekt fyrir skilasvik og brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Var refsing fyrir síðargreindu brotin ákveðin meðal annars samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.  Með viðurlagaákvörðun þann 4. febrúar 2000 gekkst hann undir  250.000 kr. sekt fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um bókhald. Var það hegningarauki við greindan hæstaréttardóm. 

Refsingu ákærða fyrir brot hans nú ber að hluta að tiltaka sem hegningar­auka við nefndan dóm Hæstaréttar, þ.e. vegna þeirra brota gegn lögum nr. 45/1987, sem hann framdi frá apríl 1998 til febrúar 1999.

Ákærði kom fyrir lögreglu til skýrslugjafar 15. febrúar 2001, þ.e. áður en skilorðstími hæstaréttardómsins rann út.  Rauf hann skilorð þess dóms með brot­um sem hann framdi eftir uppsögu hans.  Samkvæmt 60. gr. almennra hegn­ingar­laga, sbr. 7. gr. laga nr. 24/1999 og 7. gr. laga nr. 22/1955 ber því að taka upp skil­orðs­bundinn hluta refsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar og dæma hann í einu lagi með refsingu ákærða fyrir þau brot sem hann er nú sakfelldur fyrir.  Við ákvörðun refsingarinnar ber samkvæmt ofansögðu að fara eftir ákvæðum 77. gr. og 78. gr. almennra hegn­ingar­laga.  Líta verður til þess að ákærði hefur áður verið dæmdur fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og var þá refsað m.a. sam­kvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Refsing ákærða ákveðst fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 7 mánaða þar af og sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum 3 árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Þá verður ákærði dæmdur til að greiða 30.000.000 kr. sekt til ríkissjóðs, en sæta fangelsi í eitt ár ef hún greiðist ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.  Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. þókn­un skipaðs verjanda hans, Sigurðar A. Þóroddssonar hdl., 90.000 kr.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsorð:

Ákærði, Eiríkur Brynjólfur Böðvarsson, sæti 10 mánaða fangelsi, en fresta skal fullnustu 7 mánaða þar af og sá hluti falla niður að liðnum 3 árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­­laga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Ákærði greiði 30.000.000 kr. sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms en sæti ella fangelsi í eitt ár. 

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda síns, Sigurðar A. Þóroddssonar hdl., 90.000 kr.