Print

Mál nr. 438/2000

Lykilorð
  • Kærumál
  • Frestur
  • Gagnaöflun
  • Aðalmeðferð

Mánudaginn 11

 

Mánudaginn 11. desember 2000.

Nr. 438/2000.

Ákæruvaldið

(Jón Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Ólafur Garðarsson hrl.)

 

Kærumál. Frestun. Gagnaöflun. Aðalmeðferð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. desember 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2000, þar sem hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að leiða vitnið B í máli, sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila, og fresta aðalmeðferðí því skyni. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur að heimila að vitnið B verði leitt fyrir dóminn.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2000.

Mál þetta er tilbúið til aðalmeðferðar sem á að fara fram í dag. 

Fram er komin krafa ákæruvaldsins fyrir dómi um að vitnið, B, komi fyrir dóminn og frestun á aðalmeðferð í því sambandi.  Telur ákæruvaldið að með hliðsjón af málinu S-785/2000 sé þörf á því að fá að leiða vitnið fyrir dóminn og óskar eftir því að aðalmeðferð sé frestað til þess að unnt sé að leiða vitnið. 

Verjandi ákærða mómælir því að vitnið verði leitt, þar sem aðalmeðferð málsins muni frestast af þeim sökum.  Telur hann að nægur tími hafi verið til að fá vitnið fyrir dóm á fyrri stigum málsins.

 

Mál þetta var höfðað 17. maí sl. með birtingu ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 26. apríl sl., á hendur ákærða, X, fyrir skjalafals og tollsvik við innflutning bifreiðar frá Þýskalandi í maí 1996.  Í ákæru er sagt að seljandi bifreiðarinnar sé ranglega tilgreindur B. 

Málið var þingfest 18. maí sl. þar sem lögð voru fram skjöl málsins.  Málinu var þá frestað til 27. júní sl. til að gefa verjanda kost á að kynna sér gögn málsins og til að ljúka öflun sýnilegra sönnunargagna.  Þann dag var málið tekið fyrir og kom þá fram skrifleg beiðni verjanda ákærða um rannsókn á rithandasýni.  Málinu var frestað til að taka afstöðu til framkominnar beiðni til 5. júlí sl. 

Þann 5. júlí sl. var málinu frestað utan réttar til 22. september sl., með samkomulagi málsaðila, til að afla frekari gagna.  Í þingbók er bókað að saksóknari hafi haft símasamband við dómara og tjáð honum að ekki hefði verið unnt að fá rithandarsérfræðing til að skoða gögn sem verjandi ákærða taldi nauðsynlegt að fá lagt mat á. 

Þann 22. september sl. var málinu enn frestað utan réttar í samráði við sakflytjendur en bókað er í þingbók að saksóknari sé erlendis.  Í þetta sinn var málinu frestað óákveðið.  Ástæða þess var m.a. sú, þrátt fyrir að það komi ekki fram í bókun, að samhliða málinu var rekið fyrir sama fjölskipaða dómi málið S-785/2000: Ákæruvaldið gegn Y.  Um var að ræða hliðstætt sakarefni að því undanskyldu að í því máli var ákært fyrir skjalafals og tollsvik vegna innflutnings margra bifreiða.  Tengdust málin þannig að rannsóknargögn í því máli voru einnig lögð fram í þessu máli.  Aðalmeðferð þess máls hafi verið ákveðin 19. og 20. nóvember sl. og var talið eðlilegt, úr því sem komið var, að fresta málinu þar til dómur væri genginn í máli S-785/2000.

Dómur í málinu S-785/2000 var kveðinn upp 13. október sl. og var ákærði sýknaður af öllum ákæruliðum.  Máli þessu hefur ekki verið áfrýjað en frestur til þess er ekki liðinn.

Málið S 786/2000 var tekið fyrir 1. nóvember sl. og þá lögð fram umbeðin niðurstaða rithandarrannsóknar.  Þar kom fram að ekki væri unnt á grundvelli fyrirliggjandi gagna að kveða á um hvort sama rithönd væri á tilteknum skjölum.  Óskaði verjandi ákærða eftir stuttum fresti til að kanna hvort unnt væri að fá umbeðna rannsókn framkvæmda ef rithandarsérfræðingur hefði undir höndum frumrit tiltekins rannsóknargagns.  Samkomulag náðist um að það yrði sent og var það gert samdægurs með bréfi dómara.  Í þingbók er bókað að sakaflytjendur séu sammála um að ákveða aðalmeðferð 1. desember nk. kl. 13:30 „nema fram komi ástæða til frekari gagnaöflunar.” Umbeðin rithandarannsókn liggur nú frammi í málinu og því er lokið öflun sýnilegra sönnunargagna í málinu. 

Í þinghaldi í dag lagði saksóknari fram skýrslu dagsetta í dag.  Þar kemur fram að í gær, 30. nóvember sl., hafi verið haft símasamband við starfsmenn rannsóknardeildar tollyfirvalda í Hamborg vegna fyrirhugaðrar vitnaleiðslu.  Þá kemur einnig fram, að í dag var haft samband við vitnið, B, með það fyrir augum að fá hann til að koma fyrir dóm á Íslandi. 

 

Niðurstaða.

Mál þetta er tilbúið til aðalmeðferðar og skyldi hún fara fram í dag.  Því ber að líta svo á að krafa ákæruvaldsins feli fyrst og fremst í sér ósk um frestun á aðalmeðferð málsins til þess að umbeðin vitnaleiðsla geti farið fram enda er frestun aðalmeðferðar forsenda þess að það sé mögulegt. 

Maður sem borinn er sökum í opinberu máli á rétt á að mál hans sé leitt til lykta innan hæfilegs tíma.  Hér er um meginreglu að ræða sem kemur fram í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994.  Reglan um hraða málsmeðferð fyrir dómi kemur einnig fram í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.  Þá er kveðið á um það í 133. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991 að máli skuli hraðað eftir föngum.

Máli því sem hér er til meðferðar hefur ítrekað verið frestað m.a. til öflunar frekari sýnilegra sönnunargagna.  Í bréfi ríkislögreglustjóra, dags. 26. apríl sl., segir að af hálfu ákæruvaldsins sé óskað eftir því að leiða eftirtalin vitni við málsmeðferð: Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjón, Högna Einarsson lögreglufulltrúa og Sævin Bjarnason, yfirdeildarstjóra hjá tollgæslunni.  Beiðni um að leiða vitnið, B, kom fyrst fram í þinghaldi í dag.

Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að umbeðin vitnaleiðsla sé m.a. nauðsynleg vegna niðurstöðu dóms í hliðstæðu máli S-785/2000. Í þinghaldi 1. nóvember sl. þegar aðalmeðferð var ákveðin, voru liðnar rúmlega tvær vikur frá því að dómur í málinu S-785/2000 gekk og saksóknara var afhent endurrit dómsins.  Eðlilegt hefði verið að hugað væri að vitnaleiðslunni á þeim tíma sem var til ráðstöfunar til gagnaöflunar.  Samkvæmt framlögðum gögnum og upplýsingum ákæruvaldsins hefur ekki verið gerður reki að því að taka vitnaskýrslu af vitninu í Þýskalandi.  Þá er það fyrst í dag sem af hálfu ákæruvaldsins var haft símasamband við vitnið og er upplýst að vitnið kveðst reiðubúið til að mæta hér fyrir dómi.  Af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki komið fram nein haldbær skýring á því af hverju beiðni um vitnaleiðsluna hefur ekki komið fram fyrr.

Sakarefni það sem hér er til meðferðar lýtur að innflutningi bifreiðar til landsins í maí 1996. 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið þykir, gegn neitun ákærða, ekki unnt að fresta aðalmeðferð málsins nú til að leiða vitnið, B.  Ber því að hafna þeirri kröfu ákæruvaldsins.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu ákæruvaldsins um að leiða vitnið, B, og fresta aðalmeðferð af þeim sökum, er hafnað.