Print

Mál nr. 373/1999

Lykilorð
  • Kærumál
  • Hæfi dómara

Mánudaginn 27

                                                    Mánudaginn 27. september 1999.

Nr. 373/1999.                                       Ákæruvaldið

                                                    (Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

                                                    gegn

                                                    X

                                                    (enginn)

Kærumál. Hæfi. Dómarar.

Kærður var úrskurður þar sem héraðsdómari vék sæti í máli vegna fyrri afskipta af því, en hann hafði tekið skýrslu fyrir dómi í þágu rannsóknar á grundvelli a. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999 af ætluðum brotaþola. Ekki var talið að skýrslutaka dómarans væri til þess fallin að draga mætti óhlutdrægni hans með réttu í efa, né að áframhaldandi meðferð hans á málinu bryti gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eða 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994. Var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. september 1999, sem barst réttinum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. september 1999, þar sem héraðsdómari vék sæti í málinu. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Sóknaraðili krefst þess að héraðsdómara verði gert að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði tók Ólafur Ólafsson héraðsdómari skýrslu fyrir dómi 17. maí 1999 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 74. gr. a. laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999 af ætluðum brotaþola, í þágu rannsóknar á þeim verknaði, sem varnaraðili sætir nú ákæru fyrir. Héraðsdómarinn fékk síðan málinu úthlutað 3. september sl. Ákvað hann að víkja sæti vegna afskipta sinna af frumrannsókn málsins með vísan til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991.

Hvorki verður talið að skýrslutaka dómarans á rannsóknarstigi málsins sé til þess fallin að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa, né að áframhaldandi  meðferð hans á málinu brjóti gegn 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eða 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 17. september 1999.

Mál þetta, sem þingfest var fyrr í dag er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara útgefnu 2. júlí s.l. á hendur ákærða, X [...], fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 16. maí 1999 með ofbeldi og ógnandi framkomu framkomu þröngvað stúlkunni Y [...], til holdlegs samræðis í íbúðarhúsi á [...]. Er brot ákærða talið varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40, 1992. Er þess krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu skaðabóta.

Dómari fékk máli þessu úthlutað þann 3. september s.l.

Málsmeðferð.

Samkvæmt gögnum málsins barst lögreglunni á [...] kæra um ofannefnda nauðgun sunnudaginn 16. maí s.l, en af hálfu rannsóknaraðila var þess farið á leit við Héraðsdóm Norðurlands eystra daginn eftir að tekin yrði skýrsla af kæranda fyrir dómi samkvæmt a lið 1. mgr. 74. gr. a laga nr. 19, 1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36, 1999. Það kom í hlut dómara máls þessa að annast skýrslutökuna, og með hliðsjón af 2. mgr. 48. gr. laga nr. 19, 1991, sbr. 16. gr. laga nr. 36, 1999 var skýrslutakan all ítarleg. Eðli málsins samkvæmt varð nefnd skýrsla eitt helsta gagn ákæruvaldsins til saksóknar gegn ákærða.

Fyrir liggur að með þeirri heildarendurskoðun réttarfarslaga, sem gekk í gildi þann 1. júlí 1992 var horfið frá því fyrirkomulagi sem lengi hafði tíðkast að dómari hefði ríku rannsóknarhlutverki að gegna við meðferð sakamála. Til grundvallar þessari stefnubreytingu var það álit Mannréttindanefndar Evrópu að almennt væri það ekki talin næg trygging fyrir óhlutdrægni í dómstörfum, þegar sami maður vinnur bæði að þeim og rannsókn máls fyrir ákæru.

Við fyrirtöku málsins nú í dag var af hálfu fulltrúa ákæruvalds og skipaðs verjanda ekki hafðar uppi athugasemdir við formhlið máls.

Þegar virt eru áðurgreind afskipti dómara máls þessa af frumrannsókn málsins og með hliðsjón af almennum traustsjónarmiðum um óhlutdrægni dómara þykir með vísan til 5. gr. g. liðar laga nr. 91, 1991, sbr. 6. gr. laga nr. 19, 1991 rétt að dómari víki sæti í máli þessu. Að þessu leyti er og litið til 70. gr. Stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. nú lög nr. 62, 1994.

Ólafur Ólafsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Dómarinn, Ólafur Ólafsson, héraðsdómari, víkur sæti í máli þessu.