Print

Mál nr. 487/2003

Lykilorð
  • Kærumál
  • Skattrannsókn
  • Stjórnarskrá
  • Friðhelgi einkalífs
  • Hald

Mánudaginn 19

 

Mánudaginn 19. janúar 2004.

Nr. 487/2003.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins

(Skúli Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóri)

gegn

X ehf. og

Y

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Kærumál. Skattrannsókn. Stjórnarskrá. Friðhelgi einkalífs. Hald.

X ehf. og Y kröfðust þess að S yrði gert skylt að afhenda X ehf. öll afrit af tölvupóstsamskiptum sem lagt var hald á í starfstöð þess þar sem gögnin hafi meðal annars varðað einkamálefni Y og annarra. Með vísan til 2. mgr. 94. gr. laga  nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignaskatt, 3. mgr. 38. gr. laga nr. 50/1988 um  virðisaukaskatt og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 45/1987 um  staðgreiðslu opinberra gjalda var talið að S hefði verið heimilt að krefjast umræddra gagna og afrita þau í þeim tilgangi að kanna hver þeirra vörðuðu rekstur X ehf. og þýðingu þeirra við rannsókn hans. Þá var talið að umræddar aðgerðir hefðu ekki farið gegn ákvæðum 71. gr. stjórnarskrárinnar auk þess sem hagsmunir X ehf. og Y væru nægilega tryggðir við könnun S á gögnunum. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2003, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert skylt að afhenda varnaraðilanum X ehf. öll afrit af tölvupóstsamskiptum, sem lagt var hald á í starfstöð þess 17. nóvember 2003. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðilar krefjast þess að sóknaraðila verði gert skylt að afhenda varnaraðilanum X ehf. öll afrit af framangreindum tölvupóstsamskiptum. Þá krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2003.

         Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. desember sl., barst dóminum 19. nóvember síðastliðinn með beiðni, dagsettri 17. nóvember sl. Með beiðninni krefjast sóknaraðilar, X ehf., [...], og Y, [...], þess að varnaraðila, skatt­rann­sóknar­­stjóra ríkisins, verði með úrskurði gert skylt að afhenda félaginu öll afrit af tölvupóstsamskiptum sem tekin voru á starfsstöð félagins að [...] hinn 17. nóvember sl. Einnig krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

         Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að honum verði gert að afhenda félaginu aftur öll afrit af tölvupóstsamskiptum, sem tekin voru á starfsstöð þess, verði synjað. Krafist er að sóknaraðilum verði gert að bera kostnað af málarekstri þessum og að héraðsdómur ákvarði málskostnað varnaraðila að skaðlausu.

I.

                Varnaraðili hóf rannsókn á bókhaldi og skattskilum sóknaraðila, X ehf., rekstrartímabilið 1. janúar 1998 til 31. desember 2002 eins og fram kemur í bréfi varnaraðila, dagsettu 14. nóvember síðastliðinn. Starfsmenn varnaraðila fóru á starfsstöð félagsins að [...] hinn 17. nóvember, afhentu framkvæmdastjóra félagsins, sóknaraðila Y, framangreint bréf og til­kynntu þannig um rannsókn­ina. Kröfðust þeir að afhent yrði fært bókhald og fylgiskjöl þess, svo og önnur gögn er vörðuðu reksturinn umrætt rekstrar­tímabil. Í bréfinu er gögnunum nánar lýst og jafnframt er þar óskað að afhent verði hvers konar önnur gögn, sem tengdust rekstrinum á ein­hvern hátt, svo sem bréf, símskeyti, myndrit samninga, tilboð, verðútreikningar, af­stemmingar­gögn og fleira. Tilkynnt var að tekið yrði afrit af gögnum á tölvutæku formi, en lögmaður sóknaraðila, sem kom á staðinn, og sóknaraðili Y mótmæltu að tekið yrði afrit af tölvupóstsamskiptum. Varnaraðili taldi heimilt að taka afritin þrátt fyrir mótmælin og lét hann taka þau en hefur að eigin sögn geymt þau frá þeim tíma í læstu bankahólfi. Af hálfu sóknaraðila var því lýst yfir að ágreiningur um lögmæti hald­lagningar á tölvupóstsamskiptum yrði lagður fyrir héraðsdóm og var það gert með framangreindri beiðni til dómsins. Um heimild til að bera ágreiningsefnið undir dóminn er vísað til 7. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003 og 75. og 79. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. 

II.

         Sóknaraðilar vísa til þess að varnaraðili hafi afritað öll tölvupóst­samskipti fram­kvæmda­stjóra sóknaraðila, X, án tillits til þess hvort þau tengdust rekstri félagsins. Þar hafi meðal annars verið tölvupóstsamskipti sem varði einkalíf og einkahagsmuni sóknaraðila Y og tengdust ekki rekstri skattaðilans með nokkrum hætti. Einnig starfi hún fyrir aðra en sóknaraðila, X ehf. Gögnin, sem hafi verið afrituð, varði því mjög marga aðra en sóknaraðila.

         Með afritun gagnanna hafi varnaraðili með ótvíræðum hætti farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt, 38. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 25. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og brotið gegn 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands hvað hagsmuni sóknaraðila Y varði. Tölvupóstsamskipti séu þar að auki ekki bókhaldsgögn í þeim skilningi að þau geti skipt máli varðandi mat á því hvort bókhald sé réttilega fært eða réttilega staðið skil á skattgreiðslu. Gögn er slíkt varði væru frekar hefðbundin fylgiskjöl, undirritaðir samningar o.fl., en ekki samskipti manna með tölvupósti, sem hafi ekki það skuldbindingargildi sem skriflegir samningar og gögn hafi. Tölvupóstsamskipti séu í eðli sínu ólík hefðbundnum bréfaskiptum, en tölvupóstur sé samskiptaform sem í raun svipi meira til símtala en bréflegra sam­skipta. Af þessum sökum ætti ávallt að beita sömu reglum um skoðun slíkra gagna og gerð sé krafa um þegar t.d. símtöl eru hleruð samkvæmt heimildum dómstóls. Alkunna sé að starfs­menn fyrirtækja noti tölvupóstfang sitt til ýmissa persónulegra samskipta sem ekki varði rekstur fyrirtækjanna með nokkrum hætti. Heimildarákvæði skattalaga verði ekki túlkuð svo að varnaraðili hafi heimild til að afrita slík tölvu­póstsamskipti. Þau nái einungis til gagna er varði rekstur skattaðila, en veiti ekki heimild til að krefjast afhendingar gagna sem tengdust ekki bókhaldi eða rekstri skattaðilans með nokkrum hætti.

         Samkvæmt ofangreindum lagaákvæðum hafi varnaraðili mjög víðtækar heimildir til að krefjast afhendingar gagna sem tengdust rekstri framtalsskyldra aðila sem sættu rannsókn varnaraðila. Þar sem svo sé beri að gera ríkar kröfur til varnaraðila um að gæta meðalhófs er hann nýti umræddar heimildir. Einnig beri að túlka allan vafa skattaðila í hag. Varnaraðila beri að gæta þess að misbeita ekki heimildum sínum og honum beri rík skylda til þess að ganga úr skugga um að gögn tengdust í raun og veru rekstri skattaðilans áður en hann afriti þau. Hann hafi í þessu tilviki haft sérstakt tilefni til þess þar sem ágreiningur hafi verið um lög­mæti aðgerða hans.

         Þá telji sóknaraðilar að varnaraðili hafi farið offari er umrædd afrit voru tekin, enda hafi verið ágreiningur um skyldu aðila til að afhenda þau. Varnaraðili hafi ekki leitað úrskurðar héraðsdóms eins og honum hafi borið að gera samkvæmt 4. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, 5. mgr. 38. gr. laga nr. 50/1988 og 4. mgr. 25. gr. laga nr. 45/1987. Hafi varnaraðili því misbeitt gróflega heimildum sínum.

III.

         Varnaraðili vísar til þess að starfsmenn hans hafi farið á starfsstöð sóknaraðila, X ehf., hinn 17. nóvember sl., en með því hafi rannsókn á bókhaldi og skattskilum félagsins hafist. Þeir hafi afhent framkvæmdastjóra félagsins, sóknaraðila Y, bréf þessa efnis, dagsett 14. sama mánaðar, en jafnframt hafi þeir tilkynnt henni að þeir hefðu í hyggju að kanna sjálfstætt hvaða gögn væru á starfsstöð félagsins, og leggja hald á þau sem talið væri að hefðu þýðingu í þágu rannsóknar­innar. Einnig hafi þeir, í samræmi við góða stjórnsýsluhætti, afhent leiðbeiningar frá embættinu um hvað fælist í skattrannsókn og hvernig forsvarsmenn félagsins gætu brugðist við. Þá hafi þeir gert henni grein fyrir því að unnt væri að bera hald­lagninguna undir héraðsdóm en slíkt málsskot frestaði ekki að embættið tæki gögnin í sínar hendur. Á starfsstöð félagsins hafi verið lagt hald á ýmis skjöl sem ástæða hafi þótt til að taka til frekari athugunar. Þar hafi einnig verið tölvubúnaður og hafi verið tekið afrit af tölvugögnum, sem hafi verið á tölvu sóknaraðila Y, svo og af sameiginlegu svæði af tölvuþjóni. Eingöngu hafi verið afrituð tölvugögn þeirra sem færu með fjármálalega stjórnun á fyrirtækinu. Miklu máli skipti að sakargögn spillist ekki og því hafi varnaraðili heimild til að taka afritin strax í sínar vörslur án þess að þurfa að bera úrlausnarefnið fyrst undir dómara. Tilgangi með eftirlitsaðgerð sem þessari yrði ekki náð ef aðeins væri heimilt að afrita gögnin síðar.

         Tilefni rannsóknar varnaraðila hafi verið rökstuddur grunur um að skattskil félagsins væru athugunarverð, en varnaraðili hefði haft mál­efni þess til athugunar um nokkurt skeið. Starfsmenn embættisins hafi með aðstoð löggilts endur­skoðanda yfir­farið ársreikninga og skattframtöl félagsins frá árinu 1998 til ársins 2002 og hafi grunsemdirnar vaknaði í kjölfar þess. Hinn 17. september 2003 hafi varnaraðila borist tilkynning frá ríkislögreglustjóra um að rökstuddur grunur væri um að ekki væri allt með felldu með viðskipti á milli félagsins og Z hf. Hafi varnaraðili þá hafist handa um að undirbúa rannsókn á skattskilum félagsins, sem hafi verið tilkynnt 17. nóvember 2003, eins og að framan greini.

         Varnaraðili hafi heimildir til aðgerða á starfsstöð fyrirtækja samkvæmt 94. og 103. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt, 25. og 26. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 38. og 4. og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Einnig sé að finna heimildir í reglugerð nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna, einkum II.-VII. kafla hennar. Samkvæmt þeim heimildum hafi varnaraðili aðgang að starfsstöðvum framtalsskyldra aðila og að bók­haldi, bókhaldsgögnum svo og öðrum gögnum er varði reksturinn, þar með talin bréf og samningar. Skylt sé að afhenda allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er varnar­aðili biðji um en um það segi m.a. í 94. gr. laga nr. 90/2003 að ekki skipti máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varði þann aðila sem beiðninni sé beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann geti veitt upplýsingar um og varði skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni. Frekari ákvæði til fyllingar um þetta atriði séu í 18. gr. reglugerðar nr. 373/2001, þar sem m.a. komi fram að heimildir varnar­aðila til að taka afrit allra gagna nái einnig til gagna í tölvutæku formi.

         Meginheimild varnaraðila sé í 94. gr. laga nr. 90/2003. Orðalag ákvæðisins sé ótvírætt en skattyfirvöldum séu ætlaðar mjög rúmar heimildir til að ganga úr skugga um að skattskil aðila séu með þeim hætti að þau geti verið grundvöllur álagningar opinberra gjalda og viðeigandi refsimeðferðar ef á skorti að svo sé. Svipað gildi í flestum eða öllum öðrum vestrænum löndum. Varlega sé farið með þetta vald og ítrustu varfærni beitt. Þannig sé þess gætt að skaða ekki viðkomandi fyrirtæki eftir því sem unnt sé.

         Tölvupóstur sé ótvírætt samskipti milli aðila í bréfaformi en með annarri tækni en áður hafi tíðkast. Samskipti milli fyrirtækja fari í miklum mæli fram með tölvum. Greiðslur milli aðila, fyrirtækja og einstaklinga fari fram með tölvusamskiptum, bókhald sé fært og vistað í tölvum og minnisblöð og fundarboð séu send með tölvupósti í stað bréfa. Það sé stundum gert í þeim tilgangi að unnt sé að færa sönnur á að tiltekin samskipti hafi átt sér stað og hvers efnis þau hafi verið. Heimildir varnar­aðila nái m.a. til aðgangs að bréfum og samningum en með því geti hann fengið aðgang að samskiptum milli skattaðila og annarra. Heimildirnar taki einnig ótví­rætt til þessa samskiptaforms enda sé um gögn viðkomandi skattaðila að ræða og er í því sambandi vísað til reglugerðar nr. 373/2001. Þegar einkabréf fari saman við önnur samskipti um starfstengd atriði fyrirtækja hafi Hæstiréttur sagt að ef starfsmenn geymi persónuleg gögn á starfsstöð þurfi þeir óhjákvæmilegra að bera "áhættu af því að þau komist í hendur annarra vegna lögmætra aðgerða handahafa opinbers valds í garð varnaraðila". Hæstiréttur hafi einnig staðfest að afritun ríkislögreglustjóra á tölvupósti hafi verið heimil þrátt fyrir að í tölvusamskiptum hefði verið mikið af einkapósti og að vera kynni að gögn hefðu verið haldlögð sem ekki vörðuðu rannsóknina. Erfitt væri að flokka þessi gögn eða skilgreina þau fyrirfram.

         Varnaraðili hafi mótað reglur, sem settar hafi verið í samráði við Persónuvernd, um það hvernig fara skuli með einkagögn sem renni saman við gögn rekstraraðila. Grundvöllur þeirra viðmiðunarreglna sé að tölvupóstur, sem haldlagður er á starfsstöð fyrirtækis, sé ekki skoðaður nema að uppfylltum skilyrðum um að viðkomandi ein­stak­lingi sé:

         · tilkynnt skriflega að skoðun á tölvugögnunum standi til,

         · gefinn kostur á því að tilgreina það sem kunni að vera einkamál,

         · gefinn kostur á að vera viðstaddur opnun tölvugagna og skoðun.

         Viðmiðunarreglur þessar beri skýrlega með sér að vera varúðarreglur þannig að ekki sé verið að skoða augljós einkagögn svo sem samskipti við maka, börn, ættingja, félagsstarf, áhugamál og önnur gögn sem beri með sér að vera einkalegs eðlis. Þannig sé tryggt að óvið­komandi gögn sæti ekki athugun. Reglurnar eigi við um könnunina, sem hér um ræði, en sóknaraðila Y verði gefinn kostur á að vera viðstödd þegar tölvupósturinn verði opnaður. Engin ástæða væri til að óttast að brotið yrði gegn frið­helgi hennar eða vegna lögskipta hennar við aðra en þá sem rannsóknin beindist að.

IV.

         Eins og að framan er rakið telja sóknaraðilar að óheimilt hafi verið að afrita tölvupóstsamskipti sóknaraðila Y, eins og varnaraðili lét gera, vegna þess að lagaheimild til þess hafi ekki verið fyrir hendi, en meðal þess sem afritað var hafi verið tölvupóstur um einkamálefni hennar og annarra. Varnaraðili hefur með höndum rannsóknir samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignaskatt nr. 90/2003 og lögum um aðra skatta og gjöld, sem á eru lögð af skattstjórum eða þeim er falin framkvæmd á, eins og fram kemur í 1. mgr. 103. gr. laganna. Í 94. gr. þeirra er fjallað um upplýsingaskyldu skattaðila og eftirlitsheimildir skattyfirvalda. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar er öllum skylt að láta skattyfir­völdum í té, í því formi sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Varnaraðili getur samkvæmt heimild í 2. mgr. sömu lagagreinar krafist þess vegna rannsókna samkvæmt 103. gr. laganna að framtalsskyldir aðilar leggi fram til könnunar bókhald sitt og bókhaldsgögn, svo og önnur gögn er varða reksturinn, þar með talin bréf og samningar. Sambærileg ákvæði eru í lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

         Bréf eru samkvæmt almennum málskilningi skriflegar orðsendingar eða skrifleg skjöl. Þótt hér sé um að ræða tölvupóst, sem sendur er milli manna með rafrænum búnaði, verður það form ekki haft til marks um að slíkar orðsendingar verði ekki taldar til gagna er varði rekstur sem varnaraðila er heimilt að krefjast afhendingar á samkvæmt 2. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, 3. mgr. 38. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 45/1987. Verður því ekki fallist á þær röksemdir sóknaraðila að tölvu­póstsamskiptum megi fremur líkja við símtöl en bréf og því eigi að gilda um þau ákvæði 86. og 87. gr. laga um meðferð opinberra mála um hleranir. Samkvæmt þessu verður að telja að varnaraðila hafi verið heimilt, að öðrum skilyrðum uppfylltum, að krefjast umræddra gagna og afrita þau til að unnt væri að kanna þau samkvæmt framan­greindum ákvæðum í lögum nr. 90/2003, nr. 50/1988 og nr. 45/1987.

          Sóknaraðilar hafa borið því við að önnur gögn en þau sem tengdust rekstri X ehf., þar á meðal persónuleg samskipti Y með tölvupósti, væru geymd í umræddri tölvu Y. Hér verður að líta svo á að tölvu­pósturinn, sem varnaraðili lét afrita og deilt er um í málinu, varði að minnsta kosti að hluta til rekstur sóknaraðila X ehf. enda hafa sóknaraðilar vísað til þess að varnaraðila hafi borið að aðgreina það sem varðaði reksturinn áður en afritin voru tekin. Með dómum Hæstaréttar frá 3. maí 2002 í málum nr. 177/2002: Samkeppnis­stofnun gegn Olíuverslun Íslands hf. og nr. 178/2002: Sam­keppnis­­stofnun gegn Skeljungi hf. var komist að því að þótt starfs­menn hafi varðveitt á vinnustað sínum tölvutæk gögn, sem tilheyrðu þeim persónu­lega og komu starfsemi varnaraðila í málinu ekki við, geti það engu breytt um rétt sóknaraðila vegna tiltek­innar rannsóknar að taka afrit af öllum gögnum í tölvubúnaði varnaraðila. Með því að varðveita persónuleg gögn í búnaði á skrifstofu varnaraðila beri starfsmenn varnar­aðila óhjákvæmilega áhættu af því að þau komist í hendur annarra vegna lögmætra að­gerða handhafa opinbers valds í garð varnaraðila í stað þess að geyma slík gögn á heimili sínu eða á öðrum stað sem friðhelgi þeirra sjálfra samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar taki til. Af dómunum verður því ráðið að með aðgerðunum, sem hér um ræðir, hafi ekki verið brotið gegn þessu ákvæði stjórnar­­skrárinnar. Samkvæmt dómunum var enn fremur talið heimilt að afrita gögn á tölvutæku formi án þess að þá hefði farið fram nánari athugun á því hver þeirra skiptu máli fyrir rannsóknina sem þar var um að ræða.

         Tilgangur varnaraðila með því að afrita gögnin, sem hér um ræðir, var meðal annars sá að kanna hver þeirra vörðuðu rekstur sóknaraðila, X ehf., og hafa þýðingu fyrir rannsókn varnaraðila á bókhaldi og skattskilum félagsins. Af hálfu varnar­aðila hefur komið fram að um leið og í ljós komi að tilteknar tölvu­póst­sendingar varði annað en reksturinn verði þær ekki kannaðar nánar. Sóknaraðila Y verði gefinn kostur á að vera viðstödd um­rædda könnun og geti hún þá væntanlega upplýst hvenær um einkamálefni er að ræða eða annað er ekki tengdist rekstri félagsins. Starfsmenn varnaraðila eru bundnir þagnarskyldu um einkamálefni manna samkvæmt 230. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með öllu þessu verður að telja að hagsmunir sóknaraðila verði nægilega tryggðir við könnun varnaraðila á gögnum, er varða rekstur sóknaraðila, X ehf., sem varnar­aðili hefur samkvæmt framan­­greindu heimild til að kanna.

         Samkvæmt 4. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, 5. mgr. 38. gr. laga nr. 50/1988 og 4. mgr. 25. gr. laga nr. 45/1987 er varnaraðila heimilt að krefjast úr­skurðar héraðs­dómara þegar ágreiningur verður um skyldu skattaðila til að láta í té upplýsingar eða leggja fram gögn. Þar er um að ræða sérstakt úrræði honum til handa til að knýja skattaðila til að verða við skyldu um að veita upplýsingar eða aðgang að gögnum. Um úrræði sóknaraðila til að fá úrlausn dómsins eiga við ákvæði 7. gr. 103. gr. laga nr. 90/2003 og 75. og 79. gr. laga nr. 19/1991. Verður ekki fallist á að aðgerðir varnar­aðila hafi verið óheimilar vegna þess að hann aflaði ekki úrskurðar dómara um þær, enda var fyrir þeim lagaheimild eins og staðfest hefur verið samkvæmt framan­greindu.

         Með vísan til þessa ber að telja hinar umdeildu eftirlitsaðgerðir varnaraðila lögmætar. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert skylt að afhenda umrædd afrit svo sem krafist er.

         Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

         Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

         Kröfu sóknaraðila, X ehf. og Y, er hafnað.

         Málskostnaður fellur niður.