Print

Mál nr. 499/1999

Lykilorð
  • Kærumál
  • Vitni
  • Skýrslugjöf
  • Börn
  • Stjórnarskrá

           

Fimmtudaginn 13. janúar 2000.

Nr. 499/1999.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Örn Clausen hrl.)

                                              

Kærumál. Vitni. Skýrslugjöf. Börn. Stjórnarskrá.

Talið var nægilega fram komið að það gæti orðið Y og Z, þolendum kynferðisbrota, sem X sætti ákæru fyrir, sérstaklega íþyngjandi að fleiri væru viðstaddir skýrslutöku af þeim fyrir dómi en brýna nauðsyn bæri til. Sömuleiðis var talið, að návist fleiri manna gæti hindrað að Y og Z skýrðu til fulls frá þeim atvikum, sem málið varðaði. Var fallist á kröfu Y og Z um að skipaður verjandi X og ákærandi yrðu ekki viðstaddir skýrslutökuna, sbr. 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en það ákvæði þótti ekki andstætt 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 44/1944 eða 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Einnig var fallist á kröfu Y og Z um að skýrslutakan færi fram í sérútbúnu húsnæði, ef þess væri nokkur kostur, eins og nánar greindi í 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrlutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára. Þar sem engra gagna naut í málinu um það hvort aðstæður á reglulegum þingstað Héraðsdóms Reykjavíkur eða í svokölluðu Barnahúsi væru í samræmi við reglugerðina voru ekki talin efni til að hnekkja þeirri ákvörðun héraðsdómara að hafna því að dómþing til að taka skýrslunar yrði háð utan reglulegs þingstaðar. Að virtum gögnum málsins þótti eindregið verða ráðið, að aðstoð sérfróðs kunnáttumanns væri nauðsynleg svo að framburður Y og Z yrði eins glöggur og ótvíræður og kostur væri, en slík aðstoð væri sömuleiðis til þess fallin að skýrslutakan yrði þeim síður íþyngjandi. Var fallist á kröfu Y og Z um að kvaddur yrði til kunnáttumaður með sérþekkingu á sálarfræði. Á það var fallist, að dómsformanni væri rétt að ákveða að meðdómendur yrðu ekki viðstaddir skýrslutökuna, en krafa Y og Z þess efnis að dómsformaður yrði ekki viðstaddur skýrslutökuna þótti ekki hafa lagastoð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Skipaður réttargæslumaður Y og Z skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 1999, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 1999, þar sem synjað var kröfu kærenda um að ákærandi og verjandi verði ekki viðstaddir í dómsal meðan þær gefa skýrslu. Þá var einnig synjað kröfum þeirra um að skýrslurnar verði teknar í Barnahúsi og að sérhæfður kunnáttumaður Barnahúss verði kvaddur til aðstoðar og látinn vera einn með kærendum þegar þær gefa skýrslu. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kærendur krefjast þess aðallega, að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að verða við kröfum þeirra um tilhögun skýrslutökunnar. Til vara er þess krafist, að ákærandi og verjandi séu ekki í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð, að skýrslutakan fari fram í sérútbúnu yfirheyrsluherbergi í Héraðsdómi Reykjavíkur og að kunnáttumaður verði kvaddur til við skýrslu Z. Í báðum tilvikum er þess krafist að lagt verði fyrir héraðsdóm að haga yfirheyrslunni þannig að aðrir verði ekki inni í sjálfu yfirheyrsluherberginu en viðkomandi vitni og tiltekinn sálfræðingur, […] og að dómendur verði í beinu sambandi við sálfræðinginn í gegnum hljóðnema og þess verði gætt að sakflytjendur og réttargæslumaður geti fylgst með skýrslutökunni um leið og hún fer fram og komið spurningum á framfæri við kærendur, ef þeir óska.

Sóknaraðili telur að frekari skýrslutaka af kærendum sé óþörf, en verði stúlkurnar kvaddar til vitnisburðar við aðalmeðferð málsins sé rétt að skýrslutakan fari fram samkvæmt þeim meginreglum, sem gilda um skýrslutöku af vitnum við aðalmeðferð mála.

Varnaraðili hefur ekki látið kærumálið til sín taka. 

I.

Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð bréf Rögnu Bjargar Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa 21. og 22. desember 1999 um hæfni kærenda til skýrslugjafar. Í fyrra bréfinu kemur meðal annars fram að skerðing kærandans Y […] minnki hæfni hennar til að ráða við nýjar aðstæður þar sem margt fólk er samankomið og hún geti átt von á spurningum úr mörgum áttum. Hún eigi erfitt með að treysta umhverfinu og samferðamönnum sínum og hafi allar nýjar aðstæður, sem hún þurfi að takast á við, í för með sér aukinn kvíða og öryggisleysi. Það hafi tekið Y nær eitt ár í vernduðu umhverfi viðtalsmeðferðar að treysta sér til að segja frá sumu því, sem hún þurfi að bera vitni um. Þá hafi einkenni áfallastreitu verið viðvarandi hjá Y síðan atburðir þeir gerðust, sem ákæran lýtur að, og eigi hún erfitt með að losna undan sterkum endurupplifunum og minningum um þá. Í síðara bréfinu kemur meðal annars fram, að kærandinn Z hafi átt í erfiðleikum við að tjá sig um ætlaða atburði í viðtölum og við skýrslutökur fyrir lögreglu. Hún sé í mikilli vörn og láti ákveðið í ljós að hún vilji ekki tala um atburðina. […].

 

II.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdóms krefjast kærendur þess í fyrsta lagi, að ákærandi og skipaður verjandi ákærða verði ekki viðstaddir skýrslutöku af þeim. Með þessu sé nánar tiltekið óskað eftir því að sérstök yfirheyrsluaðstaða verði nýtt við þessar skýrslutökur þannig að sem fæstir verði í sama herbergi og þær fara fram í og þær verði kærendum þar með síst til íþyngingar. Vegna hinna sérstöku aðstæðna kærenda sé óskað eftir að hin sérútbúna yfirheyrsluaðstaða í svokölluðu Barnahúsi verði nýtt.

Samkvæmt 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 18. gr. laga nr. 36/1999, eiga ákærandi, ákærði og verjandi hans ekki rétt á að vera viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð, ef dómari telur að nærvera þeirra geti orðið brotaþola sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð hans. Ekki verður á það fallist, að ákvæðið sé andstætt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, eða 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, enda mælir það fortakslaust fyrir um, að dómari skuli sjá til þess að málsaðilar geti fylgst með skýrslutöku um leið og hún fer fram og sé honum rétt að leggja fyrir brotaþola þær spurningar, sem þeir óska.

Að virtum gögnum málsins, þar á meðal myndbandsupptökum af skýrslum kærenda fyrir lögreglu, þykir nægilega fram komið, að það geti verið kærendum sérstaklega íþyngjandi að fleiri séu viðstaddir skýrslutöku af þeim en brýna nauðsyn ber til. Sömuleiðis verður talið, að návist fleiri manna geti hindrað að kærendur skýri til fulls frá þeim atvikum, sem málið varðar. Verður fallist á kröfu kærenda um að skipaður verjandi og ákærandi verði ekki viðstaddir í dómsal eða annars staðar þar sem dómþing er háð þegar þær gefa skýrslu.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 19/1991 skulu dómþing haldin á reglulegum þingstöðum og í dómsölum, ef kostur er. Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 321/1999 um tilhögun skýrslutöku fyrir dómi af brotaþola yngri en 18 ára, sem sett var með heimild í 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, skal skýrslutaka hins vegar að jafnaði fara fram annars staðar en í dómsal þegar um er að ræða brot á XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, nema brot sé smávægilegt og dómari telji hagsmunum barnsins borgið þótt skýrslutaka fari fram með venjulegum hætti. Þegar skýrslur eru teknar annars staðar en í dómsal skal það gert í sérútbúnu húsnæði ef þess er nokkur kostur, eins og nánar greinir í 5. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins eru báðir kærendur undir 18 ára aldri. Í ákæru eru ætluð brot ákærða gegn þeim talin varða við 1. mgr. 202. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga. Málsgögn gefa ekki tilefni til að ætla, að brotin séu smávægileg eða atvik þess eðlis að hagsmunum kærenda sé borgið ef skýrslutakan fer fram á venjulegan hátt. Verður fallist á kröfu kærenda um að skýrslutakan fari fram í sérútbúnu húsnæði samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999 ef það er unnt.

Það leiðir af 1. mgr. 7. gr. laga nr. 19/1991, að dómþing skal halda á reglulegum þingstað ef þess er kostur. Í málinu nýtur engra gagna um hvort aðstæður á reglulegum þingstað Héraðsdóms Reykjavíkur í dómhúsinu við Lækjartorg séu í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999. Þá nýtur engra viðhlítandi gagna um svokallað Barnahús eða aðstæður þar með hliðsjón af framangreindum ákvæðum reglugerðarinnar. Eru af þessum sökum ekki efni til að hnekkja þeirri ákvörðun héraðsdómara að hafna því að dómþing til að taka umræddar skýrslur verði háð utan reglulegs þingstaðar.

III.

Kærendur krefjast þess ennfremur að héraðsdómur kveðji til kunnáttumann til aðstoðar við skýrslutökuna. Þess er sérstaklega óskað, að kvaddur verði til nánar tiltekinn sálfræðingur, sem beina muni spurningum til kærenda, og verði hann einn með brotaþola í því herbergi, þar sem skýrslutakan fer fram.

Samkvæmt áðurnefndri 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari kvatt til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku þegar skýrsla er tekin af brotaþola yngri en 18 ára, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 321/1999. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar hennar getur dómari falið kunnáttumanninum að spyrja brotaþola beint og jafnframt lagt fyrir hann að spyrja hann tiltekinna spurninga.

Af framangreindu áliti Rögnu Bjargar Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa og öðrum gögnum málsins um andlegt ástand kærenda verður eindregið ráðið að aðstoð sérfróðs kunnáttumanns sé nauðsynleg svo að framburður þeirra fyrir dómi verði eins glöggur og ótvíræður og kostur er. Þá er aðstoð kunnáttumanns sömuleiðis til þess fallin að skýrslutakan verði þeim síður íþyngjandi. Með vísan til 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 321/1999, verður því fallist á kröfu kærenda um að kvaddur verði til kunnáttumaður með sérþekkingu á sálarfræði.

Dómara er rétt að gefa málsaðilum færi á að benda á ákveðna menn til dómkvaðningar, en er ekki bundinn af tilnefningu þeirra, sbr. meginreglu 1. mgr. 64. gr. laga nr. 19/1991. Í ljósi þess verður ekki fallist á þann hluta kröfu kærenda um að tiltekinn sálfræðingur verði kvaddur til aðstoðar dóminum.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. margnefndrar reglugerðar skal dómari stýra skýrslutöku og skal hún fara fram á eins varfærinn hátt og unnt er, þó með það að leiðarljósi að fá brotaþola til að skýra satt og rétt frá og draga ekkert undan, sem máli skiptir. Verður á það fallist með kærendum, að héraðsdómara sé rétt að haga skýrslutöku á þá leið að ekki séu viðstaddir aðrir en nauðsynlegt er, svo hún geti farið fram. Samkvæmt þessu er dómsformanni rétt að ákveða að meðdómsmenn séu ekki viðstaddir skýrslutöku, enda geti þeir fylgst með henni jafnóðum og hún fer fram og komið spurningum áleiðis til dómsformanns. Krafa kærenda þess efnis að dómsformaður verði ekki viðstaddur skýrslutöku af kærendum hefur hins vegar ekki lagastoð.

Það athugast að nokkuð skortir á að kröfugerð kærenda hafi verið nægilega skýr í héraði og hefur aðeins að hluta verið bætt úr þessum annmörkum fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Lagt er fyrir héraðsdóm að ákærandi og skipaður verjandi ákærða verði ekki viðstaddir skýrslutöku af kærendum, enda geti þeir fylgst með henni um leið og hún fer fram og verði þær spurningar, sem þeir óska, lagðar fyrir kærendur.

Lagt er fyrir héraðsdóm að skýrslutaka af kærendum fari fram í sérútbúnu húsnæði samkvæmt 5. gr. reglugerðar nr. 321/1999, ef þess er kostur.

Lagt er fyrir héraðsdóm að kveðja til sálfræðing til aðstoðar við skýrslutöku af kærendum.

Hafnað er kröfu kærenda um að skýrslur verði teknar utan reglulegs þingstaðar.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 1999.

                Ár 1999, mánudaginn 20. desember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem háð í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni héraðsdómara, dómsformanni í sakamálinu nr. 2321/1999: Ákæruvaldið gegn X, kveðinn upp úrskurður þessi.

                Ákærði í máli þessu er saksóttur fyrir kynferðisbrot gagnvart sex stúlkum með ákæru dagsettri 24. september sl.  Hefur Sif Konráðsdóttir hdl., réttargæslumaður tveggja brotaþola í málinu, 15 og 16 ára stúlkna […], krafist þess að dómurinn færi sér í nyt heimild í 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19,1991, sbr. 18. gr. laga nr. 36,1999, þannig að ákærandi og verjandi ákærða verði ekki viðstaddir í dómsal meðan á skýrslutöku stendur.  Með þessu sé nánar tiltekið óskað eftir því að sérstök yfirheyrsluaðstaða verði nýtt við þessar skýrslutökur þannig að sem fæstir verði í sama herbergi og þær fara fram í, og að þær verði stúlkunum þar með síst til íþyngingar.  Vegna hinna sérstöku aðstæðna brotaþolanna sé óskað eftir að hin sérútbúna yfirheyrsluaðstaða í Barnahúsi, sem til sé vísað og þær þegar þekkja, verði nýtt.

                Í öðru lagi er sú krafa gerð að dómurinn færi sér í nyt heimild ofangreindra lagaákvæða og kveðji til aðstoðar kunnáttumann við yfirheyrslu stúlknanna fyrir dómi.  Þegar skýrslur voru teknar af þeim hjá lögreglu hafi Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur, forstöðumaður Barnahúss, annast skýrslutökurnar.  Krafa þessi sé sett fram í því skyni að skýrslutökurnar fyrir dómi verði stúlkunum minna íþyngjandi en ella og sé þess óskað að Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur, verði til aðstoðar við skýrslutökur fyrir dómi af stúlkunum.  Nánar tiltekið skuli kunnáttumaðurinn eiga samskipti við stúlkurnar og spurningum verði komið til þeirra gegnum kunnáttumanninn eða með öðrum þeim hætti er dómurinn telur hlýða.  Þess sé krafist að hinn sérhæfði kunnáttumaður verði einn inni í herberginu með viðkomandi brotaþola […]

                Í 3. og 4. mgr. 129. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála kemur fram sú meginregla að sækjandi og verjandi séu að minnsta kosti viðstaddir aðalmeðferð máls.  Verður að telja að lagaákvæði þessi geymi lágmarksreglu um réttláta meðferð dómsmáls sem tryggð er í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1944, sbr. 8. gr. laga nr. 97, 1995 og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62, 1994.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 19,1991 skulu dómþing haldin á reglulegum þingstöðum og í dómsölum ef kostur er.  Rétt sé þó að heyja dómþing á öðrum stöðum ef þörf sé á, svo sem í fangahúsi þar sem sakborningi er haldið eða á heimili eða sjúkrahúsi ef skýrslu þarf að taka af sjúkum manni.  Grein þessi verður ekki skilin á annan veg en þann að þetta sé á valdi og undir mati dómara komið.  Verður auk þess að telja að meginregla ákvæðisins styðjist við grundvallarreglur réttarfars, sem fram koma í fyrrnefndum greinum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans, en þar segir að öllum beri réttur til þess að fá úrlausn mála sinna fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.  Getur Barnahús ekki talist vera það hlutlausa umhverfi sem húsnæði dómstóls er.

Enda þótt dómara sé heimilt samkvæmt 7. mgr. 59. gr. laga nr. 19, 1991, sbr. 18. gr. laga nr. 36, 1999 að kveðja kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku er það algerlega á valdi og undir mati dómarans komið hvort hann nýtir sér þá heimild.  Þá er við það að bæta sem að framan er rakið um lágmarkskröfur réttarfarsins að í viðveru sakflytjendanna hlýtur það að felast að þeir geti spurt eða látið dómara spyrja vitni, telji þeir ástæðu til þess.  Að því er varðar þá ósk réttargæslumannsins að tiltekinn starfsmaður Barnahúss verði hafður til aðstoðar er þess að geta hún er starfsmaður barnaverndaryfirvalda og hefur áður haft afskipti af málinu sem slíkur.  Verður að telja að það sé andstætt fyrrgreindri meginreglu stjórnarskrár og mannréttindasáttmála um réttláta málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli að hún komi nærri meðferð málsins fyrir dómi.

Með vísan til alls þess sem að framan segir synjar dómurinn kröfu réttargæslumannsins, Sifjar Konráðsdóttur hdl., um það að ákærandi og verjandi verði ekki viðstaddir í dómsal meðan skjólstæðingar hennar gefa skýrslu.  Þá er ennfremur synjað því sem felst í kröfu réttargæslumannsins að dómararnir séu ekki viðstaddir dómsyfirheyrsluna.  Loks er synjað kröfu réttargæslumannsins að skýrslur verði teknar af skjólstæðingum hennar í Barnahúsi og að sérhæfður kunnáttumaður Barnahúss verði kvaddur til aðstoðar.

Úrskurðarorð:

Synjað er kröfu réttargæslumannsins, Sifjar Konráðsdóttur hdl., um það að ákærandi og verjandi verði ekki viðstaddir í dómsal meðan skjólstæðingar hennar gefa skýrslu.

Synjað er kröfu réttargæslumannsins um það að skýrslur verði teknar af skjól­stæðingum hennar í Barnahúsi og um það að sérhæfður kunnáttumaður Barnahúss verði kvaddur til aðstoðar og látinn vera einn með skjólstæðingum réttargæslu­mannsins þegar þær gefa skýrslu.