Print

Mál nr. 460/2004

Lykilorð
  • Kærumál
  • Vitni
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu

Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. nóvember 2004.

Nr. 460/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Vitni. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu.

Gerð var krafa um að X viki úr þinghaldi á meðan tiltekin þrjú vitni gæfu skýrslu fyrir dómi með vísan til 6. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991. Þótti skilyrðum ákvæðisins ekki vera fullnægt þar sem ekki hefði verið sýnt nægilega fram á raunverulega ógn við öryggi vitnanna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness, sem tekin var 17. nóvember 2004 í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila, um að þeim síðarnefnda beri að víkja af dómþingi á meðan skýrslur verða teknar af tilteknum þremur vitnum og að þau skuli að auki njóta þeirrar verndar sem 8. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, sbr. b. lið 2. gr. laga nr. 86/2004, mælir fyrir um. Kæruheimild er í d. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdóms um að varnaraðila verði gert að víkja af dómþingi á meðan tiltekin þrjú vitni gefi skýrslur í málinu verði felld úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun héraðsdóms verði staðfest.

I.

Varnaraðili er í máli þessu ákærður fyrir tilraun til manndráps og sjö líkamsárásir auk annarra brota á tímabilinu 30. október 2003 til 31. ágúst 2004. Þar á meðal er hann sakaður um að hafa aðfaranótt 31. ágúst 2004 ráðist með öxi á tvo nafngreinda menn sem staddir voru á veitingastað í Hafnarfirði. Vitni eru sögð hafa verið að þessari ætluðu árás, meðal annars þau þrjú sem mál þetta varðar. Að lokinni lögreglurannsókn höfðaði ríkissaksóknari mál á hendur varnaraðila með ákæru 12. október 2004, þar sem honum er gefin að sök tilraun til manndráps og sérstaklega hættuleg líkamsárás og hafa með því brotið gegn 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Í þinghaldi 21. október 2004, þar sem ákæruefnið var borið undir varnaraðila, neitaði hann sök. Var málinu frestað til aðalmeðferðar 9. nóvember 2004. Aðalmeðferð hófst þann dag og var síðan fram haldið 15. og 16. sama mánaðar.

Í bréfi 13. nóvember 2004, sem afhent var héraðsdómara sem trúnaðarmál í þinghaldi tveimur dögum síðar, krafðist ríkissaksóknari fyrir hönd sjö nafngreindra vitna, sem höfðu verið auðkennd í lögreglugögnum með tilteknum bókstöfum, að varnaraðili yrði látinn víkja af dómþingi á meðan þau gæfu skýrslu við aðalmeðferð málsins. Var krafan reist á 6. og 8. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 2. gr. laga nr. 86/2004. Umrædd krafa ríkissaksóknara var borin undir ákærða, sem mótmælti henni að því er varðaði veru hans í dómsal en gerði að öðru leyti ekki athugasemdir við að nafnleyndar yrði gætt varðandi vitnin. Í þinghaldi 16. sama mánaðar upplýsti sóknaraðili að fjögur vitnanna hefðu fallið frá kröfu sinni um vitnavernd. Með hinni kærðu ákvörðun tók héraðsdómari kröfu ríkissaksóknara til greina varðandi þau þrjú vitni sem eftir stóðu.

II.

Fyrir Hæstarétti reisir sóknaraðili kröfu sína um staðfestingu ákvörðunar héraðsdóms á því að nafnleyndin ein og sér sé umræddum vitnum ekki fullnægjandi vernd. Sé brottvísun varnaraðila úr dómsal nauðsynleg þar sem allar líkur séu á að hann beri kennsl á vitnin. Tekur sóknaraðili fram að ástæða kröfunnar sé sú að við upphaf lögreglurannsóknar hafi komið í ljós að mörg þeirra vitna sem boðuð voru til skýrslutöku hjá lögreglu hefðu færst undan því að gefa skýrslur vegna ótta um hefndaraðgerðir af hálfu varnaraðila. Hefðu þessi vitni notið nafnleyndar þegar skýrslur voru teknar af þeim fyrir lögreglu. Í skýrslum þessum sé varnaraðila lýst sem stórhættulegum manni sem sé til alls líklegur og kemur fram að vitnin óttist um líf sitt.

Varnaraðili telur að ekki séu uppfyllt skilyrði 6. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, til að honum verði gert að víkja úr þinghaldi á meðan skýrslur eru teknar af vitnunum. Bendir varnaraðili á að dómari geti ekki lagt huglægt mat vitna til grundvallar ákvörðunar, heldur verði hún að byggja á hlutlægum forsendum um að fyrir hendi sé raunveruleg alvarleg ógn við öryggi. Þá gerir hann athugasemdir við að héraðsdómarinn hafi byggt á sakavottorði hans og ætluðum líkamsárásum sem eru til meðferðar í málinu. Eigi sakborningur að vera talinn saklaus þar til sekt hans hafi verið sönnuð, en grundvallarréttur sakbornings sé réttlát málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól.

III.

Samkvæmt 6. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari orðið við kröfu í opinberu máli um að ákærði verði látinn víkja úr þinghaldi á meðan vitni gefur skýrslu fyrir dómi ef dómarinn telur nærveru ákærða geta orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar eða haft áhrif á framburð þess. Það sama á við ef ætla má að öryggi vitnis geti stafað alvarleg ógn af því að sakborningur komist með nærveru sinni í þinghaldi að raun um persónuauðkenni þess, enda sé þá um leið gætt leyndar um nafn þess, sbr. 8. mgr. sömu greinar. Við skýringu þessa ákvæðis verður að taka tillit til þess að ákærður maður nýtur þess grundvallarréttar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, að mál hans hljóti réttláta meðferð fyrir dómi. Í því felst meðal annars að honum verður að meginreglu að gefast kostur á að vera staddur við þinghöld í máli sínu, þar á meðal til að hlýða á og taka afstöðu til sönnunarfærslu, láta leggja spurningar fyrir þá sem gefa skýrslu fyrir dómi og taka þannig þátt í málsvörn sinni. Verður í þessum efnum einnig að líta til ákvæða 1. mgr. og d. liðar 3. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Ljóst er að fyrir dómi verður eftir því leitað að vitnin, sem eiga hér hlut að máli, lýsi í skýrslum sínum í einstökum atriðum þeim ætluðu atvikum, sem þau kveðast hafa orðið vitni að. Frásögn um slík atvik getur verið vitni til óþæginda ef skýrslan er gefin að viðstöddum þeim sem sökum er borinn og jafnvel valdið ótta vitnis vegna hættu sem það telur sér stafa af honum í ljósi þeirra atvika sem vitnið ber um. Skilyrði ákvæðis 6. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 er að nærvera sakbornings geti orðið vitni sérstaklega til íþyngingar eða geti haft áhrif á framburð þess eða að ætla megi að öryggi þess geti stafað alvarleg ógn af því að sakborningur komist með nærveru sinni í þinghaldi að raun um persónuauðkenni þess. Hefur í máli þessu ekki verið sýnt nægilega fram á raunverulega ógn við öryggi vitnanna og telst því þessum skilyrðum ekki fullnægt.

Að gættu því, sem að framan greinir, verður ekki fallist á að atvik séu hér með þeim sérstaka hætti að beita megi undantekningarheimild 6. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991, sbr. a. lið 2. gr. laga nr. 86/2004 til að víkja varnaraðila úr þinghaldi á meðan umræddar vitnaskýrslur verða gefnar. Verður því að fella þennan hluta hinnar kærðu ákvörðunar úr gildi.

Dómsorð:

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi af því er varðar þá kröfu sóknaraðila að varnaraðili skuli víkja úr þinghaldi meðan á skýrslutöku vitnanna A, D og G stendur.

 

Ákvörðun Héraðsdóms Reykjaness 17. nóvember 2004.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kynnir eftirfarandi ákvörðun sína.

Saksóknari kom því á framfæri við dóminn með bréfi dagsettu 13. þ.m. og dómari hefur farið með sem trúnaðarmál að sjö nafngreind vitni í málinu óski þess að ákærða verð gert að víkja úr dómsal meðan þau gefa skýrslu fyrir dóminum. Eru vitni þessi auðkennd með bókstöfum í lögreglugögnum sem dómari hefur undir höndum sem trúnaðarmál. Er krafa þessi rökstudd með vísan til 6. og 8. mgr. 59. laga nr. 19/1991 sbr. 2. gr. laga nr. 86/2004. Í þinghaldi þann 16. þ.m. upplýsti saksóknari að við nánari eftirgrennslan væru það einungis þrjú þessara vitna sem óskuðu vitnaverndar vildu fylgja þeirri kröfu eftir. Þannig að eftir stendur krafa saksóknara um að vitni sem í áðurgreindu bréfi koma fram undir bókstöfunum A, D og G njóti þeirrar verndar sem tilvitnuð ákvæði mæla fyrir um þannig að auk þess að nafnleyndar sé gætt þá sé tryggt að við skýrslutöku komist sakborningur ekki með nærveru sinni að raun um persónuauðkenni þeirra.

Forsendna vitnanna A og D fyrir kröfu þessari verður ekki leitað annars staðar en í skýrslum sem þau hafa gefið hjá lögreglu þar sem þau láta í ljós að þau óttist sakborning sem þau lýsa sem stórhættulegum manni sem þau telja sig vita að hafi haft í hótunum við fólk. Vitnið G hefur komið því á framfæri við saksóknara að það óttist um líf sitt af sama tilefni.

Telur dómari að ekki verði dregið í efa að vitnum þessum stafi ógn af því að sakborningur komist að því með nærveru sinni hver þau eru og að þau telji brýna öryggishagsmuni sína vera í húfi.

Vitni þessi hafa ekki komið fram undir nafni við rannsókn málsins. Við ákvörðun sína hefur dómari til hliðsjónar að sakborningur hefur samkvæmt fyrirliggjandi sakarvottorði tvívegis gerst brotlegur við 2. mgr. og einu sinni við 1. mgr. 218. gr almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá verði ekki horft fram hjá því að í ákærum sem varða mál það sem nú er til meðferðar fyrir dóminum er ákærði sakaður um átta líkamsárásir.

Þrátt fyrir þá meginreglu að sakborningur sé viðstaddur sönnunarfærslu fyrir dómi telur dómari að ákvörðun um að verða við ósk vitnanna stangist ekki á við meginreglu mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð, enda mun þess verða gætt að sakborningi gefist kostur á að hlýða á framburð vitnanna í hátalarakerfi í húsakynnum dómsins utan dómsalarins og geti í samráði við verjanda sinn, gefist tilefni til, nýtt sér rétt sinn til þess að láta spyrja vitni sem honum er tryggður í d-lið 3. mgr. 6. gr. sama sáttmála.

Það segir sig sjálft að ákæruvaldið hefur með kröfu sinni tekið undir óskir vitnanna og með því tekið á sig að sæta því að sönnunargildi skýrslna þeirra kynni af þessum sökum ekki að vega jafn þungt og væru þær gefnar að sakborningi viðstöddum.

Með vísan til þess sem að ofan greinir tekur dómari þá ákvörðun að verða við þeirri kröfu saksóknara að ákærði skuli víkja úr dómsal á meðan skýrslur verða teknar af vitnunum A, D og G og að þau skuli að auki njóta þeirrar verndar sem 8. mgr. 59. gr. laga nr. 19/1991 sbr. b-lið 2. gr. laga nr. 86/2004 mælir fyrir um.