Print

Mál nr. 211/1999

Lykilorð
  • Fangelsi
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. desember 1999.

Nr. 211/1999.

 

Magnús R. Jónsson

(Othar Örn Petersen hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Fangelsi. Skaðabætur. Sératkvæði.

Með dómi héraðsdóms 24. nóvember 1995 var M, stjórnarformaður og framkvæmdarstjóri hlutafélagsins G, dæmdur til þess að sæta tveggja ára fangelsi fyrir brot gegn 2. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987, en fullnustu 21 mánaðar af fangelsisvistinni frestað skilorðsbundið í tvö ár. Taldi dómurinn sannað að M hefði með fulltingi erlends seljanda framvísað við tollayfirvöld reikningum, sem aðeins sýndu hluta þess verðs sem G hafði raunverulega greitt fyrir sendingar af frystum forsteiktum kartöflum og skotið þannig undan aðflutningsgjöldum. M ákvað að una þessum dómi og tók út hinn óskilorðsbundna hluta refsingarinnar. Með dómi Hæstaréttar 19. desember1996 var felldur úr gildi úrskurður ríkistollanefndar um endurákvörðun á aðflutningsgjöldum vegna innflutnings hlutafélagsins S á frystum forsteiktum kartöflum, þar sem talið var að álagning gjaldsins hefði verið ólögmæt. Í framhaldi af þessum dómi Hæstaréttar óskaði M endurupptöku máls síns og vísaði til þess, að með dóminum hefði verið dæmd ólögmæt álagning sams konar jöfnunargjalds og hann hefði meðal annars verið sakfelldur fyrir að koma G undan að greiða. Fallist var á beiðni M um endurupptöku málsins og var M sýknaður með dómi Hæstaréttar 12. mars 1998, þar sem talið var að eins og ríkissaksóknari hefði gert málið úr garði við áfrýjun þess, lægju engan veginn fyrir viðhlítandi sönnur fyrir sök M, en ríkissaksóknari hafði aðeins að óverulegu leyti lagt fram þau gögn fyrir Hæstarétti sem héraðsdómur taldi sanna sök ákærða. M höfðaði mál gegn Í til greiðslu miskabóta samkvæmt XXI. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og byggði kröfu sína á því, að hann hefði saklaus hlotið refsidóm og verið látinn sæta ólögmætri frelsisskerðingu, sem rót sína ætti að rekja til löglausra reglugerða landbúnaðarráðherra. Talið var, að ótvírætt væri, að jöfnunargjaldið, sem Hæstiréttur hafði dæmt ólögmætt, hefði vegið langþyngst og mestu máli skipt við refsiákvörðun héraðsdóms. Þegar litið var til gagna málsins og tveggja dóma Hæstaréttar, sem fjölluðu um  undanskot á sama gjaldi, þótti mega ætla, að M hefði eingöngu hlotið sekt ef dæmt hefði verið á grundvelli allra gagna málsins í Hæstarétti 12. mars 1998. Að þessu virtu þótti M hafa ófyrirsynju orðið að þola refsivist þá, er hann var dæmdur til með dómi héraðsdóms. Voru M því dæmdar miskabætur samkvæmt 177. gr. laga nr. 19/1991, en háttsemi hans varðandi aðflutningsgjöld og skýrslugerð til yfirvalds voru virt til lækkunar bótanna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 1999 og krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða sér 30.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1998 til greiðsludags, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara verulegrar lækkunar á kröfum áfrýjanda og verði málskostnaður á báðum dómstigum þá felldur niður.

I.

Áfrýjandi máls þessa var með ákæru ríkissaksóknara 22. ágúst 1995 saksóttur fyrir tollalagabrot við innflutning á frystum forsteiktum kartöflum hingað til lands frá því í ágúst 1988 til júní 1992 í nafni hlutafélags, sem hann var stjórnarformaður og framkvæmdastjóri fyrir. Var honum gefið að sök að hafa svikið undan aðflutningsgjöld af 92 vörusendingum, samtals 46.176.441 krónu. Hafi hann í þessu skyni framvísað við tollyfirvöld reikningum, sem sýndu aðeins hluta af því, sem var í raun greitt fyrir umrædda vöru, en með fulltingi erlends seljanda þeirra hafi það, sem vantaði upp á rétta tilgreiningu vöruverðs, verið fært yfir á reikninga fyrir annan varning, pappaöskjur, sem báru mun lægri aðflutningsgjöld og félagið keypti af sama seljanda.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 1995 er greint frá gögnum, sem lögð voru þar fram af hálfu ákæruvalds, en þau liggja fyrir í máli þessu. Var sumra þeirra aflað í Hollandi frá aðila þeim, sem áfrýjandi átti viðskipti við, en meðal þeirra eru bréf, sem fóru milli áfrýjanda og umrædds aðila. Koma þar fram greinilegar vísbendingar um að pappaöskjum hafi verið ætlað það hlutverk í sendingum til fyrirtækis áfrýjanda, sem haldið var fram í ákærunni. Voru svör áfrýjanda fyrir dómi varðandi gögn þessi ekki trúverðug.

Í fyrrnefndum dómi héraðsdóms er því lýst að verð á umræddum kartöflum samkvæmt reikningum þeim, sem áfrýjandi framvísaði í ágúst 1988, hafi lækkað um 50% frá því sem verið hafði á reikningi í júní sama ár. Á sama tíma hafi aðflutningsgjöld á þeim hækkað mjög mikið. Þá hafi einnig hafist innflutningur áfrýjanda á pappaöskjum. Taldi dómurinn sannað með hliðsjón af atvikum, framlögðum gögnum og ótrúverðugum framburði áfrýjanda, að raunverulegt verð á kartöflunum hafi verið eins og í ákæru var lýst og hafi áfrýjandi með aðstoð hins erlenda seljanda fært það sem á vantaði á annan varning. Var ákærði talinn sannur að sök um brot gegn 2. mgr 126. gr. tollalaga nr. 55/1987. Atferli hans var talið hafa náð til 75 sendinga og hafi aðflutningsgjöld, sem skotið var undan, numið samtals 33.065.089 krónum. Var áfrýjandi dæmdur í tveggja ára fangelsi, en fullnustu 21 mánaðar af fangelsisvistinni var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Ákvað áfrýjandi að una dómi þessum og tók hann út hinn óskilorðsbundna hluta refsingarinnar, 91 dag, 29. apríl til 28. júlí 1996.

II.

Á árinu 1986 var fyrst lagt á sérstakt jöfnunargjald af innfluttum kartöflum og vörum unnum úr þeim með stoð í lögum nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. lög nr. 25/1986. Var gjald af hinum unnu kartöflum ákveðið 40% í reglugerð nr. 289/1986. Ný reglugerð var sett um þessi efni í maí 1997, nr. 223/1987, en gjald af umræddum vörum hélst óbreytt. Með breytingu á þeirri reglugerð, sem landbúnaðarráðherra gerði hinn 26. febrúar 1988 með reglugerð nr. 109/1988, var gjald af vörum þessum ákveðið 190%. Hélst gjaldið þannig þar til það var lækkað í júní 1989 í 120%.

Með dómi Hæstaréttar 19. desember 1996 í máli þrotabús S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu var felldur úr gildi úrskurður ríkistollanefndar 28. janúar 1994 um endurákvörðun á aðflutningsgjöldum vegna innflutnings þess félags á frystum forsteiktum kartöflum á tímabilinu frá febrúar 1988 til sama mánaðar 1992. Var niðurstaða réttarins reist á því, að álagning sérstaks jöfnunargjalds af þessum vöruflokki, eins og því var breytt með reglugerð nr. 109/1988, fengi ekki ,,samrýmst þeim takmörkunum, sem heimild ráðherra voru settar, og þeim kvöðum um málefnalegan grundvöll skattheimtu og stjórnsýslu, sem gæta varð“.

III.

Áfrýjandi óskaði þess við Hæstarétt 10. júlí 1997 að framangreint mál hans, sem dæmt hafði verið í Héraðsdómi Reykjavíkur 24. nóvember 1995, yrði endurupptekið. Var í beiðninni vísað til þess, að með dómi réttarins 19. desember 1996 hefði verið dæmd ólögmæt álagning sams konar jöfnunargjalds og hann hefði meðal annars verið sakfelldur fyrir að koma hlutafélagi, sem hann var í forsvari fyrir, undan að greiða. Hæstiréttur féllst á beiðni þessa hinn 20. október 1997. Var málinu í framhaldi af því áfrýjað til réttarins samkvæmt ákvæðum 188. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu 12. mars 1998. Kemur þar fram að af hálfu ákæruvalds hafi málinu við áfrýjun ekki verið markaður farvegur að því er tók til tilgangs hennar. Var áfrýjanda því talið heimilt að koma að þeirri málsvörn að ekki hefði verið sannað í málinu að hann hefði brotið gegn 2. mgr. 126. gr. tollalaga með þeim hætti, sem haldið hafi verið fram í ákæru. Fyrir Hæstarétt hafi aðeins að óverulegu leyti verið lögð þau gögn, sem héraðsdómur taldi sanna sök ákærða. Segir í dóminum að eins og ríkissaksóknari hafi gert málið úr garði, liggi þannig engan veginn fyrir viðhlítandi sönnur fyrir sök ákærða. Var hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Sama dag og þessi dómur Hæstaréttar var kveðinn upp var þar dæmt í tveimur öðrum málum, sem höfðu verið endurupptekin af sömu ástæðum og mál áfrýjanda, en það eru mál nr. 462/1994 og nr. 253/1997. Fyrrnefnda málið varðaði aðflutningsgjöld af nokkrum sendingum, sem áttu að nema 11.458.587 krónum, en af þeim hafði gjöldum, sem námu 7.995.593 krónum, verið skotið undan. Af fyrrnefndu fjárhæðinni átti jöfnunargjald að nema 7.378.752 krónum. Mál þetta hafði verið dæmt í Hæstarétti 23. febrúar 1995 og var ákærði þar dæmdur til að sæta 12 mánaða fangelsi, en þar af var fullnustu 11 mánaða fangelsisvistar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Auk þess var hann dæmdur til að greiða 100.000 krónur í sekt. Við endurupptöku málsins lágu fyrir Hæstarétti öll gögn þess. Var ákærði sýknaður af broti gegn 2. mgr. 126. gr. tollalaga eða fyrir tilraun til slíks brots, sbr. 1. mgr. 125. gr. laganna, vegna rangra upplýsinga, sem hann veitti í aðflutningsskýrslum, að því leyti sem þær höfðu áhrif á álagningu jöfnunargjalds við innflutning á umræddum vörum. Hins vegar var hann sakfelldur fyrir brot gegn 126. gr. tollalaga vegna undanskots á tolli og virðisaukaskatti, samtals 2.846.835 krónum. Var ákærði í málinu dæmdur í sekt og taldist hann þegar hafa tekið út þá refsingu.

Í máli nr. 253/1997 var um að ræða undanskot á aðflutningsgjöldum að fjárhæð samtals 13.407.542 krónur. Þar af mun jöfnunargjald hafa numið um 9.500.000 krónum. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 1994 hafði ákærði í því máli verið dæmdur til að sæta fangelsi í 15 mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, svo og til að greiða 400.000 krónur í sekt. Í endurupptökumálinu dæmdi Hæstiréttur á sama veg og í máli nr. 462/1994 og sýknaði af ákæru, að því er tók til jöfnunargjalds, en sakfelldi fyrir undanskot á tolli og virðisaukaskatti, samtals 3.705.091 krónu. Var ákærði nú eingöngu dæmdur til að greiða sekt, en sú refsing hafði þegar verið tekin út.

IV.

Mál þetta er bótamál, sem leysa ber úr eftir ákvæðum XXI. kafla laga nr. 19/1991, eins og þau voru er mál þetta var höfðað og áfrýjandi byggir á. Fyrir liggur að með dómi Hæstaréttar 12. mars 1998 var áfrýjandi sýknaður af ákæru þeirri, er hann hafði áður hlotið dóm fyrir og leiddi til refsivistar hans. Byggir hann kröfur sínar á því, að hann hafi saklaus hlotið refsidóm og verið látinn sæta ólögmætri frelsisskerðingu, sem eigi rót sína að rekja til löglausra reglugerða landbúnaðarráðherra. Eigi hann því rétt til skaðabóta úr hendi stefnda samkvæmt 177. gr. laga nr. 19/1991.

Samkvæmt framangreindu ákvæði á maður, sem hefur saklaus hlotið refsidóm og þolað refsingu, rétt til bóta fyrir fjártjón og miska. Lækka má þó bætur eftir sök hans á því að hann hafi verið ranglega dæmdur. Ákvæði þetta ber að túlka með hliðsjón af skilyrðum þágildandi b-liðar 1. mgr. 175. gr. laganna, sbr. upphafsorð þeirrar greinar.

Í máli þessu hafa sem áður segir verið lögð fram þau gögn, sem lágu fyrir við upphaflega meðferð máls ákæruvaldsins gegn áfrýjanda í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar á meðal gögn þau, sem ekki voru lögð fram í Hæstarétti eftir endurupptöku og áfrýjun þess.

Ekki liggur fyrir í málinu skýr sundurliðun aðflutningsgjalda þeirra, sem áfrýjandi var sakfelldur fyrir að skjóta undan með áðurgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Ótvírætt er hins vegar að jöfnunargjald, sem Hæstiréttur dæmdi ólögmætt hinn 19. desember 1996, vó þar langþyngst og hefur mestu skipt við refsiákvörðun. Þegar litið er til ofangreindra gagna, sbr. kafla I hér að framan, og dóma Hæstaréttar 12. mars 1998 í málum nr. 462/1994 og nr. 253/1997, sem áður var greint frá, þykir mega ætla að áfrýjandi hefði eingöngu hlotið sekt ef dæmt hefði verið á grundvelli allra gagna málsins. Að þessu virtu hefur áfrýjandi ófyrirsynju orðið að þola refsivist þá, er hann var dæmdur til með fyrrgreindum dómi. Á hann því samkvæmt 177. gr. laga nr. 19/1991 rétt til bóta úr hendi stefnda.

Bótakrafa áfrýjanda hefur ekki verið rökstudd þannig að hann hafi orðið fyrir fjártjóni, heldur eingöngu miska. Við ákvörðun bóta ber að líta til þess að frelsisskerðing í 91 dag hefur óhjákvæmilega leitt til verulegrar röskunar á högum áfrýjanda og verið til þess fallin að valda honum álitshnekki, svo sem hann heldur fram. Virða ber hins vegar til lækkunar samkvæmt lokaákvæði 177. gr. laga nr. 19/1991 fyrrgreinda háttsemi hans varðandi aðflutningsgjöld og skýrslugerð til yfirvalds í því sambandi. Að öllu þessu virtu þykja bætur til áfrýjanda hæfilega ákveðnar 2.200.000 krónur. Skal greiða dráttarvexti eins og áfrýjandi krefst og nánar er greint í dómsorði.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Magnúsi R. Jónssyni, 2.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1998 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur samtals í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.           

                                                                           


                                      Sératkvæði

                                                    Hjartar Torfasonar

                                                    hæstaréttardómara

                                                    í hæstaréttarmálinu nr. 211/1999:

                                                    Magnús R. Jónsson

                                                    gegn

                                                    íslenska ríkinu

Sök áfrýjanda í merkingu 177. gr. laga nr. 19/1991 er einkum í því fólgin, að hann tók lög um innflutning til landsins í sínar hendur í stað þess að reyna til þrautar að vinna gegn hinu afbrigðilega jöfnunargjaldi með löglegum aðferðum. Mátti hann vita, að þetta kæmi honum og fyrirtæki hans í koll fyrr eða síðar. Er honum sú ein vorkunn, að keppinautar hans virðast hafa gert slíkt hið sama, en hann hefur ekki sýnt fram á, að hann hafi þar verið síðar á ferð en aðrir, heldur hefur hann neitað þeim sakargiftum um ranga tilgreiningu innflutningsverðs, sem á hann voru bornar. Eigi að síður á hann rétt til skaðabóta samkvæmt ákvæðum greinarinnar, sem einnig er varinn af 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Með hliðsjón af áðursögðu get ég þó ekki fallist á þá bótafjárhæð, sem til er tekin í atkvæði annarra dómenda, heldur tel ég hana hæfilega ákvarðaða 1.400.000 krónur.

 

                                              

                                                                 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí  1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 30. apríl sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 20. ágúst 1998 af Magnúsi R. Jónssyni, Eskiholti 15, Garðabæ, á hendur fjármálaráðherra, Arnarhvoli, Reykjavík, f.h. íslenska ríkisins.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða skaðabætur að fjárhæð 30.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. september 1998 til greiðsludags og málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi gerir aðallega kröfu um sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað samkvæmt mati dómsins.  Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

 

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að Garri hf., sem síðar hét Gnípa hf., flutti inn frosnar forsteiktar kartöflur á árunum 1988 til 1992 en stefnandi var þá framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins.  Stefnandi var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 24. nóvember 1995 dæmdur í tveggja ára fangelsi, en fullnustu 21 mánaða refsivistarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins að telja.  Með dóminum var stefnandi sakfelldur fyrir að hafa framvísað við tollyfirvöld tilteknum vörureikningum, sem sýndu aðeins hluta af því verði, sem raunverulega var greitt fyrir vöruna, í því skyni að svíkja undan verulegan hluta aðflutningsgjalda.  Með þessu var stefnandi talinn hafa brotið gegn 2. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987.  Stefnandi tók út hinn óskilorðsbundna hluta refsingarinnar þann 29. apríl 1996 til 28. júlí sama ár.

Að beiðni stefnanda veitti Hæstiréttur heimild til endurupptöku málsins þann 20. október 1997.  Með dómi Hæstaréttar 12. mars 1998 var stefnandi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu með þeim rökum að gögn, sem talin voru í héraðsdómi sanna sök stefnanda, voru aðeins að óverulegu leyti lögð fyrir Hæstarétt og þóttu þannig engan veginn liggja fyrir viðhlítandi sönnur fyrir sök hans. 

Stefnandi hefur höfðað málið í því skyni að fá dæmdar bætur úr hendi stefnda samkvæmt 177. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Í málinu er deilt um bótaskylduna og fjárhæð bóta.

Málið hefur verið rekið eftir almennum reglum um meðferð einkamála eins og 178. gr. laga um meðferð opinberra mála mælir fyrir um. 

Við munnlegan málflutning var af hálfu stefnda bent á að málið kynni að varða frávísun þar sem ekki væru fyrir hendi skilyrði réttarfarslaga til að bera sakarefnið, sem hér um ræðir, undir héraðsdóm þar sem áður hafi verið fjallað um það af hliðsettum dómstól.  Var í því sambandi einkum vísað til 8. gr. a laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989, sbr. 13. tl. 161. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Sú lagagrein féll úr gildi þegar I. kafli laganna var felldur úr gildi með 35. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sem tóku gildi þann 1. júlí 1998 samkvæmt 34. gr. þeirra laga.  Þykir því ekki ástæða til að fjalla frekar um þetta álitaefni í málinu.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Í málatilbúnaði stefnanda er málsatvikum lýst þannig að hann sé eigandi og framkvæmdastjóri innflutningsfyrirtækisins Garra hf. í Reykjavík sem hafi um árabil flutt inn til landsins frosnar og forsteiktar franskar kartöflur.  Í ágúst 1992 hafi nafni félagsins verið breytt í Gnípu hf. og frá september 1992 hafi nýtt félag, einnig að nafni Garri hf., staðið að innflutningnum.

Með reglugerð nr. 223/1987 hafi verið lagt 40% jöfnunargjald á ýmsa flokka kartaflna samkvæmt heimild í lögum nr. 25/1986 um breytingu á lögum nr. 45/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.  Með reglugerð nr. 109/1988 hafi verið gerð breyting á reglugerðinni þar sem jöfnunargjald á franskar kartöflur hafi verið hækkað í 190%.  Engin grein hafi verið gerð fyrir því af hálfu landbúnaðarráðherra hvernig jöfnun á milli innlendrar og erlendrar framleiðslu hafi farið fram eða hvaða rannsóknir hafi verið gerðar af því tilefni.  Með reglugerð nr. 335/1989 hafi jöfnunargjaldið verið lækkað í 120% af tollverði franskra kartaflna og með reglugerð nr. 468/1993 í 90%.

Á fyrri hluta árs 1992 hafi framangreindur innflutningur fyrirtækis stefnanda sætt rannsókn af hálfu tollyfirvalda. Ágreiningur hafi verið milli stefnanda og tollyfirvalda um viðskiptaverð hinnar innfluttu vöru.  Tollgæslustjóri hafi talið verðið, sem fyrirtæki stefnanda tilgreindi á aðflutningsskýrslum, of lágt en það væri málamyndaverð, ekki raunverulegt viðskiptaverð.

Af hálfu ríkistollstjóra hafi aðflutningsgjöld verið endurákveðin hinn 4. mars 1993 af 92 vörusendingum af frönskum kartöflum, sem Garri hf. flutti inn og voru tollafgreiddar á tímabilinu 3. ágúst 1988 til 16. júní 1992.  Tollverð þeirra hafi verið hækkað frá því sem tilgreint hafi verið í aðflutningsskýrslum félagsins.  Endurákvörðunin hafi farið þannig fram að aðflutningsgjöld hafi verið reiknuð frá grunni á nýtt tollverð hverrar sendingar og áður greidd aðflutningsgjöld dregin frá sem innborgun á hin endurákvörðuðu gjöld.  Heildarupphæð vangreiddra aðflutningsgjalda hafi verið 47.357.007 krónur, þar af virðisaukaskattur 10.052.257 krónur.  Stefnandi hafi kært endurákvörðunina til ríkistollanefndar, sem hafi kveðið upp úrskurð þann 28. maí 1993, þar sem endurákvörðun ríkistollstjóra frá 4. mars 1993 hafi verið staðfest að öðru leyti en því að kröfur vegna álagðra gjalda á vörusendingar fyrir 4. mars 1989 voru taldar fyrndar.  Enn fremur hafi verið gerð sú breyting að lagt skyldi til grundvallar lægra tollverð en ríkistollstjóri hafði lagt til grundvallar.  Engar fjárhæðir hafi verið tilgreindar í niðurstöðum úrskurðarins en í bréfi tollgæslustjóra, dags. 9. júní 1993, til Tollstjórans í Reykjavík komi fram, að aðflutningsgjöld hefðu verið reiknuð út að nýju í samræmi við niðurstöðu ríkistollanefndar.  Heildarupphæð næmi samtals 41.100.948 krónum, þar af tollur 3.453.130 krónur, jöfnunargjald 27.963.218 krónur og virðisaukaskattur 9.691.719 krónur.  Fjárnám hafi verið gert hjá stefnanda 8. nóvember 1993 til tryggingar greiðslu á þessum gjöldum.

Stefnandi og fyrirtæki hans hafi eigi unað úrskurði ríkistollanefndar og hafi krafist ógildingar hans.  Eftir að ógildingarmáli hafi tvívegis verið vísað frá dómi hafi málshöfðun Gnípu hf. leitt til þess að hið umdeilda jöfnunargjald hafi verið lýst ólögmætt og hafi  úrskurður ríkistollanefndar verið felldur úr gildi með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 1997.  Áður hafi Hæstiréttur lýst jöfnunargjaldið ólögmætt í dómi 19. desember 1996 í máli Þrotabús S. Óskarssonar & Co. hf. gegn íslenska ríkinu.

 Þann 22. ágúst 1995 hafi verið gefin út ákæra á hendur stefnanda, þar sem honum hafi verið gefið að sök að hafa brotið gegn 2. mgr. 126. gr. tollalaga með því að hafa svikið undan aðflutningsgjöld af framangreindum 92 sendingum að fjárhæð 46.176.441 króna.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 24. nóvember 1995 hafi stefnandi verið sakfelldur fyrir að hafa svikið undan aðflutningsgjöld að fjárhæð 33.065.089 krónur af samtals 75 vörusendingum og hafi hann verið dæmdur til að sæta fangelsi í tvö ár, en þar af hafi fullnustu 21 mánaða fangelsisvistar verið frestað skilorðsbundið í tvö ár.  Þá hafi stefnandi einnig verið dæmdur til að greiða í ríkissjóð 75.000 krónur í saksóknarlaun, svo og 4/5 hluta alls annars sakarkostnaðar.  Stefnandi hafi ekki áfrýjað þessum refsidómi.  Hann hafi afplánað hinn óskilorðsbundna hluta dómsins á tímabilinu frá 29. apríl 1996 til 28. júlí 1996.

Eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi lýst jöfnunargjaldið ólögmætt í dóminum frá 11. júní 1997, hafi stefnandi farið fram á endurupptöku refsimálsins með bréfi til Hæstaréttar, dagsettu 10. júlí s.á.  Hæstiréttur hafi samþykkt endurupptökuna og hafi ríkissaksóknari skotið málinu til réttarins með stefnu 20. nóvember 1997.  Með dómi Hæstaréttar 12. mars 1998 hafi stefnandi verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu og allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður felldur á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun, samtals að fjárhæð 250.000 krónur.  Hafi sýknudómurinn byggst á því að viðhlítandi sönnur lægju ekki fyrir um sök stefnanda.

Samkvæmt framangreindu hafi stefnandi verið látinn sæta refsidómi og afplánun fangelsisvistar fyrir að hafa svikið undan gjald, sem hafi verið ólögmætt og tollayfirvöldum hafi ekki verið rétt að leggja á fyrirtæki stefnanda.  Þar sem stefnandi hafi verið látinn sæta óréttmætri refsivist og þola framangreindan refsidóm að öðru leyti, krefst hann bóta úr hendi stefnda vegna ólögmætrar frelsisskerðingar.  Lögmaður stefnanda hafi með bréfi, dagsettu 3. júlí 1998, krafið stefnda um bætur af þessu tilefni en því hafi í engu verið sinnt og sé málsóknin því óhjákvæmileg.

Stefnandi styður kröfuna þeim rökum að hann hafi verið dæmdur sýkn af þeim refsikröfum, sem legið hafi til grundvallar refsidómi yfir honum.  Gjald það, sem hann hafi verið dæmdur fyrir að hafa svikið undan, hafi verið dæmt ólögmætt og hafi honum aldrei borið með réttu að inna það af hendi.  Af þessu leiði að stefnandi hafi saklaus hlotið refsidóm og verið látinn sæta ólögmætri frelsisskerðingu, sem rót sína eigi að rekja til ólögmætrar athafnar æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins, sem falist hafi í geðþóttaákvörðun fyrrum landbúnaðarráðherra með setningu reglugerða nr. 109/1988 og 335/1989.  Stefndi beri vegna ríkissjóðs hlutlæga, lögákveðna bótaábyrgð á miska og fjártjóni stefnanda.

Jafnvel þótt talið yrði að stefnandi hefði ekki verið sýknaður með öllu af refsikröfum, ef viðhlítandi sönnunargagna hefði notið við í endurupptöku refsimálsins á hendur honum, sé eftir sem áður ljóst að refsinæmi háttsemi hans væri allt annað, þegar tekið hafi verið tillit til þess að hið álagða jöfnunargjald hafi verið ólögmætt.  Í refsidómi héraðsdóms frá 24. nóvember 1995 hafi sérstaklega verið horft til þess að brot stefnda þættu stórfelld.  Því sé ljóst að refsing hans hefði í öllu falli verið langt undir því, sem honum var dæmd í héraðsdómi.  Í ljósi dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum megi telja fullvíst að einungis hefði verið um sektargreiðslu að ræða, en enga refsivist.  Beri stefnanda því eftir sem áður bætur fyrir að sæta refsidómi að ósekju að svo miklu leyti sem refsingin varð hærri en verið hefði, ef ekki hefði komið til hið ólögmæta jöfnunargjald.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi orðið fyrir nokkru fjártjóni, en gagna um það njóti ekki við.  Dómkrafan væri því krafa um bætur fyrir miska, óþægindi, þjáningar og álitshnekki, auk annars ófjárhagslegs tjóns.  Stefnandi sé þekktur fyrir þátttöku í íslensku atvinnulífi og hafi hann verið virkur í almennri félagastarfsemi.  Refsidómurinn yfir honum hafi verið honum þeim mun meiri álitshnekkir að málið hafi hlotið ítarlega fjölmiðlaumfjöllun, þar sem stefnandi hafi verið nafngreindur.  Stefnanda hafi auk þess verið svipt út úr virkri þátttöku í samfélaginu en tjón hans felist ekki síst í því, burtséð frá tímalengd afplánunarinnar.  Þegar horft væri til þessa væri stefnukröfunni, að fjárhæð 30.000.000 króna, í hóf stillt.

Um skaðabótaábyrgð stefnda er af hálfu stefnanda vísað til 177.-179. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Um dráttarvexti er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og til stuðnings málskostnaðarkröfunni vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 130. gr. laganna.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Í málatilbúnaði stefnda kemur fram að stefnandi krefjist skaðabóta að fjárhæð 30.000.000 króna auk dráttarvaxta frá þingfestingu og málskostnaðar.  Stefnandi lýsi kröfunni þannig að um sé að ræða tjón af völdum ólögmætrar frelsisskerðingar en ekki njóti við gagna um fjártjón.  Felist í dómkröfum stefnanda krafa um miska, óþægindi, þjáningar og álitshnekki, auk annars ófjárhagslegs tjóns.  Stefndi telur að málatilbúnaður stefnanda verið ekki skilinn öðru vísi en svo að engu fjárhagslegu tjóni sé til að dreifa.  Kröfu sína um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón styðji stefnandi við ákvæði 177.–179. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Stefndi mótmælir bótakröfunni sem órökstuddri og er af hans hálfu talið að sýkna beri stefnda þegar af þeirri ástæðu af henni.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að í málinu reki stefnandi aðdraganda að álagningu jöfnunargjalds á franskar kartöflur.  Af hálfu stefnda er því eindregið mótmælt að refsivist stefnanda megi á einhvern hátt kenna því um eða að hana sé að rekja til þess með hvaða hætti jöfnunargjald á franskar kartöflur hafi verið ákveðið með reglugerðum nr. 223/1987, 109/1988 eða 335/1989 á grundvelli laga nr. 45/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, eða til þess að umrætt jöfnunargjald hafi verið talið ólögmætt í dómum.  Þær vörur, sem jöfnunargjald hafi borið að greiða af, hafi allar verið fluttar inn að ákvörðun stefnanda, sem forsvarsmanns þess hlutafélags, sem staðið hafi að innflutningnum.  Á þennan vöruinnflutning hafi borið að greiða aðflutningsgjöld, jafnt toll og jöfnunargjald, sem reiknast skyldi af tollverði vörunnar.  Einnig hafi borið að greiða virðisaukaskatt af hluta þeirra vara sem innflutningurinn hafi tekið til.  Stefnandi hafi verið talinn hafa sammælst við erlenda viðskiptamenn sína um að gefa upp í tollskýrslum annað tollverð en það sem hafi verið raunverulegt viðskiptaverð hinna innfluttu vara, með þeim áhrifum að aðflutningsgjöld urðu lægri en ella.  Stefnandi hafi sjálfur gefið tilefni til þess að tollyfirvöld sáu ástæðu til þess að láta fara fram rannsókn á því hvort tollverð í aðflutningsskýrslum hlutafélagsins gætu staðist.  Hafi rannsóknin leitt í ljós að stefnandi hafði lækkað verð á innfluttum frönskum kartöflum þannig að það hafi verið fjarri viðskiptaverði vörunnar.  Mismunurinn hafi verið greiddur meðal annars með því að hækka verð á öðrum vörum, sem ekki hafi borið jöfnunargjald, og hafi stefnandi þannig komið sér undan greiðslu þess og annarra aðflutningsgjalda í stórum mæli.  Þessu sé lýst í dómi héraðsdóms frá 24. nóvember 1995 en þar hafi stefnandi verið dæmdur til refsingar fyrir brot á 2. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987.  Hafi brot stefnanda verið talin stórfelld og refsing ákveðin með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Stefnandi hafi kosið að áfrýja ekki dóminum heldur hafi hann unað honum og tekið út refsingu.  Það hafi ekki verið fyrr en 10. júlí 1997 að hann hafi óskað eftir því við Hæstarétt Íslands að málið yrði endurupptekið.  Með dómi Hæstaréttar þann 12. mars 1998 hafi stefnandi verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu.  Dómurinn hafi verið byggður á því að af hálfu ákæruvaldsins hafi málinu ekki verið markaður tiltekinn farvegur um tilgang áfrýjunar í samræmi við 147. gr. og 2. mgr. 151. gr., sbr. 188. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Hafi málatilbúnaður ákæruvaldsins við svo búið verið óljós um sönnun, en gögn málsins í héraði hafi aðeins að óverulegu leyti verið lögð fyrir Hæstarétt.  Þrátt fyrir þetta virtist sem stefnandi hafi ekki talið að endurupptökumálið myndi að nýju eiga að snúast um sönnun, þar sem hann hafi ekki hreyft því fyrr en við munnlegan flutning fyrir Hæstarétti að ákæruvaldið hefði ekki sannað sök eða þá háttsemi sem hafi orðið tilefni refsidóms.  Þau mótmæli hafi fengið að komast að og virtist það hafa leitt til sýknudóms Hæstaréttar.  Hafi málið þar með fallið á því að sök teldist ekki sönnuð, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991.  Því hafi ekki verið tekin afstaða til þeirra álitaefna, sem endurupptökubeiðnin virtist reist á, en hún hafi verið studd því að fyrir lægi dómur um ólögmæti jöfnunargjalds, sem líta yrði á sem nýtt gagn í máli samkvæmt a lið 1. mgr. 184. gr. laganna.  Vandséð sé hvernig sá dómur hefði ráðið úrslitum um sekt eða sýknu stefnanda.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að ekkert samhengi sé milli álagningar jöfnunargjalds og sýknudómsins í Hæstarétti frá 12. mars 1998.  Ekki sé unnt að skilja forsendur dómsins á þann veg að stefnandi hafi verið sýknaður af ástæðum er vörðuðu lagaskilyrði til álagningar jöfnunargjalds eða vegna þess að stefnandi hafi verið ranglega dæmdur til refsivistar fyrir að hafa ekki gert skil á jöfnunargjaldi eða að slíkt gjald hafi verið endurákvarðað án lagastoðar og að ófyrirsynju valdið refsinæmi.  Af þessum ástæðum mótmæli stefndi röksemdum stefnanda um að hann hafi verið talinn saklaus vegna dóma um ólögmæti jöfnunargjaldsins.  Af þessu leiði að stefnandi ætti engan rétt til bóta á grundvelli ákvæðanna í 177.-179. gr. laga nr. 19/1991.  Hafi sakfelling fyrir brot á 2. mgr. 126. gr. verið látin óhögguð standa í endurupptökumálum nr. 462/1994 og 253/1997 fyrir Hæstarétti en dómar voru einnig kveðnir upp í þeim þann 12. mars 1998.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að stefnandi eigi rétt til bóta á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar við þessar aðstæður.  Engin regla sé í lögum um hlutlæga ábyrgð ríkissjóðs við þær aðstæður að maður hafi verið sýknaður með dómi, heldur fari um bótaskyldu að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt 177. gr. laganna sé skilyrði að bótakrefjandi hafi saklaus hlotið refsidóm eða refsingu.  Sá áskilnaður, sem fram komi í b lið 1. mgr. 175. gr. laganna, þurfi einnig að vera fyrir hendi en bótaréttur sé samkvæmt lagaákvæðinu bundinn því skilyrði að sakborningur hafi verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi, enda megi fremur telja hann hafa verið saklausan af háttseminni en sýknan.  Sú háttsemi, sem til álita komi í þessu máli, geti ekki verið ákvarðanir landbúnaðarráðherra um álagningu jöfnunargjalds, heldur sú háttsemi sem stefnandi hafi verið ákærður fyrir vegna brota á ákvæðum 126. gr. tollalaga.  Því er mótmælt að skilyrði séu til greiðslu bóta á grundvelli 177. gr. laga um meðferð opinberra mála þar sem engar líkur væru á að stefnandi hafi saklaus hlotið refsidóm eða refsingu.

Stefndi telur að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að fremur beri að telja hann saklausan af háttseminni en sekan.  Slík sönnun hafi ekki tekist í þessu máli og styður stefndi það meðal annars eftirfarandi rökum:

Í fyrsta lagi hafi stefnandi kosið að áfrýja ekki dómi héraðsdóms í refsimálinu.  Með áfrýjun héraðsdóms til Hæstaréttar innan áfrýjunarfrests hefði stefnandi getað komist hjá fullnustu refsingar þangað til endanlegur dómur gengi, sbr. meginreglu 1. mgr. 139. gr. laga nr. 19/1991.  Hafi hann jafnt getað skotið þeim þætti til æðra dóms er lotið hafi að sönnun ákæruatriða, refsiviðurlögum og ekki síst hvort og að hve miklu leyti háttsemin væri refsinæm, ef vera kynni að álagt jöfnunargjald væri ólögmætt.  Afstaða stefnanda til héraðsdómsins verði ekki skilin öðru vísi en svo að hann hafi viðurkennt réttmæti sakfellingar, jafnt hvað varðaði sönnun, heimfærslu til refsiákvæða og ákvörðun viðurlaga.

Í öðru lagi sýni gögn málsins að yfirgnæfandi líkur væru á því að stefnandi verði fremur að teljast sekur um ákæruatriði en saklaus.  Beri gögnin með sér að hverfandi líkur séu á sakleysi stefnanda eða að hann hafi saklaus hlotið refsidóm. Við skýrslutökur hjá tollgæslu Íslands hafi stefnandi kannast við vörureikninga frá seljanda vörunnar í Hollandi, þar sem fram komi að verð í raun hafi verið hærra en hann gaf upp.  Þá hafi einnig verið borin undir stefnanda yfirlit úr bókhaldi hins erlenda fyrirtækis, sem aflað hafi verið af hálfu hollenskra tollyfirvalda, og hafi stefnandi kannast við mörg þeirra.  Í þessum gögnum sé gerð skýr grein fyrir því hvernig tilbúin verð á pappaboxum væru ætluð til að gera upp skuldir á tilteknum kílófjölda af kartöflum sem stemmi við innflutningsmagn þeirra í hvert skipti.  Í málinu liggi einnig fyrir bréf þar sem ekki verði um villst að seljandinn hafi hagrætt verði samkvæmt samkomulagi við stefnanda og einnig hafi komið fram við rannsókn málsins að vörureikningsfærsla og hagræðing á verði hafi verið samkvæmt samkomulagi við stefnanda.  Í bréfaskiptum milli stefnanda og seljanda segi að uppgjör á pappabollum undir franskar kartöflur þurfi að vera sannfærandi.  Í því sambandi komi fram að seljandinn hafi tiltekið að hann hefði ekki nægilegar birgðir til sannfærandi uppgjörs á upphæðinni nema stefnandi telji að íslenski tollurinn muni trúa því að ein stök pappírsmunnþurrka sé nokkurra gyllina virði hver.  Þá komi fram í bréfi seljandans frá 9. nóvember 1989 að lagt yrði til að haldið yrði áfram með pappabox til að ganga frá skuldum, en munnþurrkur væru ekki nægjanlegar til að gegna sannfærandi hlutverki í því efni.  Í málinu væru einnig gögn úr bókhaldi seljanda, sem sýni hvernig verði hafi verið hagrætt miðað við einstakar sendingar.  Af hálfu stefnda er enn fremur vísað til þess að í kröfugerð ríkistollstjóra, þar sem bréfaskipti stefnanda við hina erlendu aðila séu rakin, og í vörureikningum komi fram að leitað hafi verið að uppgjörsaðferðum með því að hafa skuldir vegna kaupa á frönskum kartöflum inni í verðum fyrir pappabox.  Þá komi fram í gögnum að uppgefin verð á kartöflum hafi lækkað í febrúar 1988 í hálfvirði um það leyti sem jöfnunargjald hafi hækkað og verð fyrir pappabox hafi þá verið uppsprengd.

Engin lagaskilyrði eða ástæður væru til þess ætla að ákvörðun viðurlaga hefði orðið önnur og vægari en þau sem ákveðin voru með dómi héraðsdóms þar sem stefnandi var sakfelldur.  Dómendur fari með dómsvaldið og ákvarði viðurlög við refsiverðum brotum.  Sé ókleift að spá um það hvort eða hvernig refsiviðurlög hefðu verið endurskoðuð með dómi Hæstaréttar, ef málinu hefði verið ráðið til lykta á þeim grundvelli.  Engin ástæða væri til að ætla að refsinæmi háttseminnar hefði verið annað en í dómi héraðsdóms, enda hafi brotin verið stórfelld og drýgð með leynd og einbeittum ásetningi á löngum tíma.  Hafi stefnandi haft í hyggju að koma Gnípu hf. undan greiðslu á tugum milljóna króna jöfnunargjalds, verðtolls og virðisaukaskatts.

Stefndi telur hins vegar ekki raunhæft að dæma miskabætur að gefinni spá um að niðurstaða endurupptökumáls hefði orðið önnur ef dæmt hefði verið um refsinæmi í Hæstarétti.  Slíkur bótagrundvöllur ætti sér hvorki stoð í reglum XXI. kafla laga nr. 19/1991 né í almennum bótareglum.  Einungis væru skilyrði til að dæma bætur að uppfylltum skilyrðum XXI. kafla laganna og að frelsissvipting hafi verið ólögleg þar sem stefnandi hafi saklaus tekið út refsivist.

Af hálfu stefnda er því alfarið mótmælt að annar en stefnandi sjálfur beri ábyrgð á þeirri umfjöllun sem hann telji að hafi átt sér stað á vettvangi fjölmiðla.  Ekkert komi fram um þetta í málinu og sé ekki vitað hvaða fjölmiðla sé átt við eða hvenær sú umfjöllun hafi átt sér stað.  Stefndi mótmælir þessum sjónarmiðum og málsástæðum sem órökstuddum.  Einnig mótmælir stefndi því sem ósönnuðu að stefnandi sé þekktur fyrir þátttöku sína í íslensku atvinnulífi.  Loks byggir stefndi sýknukröfuna á því að stefndi geti ekki borið ábyrgð á því hvernig dómstólar hafi annars vegar tekið á lögmæti jöfnunargjalds og hins vegar hvernig þeir hafi dæmt um viðurlög við brotum gegn ákvæðum tollalaga. 

Varðandi varakröfu telur stefndi að lækka beri stefnufjárhæð verulega, enda sé hún órökstudd og í engu samræmi við dómvenju.  Vísar stefndi í því sambandi til dómafordæma.  Einnig bæri að líta til niðurlagsákvæðis 177. gr. laga nr. 19/1991 og þess að stefnandi hafi kosið að áfrýja ekki dómi héraðsdóms.  Auk þess bæri að lækka bætur með tilliti til þess ef viðurlögum hefði verið breytt í Hæstarétti.  Loks bendir stefndi á að í sýknudómi felist a.m.k. sú uppreist æru sem verðskulduð sé.

Mótmælt er upphafstíma dráttarvaxta með vísan til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.  Telur stefndi rétt að miðað verði við dómsuppkvaðningu sökum mikils vafa um bótaskyldu og þess að bótakrafa stefnanda sé órökstudd.  Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstöður

Eins og hér að framan hefur komið fram byggir stefnandi bótakröfuna í málinu á því að hann hafi verið dæmdur sýkn af þeim refsikröfum sem legið hafi til grundvallar refsidómi yfir honum.  Gjaldið, sem hann hafi verið dæmdur fyrir að hafa svikið undan, hafi verið dæmt ólögmætt og hafi honum aldrei borið með réttu að inna það af hendi.  Af því leiði að hann hafi saklaus hlotið refsidóm og verið látinn sæta ólögmætri frelsisskerðingu.  Einnig er af stefnanda hálfu vísað til þess að ef dæmt hefði verið um refsinæmi verknaðar hans í Hæstarétti hefði honum ekki verið dæmd fangelsisrefsing heldur hefði hann aðeins verið dæmdur til greiðslu sektar.

Bótakrafa stefnanda er einnig byggð á 177. gr. laga um meðferð opinberra mála.  Samkvæmt þeirri lagagrein ber að dæma þeim, sem ljóst er að hefur saklaus hlotið refsidóm eða þolað refsingu, bætur fyrir fjártjón og miska.

Eins og fram kemur í gögnum málsins og hér að framan hefur verið rakið var hin meinta ólögmæta frelsisskerðing stefnanda til komin vegna refsingar, sem honum var gert að sæta samkvæmt þá óáfrýjuðum héraðsdómi frá 24. nóvember 1995.  Samkvæmt dóminum var hann sakfelldur fyrir að hafa brotið gegn 2. mgr. 126. gr. tollalaga nr. 55/1987 með því að framvísa við tollyfirvöld vegna innflutnings á frönskum kartöflum til landsins tilteknum reikningum þar sem verð var ranglega tilgreint.  Í lagaákvæðinu segir að verði maður uppvís að því að láta tollstarfsmanni í té rangar upplýsingar í því skyni að svíkja undan eða fá ívilnun á tolli eða gjöldum skuli hann sæta sektum, svo og varðhaldi eða fangelsi ef sakir eru miklar eða brot ítrekað.

Í málinu er óumdeilt að á því tímabili sem þessi meintu brot stefnanda voru framin skorti viðhlítandi lagastoð fyrir jöfnunargjaldi enda er það staðfest með dómi Hæstaréttar í máli þrotabús S. Óskarssonar gegn íslenska ríkinu frá 19. desember 1996.  Það lá þó ekki fyrir fyrr en eftir að stefnandi hafði tekið út þriggja mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi héraðsdóms.  Jöfnunargjaldið var hins vegar aðeins hluti af þeim aðflutningsgjöldum, sem ákveðin voru á grundvelli þeirra upplýsinga, sem stefnandi veitti tollyfirvöldum við innflutning á umræddri vöru.

Í dómi Hæstaréttar frá 12. mars 1998, þar sem stefnandi var sýknaður af refsikröfunni, sem um ræðir, eru rökin fyrir sýknu þau að ekki lægju fyrir viðhlítandi sönnur fyrir sök ákærða.  Þar kemur einnig fram að gögn, sem héraðsdómur byggði sakfellingu á, hefðu aðeins að óverulegu leyti verið lögð fyrir Hæstarétt.  Úrlausn um sýknu er hins vegar ekki byggð á því að jöfnunargjaldið hafi verið ólögmætt.

Þegar virt er það sem fyrir liggur í málinu og hér að framan greinir verður ekki talið að fram hafi komið viðhlítandi rök fyrir því að stefnandi hafi saklaus hlotið refsidóm eða þolað refsingu.  Er því ekki fullnægt þessum skilyrðum í 177. gr. laga um meðferð opinberra mála þannig að unnt verði að taka bótakröfu stefnanda til greina á þeim grundvelli.  Lagagreinin á hins vegar ekki við um það tilvik þegar dæmd hefur verið eða afplánuð þyngri refsing en ella hefði orðið eins og haldið er fram af hálfu stefnanda.  Eru því heldur ekki skilyrði til að dæma honum bætur úr hendi stefnda samkvæmt lagagreininni á þeim grundvelli.  Samkvæmt þessu brestur lagagrundvöll fyrir bótakröfu stefnanda og ber því að sýkna stefnda af kröfum hans í málinu með vísan til þess. 

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn vera af kröfum stefnanda, Magnúsar R. Jónssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.