Print

Mál nr. 498/2006

Lykilorð
  • Reynslulausn
  • Skaðabætur
  • Stjórnarskrá
  • Stjórnsýsla
  • Reglugerðarheimild

Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. mars 2007.

Nr. 498/2006.

Pétur Þór Gunnarsson

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Reynslulausn. Skaðabætur. Stjórnarskrá. Stjórnsýsla. Reglugerðarheimild.

P krafðist þess að Í yrði gert að greiða sér skaðabætur og miskabætur vegna þess að honum hefði verið synjað um reynslulausn á ólögmætum grundvelli. Taldi hann 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 um fullnustu refsidóma, þar sem fram kom að fanga yrði að jafnaði ekki veitt reynslulausn ef máli á hendur honum væri ólokið í refsivörslukerfinu, vera í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ekki var talið að með umræddu reglugerðarákvæði væri fangelsisyfirvöldum gert að meta sekt fanga í þeim málum sem kynni að vera ólokið í refsivörslukerfinu eða að slíkt mat hefði farið fram við afgreiðslu umsóknar P um reynslulausn. Þótt fallist væri á að ákvæðið skorti lagastoð var talið að það væri málefnalegt og í samræmi við lagareglur um reynslulausn og tilgang þeirra. Var því ekki fallist á að ákvæðið sjálft eða beiting þess við afgreiðslu á umsókn P byggðist á ólögmætum sjónarmiðum og var heldur ekki fallist á að ekki hefði verið gætt jafnræðis við afgreiðsluna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2006. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.810.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 4. júlí 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Péturs Þórs Gunnarssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

                                                                                                                  

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. júní 2006

I

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 9. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Pétri Þór Gunnarssyni, kt. 120958-3139, Halllandsnesi, Akureyri, með stefnu birtri 21. júní 2005 á hendur íslenzka ríkinu.

        Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 3.810.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 25/1987 frá 4. júlí 2000 til l. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum af sömu fjárhæð samkvæmt III., sbr. IV.  kafla laga nr. 38/2001 til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar, eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál, að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, að teknu tilliti til vinnu málflytjanda, auk virðisaukaskatts og annars kostnaðar af málinu.

        Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins

II

Málavextir

Með dómi Hæstaréttar nr. 161/1999 uppkveðnum hinn 4. nóvember 1999 var stefnandi dæmdur í 6 mánaða óskilorðsbundið fangelsi.  Stefnandi hóf afplánun dómsins í fangelsinu að Kvíabryggju hinn 5. apríl 2000.  Hinn 21. júní 2000 sótti stefnandi um reynslulausn til Fangelsismálastofnunar ríkisins frá og með 4. júlí 2000 er stefnandi hafði afplánað helming refsitímans.  Hinn 5. júlí 2000 barst stefnanda svarbréf frá Fangelsismálastofnun þar sem beiðni hans um reynslulausn var synjað með vísan til 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma, þar sem hann ætti ólokið málum í refsivörzlukerfinu, en á þessum tíma stóð yfir rannsókn á vegum embættis ríkislögreglustjóra á meintum fölsunum stefnanda á málverkum.  Á grundvelli þeirrar rannsóknar var gefin út ákæra á hendur stefnanda í janúar 2003, sem lauk endanlega með sýknudómi Hæstaréttar í máli nr. 325/2003, uppkveðnum hinn 19. maí 2004.

        Stefnandi kærði synjun Fangelsismálastofnunar hinn 5. júlí 2000 til dóms- og kirkjumálaráðuneytis.  Með bréfi, dags. 10. ágúst 2000, sótti stefnandi til dómsmálaráðherra um reynslulausn frá 1. september 2000 vegna fjölskylduaðstæðna.  Dóms- og kirkju­mála­ráðuneytið lagði málið fyrir náðunarnefnd og staðfesti síðan ákvörðun fangelsismálastofnunar með úrskurði, dags. 17. ágúst 2000, samkvæmt tillögu náðunarnefndar frá 15. sama mánaðar.

        Hinn 27. júlí 2000 leitaði stefnandi til umboðsmanns Alþingis vegna tafa á afgreiðslu máls hans í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.

        Hinn 21. ágúst 2000 sendi stefnandi öðru sinni bréf til umboðsmanns Alþingis og óskaði þess formlega, að umboðsmaður fjallaði um úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 17. ágúst s.á., og að umboðsmaður tæki efnislega afstöðu til þess hvort og þá hvernig 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 029/1993 um fullnustu refsidóma, og eftir atvikum lagagrundvöllur sem það ákvæði styðst við, samrýmist 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, sbr. dskj. nr. 10.

        Hinn 15. ágúst og 30. ágúst 2000 sendi umboðsmaður Alþingis dóms- og kirkjumálaráðuneyti bréf, þar sem óskað var eftir viðhorfum ráðuneytisins til ofangreindrar kvörtunar stefnanda.  Hinn 30. ágúst og 7. september 2000 bárust umboðsmanni svör frá ráðuneytinu.

        Í áliti umboðsmanns Alþingis í tilefni af kvörtun stefnanda, mál nr. 3028/2000 frá 7. desember 2001, kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu, að í úrskurði dóms- og kirkjumálaráðuneytis hinn 17. ágúst 2000, þar sem synjun Fangelsismálastofnunar frá 5. júlí 2000 á umsókn stefnanda um reynslulausn var staðfest, hafi ekki verið leyst úr máli stefnanda í samræmi við lög.

        Hinn 22. júlí 2004 fór stefnandi fram á viðurkenningu bótaskyldu íslenzka ríkisins, en þeirri kröfu var hafnað með bréfi ríkislögmanns, dags. 17. september 2004.

        Stefnandi afplánaði fangelsisrefsingu dómsins að fullu.

III

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á því, að 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 um fullnustu refsidóma sé í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, þar sem kveðið sé á um að hver sá, sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi, skuli talinn saklaus unz sekt hans sé sönnuð.  Ákvæði  2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar sé efnislega samhljóma 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Þessi áskilnaður feli í sér efnislegar takmarkanir á valdheimildum almenna löggjafans til að setja lög og efnislegum heimildum stjórnvalda til setningar fyrirmæla og töku ákvarðana.

        Ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár, eins og það sé skýrt með hliðsjón af 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, geri þá skýru og ófrávíkjanlegu kröfu til hins almenna löggjafa og stjórnvalda, að við setningu laga, stjórnvaldsfyrirmæla og stjórnvalds­ákvarðana skuli ekki með neinu móti farið gegn þeim hagsmunum og skilyrðum, sem þau áskilji.

        Í 1. mgr. 5. gr. nefndrar reglugerðar segi orðrétt:  ,,Að jafnaði verður fanga ekki veitt reynslulausn ef ólokið er í refsivörzlukerfinu máli á hendur honum þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.“

        Stefnandi bendi á, að orðalag ákvæðisins ,,að jafnaði“, ,,ólokið“ og ,,grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi“ beri með sér mikinn óskýrleika og sé algjörlega án skýrrar afmörkunar á mati viðkomandi stjórnvalds á veitingu reynslulausnar og sé þar með mun víðtækara en heimild sé fyrir í lögum og stjórnarskrá.

        Stefnandi telji, að orðalag ákvæðisins feli í sér, að stjórnvöldum, eins og fangelsismálastofnun ríkisins og dóms- og kirkjumálaráðherra, sé falið að ákvarða, hvort fangar, sem sæki um reynslulausn, séu saklausir eða sekir af öðrum málum, sem þeir kunni að eiga ólokið í refsivörzlukerfinu.  Slíkt ákvörðunarvald falli einungis undir valdsvið dómstólanna, sbr. 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, og fari án alls vafa gegn þeirri meginreglu, sem komi fram í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár, sbr. 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Sambærileg ákvæði sé einnig að finna í 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979.

        Umsókn stefnanda um reynslulausn hafi verið hafnað á þeim grundvelli, að hann ætti ólokin mál í refsivörzlukerfinu.  Hafi honum verið gert þetta kunnugt með bréfi, dags. 5. júlí 2000, sbr. dskj. nr. 4.  Í því bréfi hafi engan rökstuðning verið að finna fyrir synjuninni.  Þá hafi stefnanda ekki verið gefinn kostur á að andmæla, heldur einungis verið beint á möguleika á kæru ákvörðunar og hvert hann skyldi beina slíkri kæru.

        Í þessu svokallaða ,,ólokna máli,“ sem hafi verið grundvöllur synjunar um reynslulausn stefnanda, hafi ekki verið ákært fyrr en í janúarmánuði 2003, og hafi því lokið með sýknu stefnanda í dómi Hæstaréttar nr. 325/2003, uppkveðnum hinn 19. maí 2004.  Það sé því bersýnilegt, að synjun á umsókn stefnanda um reynslulausn hafi verið grundvölluð á óloknu máli, sem ekki hafi verið ákært í fyrr en að liðnum tveimur árum og þremur mánuðum betur frá lokum fangavistar stefnanda.

        Þetta víðtæka og sjálfstæða mat stjórnvalds samkvæmt ákvæði þessu eigi sér enga beina efnislega stoð í lögum.  Reglugerð um fullnustu refsidóma nr. 29/1993 sé sett með heimild í 36. gr. (sic.) laga um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 og 40.-42. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

        Í 36. gr. (sic) laga nr. 48/1988 sé einungis um að ræða almenna heimild laga til setningar reglugerðar um málefni Fangelsismálastofnunar ríkisins.  Stefnandi bendi enn fremur á, að við skoðun á ákvæðum 40.–42. gr. hgl. megi telja, að þau veiti ekki 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 beina efnislega lagastoð.

        Þar af leiðandi telji stefnandi, að synjun á beiðni hans um reynslulausn af hálfu stefnda samrýmist ekki lagareglum um reynslulausnir og tilgangi þeirra.  Grundvöllur synjunar á umsókn stefnanda um reynslulausn eigi sér ekki stoð í lögum og sé í ósamræmi við meginreglur stjórnarskrárinnar og þjóðréttarlegar skuldbindingar, sem íslenzka ríkið hafi undirgengizt og veitt lagagildi.

        Stefnandi telji, að með synjun á beiðni hans um reynslulausn samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga hafi íslenzka ríkið ekki gætt jafnræðis og samræmis í lagalegu tilliti með hliðsjón af úrlausnum fangelsismálayfirvalda í öðrum sambærilegum málum.  Stefnandi hafi verið látinn sitja í afplánun í sex mánuði í stað þriggja, eins og lög og lagaframkvæmd standi til.  Þar með hafi ríkið brotið gegn jafnræðisreglu stjórnar­skrár, jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og jafnræðisreglu alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979.

        Framangreindu til stuðnings sér vísað til álits umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar stefnanda, mál nr. 3028/2000, sbr. dskj. nr. 17.

Bótakrafa stefnanda felist í eftirfarandi og sundurliðist þannig:

A.      Krafa vegna fjárhagslegs tjóns                  kr.     810.000

B.       Krafa vegna ófjárhagslegs tjóns                kr.  3.000.000

Samtals:                                                          kr.  3.810.000

Um A.

Þessi ólögmæta frelsisskerðing vegna synjunar á reynslulausn stefnanda hafi leitt af sér beint tjón fyrir stefnanda með töpuðum atvinnutekjum, og það tjón eigi stefnandi rétt á að fá bætt.  Stefnanda hafi verið synjað um reynslulausn á ólögmætum grundvelli og þar með látinn sitja í afplánun refsivistar í sex mánuði í stað þriggja, eins og lög, venja og lagaframkvæmd kveði á um.  Þar af leiðandi beri stefndi skaðabótaábyrgð samkvæmt almennum reglum stjórnskipunar- og skaðabótaréttar.

        Fébótakrafan sé byggð á töflu 14.5; meðaltekjur eftir aldri og hjúskaparstöðu 1995-2003, sem útgefin sé af Hagstofu Íslands og sé að finna í Landshögum 2004, sbr. dskj. nr. 23.  Teknar séu atvinnutekjur kvæntra karlmanna á aldrinum 25–65 ára á árunum 1998/1999 og 2000.  Meðaltekjum áranna sé síðan deilt með árafjölda og síðan mánaðafjölda, og sé hver mánuður að meðaltali að fjárhæð kr. 270.000. Stefnandi hafi setið inni í fangelsi að ósekju í þrjá mánuði, og þar af leiðandi geri hann kröfu um, að stefndi greiði honum missi atvinnutekna í þrjá mánuði, að fjárhæð kr. 810.000.   Tekjuöflun stefnanda hafi verið stopul á ofangreindum árum af ýmsum ástæðum, m.a. vegna erfiðs, sjálfstæðs rekstrar og afplánunar fangelsisdóms og málaferla íslenzka ríkisins á hendur honum.

Um B.

Í b-lið 1. mgr. 26 gr. laga nr. 50/1993 sé því lýst sem svo, að hver sá, sem ábyrgð beri á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, skuli greiða miskabætur til þess, sem misgert hafi verið við.  Hin ólögmæta frelsisskerðing vegna synjunar á beiðni stefnanda um reynslulausn úr fangelsi hafi verið stefnanda mjög þungbær og erfið, sérstaklega í ljósi þess, að stefnandi sé framfærandi fjögurra barna.  Á þeim tíma, er stefnandi sótti um reynslulausn úr fangelsi, hafi börnin verið á aldrinum 20 mánaða til 12 ára og þrjú þeirra að hefja skólagöngu í byrjun september 2000.  Að mati stefnanda sé ljóst, að stefndi hafi í veigamiklum atriðum misgert við stefnanda.  Beri stefnda því að standa skil á umkröfðum miskabótum.

        Fyrir hönd ríkisins sé dóms- og kirkjumálaráðherra stefnt, en einnig sé fjármálaráðherra stefnt, þar sem búast megi við, að ríkið verði dæmt til verulegra fjárútláta.

        Stefnandi byggir kröfu sína á því,  að 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993 brjóti gegn áskilnaði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 8. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, sbr. 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsing nr. 10/1979.  Þá vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, kröfum sínum til stuðnings, einkum b-liðar 1. mgr. 26. gr.  Enn fremur vísar stefnandi til jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1994 og 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. auglýsingu nr. 10/1979, til 36. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 og til 40.- 42. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur IV., sbr. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 25/1987 og nr. 38/2001.  Upphafsdagur dráttarvaxta sé þegar liðinn hafi verið einn mánuður frá því að krafa stefnanda um reynslulausn var sett fram.  Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt við lög nr. 50/1988 með síðari breytingum, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur.

Málsástæður stefnda

Stefndi kveður rangt hjá stefnanda, að synjanir Fangelsismálastofnunar og dómsmálaráðuneytisins hafi verið órökstuddar.  Þvert á móti hafi verið færður fram rökstuðningur fyrir ákvörðununum, en ástæðulaust hafi verið að veita sérstök tækifæri til andmæla, enda útilokað að stefnandi hefði getað bætt einhverju við það, sem frá honum hafði komið.  Eigi þetta við á öllum stigum.  Ekki hafi verið efni til að bera umsagnir náðunarnefndar undir stefnanda, enda allt komið fram af hans hálfu.

        Stefndi mótmæli því, að stefnandi hafi ekki notið jafnræðis á við aðra fanga, en skv. dskj. nr. 27 séu óafgreidd mál fanga í refsivörzlukerfinu ein algengasta ástæða þess, að föngum sé synjað um reynslulausnir.  Hafi stefnandi ekki sýnt fram á, að hann hafi notið lakari afgreiðslu eða meðferðar en aðrir fangar, hvorki að þessu leyti né nokkru öðru.

        Stefnandi hafi kvartað til umboðsmanns Alþingis undan meðferð stjórnvalda á málum hans.  Sú kvörtun og niðurstaða umboðsmanns sé ekki bindandi í því dómsmáli, sem hér liggi fyrir, og telji stefndi raunar, að hún skipti ekki máli fyrir niðurstöðu þess.  Óhjákvæmilegt sé, að héraðsdómur leggi sjálfstætt mat á kröfur og atvik málsins og sé hann ekki bundinn af álitsgerð umboðsmanns á nokkurn máta.  Stefndi bendi í þessu sambandi á skýrslu nefndar um reynslulausn á dskj. nr. 27, en þar sé komizt að því, að reglur um ákvörðun um veitingu reynslulausnar séu réttar og lögmætar.  

        Meginregla íslenzks réttar sé sú, að dæmdar refsingar séu afplánaðar að fullu.  Annað væri enda óeðlilegt.  Engu breyti, hvað sé algengast, dómar séu kveðnir upp og geri lögin ráð fyrir, að þeim sé fullnægt samkvæmt efni sínu og að fullu.  Öll frávik frá þessu séu undantekningar í lagaskilningi og víki frá meginreglunni, að fangelsisrefsingar séu afplánaðar til fulls.

        Ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um reynslulausn, sem gilt hafi á þessum tíma, hafi veitt stjórnvöldum heimildir til að láta fanga lausan til reynslu, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.  Sé reynslulausn á annað borð veitt, sé meginreglan sú, að það sé ekki fyrr en eftir að fangi hafi afplánað 2/3 hluta hins dæmda refsitíma.  Standi sérstaklega á, megi þó veita reynslulausn, þegar liðinn sé helmingur refsitímans, en þetta sé undantekning frá meginreglunni.  Veiting reynslulausnar sé þannig ávallt byggð á heimild stjórnvalds til veitingar hennar en aldrei geti verið skylt að veita hana.  Ákveði stjórnvaldið að synja beiðni um veitingu reynslulausnar, beri að rökstyðja niðurstöðu og byggja hana á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

        Veiting reynslulausnar sé ívilnandi ákvörðun, en synjun um reynslulausn bæti engu við dæmda refsingu og geri hlut dómþola þannig aldrei verri en dómur hans kveði á um.  Þetta sé grundvallaratriði.

        Í lögunum komi fram tiltekin og ófrávíkjanleg skilyrði fyrir því, að reynslulausn verði veitt.  Meðal þeirra sé, að reynslulausn verði ekki veitt, ef slíkt þyki óráðlegt vegna haga fangans.  Bein tengsl verði að telja milli þessa skilyrðis og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma.  Megi halda því fram, að þarna sé efnislegur grundvöllur reglunnar og lagaheimild fyrir setningu hennar í reglugerð.  Sé skilyrðum nánar lýst í ákvæðum V. kafla almennra hegningarlaga.

        Nánari ákvæði um reynslulausn hafi, á þessum tíma, verið í reglugerð um fullnustu refsidóma nr. 29/1993, sem sett hafi verið með heimild í 30. gr. laga um fangelsi og fangavist nr. 48/1988 og 40.-42. gr. almennra hegningarlaga.  Reglugerðin hafi þannig ótvíræða lagastoð.  Þar sé mælt fyrir um meðferð beiðna um reynslulausn og nánar um skilyrði fyrir veitingu reynslulausna.  Séu skilyrðin sett með hliðsjón af, og með heimild í, lögunum, en þeim sé m.a. ætlað að stuðla að jafnræði, og að reynslulausn megi ná tilgangi sínum.  Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segi, „að jafnaði verður fanga ekki veitt reynslulausn ef ólokið er í refsivörslukerfinu máli á hendur honum þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.“

        Reynslulausn sé ekki sjálfkrafa eftirgjöf á refsingu, heldur þurfi fangi að uppfylla tiltekin skilyrði til að geta fengið reynslulausn.  Beri að horfa til þess, að tilgangur reynslulausnar sé að veita fanga tækifæri til að feta inn á nýja braut án afbrota.  Sé reynslutíminn ætlaður til að brúa bilið milli afplánunar og fullkomins frelsis.  Það úrræði, sem fólgið sé í reynslulausn, geti ekki náð tilgangi sínum, eigi fangi yfir höfði sér mál, sem sé til rannsóknar hjá lögreglu eða til meðferðar hjá ákæruvaldi eða dómstólum.  Ófært sé, að fangi, sem látinn sé laus til reynslu, eigi það yfir höfði sér að fara aftur í fangelsi, án tillits til þess, að hann standi sig og feti hinn þrönga veg að afplánun lokinni.  Til að reynslulausn nái tilgangi sínum, verði fanginn að hafa það í hendi sér að fara ekki aftur í fangelsi, en það geri hann með löghlýðni.  Uppeldislegu gildi reynslulausnar væri þannig fórnað, ef reglunni yrði breytt.  Sé ætlazt til þess, þegar fangi fái reynslulausn, að þá sé lokið öllum hans málum í refsivörzlukerfinu og hann geti hafið nýtt líf með hreint borð.  Hafi reglan efnislega samsvörun við 1. mgr. 23. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga, en reglur þessar eigi það sammerkt, að þær geri ráð fyrir, að mál manns séu tekin fyrir og afgreidd sem heild, og að því loknu sé hann með hreint borð.

        Skilyrðið um, að reynslulausn verði almennt ekki veitt, eigi fangi ólokin mál á hendur sér, horfi ekki til þess, hvort fangi muni vera sekur eða saklaus.  Ekki sé lagt mat á það, hvort líklega verði um sakfellingu að ræða og fanga synjað um reynslulausn þess vegna.  Þvert á móti sé aðeins horft til þess, hvort mál sé til staðar eða ekki, en ekki lagt mat á, hvort verði sakfellt eða ekki.  Það sé mat dómstóla, og skipti stjórnvaldið sér ekkert af því, enda ekki hlutverk þess. 

        Stefndi telji, að umrætt reglugerðarákvæði sé skýrt og skorinort og geti ekki valdið misskilningi.  Orðin „að jafnaði“ veiti stjórnvaldinu svigrúm til sanngjarnrar túlkunar í samræmi við tilgang ákvæðisins, „ólokið“ þýðir einfaldlega sakamál, sem ekki hafi verið leitt til lykta, en orðin „grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi“ vísi til þess, að um sé að ræða mann, sem muni hafa réttarstöðu sakbornings.  Sé þetta allt skýrt.  Það, sem stefnandi kveði vera óskýrleika ákvæðisins, sé sá sveigjanleiki, sem ákvæðið veiti stjórnvaldinu til að komast hjá bersýnilega ósanngjörnum ákvörðunum, sem myndu ganga gegn tilgangi ákvæðisins og alls þess fyrirkomulags, sem um reynslulausnir gildi.  Enn síður geti þetta hafa leitt til misskilnings í máli stefnanda, eða verið honum til réttarspjalla, en sjá megi á dskj. nr. 30, að mál hans hafi algjörlega fallið að umræddu ákvæði.  Þau mál, sem orðið hafi til þess, að stefnanda hafi verið synjað um reynslulausn, hafi verið umfangsmikil, og hafi ætluð brot sætt ákæru.  Hafi stefnandi raunar verið sakfelldur í héraðsdómi, en sýknaður í Hæstarétti, þar sem rétturinn hafi klofnað 3-2.  Hafi því enginn efi verið á því, að þau óloknu mál hafi fallið að ákvæðum 1. mgr. 5. gr. umræddrar reglugerðar.  Engu skipti, hvort dráttur hafi orðið við meðferð þess máls hjá lögreglu eða ákæruvaldi, enda sé það eftir atburði þessa máls og utan málsatvika þess.     

        Verði að leggja á það áherzlu, að fangi sé ekki látinn sitja í fangelsi vegna mála, sem ekki hafi verið dæmt í.  Ekki sé fangi látinn sitja saklaus í fangelsi.  Fangavistin sé alltaf á grundvelli dæmdrar refsingar vegna afbrota, sem dæmt hafi verið um.  Skilyrðið sé þannig alfarið í samræmi við regluna um, að maður skuli talinn saklaus, unz hann hafi verið dæmdur sekur með dómi.  Maður afpláni ekki refsingu án dóms.

        Telji stefndi, að umrætt skilyrði sé í fullu samræmi við tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem og alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. augl. nr. 10/1979, auk annarra ákvæða ótalinna.  Reglugerðarákvæðið feli stjórnvaldinu ekki ákvörðunarvald um sekt eða sakleysi, enda ekki lagt mat á það og ekki verið sýnt fram á neitt slíkt mat í tilviki stefnanda, eða öðrum.  Stefndi bendi á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1189/1994, þar sem skýrt komi fram það álit umboðsmanns, að mannréttindasáttmáli Evrópu útiloki ekki, að við ákvarðanir, sem fjalli um reynslulausn, sé byggt á því, að rökstuddur grunur liggi fyrir um refsivert brot.

        Stefndi haldi því fram, að hvorki séu uppfyllt í málinu skilyrði almennra skaðabótareglna, sem varði saknæmi né ólögmæti annarra bótareglna.  Starfsmönnum stefnda hafi verið óheimilt að afgreiða erindi stefnanda á annan veg en þeir hafi gert.  Þeir hafi ekki getað afgreitt erindið á annan veg en samkvæmt gildandi reglum, og hafi engar ákvarðanir þeirra verið ólögmætar.

        Stefndi mótmæli bótafjárhæðinni sem slíkri.  Allt atvinnutjón sé ósannað og liggi ekki fyrir neitt um, að stefnandi hefði aflað atvinnutekna á þeim tíma, sem um ræði.  Komi einmitt fram í stefnu, að tekjuöflun stefnanda hafi verið stopul. 

        Miskabótakröfu sé mótmælt.  Bæði telji stefndi hana vera of háa og að auki sé hún ekki nægilega rökstudd.

        Bótakröfum sé þar að auki mótmælt í heild, þar sem ekkert liggi fyrir um, hvort stefnandi hefði fengið reynslulausn, þó að hin ódæmdu mál hans hefðu ekki staðið í veginum.  Stefnandi hafi ekki sýnt fram á, eða fært að því rök, að hann hefði fengið reynslulausn eða að hann hafi uppfyllt önnur skilyrði þess.  Sérstaklega sé bent á, að alls sé óvíst, hvort stefnandi hefði fengið reynslulausn eftir helming eða 2/3 hluta refsitímans, ef hann hefði á annað borð fengið reynslulausn.  Umfang tjónsins sé þannig fullkomlega óljóst, hafi orðið tjón á annað borð, sem ekki hafi heldur verið sýnt fram á.

        Dráttarvaxtakröfu sé mótmælt og sérstaklega því, að dráttarvextir séu reiknaðir frá því tímamarki, er greini í stefnu.  Nægilegt væri og réttara að reikna dráttarvexti frá uppsögu dóms.

        Að öðru leyti sé málatilbúnaði, málsástæðum og lagarökum stefnanda mótmælt sem röngum og ósönnuðum.

        Til stuðnings kröfu um málskostnað vísi stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV

Forsendur og niðurstaða

Ákvæði 40. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um reynslulausn eru heimildarákvæði, sem beita má, þegar fangi hefur tekið út 2/3 hluta refsitímans, eða þegar sérstaklega stendur á, að liðnum helmingi refsitímans.  Veitir ákvæðið þannig undanþágu frá þeirri meginreglu, að fangi afpláni þá refsingu, sem honum er gert að sæta með dómi.  Af greinargerð með ákvæðinu kemur fram, að með lögfestingu þess hafi verið að því stefnt að brúa bilið milli afplánunar og fulls frelsis fanga og stuðla þannig að því, að auðvelda fanga þátttöku í þjóðfélaginu á ný, eftir að refsivist lýkur.  Ekki er að finna í lögunum skýrar leiðbeiningar um það, hvenær reynslulausn skuli veitt, en í 4. mgr. 40. gr. segir, að reynslulausn verði ekki veitt, ef slíkt þyki óráðlegt vegna haga fangans.

         Stjórnvöld höfðu á þeim tíma, sem mál stefnanda var til meðferðar, til viðmiðunar ákvæði 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 29/1993, þegar ákvörðun var tekin um hvort fanga skyldi veitt reynslulausn, en þar segir svo:  „Að jafnaði verður fanga ekki veitt reynslulausn, ef ólokið er í refsivörzlukerfinu máli á hendur honum, þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.“ 

         Stefnandi byggir á því, að tilvitnað reglugerðarákvæði sé í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þ.e. að hver sá, sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi, skuli talinn saklaus, unz sekt hans sé sönnuð að lögum.

         Ekki er fallizt á, að í ákvæðinu felist, að fangelsisyfirvöldum sé gert að meta sekt viðkomandi eða sýknu í málum þeim, sem kunni að vera ólokið í refsivörzlukerfinu og að ákvæðið sé þannig í andstöðu við framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar eða mannréttindasáttmála Evrópu.  Þá verður ekki séð, að slíku mati hafi verið beitt við afgreiðslu umsókna stefnanda um reynslulausn. 

         Stefnandi byggir einnig á því, að reglugerðina skorti lagastoð. 

         Í reglugerðinni kemur fram, að hún sé sett á grundvelli 2. mgr. 30. gr. l. nr. 48/1988 um fangelsi og fangavist og 40.–42. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Fallast má á með stefnanda, að umrætt ákvæði í 2. mgr. 30. gr. l. nr. 48/1988 veiti einungis almenna heimild til setningar reglugerðar um málefni Fangelsismála­stofnunar ríkisins.  Þá er ekki að finna beina heimild til setningar reglugerðar í tilvitnuðum ákvæðum almennra hegningarlaga.  Skortir reglugerðina þannig skýra lagastoð.  Það leiðir þó ekki til þess, að fangi hefði átt skilyrðislausan rétt á reynslulausn að liðnum tilgreindum tíma, enda eru heimildinni settar skorður í lögunum, og þar til bærum stjórnvöldum falið að meta aðstæður fanga hverju sinni. Það mat, hvort reynslulausn verði heimiluð eða ekki, verður hins vegar að vera málefnalegt og þjóna þeim tilgangi, sem ákvæðinu er ætlað að ná fram, þ.e. að brúa bil refsivistar og fulls frelsis.  Enda þótt litið sé svo á, að umdeilt reglugerðarákvæði, sem til viðmiðunar var við þá ákvörðun, hafi skort lagastoð, má fallast á, að skilyrði þess hafi verið málefnalegt og lotið að því að ná fram markmiði reynslulausnarinnar og samrýmist þannig lagareglum um reynslulausnir og tilgangi þeirra.

        Er því ekki fallizt á, að ákvæðið sjálft eða beiting þess í máli stefnanda byggist á ólögmætum sjónarmiðum.  Þá liggur ekki annað fyrir en að stefnandi hafi hlotið sömu meðferð og aðrir fangar, sem svipað var ástatt um og að sömu sjónarmiðum hafi verið beitt varðandi afgreiðslu á umsókn hans og þeirra.  Er því ekki fallizt á, að ekki hafi verið gætt jafnréttissjónarmiða við afgreiðslu umsóknar hans.

        Ekki er fallizt á, að synjun stefnda í bréfi á dskj. nr. 4 sé órökstudd, en þar er vísað til framangreinds ákvæðis í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma.  Gat stefnanda því ekki blandazt hugur um á hvaða forsendum synjunin var byggð.  Kemur reyndar fram í umsókn hans um reynslulausn á dskj. nr. 3, að hann þekkti umrætt reglugerðarákvæði og gerði sér grein fyrir þýðingu þess.

        Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls, áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni, eða að slíkt sé augljóslega óþarft.

        Fyrir liggur, að afstaða stefnanda og röksemdir hans fyrir því, að honum yrði veitt reynslulausn, lágu fyrir í gögnum hans, og verður því ekki fallizt á, að afgreiðslu á umsókn stefnanda hafi verið ábótavant að þessu leyti.

        Að öllu framangreindu virtu, hefur stefnandi ekki fært að því haldbær rök, að brotinn hafi verið á honum réttur svo bótaskyldu varði við afgreiðslu á umsókn hans um reynslulausn.  Ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.  Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.

        Gjafsóknarkostnaður stefnanda ákveðst kr. 350.000 og greiðist úr ríkissjóði, en þá hefur ekki verið litið til virðisaukaskatts.

        Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

        Stefndi, íslenzka ríkið, skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Péturs Þórs Gunnarssonar, í máli þessu. 

        Málskostnaður fellur niður.

        Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 350.000, greiðist úr ríkissjóði.