Print

Mál nr. 380/2010

Lykilorð
  • Refsiheimild
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 16. september 2010.

Nr. 380/2010.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

Y og

Z

(Þórey S. Þórðardóttir hrl.)

Refsiheimild. Stjórnarskrá.

X, Y og Z voru ákærð fyrir brot gegn 1. mgr. 5. gr. sbr. 21. gr. laga nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat sláturafurða, með því að hafa viðhaft sauðfjárslátrun utan löggilts sláturhúss. Talið var að viðhlítandi lagastoð fyrir því að háttsemi X, Y og Z væri refsiverð skorti, sbr. 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. júní 2010. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærðu verði sakfelld samkvæmt ákæru og þeim ákveðin refsing.

Ákærðu krefjast staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hin áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Þóreyjar S. Þórðardóttur hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 26. maí 2010.

Mál þetta höfðaði lögreglustjórinn á Snæfellsnesi með ákæru 21. janúar 2010 á hendur ákærðu, X, [...] í [...], Y og Z, báðum til heimilis að [...] í [...]. Málið var dómtekið 10. maí sama ár.

Í ákæruskjali segir að málið sé höfðað gegn ákærðu „fyrir ólögmæta sauðfjárslátrun með því að hafa í sameiningu að morgni fimmtudagsins 24. september 2009 slátrað 19 lömbum í sendibíl og gámi aftan við hús nr. [...] við [...] í [...].“ Í ákærunni er einnig tekið fram að 13 lambanna hafi verið í eigu X og 6 í eigu Y. Er þetta talið varða við 1. mgr. 5. gr., sbr. 21. gr. laga um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu og heilbrigðisskoðun og gæðamat sláturafurða, nr. 96/1997.

Í ákæru er þess krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar.

Ákærðu krefjast þess að þau verði sýknuð af kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

I.

Hinn 25. september 2009 bárust lögreglunni í [...] upplýsingar frá Heilbrigðiseftirliti Vesturlands þess efnis að sauðfjárslátrun færi fram í gámi að [...] þar í bæ. Á vettvangi hitti lögregla fyrir fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins og ákærðu. Í gáminum var búið að hengja upp 19 lambskrokka, auk þess sem sami fjöldi var af hausum á borðum inni í gáminum. Einnig voru fjórir álbakkar með innyflum. Í frumskýrslu lögreglu er tekið fram að gámurinn hafi verið snyrtilegur að innan.

Á vettvangi könnuðust ákærðu við að hafa staðið að slátruninni og upplýstu að 13 lömb hefðu verið í eigu ákærða X og 6 í eigu ákærðu Y. Einnig kom fram að gámurinn og húsnæðið væri í eigu fyrirtækisins [...], en ákærðu X og Z eru eigendur þess. Þá kom fram að sama dag um morguninn hefðu lömbin verið sótt í fjárhús og flutt í lokaðri sendibifreið að gáminum. Lömbunum hefði síðan verið slátrað í bifreiðinni með rotbyssu og frágangi verið lokið um hádegisbilið þegar fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins bar að.

Á vettvangi tók lögregla ljósmyndir og innsiglaði gáminn. Einnig var lagt hald á sláturafurðir til eyðingar.

Með bréfi sýslumannsins í Stykkishólmi 29. október 2009 var ákærðu tilkynnt um niðurfellingu málsins þar sem rannsókn málsins hefði ekki leitt í ljós sakargiftir sem líklegar væru til sakfellis. Þeirri ákvörðun skaut Heilbrigðiseftirlit Vesturlands til ríkissaksóknara og felldi hann ákvörðunina úr gildi 7. janúar 2010.

II.

Ákærðu hafa öll fyrir dómi og hjá lögreglu kannast við að hafa í umrætt sinn í sameiningu slátrað lömbunum og gert að þeim. Hjá ákærðu Y kom fram að hún hefði aðallega verið að skilja að innyfli, en ákærði Z kvaðst hafa þvegið kjötið og hengt það upp. Þá sagðist ákærði X hafa slátrað fénu og fláð skrokkana. Hjá þeim öllum hefur komið fram að kjötið hafi eingöngu verið ætlað til eigin neyslu.

III.

Ákærðu hafa öll fyrir dómi staðfest verknaðarlýsingu í ákæru rétta í öllum atriðum. Þau vefengja hins vegar refsinæmi háttseminnar. Af hálfu ákæruvaldsins hefur ekki verið dregið í efa að ákærðu hafi ætlað sláturafurðirnar til eigin neyslu.

Um slátrun dýra sem slátrað er til manneldis gilda lög um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat sláturafurða, nr. 96/1997. Samkvæmt 1. gr. laganna er tilgangur þeirra að tryggja svo sem kostur er gæði, heilnæmi og hollustu sláturafurða, að þær séu ómengaðar og framleiddar við fullnægjandi hreinlætisaðstæður, að þær séu metnar og flokkaðar eftir tegundum og gæðum og að merkingar og upplýsingar séu réttar. Þannig er lögunum ætlað að stuðla að neytendavernd á þessu sviði viðskipta.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna skal slátra í löggiltum sláturhúsum sláturdýrum, þegar flytja á afurðirnar á erlendan markað eða til dreifingar og neyslu innanlands. Frá þessu er þó gerð sú undantekning í 4. mgr. sömu greinar að eigendum lögbýla er heimilt að slátra búfé sínu á sjálfu býlinu til eigin neyslu. Brot gegn lögunum varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum ef sakir eru miklar, sbr. 21. gr. laganna.

Ákvæði 1. mgr. 5. gr. laganna um að slátra skuli í sláturhúsum þegar flytja á afurðir á erlendan markað eða til dreifingar og neyslu innanlands er efnislega samhljóða 1. mgr. 2. gr. eldri laga um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, nr. 30/1966. Með gildandi lögum var lögfest fyrrgreind undantekning sem felur í sér heimild til slátrunar á lögbýlum. Í skýringum við þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að gert sé ráð fyrir að heimaslátrun sé bundin við lögbýli, en slíkt takmörkun sé til þess fallin að draga úr hættu á útbreiðslu smitefna.

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Þessi rótgróna grundvallarregla um lögbundnar refsiheimildir kemur einnig fram í 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga.

Af 1. mgr. 5. gr. laga nr. 96/1997 leiðir að slátra ber í sláturhúsum þegar afurðir eru annars vegar fluttar á erlendan markað og hins vegar til dreifingar og neyslu innan lands. Hér reynir á síðarnefnda atriðið en það er bundið við dreifingu og neyslu afurða hér á landi. Því nær ákvæðið samkvæmt orðalagi sínu ekki til slátrunar þegar afurðum er ekki dreift heldur þær aðeins nýttar til einkaneyslu. Skiptir þá engu þótt ráða megi af lögskýringargögnum að eingöngu hafi verið gert ráð fyrir heimaslátrun á lögbýlum, enda getur gagnályktun frá 4. mgr. 5. gr. laganna ekki haft þau áhrif að 1. mgr. sömu greinar verði skýrð rýmra en ótvírætt orðalag ákvæðisins gefur til kynna. Samkvæmt þessu skortir það skilyrði refsiábyrgðar að háttseminni sé lýst refsinæmri í lögum og verða ákærðu því sýknuð af refsikröfu ákæruvaldsins.

Samkvæmt 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, verður sakarkostnaður felldur á ríkissjóð, svo sem greinir í dómsorði, en þar eru fjárhæðir tilgreindar að meðtöldum virðisaukaskatti.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærðu, X, Y og Z, eru sýknuð af refsikröfu ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu Þóreyjar S. Þórðardóttur, hæstaréttarlögmanns, 200.800 krónur, og ferðakostnaður verjandans 16.452 krónur.