Print

Mál nr. 297/2016

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Guðmundur Þórir Steinþórsson aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Snorri Snorrason hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Lögreglurannsókn
  • Hæfi
  • Sératkvæði
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að haldlagningu farsíma hans yrði aflétt. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að uppfyllt hafi verið skilyrði til þess að leggja hald á farsímann, enda gætu upplýsingar og gögn í símanum haft sönnunargildi og skipt miklu fyrir rannsókn málsins. Hæstiréttur taldi aftur á móti að L hefði brotið gegn friðhelgi einkalífs X með því að rannsaka efni farsíma hans án þess að fyrir lægi dómsúrskurður um þá aðgerð. Taldi Hæstiréttur rannsókn L að þessu leyti aðfinnsluverða.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. apríl 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2016 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að haldlagningu farsíma hans yrði aflétt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að haldlagningu farsímans verði aflétt.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og rakið er í úrskurði héraðsdóms var varnaraðili handtekinn 18. mars 2016 grunaður um að hafa hótað fyrrum unnustu sinni að birta af henni nektarmyndir sem hún hafði sent honum. Við handtökuna var lagt hald á farsíma varnaraðila, en hann neitaði að upplýsa lögreglu um aðgangsorð símans. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila hafi lögreglunni þrátt fyrir það tekist „að komast fram hjá læsingum símans“ og liggur fyrir að hún hefur þegar hlaðið niður og að hluta rannsakað efnisinnihald símans.

Í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Fallist er á með héraðsdómi að uppfyllt hafi verið skilyrði ákvæðisins til þess að leggja hald á farsíma varnaraðila, enda var ljóst strax við handtöku hans að upplýsingar og gögn í símanum gætu haft sönnunargildi og skipt miklu fyrir rannsókn málsins. Þá verður ekki séð að skilyrði séu komin til þess að aflétta haldi, sbr. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008, enda kann farsíminn að verða gerður upptækur með dómi, sbr. a. lið ákvæðisins.

Það athugast að sóknaraðili hefur rannsakað efnisinnihald umrædds farsíma án þess að fyrir liggi samþykki varnaraðila eða dómsúrskurður. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu og má ekki skerða einkalíf manns nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Þótt heimilt sé að haldleggja hlut án dómsúrskurðar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, verður 68. gr. laganna ekki skilin á þann veg að lögregla geti rannsakað efnisinnihald raftækja án þess að fyrir liggi úrskurður dómara. Aðstæður þær sem hér um ræðir eru efnislega sambærilegar þeim sem ákvæði 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. laga nr. 88/2008 taka til og samkvæmt lögjöfnun frá þeim er ljóst að lögregla hefði þurft dómsúrskurð til þess að rannsaka efni farsímans. Samkvæmt þessu hafa aðgerðir sóknaraðila brotið gegn friðhelgi einkalífs varnaraðila. Er rannsókn lögreglu að þessu leyti aðfinnsluverð.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2016.

Mál þetta barst Héraðsómi Reykjaness 21. mars sl. með bréfi sóknaraðila dagsett sama dag. Málið var þingfest 23. mars sl. en frestað að beiðni sóknaraðila í þeim tilgangi að kanna afstöðu kærða frekar. Var málið tekið til úrskurðar þann 11. apríl sl. að málflutningi loknum.

                Sóknaraðili er X, kt. [...], [...], [...].

 Varnaraðili er lögreglustjórinn á Suðurnesjum.

Sóknaraðili krefst þess að lögreglustjóranum á Suðurnesjum verði gert að aflétta haldlagningu á síma af gerðinni [...], sem hald var lagt á þann 18. mars sl. í lögreglumálinu 008-2016-[...]. Þá krefst hann málskostnaðar og að hann verði greiddur úr ríkissjóði.

                Varnaraðili mótmælir kröfu sóknaraðila og krefst að henni verði hafnað.

I

Í greinargerð sóknaraðila með kröfunni kemur fram að kærði hafi verið handtekinn þann 18. mars 2016 og gefið að sök að hafa hótað brotaþola, A, kt. [...], að birta af henni nektarmyndir sem hún hafði sent honum. Við skýrslutöku þann 18. mars sl. hafi kærði neitað að hafa birt myndirnar af brotaþola og að hann hafi hóta birtingu þeirra. Í skýrslutökunni hafi kærði boðið fram aðstoð sína til að opna facebook-aðgang sinn og eyða umræddum myndum. Það hafi verið gert. Engar þessara mynda hafi sýnt kynfæri og andlit á sama tíma. Lögreglan hafi enginn gögn um að umræddar myndir hafi verið birtar og hafi hún ekki lagt fyrir kærða þau samskipti eða orð sem talin séu hafa falið í sér hótun um birtingu.

Með vísan til framangreinds er mjög óljóst að einhvers konar hegningarlagabrot hafi verið framið, hvað þá að það hafi verið fullframið. Engu að síður hafi sími kærða verið haldlagður á grundvelli 68. gr. laga nr. 88/2008.

Vísar sóknaraðili til til 2. mgr. 102., sbr. 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Sóknaraðili vísar til s. mgr. 71. gr. stjórnarskrár Íslands og 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Segir í greinargerðinni að í umræddum síma sé mikið  magn persónuupplýsinga sem ekkert tengist því lögreglumáli sem sé til rannsóknar og engar upplýsingar í málinu liggi fyrir sem bendi til þess að aðrar myndir af brotaþola séu í símanum. Þeim myndum sem kæruefnið varði hafi verið eytt og til vitnis um það séu B rannsóknarlögreglumaður og undirritaður lögmaður. Bendir sóknaraðili m. a. á að kærði kynni að hafa samþykkt að framvísa aðeins samskiptum sínum við brotaþola ef eftir því hefði verið leitað. Í stað þess krefjist lögregla aðgangs að símanum í heild sinni án þess að séð verði að kæruefnið og fyrirliggjandi gögn gefi nægilegt tilefni til þess. Sér í lagi þegar til þess er horft að kærði hafi eytt þeim myndum sem sakarefni málsins varðar.

Kveður sóknaraðili lögreglu ekki hafa heimild til að fara inn í síma kærða án dómsúrskurðar liggi samþykki kærða ekki fyrir. Í 68. gr. laga nr. 88/2008 sé opin heimild fyrir lögreglu að leggja hald á muni án takmarkana en ákvæðið þannig orðað brjóti í bága við friðhelgi einkalífsins og 71. gr. Stjórnarskrár Íslands svo og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem hafi lagagildi hér á landi. Þannig hafi lögreglan opna heimild og geti ákveðið sjálf hvað hún rannsaki.

II

Í greinargerð varnaraðila kemur fram að brotaþoli hafi kært til lögreglu þann 18. mars sl. hótanir kærða um að birta opinberlega þær myndir sem hann átti af henni og þá gefið til kynna með ýmsum hætti að hann hafi þá þegar birt af henni nektarmyndir. Forsaga málsins sé að haustið 2014 hafi kærandi og kærði byrjað í sambandi sem hafi enst fram á árið 2015. Á því tímabili hafi þau skipst á nektarmyndum. Kærandi hafi skýrt lögreglu frá því að kærði hafi reglulega haft í hótunum við hana um að birta opinberlega þær myndir sem hann hafi átt af henni og þá hafi hann gefið til kynna að með ýmsum hætti að hann hafi þá þegar birt af henni nektarmyndir.

Við handtöku kærða hafi verið lagt hald á farsíma kærða. Við skýrslugjöf hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt að eiga nektarmyndir af brotaþola enda hafi hún sent honum þær myndir sjálf. Kærði neiti því hins vegar að hafa birt þær myndir og hafi ekki hótað að gera það. Þá hafi kærði neitað að gefa lögreglu aðgang að símanum en síminn væri læstur. Við rannsókn á símanum hafi tölvudeild lögreglu náð að komast fram hjá læsingu símans og sé því rannsókn hafin á honum. Rannsóknin sé á algjöru frumstigi og þyki lögreglu nauðsynlegt að halda símanum til að rannsaka hann frekar. Þó hafi komið fram gögn í símanum sem styðji framburð brotaþola um að kærði hafi hótað því að birta af henni nektarmyndir sem og hafi gefið til kynna að hann hafi þegar gert það. Þá hafi rannsókn símans rennt stoðum undir það að kærði hafi einnig brotið gegn 210. gr. a almennra hegningar laga þ.e. að hafa í vörslu sinni ljósmyndir sem sýni börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.

Kærandi hafi skýrt í skýrslu hjá lögreglu 21. mars sl. frá langvarandi og ítrekuðum hótunum um birtingu mynda sem kærði átti af kæranda nakinni. Þá hafi hún skýrt frá því að kærði hafi áreitt hana eftir að sambandi þeirra lauk með margítrekuðum skilaboðasendingum og hótunum um sjálfsvíg vef hún svaraði honum ekki og veitti honum athygli. Kærandi hafi sagt að kærði hefði, auk þess að hóta því að birta nektarmyndir af henni, margsinnis gefið það til kynna að hann hafi þegar birt myndirnar á ýmsan hátt. Þá hafi hún einnig skýrt frá því að kærði hafi stofnað bloggsíðu þar sem hann segi frá vandræðalegum augnablikum í lífi kæranda. Kærandi hafi ekki vitað til þess að kærði hafi í raun og veru birt umræddar myndir en kvaðst hafa óttast það í hvert sinn sem kærði hafi sagst hafa gert það. Lögreglan hafi lagt hald á síma kærða og hafi tölvurannsóknardeild komist fram hjá læsingum símans og sé því rannsókn á honum hafin. Rannsóknin sé þó á algjöru frumstigi og þyki lögreglu nauðsynlegt að halda símanum til að rannsaka hann áfram. Þótt rannsóknin sé á frumstigi hafi þegar komið fram gögn sem styðji framburð brotaþola um að sakborningur hafi hótað því að birta af henni nektarmyndir sem og að hafa gefið til kynna að hann hafi þegar gert það. Þá hafi rannsókn símans rennt stoðum undir það að sakborningur hafi einnig brotið gegn 210. gr. a. almennra hegningarlaga, þ.e. að hafa í vörslu sinni ljósmyndir sem sýni börn á kynferðislegan eða klámfengin hátt.

III

Í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 segir að leggja skuli hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla megi að þeir ellegar hlutir eða upplýsingar sem þeir hafi að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Í 2. mgr. segir að nú sé þess kostur að tryggja sönnun í því skyni sem í 1. mgr. segir án þess að leggja þurfi hald á mun og skuli þá þess í stað beina því til eiganda eða vörsluhafa munarins að veita aðgang að honum eða láta í té upplýsingar, sem hann hafi að geyma, svo sem með því að afhenda afrit af skjali eða annars konar upplýsingum. Í 1. mgr. 69. gr. laganna segir að lögreglu sé heimilt að leggja hald á muni án dómsúrskurðar sbr. þó 2. mgr. sem kveður á um það að séu munir í eigu þriðja manns verði ekki lagt hald á þá nema með úrskurði eða ótvíræðu samþykki eiganda eða vörsluhafa.

Í greinargerð með 1. mgr. 68. gr. segir m.a. að með tilvísun til upplýsinga sem munur hafi að geyma, sé t.d. átt við tölvu. Tölvan sjálf hafi sjaldnast sönnunargildi heldur eigi það við þær rafrænu upplýsingar sem þar sé að finna. Um 2. mgr. segir að stundum sé mögulegt að ná því meginmarkmið, sem að sé stefnt með því að leggja hald á mun, þ.e. að tryggja sönnun í sakamáli, með öðru og vægara móti. Á þann hátt sé unnt að komast hjá því tjóni og óhagræði sem af því leiði að hald sé lagt á mun. Sé þess á annað borð kostur sé til þess ætlast samkvæmt ákvæðinu að í stað þess að leggja hald á mun beini lögregla því til eiganda eða vörslumanns munar að veita aðgang að honum þannig að skoða megi hann og taka af honum myndir í þágu rannsóknar. Einnig að láta í té upplýsingar, sem hlutur hefur að geyma, endurrit af rafrænum upplýsingum úr tölvu.

IV

Eins og gögn málsins bera með sér, liggur fyrir grunur um að kærði hafi gerst brotlegur gegn hegningarlögum. Í gögnum málsins liggur fyrir fjöldi ljósmynda af kæranda nakinni auk ummæla af spjalli þeirra. Í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 segir að leggja skuli hald á mundi ofl. ef þeir hafa sönnunargildi í sakamáli. Í máli þessu er þegar ljóst að lögregla hefur fundið ljósmyndir og textaskilaboð sem varðað geta við refsilög í farsíma kærða. Kærði hefur einnig viðurkennt að hafa haft í vörslum sínum nektarmyndir af kæranda.

Sóknaraðili byggir á því að orðalag 68. gr. laga nr. 88/2008 sé svo opið að það brjóti í bága við friðhelgi einkalífsins sem bundið sé í Stjórnarskrá Íslands og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Þá hafi kærði eytt ljósmyndum í viðurvist lögreglu af facebook reikningi sínum. Lögregla hafi ekki heimild til að skoða innihald síma kærða nema að undangengnum dómsúrskurði. Slíkt gildi um húsleitir en símar í dag innihaldi miklu meira um persónulega hagi eigenda en finnist á heimilum almennt. Í 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 segir að lögreglu sé heimilt að leggja hald á muni án dómsúrskurðar sbr. þó 2. mgr. en þar er heimild til að leggja hald á muni þriðja manns með dómsúrskurði nema samþykki hans liggi fyrir. Eiga þessi rök sóknaraðila því ekki við í máli þessu.

Sóknaraðili vísar einnig til 80. gr. laga nr. 88/2008 um símahlustun og önnur sambærileg úrræði. Heimild í 68. gr. laganna verður ekki jafnað við heimildir og skilyrði XI. kafla laga nr. 88/2008 um upplýsingar úr símum, hlerum ofl. eins og kærði byggði á í málflutningi sínum, þ.e. að lögregla þurfi úrskurð dómara til að geta skoðað innihald tölvu eða snjallsíma við rannsókn sakamála.

Þá verður ekki tekið undir það með sóknaraðila að 71. gr. Stjórnarskrárinnar Íslands né 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu verndi önnur gögn við rannsókn sakamáls en þau sem kærði sjálfur kýs að sýna lögreglu. Kveður sóknaraðili opna heimild lögreglu til að skoða allt sem í farsíma geti fundist, skerða mjög persónufrelsi og rétt aðila til friðhelgi einkalífs. Það verði aldrei bætt með peningum.

Haldlagning getur vissulega skert friðhelgi og einkalíf manna og verður heimildinni því ekki beitt nema gætt sé meðalhófs og rannsókn máls sé forsvaranleg að öðru leyti. Til að vega upp á móti slíkum óþægindum og mögulegu tjóni sem menn geta orðið fyrir eru rúm ákvæði um skaðabætur vegna meðfarðar sakamála í XXXVII. kafla laganna.

Eins og mál þetta er vaxið telur dómurinn rannsóknarhagsmuni enn vera til staðar þar sem rannsókn málsins er enn í fullum gangi og heimild sé til staðar í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 til að haldleggja umræddan síma í þeim tilgangi að afla hugsanlegra sönnunargagna. Fer sú heimild ekki gegn 71. gr. Stjórnarskrár Íslands né 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins þykir varnaraðili hafa sýnt fram á að þær rannsóknaraðgerðir sem m.a. felast í því að rannsaka innihald farsíma kærða, geti haft þýðingu og skipt miklu fyrir yfirstandandi rannsókn. Eru samkvæmt ofansögðu ekki skilyrði til að fella haldlagninguna niður.  Verður því að hafna kröfu kærða í máli þessu. Málskostnaður verður ekki dæmdur.

Úrskurð þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Kröfu sóknaraðila X um að lögregla aflétti haldlagningu á farsíma hans er hafnað.