Print

Mál nr. 193/2000

Lykilorð
  • Kærumál
  • Frestur
  • Stjórnarskrá

Miðvikudaginn 17

 

Miðvikudaginn 17. maí 2000.

Nr. 193/2000.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Andrési Ingibergssyni

Guðmundi Ragnarssyni

Gunnlaugi Ingibergssyni

Herbirni Sigmarssyni

Júlíusi Kristófer Eggertssyni

Nadiu Björgu Tamimi

Ólafi Ágústi Ægissyni

Sverri Þór Gunnarssyni

Þóreyju Evu Einarsdóttur

Haraldi Ægi Hraundal Ægissyni

Heiðari Þór Guðmundssyni

Karli Henry Hákonarsyni

Lárusi Borgari Jónssyni

Magnúsi Daða Magnússyni

Rúnari Ben Maitsland

Valgarð Heiðari Kjartanssyni

Arnari Þór Helgasyni

Helga Val Georgssyni og

Ingvari Árna Ingvarssyni

(enginn)

             

Kærumál. Frestun. Stjórnarskrá.

Ákvörðun héraðsdómara um upphaf aðalmeðferðar opinbers máls var felld úr gildi, þar sem ráðið varð að unnt væri að hefja aðalmeðferð málsins talsvert fyrr en ráðgert var í ákvörðuninni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. maí 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærð er ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2000 um að aðalmeðferð málsins skuli hefjast 11. september nk. kl. 9.15. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að hefja aðalmeðferð innan hæfilegs tíma, en þó ekki síðar en 15. júní  nk.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I.

Málið var tekið fyrir áðurgreindan dag á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð var af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara. Var meðal annars eftirfarandi þar fært í þingbók: „Fulltrúi ákæruvaldsins hefur nú dreift í réttinum vitnalista ákæruvaldsins, en samkvæmt honum verða leidd undir aðalmeðferð málsins meira en 30 vitni. Verjendur hafa ekki endanlega tekið afstöðu til þess að þeir óski eftir að leiða vitni. Samkvæmt áætlun ákæruvaldsins munu skýrslutökur í málinu taka meira en 1 viku. Gera verður ráð fyrir því að sá tími verði mun lengri þegar spurningar verjenda og dómenda eru hafðar í huga. Þá kom fram við þingfestingu málsins, að margir hinna ákærðu neita sök að hluta eða öllu leyti. Reynslan sýnir að mál taka lengri tíma er þannig stendur á. Öll skjöl málsins bárust dóminum ekki fyrr en síðastliðinn föstudag. Þótt hluti skjala hafi borist fyrr, fylgdi einungis hluti frumskjala með bréfi til dómsins dags. 19. apríl sl., sbr. dskj. nr. 1. Úrlausn fyrirliggjandi verkefna hjá dómendum tekur vikur. Framlögð skjöl eru gríðarlega umfangsmikil og lestur þeirra hlýtur að taka vikur. Samning dóms í málinu mun fyrirsjáanlega taka margar vikur. Þegar allt ofanritað er haft í huga þykir einsýnt að meðferð málsins mun standa yfir mesta hluta sumarsins og raska þannig löngu ákveðnu sumarleyfi margra. Dómarinn ákveður því að aðalmeðferð málsins hefjist mánudaginn 11. september n.k. kl. 09:15 í dómsal 101.“

Kæra sóknaraðila lýtur að síðastgreindri ákvörðun.

Héraðsdómari hefur komið á framfæri athugasemdum vegna kærunnar í bréfi til Hæstaréttar 15. maí sl.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991 ákveður dómari í þinghaldi hvenær aðalmeðferð máls skuli háð, en þá skulu að jafnaði fara fram í einni lotu skýrslutökur og munnlegur málflutningur. Þessu ákvæði verður að beita í samræmi við meginreglu 1. mgr. 133. gr. laganna um að hraða skuli meðferð máls eftir föngum, þannig að leyst sé úr ákæru um refsiverða háttsemi innan hæfilegs tíma, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Verður og að gæta að því að samkvæmt 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, skal maður aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

Samkvæmt því, sem fram er komið af hálfu sóknaraðila, sæta níu varnaraðilar nú gæsluvarðhaldi vegna málsins. Af framangreindri bókun héraðsdómara í þingbók verður ráðið að unnt væri að hefja aðalmeðferð málsins talsvert fyrr en 11. september nk. Með hliðsjón af því, sem að framan greinir, verður ekki fallist á að röskun á sumarleyfum geti talist viðhlítandi ástæða til að fresta aðalmeðferð málsins lengur en nauðsyn ber til. Verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Eins og málið hefur verið lagt fyrir Hæstarétt er hins vegar ekki unnt að leggja mat á hvort héraðsdómara megi vera fært að hefja aðalmeðferð innan þess tíma, sem sóknaraðili krefst. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila að því leyti.

Dómsorð:

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi.