Print

Mál nr. 671/2011

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Ómerking ummæla
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 14. júní 2012.

Nr. 671/2011.

Jón Bjarki Magnússon

(Ólafur Örn Svansson hrl.)

gegn

Margréti Lilju Guðmundsdóttur

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Ómerking ummæla. Miskabætur.

M höfðaði mál gegn blaðamanninum J og krafðist ómerkingar ummæla sem birst höfðu í þremur tölublöðum DV. J krafðist sýknu og hélt því m.a. fram að ummælin væru ekki ærumeiðandi, sum þeirra væru höfð eftir öðrum og aðrar væru beinar tilvitnanir í eldri blaðagrein. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um ómerkingu ellefu ummæla þar sem í þeim hefðu falist ærumeiðandi aðdróttanir í garð M í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hvað varðar ummæli sem tekin voru úr grein er birst hafði í dagblaði árið 1987 þótti fram komið að þegar J skrifaði sína grein hefði hann haft undir höndum dóm sakadóms Reykjavíkur frá árinu 1987 og hefði niðurstaða dómsins ekki verið í samræmi við ummælin. Því gat J ekki hafa verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla sem hann birti í grein sinni um málefnið. J var á hinn bóginn sýknaður af kröfu um ómerkingu tveggja ummæla sem lutu að líkamsárás á öryggisvörð. Þá voru miskabætur lækkaðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2011. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi krafðist stefnda ómerkingar 19 ummæla sem birtust í þremur blaðagreinum í DV 17., 20. og 24. september 2010. Áfrýjandi er nafngreindur sem höfundur greinanna og var hann með hinum áfrýjaða dómi talinn bera ábyrgð á efni þeirra samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt sem giltu um ábyrgð á efni rita, þar á meðal dagblaða, þegar fyrrgreindar greinar voru birtar.

Svo sem lýst er í héraðsdómi eiga ummælin rót sína að rekja til erja sem átt hafa sér stað undanfarin ár milli nágranna við Aratún 34 og Aratún 36 í Garðabæ, en stefnda er búsett í fyrrgreinda húsinu. Samkvæmt gögnum málsins hefur verið töluvert fjallað um deilur þessar á netinu og í fjölmiðlum. Ummælin lúta einkum að ámælisverðri hegðan stefndu og eiginmanns hennar, annars vegar gagnvart núverandi nágrönnum sínum og hins vegar fyrrum nágrönnum þeirra á árum áður. Þá varða sum ummælanna ætlaða háttsemi stefndu, eiginmanns hennar og sonar þeirra gagnvart öryggisverði í verslun 11. apríl 2009.

Með héraðsdómi voru 13 af þessum ummælum dæmd ómerk, en þau eru greind í þremur kröfuliðum eftir því hvenær þau birtust í dagblaðinu.

Ummæli í grein 17. september 2010:

A 1.       „Margdæmd Aratúnshjón.“

B 1.       „... og kona hans Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sem búsett eru í Aratúni í Garðabæ og sökuð hafa verið um gróft ofbeldi gegn nágrönnum sínum, voru árin 1978 og 1987 dæmd fyrir líkamsárásir.“

C 1.       „Hjónin eru með nokkurn feril ákærumála á bakinu.“

D 1.       „Fyrr í sumar voru Sigurður, Margrét og börn þeirra sökuð um að hafa ráðist á Brynju Arnardóttur Scheving, mann hennar Karl Jóhann Guðsteinsson og ungabarn þeirra við heimili þeirra í Aratúni.“

F 1.        „Auk þessarar árásar kærði konan þau hjón fyrir að hafa hellt lími yfir bifreið hennar.“

G 1.       „Tildrög málsins voru þau að hjónin sátu fyrir konunni og kipptu henni inn í íbúð sína og fóru með inn í baðherbergi þar sem þau köstuðu henni ofan í baðker, sprautuðu köldu vatni á hana, börðu og misþyrmdu kynferðislega.“

I 1.         „Hjónin eru með nokkurn feril kæru- og dómsmála á bakinu en í dómsskjölum sem DV hefur undir höndum kemur fram að 5. maí 1978 hafi þau bæði greitt sektir fyrir að ganga í skrokk á manni á Klúbbnum 28. ágúst árið 1977.“

L 1.        „Samkvæmt öruggum heimildum DV liggur nú inni kæra hjá ríkissaksóknara vegna ásakana um árás þeirra hjóna og sonar þeirra á öryggisvörð í Fjarðarkaupum ...“

M 1.       „Í kjölfarið hófst atburðarás sem leiddi til þess að hann kærði þau til lögreglu fyrir grófa líkamsárás.“

Ummæli í grein 20. september 2010:

A 2.       „Eins og fram kom í helgarblaði DV eiga Aratúnshjónin, Sigurður Stefánsson og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sér sögu ofbeldisverka og ofsókna.“

Ummæli í grein 24. september 2010:

A 3.       „... eftir að hafa í tvígang orðið fyrir aðkasti og ofbeldi af hálfu Aratúnshjónanna svokölluðu, þeirra Sigurðar Stefánssonar og konu hans Margrétar Lilju Guðmundsdóttur.“

B 3.       „Hjónin eru með nokkurn feril ákærumála á bakinu ...“

C 3.       „Aratúnshjónin ... eiga sér langa sögu ákærumála ...“

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á niðurstöðu hans um ómerkingu ummæla í stafliðum A 1, B 1, C 1, D 1, I 1, A 2, A 3, B 3 og C 3.

Ummælin í liðum F 1 og G 1 eru tekin úr grein er birtist í dagblaðinu Tímanum á árinu 1987. Fram er komið að þegar áfrýjandi ritaði grein sína 17. september 2010 hafði hann undir höndum dóm sakadóms Reykjavíkur frá árinu 1989 og var niðurstaða dómsins ekki í samræmi við ummælin. Samkvæmt því gat áfrýjandi ekki verið í góðri trú um sannleiksgildi þeirra ummæla sem hann birti í grein sinni um málefnið. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu þeirra.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 10. maí 2011 var eiginmaður stefndu dæmdur í 45 daga fangelsi og sonur hennar í 30 daga fangelsi fyrir líkamsárás 11. apríl 2009 samkvæmt 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing þeirra bundin almennu skilorði. Samkvæmt dóminum voru málsatvik þau að öryggisvörður í Fjarðarkaupum hugðist hafa tal af stefndu vegna þess að hann taldi hana hafa tekið vörur úr versluninni ófrjálsri hendi. Skipti þá engum togum að eiginmaður stefndu og sonur réðust á öryggisvörðinn, jafnframt því sem sá fyrrnefndi réðist gegn öðrum manni er hugðist koma öryggisverðinum til hjálpar. Umþrætt ummæli í liðum L 1 og M 1 lúta að fullyrðingu áfrýjanda um að öryggisvörðurinn hafi kært stefndu til lögreglu fyrir aðild að líkamsárásinni. Stefnda var hvorki yfirheyrð sem grunuð hjá lögreglu né ákærð vegna þessa. Við meðferð málsins í héraði var bókað í þingbók að af hálfu stefndu væri ekki vefengt að í umræddri blaðagrein áfrýjanda væri rétt haft eftir öryggisverðinum um efni kæru hans. Þá lýsti lögmaður stefndu því jafnframt yfir fyrir Hæstarétti að ekki væri andmælt staðhæfingu áfrýjanda um að öryggisvörðurinn hafi kært stefndu til lögreglu fyrir líkamsárás. Samkvæmt þessu og að virtum aðdraganda áðurnefnds sakamáls verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefndu um ómerkingu ummæla í liðum L 1 og M 1.

Fallist er á kröfu stefndu um birtingu forsendna og niðurstöðu þessa dóms. Skal sú birting vera í síðasta lagi í öðru tölublaði DV sem kemur út eftir uppsögu dómsins, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 57/1956, sem var í gildi er umræddar greinar birtust í blaðinu.

Framangreind ummæli sem ómerkt verða eru til þess fallin að valda þeim miska sem fyrir þeim verður, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verða miskabætur ákveðnar 300.000 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Framangreind ummæli í kröfuliðum A 1, B 1, C 1, D 1, F 1, G 1, I 1, A 2, A 3,  B 3 og C 3 skulu vera ómerk.

Birta skal forsendur og niðurstöður þessa dóms í síðasta lagi í öðru tölublaði DV, sem út kemur eftir uppsögu dómsins.

Áfrýjandi, Jón Bjarki Magnússon, greiði stefndu, Margréti Lilju Guðmundsdóttur, 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. nóvember 2010 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefndu samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. október 2011.

Mál þetta, sem var dómtekið 27. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Margréti Lilju Guðmundsdóttur, Aratúni 34, Garðabæ á hendur Jóni Bjarka Magnússyni, Kristnibraut 75, Reykjavík, með stefnu birtri 22. október 2010.

Dómkröfur stefnanda

1.       Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til O, sem birt voru á blaðsíðum 16 og 17 í DV, föstudaginn 17. september 2010, „og stefndi ber ábyrgð á samkvæmt 2. mgr. 15. gr. prentlaga nr. 57/1956,“ verði dæmd dauð og ómerk.

A.      Margdæmd Aratúnshjón.

B.      ... og kona hans Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sem búsett eru í Aratúni í Garðabæ og sökuð hafa verið um gróft ofbeldi gegn nágrönnum sínum, voru árin 1978 og 1987 dæmd fyrir líkamsárásir.

C.      Hjónin eru með nokkurn feril ákærumála á bakinu.

D.      Fyrr í sumar voru Sigurður, Margrét og börn þeirra sökuð um að hafa ráðist á Brynju Arnardóttur Scheving, mann hennar Karl Jóhann Guðsteinsson og ungabarn þeirra við heimili þeirra í Aratúni.

E.       Sigurður og Margrét voru árið 1987 dæmd fyrir líkamsárás þar sem sannað taldist að þau hefðu fært konu á þrítugsaldri ofan í baðkar og sprautað yfir hana vatni eins og það er orðað í dóminum. Sigurður og Margrét voru dæmd í 15 daga skilorðsbundið fangelsi ...

F.       Auk þessarar árásar kærði konan þau hjón fyrir að hafa hellt lími yfir bifreið hennar.

G.      Tildrög málsins voru þau að hjónin sátu fyrir konunni og kipptu henni inn í íbúð sína og fóru með inn í baðherbergi þar sem þau köstuðu henni ofan í baðker, sprautuðu köldu vatni á hana, börðu og misþyrmdu kynferðislega.

H.      Taktu hitt augað á honum líka.

I.        Hjónin eru með nokkurn feril kæru- og dómsmála á bakinu en í dómsskjölum sem DV hefur undir höndum kemur fram að 5. maí 1978 hafi þau bæði greitt sektir fyrir að ganga í skrokk á manni á Klúbbnum 28. ágúst árið 1977.

J.        Þá sagði fórnarlambið fyrir dómi að hann hefði heyrt kvenmann kalla: „Taktu hitt augað á honum líka”.

K.      Kæra hjá ríkissaksóknara.

L.       Samkvæmt öruggum heimildum DV liggur nú inni kæra hjá ríkissaksóknara vegna ásakana um árás þeirra hjóna og sonar þeirra á öryggisvörð í Fjarðarkaupum ...

M.     Í kjölfarið hófst atburðarás sem leiddi til þess að hann kærði þau til lögreglu fyrir grófa líkamsárás.

N.      Hjón misþyrma þrítugri konu.

O.      Hrottalegri árás lýst í Tímanum árið 1987 birtist umfjöllun um hrottalega árás þeirra hjóna á þrítuga konu. Þau voru síðan dæmd fyrir árásina.

2.       Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í staflið A, sem birt voru á blaðsíðu 8 í DV, mánudaginn 20. september 2010, „og stefndi ber ábyrgð á samkvæmt 2. mgr. 15. gr. prentlaga nr. 57/1956,“ verði dæmd dauð og ómerk.

A.      Eins og fram kom í helgarblaði DV eiga Aratúnshjónin, Sigurður Stefánsson og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sér sögu ofbeldisverka og ofsókna.

3.       Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til C, sem birt voru á blaðsíðu 18-20 í DV, föstudaginn 24. september 2010, „og stefndi ber ábyrgð á samkvæmt 2. mgr. 15. gr. prentlaga nr. 57/1956,“ verði dæmd dauð og ómerk.

A.      ... eftir að hafa í tvígang orðið fyrir aðkasti og ofbeldi af hálfu Aratúnshjónanna svokölluðu, þeirra Sigurðar Stefánssonar og konu hans Margrétar Lilju Guðmundsdóttur.

B.      Hjónin eru með nokkurn feril ákærumála á bakinu ...

C.      Aratúnshjónin svokölluðu eiga sér langa sögu ákærumála ...

4.       Gerð er krafa um að stefndi, verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.000.000 kr. í miskabætur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 28. nóvember 2010 til greiðsludags.

5.       Þess er krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 400.000 kr. til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum.

6.       Þess er krafist að forsendur og dómsorð dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði DV eftir að dómur gengur, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt

7.       Þá er þess einnig krafist að stefndi verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Málavextir

Málsatvik eru á þá leið að í júlí 2010 hóf DV að fjalla um stefnanda vegna deilna stefnanda og fjölskyldu hennar við nágranna sína í Aratúni í Garðabæ. DV birti fréttir þar sem stefnandi telur hallað á sig. Fréttir þessar voru birtar í DV eða á DV.is og voru höfundar ýmist stefndi eða ritstjórn DV. 

Með bréfi, dags. 10. september 2010, til ritstjórnar DV var þess krafist að blaðið myndi biðjast afsökunar og leiðrétta umfjöllunina um stefnanda og fjölskyldu hennar. Að öðrum kosti yrði höfðað dómsmál á hendur stefnda og eftir atvikum ritstjórum DV. Ekki var við því orðið.

Á næstu dögum, 17. til 24. september 2010, birtust fleiri umfjallanir um stefnanda og fjölskyldu hennar. Jafnframt voru birtar myndir af heimili stefnanda og bifreið á forsíðu DV í tvígang. Þá kveður stefnandi að fastur borði hafi verið á forsíðu vefsvæðisins www.dv.is í margar vikur sem bar heitið „Ofsóknir Aratúnshjóna“ og ef smellt var á borðann birtust allar fréttir DV og DV.is um málið en þær voru alls tólf.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi vegið með alvarlegum hætti að stefnanda með ummælum um hana í DV. Í umfjöllun stefnda um stefnanda í heild, einstökum ummælum, fyrirsögnum og framsetningu efnis felist ærumeiðandi aðdróttanir í hennar garð.

Í umfjöllun stefnda um stefnanda sé því ítrekað haldið fram að stefnandi hafi gerst sek um líkamsárásir, kynferðisbrot, eignaspjöll, ofsóknir og ofbeldi gegn barni, en margra ára fangelsi liggi við þessum brotum að íslenskum lögum, sbr. 217., 218. og 257. gr. XXII. kafla almennra hegningarlega nr. 19/1940 og 99. gr. barnaverndarlega nr. 80/2002. Stefndi haldi því einnig ítrekað fram að stefnandi sé margdæmdur ofbeldismaður sem eigi sér langa sögu ákærumála.

Ásakanir stefnda í garð stefnanda eigi ekki við rök að styðjast. Stefnandi og fjölskylda hennar hafi á undanförnum mánuðum átt í útistöðum við nágranna sína og séu þær deilur hvorugum til sóma, en þær snúist um byggingu bílskúrs við Aratún 36. Það sé hins vegar af og frá að stefnandi hafi brotið gegn nágrönnum sínum í Aratúni 36 með þeim hætti sem stefndi hafi haldið fram í DV.

Fyrir áratugum síðan hafi stefnandi hlotið dóm í sakadómi Reykjavíkur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og hafi síðan gengist undir réttarsátt vegna annars samkynja brots. Þessir fortíðardraugar stefnanda eigi hins vegar ekkert erindi við almenning í dag.

Stefnandi sé ekki með sakarferil eins og sjá megi á framlögðu sakavottorði. Engin mál viðvíkjandi stefnanda séu til rannsóknar hjá lögreglu, hvorki mál vegna ofbeldisbrota né önnur mál. Ummæli stefnda um stefnanda séu því úr lausu lofti gripin og ekki sannleikanum samkvæmt. Því sé ekkert sem réttlæti umfjöllun stefnda um stefnanda.

Ærumeiðandi ummæli stefnda um stefnanda megi flokka með eftirfarandi hætti: Í fyrsta lagi ásakanir stefnda um nýframin hegningarlagabrot og brot stefnanda á barnaverndarlögum gagnvart nágrönnum sínum í Aratúni 36, Garðabæ. Í öðru lagi meinta líkamsárás stefnanda á öryggisvörð í Fjarðarkaupum og fullyrðingar stefnda þess efnis að ríkissaksóknari sé með kæru á hendur stefnanda til meðferðar. Í þriðja lagi hegningarlagabrot stefnanda gagnvart fyrri nágrönnum sínum. Í fjórða lagi mikinn fjölda dóms- og ákærumála stefnanda. Í fimmta lagi umfjöllun stefnda um margra áratuga gamla réttarsátt og refsidóm stefnanda.

Við skoðun á fréttaflutningi DV og greinarskrifum stefnda um stefnanda sé ljóst að stefndi og DV hafi farið offari í fréttaflutningi sínum af stefnanda og hafi umfang umfjöllunarinnar ekki verið í neinu samhengi við tilefnið sem séu nágrannadeilur tveggja fjölskyldna í Garðabæ.

Um brot gegn nágrönnum í Aratúni. Stefndi haldi því ítrekað fram í umfjöllun sinni um stefnanda í DV að stefnandi hafi gerst sek um alvarleg ofbeldisbrot gagnvart nágrönnum sínum í Aratúni 36, Garðabæ, sbr. ummæli í stafliðum B og D í kröfulið 1 og staflið A í kröfulið 3, en þar fullyrði stefndi að stefnandi hafi í tvígang ráðist á nágranna sína og barnunga dóttur þeirra og beitt þau ofbeldi. Stefndi staðhæfi jafnframt að ofbeldið sem stefnandi beitti hafi verið gróft.

Með hinum tilvitnuðu ummælum sé stefnanda gefið að sök refsiverð háttsemi sem varði við 217. og/eða 218. gr. almennra hegningarlaga og brot á 99. gr. barnaverndarlaga og margra ára fangelsi liggi við samkvæmt íslenskum lögum. Þessar ásakanir stefnda séu úr lausu lofti gripnar enda hafi stefnandi ekki gerst sek um slíka háttsemi í garð framangreindra nágranna sinna og hafi ekki verið kærð fyrir ofbeldisbrot né nokkur önnur brot um margra áratuga skeið.

Um öryggisvörðinn í Fjarðarkaupum – kæra hjá ríkissaksóknara. Stefndi fullyrði í ummælum sínum í stafliðum K, L og M í kröfulið 1 að stefnandi hafi gerst sek um og verið kærður til ríkissaksóknara vegna grófrar líkamsárásar á öryggisvörð í Fjarðarkaupum. Hér ásaki stefndi stefnanda á nýjan leik um grófa líkamsárás sem varði við 217. eða 218. gr. almennra hegningarlaga og margra ára fangelsi liggi við samkvæmt íslenskum lögum. Sem fyrr eigi ásakanir stefnda í garð stefnanda ekki við rök að styðjast, en stefnandi hafi aldrei gerst sek um líkamsárás á öryggisvörð í Fjarðarkaupum og engar kærur vegna líkamsárása eða annarra ofbeldisbrota stefnanda séu til meðferðar hjá ríkissaksóknara eða lögreglu.

Um brot gegn öðrum nágrönnum stefnanda. Árið 1989 hafi stefnandi hlotið dóm í sakadómi Reykjavíkur, sbr. mál dómsins nr. 330-331/1989, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing stefnanda hafi, með vísan til aðdraganda atburða, sem hafi leitt til líkamsárásar stefnanda, verið ákveðin varðhald í 15 daga skilorðsbundið til þriggja ára.

Með vísan til aðdraganda atburða hafi dómurinn verið að vísa til þess að brot stefnanda gagnvart brotaþola hafi verið framið eftir að brotaþoli hafi kastað stól í gegnum eldhúsgluggann hjá stefnanda, ruðst inn á heimili hennar, slegið tengdaföður hennar í andlitið og brotið í honum tönn. Allt komi þetta fram í dómi sakadóms Reykjavíkur en þess hafi ekki verið getið í umfjöllun stefnda um stefnanda í DV. Þvert á móti hafi umfjöllun stefnda um stefnanda verið færð í stílinn og aukið við alvarleika málsins og stefnanda gefið að sök refsiverð háttsemi sem hún hafi ekki gerst sek um og hafi ekki verið sakfelld fyrir í dómi sakadóms Reykjavíkur.

Stefndi haldi því fram í ummælum sínum um stefnanda í staflið G í kröfulið 1 að stefnandi og eiginmaður hennar hafi setið fyrir brotaþola, kippt honum í íbúð stefnanda þar sem brotaþoli hafi verið laminn og honum misþyrmt kynferðislega. Þessi ummæli eigi sér enga stoð í niðurstöðu sakadóms Reykjavíkur, þar sem stefnandi sé sakfelld fyrir að hafa ásamt eiginmanni sínum fært brotaþola ofan í baðker og sprautað yfir hann vatni. Ásakanir stefnda þess efnis að stefnandi hafi lamið brotaþola og misþyrmt honum kynferðislega séu því úr lausu lofti gripnar og feli í sér ásakanir um alvarlega refsiverða háttsemi sem margra ára fangelsi liggi við samkvæmt XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot.

Með ummælum í staflið N og O í kröfulið 1 haldi stefndi því síðan fram á nýjan leik að brotaþola hafi verið misþyrmt og líkamsárásin hafi verið hrottaleg. Þessi ummæli eigi sér eins og áður enga stoð í dómi sakadóms Reykjavíkur, en hér saki stefndi stefnanda um hrottalega líkamsárás og misþyrmingar. Þá hafi stefndi fullyrt í umfjöllun sinni um stefnanda að stefnandi hafi verið kærð fyrir að hella lími yfir bifreið brotaþola, sbr. staflið F í kröfulið 1. Hér saki stefndi stefnanda enn á ný um refsiverða háttsemi, að þessu sinni eignaspjöll samkvæmt 257. gr. almennra hegningarlaga og enn á ný séu ásakanir stefnanda úr lausu lofti gripnar.

Um ætlaðan fjölda dóms- og kærumála. Stefndi haldi því ítrekað fram í umfjöllun sinni um stefnanda í DV að stefnandi sé margdæmdur brotamaður (síbrotamaður) sem eigi sér langa sögu ákærumála. Þá fullyrði stefndi að stefnandi ásamt eiginmanni sínum eigi sér sögu ofsókna og ofbeldisverka sbr. ummæli í stafliðum A, C og I í kröfulið 1, staflið A í kröfulið 2 og stafliðum B og C í kröfulið 3. Framangreindar fullyrðingar stefnda kveður stefnandi vera rangar. Eins og áður hefur komið fram hafi stefnandi verið dæmd í 15 daga skilorðsbundið fangelsi með dómi sakadóms Reykjavíkur árið 1989, fyrir meira en tuttugu árum síðan, en að þetta sé eini refsidómurinn sem stefnandi hafi hlotið. Árið 1978 hafi stefnandi undirgengist réttarsátt í sakadómi Reykjavíkur og samþykkt að greiða 30.000 króna sekt til ríkissjóðs vegna brots á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Þessi margra áratuga gömlu brot stefnanda séu einu brotin sem hún hafi gerst sek um og síðan stefnandi hlaut framangreindan skilorðsdóm hafi hún ekki verið kærð fyrir refsiverða háttsemi og engin mál séu til rannsóknar á hendur henni hjá lögreglu. Þær fullyrðingar stefnda að stefnandi sé margdæmdur brotamaður sem eigi sér langa sögu kæru-, ákæru- og dómsmála fyrir ofsóknir og ofbeldisverk séu því rangar.

Um gamla réttarsátt og refsidóm. Eins og áður hefur komið fram hlaut stefnandi refsidóm í sakadómi Reykjavíkur árið 1989. Refsing stefnanda hafi, með vísan til aðdraganda atburða sem leiddu til líkamsárásar stefnanda, verið ákveðin varðhald í 15 daga skilorðsbundið til þriggja ára. En með tilvísun til aðdraganda atburða sé dómurinn að vísa til þess að brot stefnanda hafi verið framið eftir að brotaþoli hafi kastað stól í gegnum eldhúsgluggann hjá stefnanda, ruðst inn á heimili hennar, slegið tengdaföður hennar í andlitið og brotið í honum tönn. Árið 1978 hafi stefnandi síðan gengist undir dómsátt þar sem hún samþykkti að greiða 30.000 króna sekt fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Rúmum 23 og 32 árum eftir að ofangreindir atburðir hafi gerst ákveði stefndi að rifja upp þessa gömlu drauga úr fortíð stefnanda og skrifa um þær heilsíðu- og opnufréttir með tilheyrandi stríðsfyrirsögnum án nokkurra sýnilegra ástæðna en stefnandi hafi, eftir að dómur sakdóms Reykjavíkur var kveðinn upp fyrir rúmu 21 ári, ekki hlotið dóm eða verið kærð til lögreglu fyrir ofbeldisbrot né önnur brot. Framangreindur dómur og réttarsátt stefnanda réttlæti því ekki með nokkru móti hin tilefnislausu ummæli stefnda, sem er að finna í staflið A, B, C, E, G, H, I, J, N og O í kröfulið 1, staflið A í kröfulið 2 og stafliðum B og C í kröfulið 3.

Í 1. mgr. 5. gr. laga um kosningar til alþingis nr. 24/2000 er skilgreint hvenær refsiverður dómur hafi flekkun mannorðs í för með sér. Hafi einstaklingur gerst sekur eftir dómi fyrir verk sem telst vera svívirðilegt að almenningsáliti, telst viðkomandi aðili ekki hafa óflekkað mannorð. Í 2. mgr. 5. gr. sömu laga er skýrt út hvenær verknaður sé svívirðilegur að almenningsáliti. Þannig þarf sakborningur að hafa verið fullra 18 ára að aldri þegar brot var framið og refsing sem dæmd var þurfi að vera fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta.

Af framansögðu sé ljóst að stefnandi sé með óflekkað mannorð og njóti þar með fullra borgaralegra réttinda og því sé það ærumeiðandi, óviðurkvæmilegt og smekklaust af stefnda að rifja að tilefnislausu upp atburði úr lífi stefnanda sem gerðust fyrir mörgum áratugum sbr. tilvitnuð ummæli hér að ofan. Því eigi 2. mgr. 238. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 við um ummæli stefnda í garð stefnanda. Eftir atvikum sé einnig byggt á því að 84. gr. almennra hegningarlaga eigi við um refsidóm stefnanda frá 1989 og þar sem stefnandi hafi öðlast uppreisn æru á grundvelli ákvæðisins eigi 2. mgr. 238. gr. almennra hegningarlaga við um ofangreind ummæli stefnda, en stefnandi sé með hreint sakavottorð.

Um ómerkingu ummæla. Stefnandi kveður að öll hin umstefndu ummæli í kröfuliðum 1, 2 og 3 séu ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. og 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Öll hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

Verði ekki fallist á að ummælin varði 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé til vara og með vísan til ofangreindra sjónarmiða byggt á því að ummælin varði við 234. gr. sömu laga og að á þeim grundvelli verði ummælin ómerkt. Hvað varði ummæli í staflið A, B, C, E, G, H, I, J, N og O í kröfulið 1, staflið A í kröfulið 2 og stafliðum B og C í kröfulið 3, sé til þrautavara byggt á því að ummælin feli í sér tilhæfulaus brigsl, sbr. 237. gr., almennra hegningarlaga og á þeim grundvelli verði ummælin dæmd dauð og ómerk.

Um ummæli stefnda um stefnanda í stafliðum A, B, C, E, G, H, I, J, N og O í kröfulið 1, staflið A í kröfulið 2 og stafliðum B og C í kröfulið 3, sé jafnframt vísað til 2. mgr. 238. gr. almennra hegningarlaga um ábyrgð stefnda, en þegar stefndi hafi birt ummælin hafi verið liðnir áratugir síðan stefnandi hafi gerst sek um hegningarlagabrot, en brot stefnanda hafi ekki haft í för með sér flekkun mannorðs og því hafi tilvísun stefnda til brotferils stefanda verið óviðurkvæmileg, ósmekkleg og ærumeiðandi fyrir stefnanda.

Um miskabótakröfuna. Stefnandi byggir á því að tilvitnuð ummæli stefnda, sem stefndi hafi birt í DV, hafi fengið mjög á stefnanda andlega, enda sé um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða, sem bæði séu rangar og bornar fram án þess að stefndi hafi nokkuð haft fyrir sér. Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki, sem og æra hans og persóna.

Í kjölfar umfjöllunar stefnda um stefnanda hafi stefnandi meðal annars fengið sendar nafnlausar hótanir með smáskilaboðum, eggjum hafi verið kastað í heimili hennar og lausafjármunir verið skemmdir. Stefnandi hafi varla þorað út fyrir hússins dyr vegna umfjöllunar stefnda, verið frá vinnu og átt erfitt með svefn. Stefnandi leitaði til Heilsugæslunnar í Garðabæ þar sem hún hafi verið meðhöndluð vegna kvíða og andlegs álags og fengið kvíðastillandi lyf og svefntöflur.

Útbreiðsla ummæla stefnda hafi verið mikil enda birt í víðlesnu dagblaði. Ummælin hafi verið sett fram með áberandi hætti og hafi umfjöllun stefnda um stefnanda fengið mikið pláss á síðum DV. DV sé gefið út í hagnaðarskyni og því sé miskabótakrafa stefnanda mjög hófleg. Krafa stefnanda um miskabætur er byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda sé ljóst að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda og sé um skýr og ótvíræð brot að ræða á réttareglum, sem ætlaðar séu til þess að vernda æru stefnanda, sbr. 234. til og með 237. gr. almennra hegningarlaga.

Um birtingu dómsins. Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 400.000 kr. til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til vara krefst stefnandi birtingarkostnaðar að álitum. Til stuðnings kröfu stefnanda um birtingarkostnað sé byggt á því að ummæli stefnda hafi fengið mikla útbreiðslu. Stefnanda sé því nauðsynlegt að fá dæmdan birtingarkostnað til þess að rétta hlut sinn með auglýsingu í fjölmiðlum.

Þá krefst stefnandi þess að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birtar í næsta tölublaði DV, eftir að dómur falli í málinu, sbr. 1., 2. og 3. mgr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Samkvæmt skýrum lagaáskilnaði og dómvenju Hæstaréttar sé ekki nauðsynlegt að stefna útgefanda til þess að fá birtingarkröfu samkvæmt 22. gr. prentlaga tekna til greina.

Um tjáningarfrelsi stefnda. Hvað varði tjáningarfrelsi stefnda vísar stefnandi til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og bendir á að tjáningarfrelsi njóti ekki verndar þegar brotið er gegn mannorði annarra manna. Þegar metnar eru þær skorður sem friðhelgi einkalífs setur tjáningarfrelsinu skiptir aðalmáli hvort hið birta efni, myndir eða texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings. Umfjöllun stefnda um stefnanda hafi á engan hátt tengst slíkri umræðu. Þá eigi 2. mgr. 238. gr. almennra hegningarlaga við um ummæli stefnda í stafliðum C og D í kröfulið 1 í garð stefnanda og því geti stefnandi ekki borið fyrir sig regluna um að sannindi ummæla leiði til sýknu hvað þau varði.

Um dráttarvexti málskostnaðarkröfu og lagarök. Hvað varðar kröfu um dráttarvexti á dómkröfur er vísað til IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en krafan um dráttarvexti er byggð á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga, en þar segi að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn sé mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi hafi lagt fram upplýsingar til þess að meta tjón og fjárhæð bóta. Í því tilviki sem um sé rætt hér sé miðað við þingfestingardag stefnu 28. október 2010 og sé því krafist dráttarvaxta frá 28. nóvember 2010 til greiðsludags.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi og er krafan byggð á 130. gr. l. tl. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess sé krafist að dæmdur málskostnaður beri virðisaukaskatt.

Um lagarök, vísar stefnandi til 84., 234., 235., 2. mgr. 236., 237., 2. mgr. 238. og 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá vísar stefnandi til laga nr. 57/1956 um prentrétt, einkum 15. og 22. gr. laganna. Einnig vísar stefnandi til 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Krafa stefnanda um dráttarvexti á miskabótakröfu er byggð á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá sé krafa um málskostnað byggð á 130. gr. l. tl. laga nr. 91/1991. Einnig sé vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, s.s. hvað varðar varnarþing, málsaðild, og málskostnað.

Málsástæður og lagarök stefnda

Um ómerkingu ummæla. Stefnandi hafi krafist ómerkingar fjölda ummæla sem fram hafi komið og birst í þremur nánar tilgreindum blaðagreinum sem stefndi sé höfundur að. Er öllum málsástæðum stefnanda sem lúti að ómerkingu ummælanna mótmælt. Stefnandi hafi flokkað ummælin í fimm flokka í stefnu og verður þeirri flokkun fylgt hér á eftir.

Um brot gegn nágrönnum í Aratúni. Hér vísar stefnandi til ummæla í stafliðum B og D í kröfulið 1 og staflið A í kröfulið 3. Hér sé því um eftirfarandi ummæli að ræða:

(B1)... og kona hans Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sem búsett eru í Aratúni í Garðabæ og sökuð hafa verið um gróft ofbeldi gegn nágrönnum sínum, voru árin 1978 og 1987 dæmd fyrir líkamsárásir.

(D1) Fyrr í sumar voru Sigurður, Margrét og börn þeirra sökuð um að hafa ráðist á Brynju Arnardóttur Scheving, mann hennar Karl Jóhann Guðsteinsson og ungabarn þeirra við heimili þeirra í Aratúni.

(A3) ... eftir að hafa í tvígang orðið fyrir aðkasti og ofbeldi af hálfu Aratúnshjónanna svokölluðu, þeirra Sigurðar Stefánssonar og konu hans Margrétar Lilju Guðmundsdóttur.

Stefndi kveður að engin ærumeiðandi ummæli felist í framangreindum orðasamböndum þegar litið sé til samhengis. Í B1 sé í fyrsta lagi staðhæft að hjónin hafi tvívegis verið dæmd fyrir líkamsárásir. Ummælin séu sönn, eins og fram komi í gögnum málsins og sé stefnda fullkomlega heimilt að vísa til fyrirliggjandi dóma. Þá sé í B1 og D1 staðhæft að hjónin hafi um sumarið verið sökuð um gróft ofbeldi gegn nágrönnum sínum. Fullyrðingar þessar séu sannar. Í fyrsta lagi liggi fyrir að nágrannar hjónanna, Brynja og Karl, höfðu um sumarið sakað þau um ofbeldi. Í þessu sambandi megi vísa til framlagðra kæruskýrslna hjónanna. Auk þessa hafi bloggarinn Andrés Valgarðsson sakað þau um sömu háttsemi eins og sjá megi af bloggfærslu, dags. 19. júlí 2010.

Hvað varði ummæli A3 sé einungis um að ræða ummæli sem höfð séu eftir hjónunum Brynju Arnardóttur Scheving og Karli Jóhanni Guðsteinssyni. Fyrir liggi og sannað sé að þau hjónin höfðu sakað stefnanda og mann hennar um þá háttsemi sem þarna sé lýst. Umrætt ofbeldi sem stefnandi og maður hennar höfðu verið sökuð um af hálfu nágranna sinna sé meginefni þeirra blaðagreina sem þetta mál snýst um og sé því ekki óeðlilegt að byrja blaðagreinina með tilvísun til þessara málsatvika sem ætlunin sé að fjalla um. Auk þessa hafi stefndi undir höndum allmikið magn af sönnunargögnum, s.s. lögregluskýrslur og læknisvottorð, sem sýni fram á sannindi ummælanna. 

Um öryggisvörðinn í Fjarðarkaupum – kæra hjá ríkissaksóknara. Hér vísar stefnandi til ummæla í stafliðum K, L og M í kröfulið 1. Hér sé því um eftirfarandi ummæli að ræða:

(K1) Kæra hjá ríkissaksóknara.

(L1) Samkvæmt öruggum heimildum DV liggur nú inni kæra hjá ríkissaksóknara vegna ásakana um árás þeirra hjóna og sonar þeirra á öryggisvörð í Fjarðarkaupum...

(M1) Í kjölfarið hófst atburðarás sem leiddi til þess að hann kærði þau til lögreglu fyrir grófa líkamsárás.

Kaflinn sem ummælin komi fyrir í sé um öryggisvörð sem ekki hafi viljað láta nafns síns getið. Stefndi kveður að öll ummælin séu byggð á frásögn hans. Þá sé ljóst að sannindi allra ummælanna standi og falli með þeirri staðreynd að umræddur öryggisvörður hafi kært hjónin til lögreglu vegna líkamsárásar. Fyrir liggi að öryggisvörðurinn hafi ekki viljað láta nafns síns getið og hafi stefndi virt það á grundvelli reglna um leynd heimildarmanna. Ekki sé þó ljóst á þessu stigi hvort umræddur aðili muni koma fram undir nafni á síðari stigum málsins til að staðfesta sannindi ummælanna.

Um brot gegn öðrum nágrönnum stefnda. Hér heldur stefnandi því fram að frásögn stefnda af málsatvikum í máli sem stefnandi hlaut dóm fyrir í sakadómi Reykjavíkur, sbr. mál nr. 330-331/1989, sé röng.

Í fyrsta lagi heldur stefnandi því fram að ummæli í staflið G í kröfulið 1 eigi sér enga stoð í niðurstöðu sakadóms Reykjavíkur. Hér sé um eftirfarandi ummæli að ræða:

(G1) Tildrög málsins voru þau að hjónin sátu fyrir konunni og kipptu henni inn í íbúð sína og fóru með inn í baðherbergi þar sem þau köstuðu henni ofan í baðker, sprautuðu köldu vatni á hana, börðu og misþyrmdu kynferðislega.

Stefndi kveður að þessi ummæli hafi verið innan gæsalappa í blaðagrein stefnda og komi þar skýrt fram að um tilvitnun hafi verið að ræða í blaðagrein Tímans frá 8. apríl 1987, og að þar hafi líkamsárás hjónanna verið lýst með þessum hætti. Sé því einungis vísað í það hvað komi fram í annarri blaðagrein og rétt haft eftir. 

Þá vísi stefnandi til ummæla í stafliðum N og O í kröfulið 1, en ummælin eru eftirfarandi:

(N1) Hjón misþyrma þrítugri konu.

(O1) Hrottalegri árás lýst í Tímanum árið 1987 birtist umfjöllun um hrottalega árás þeirra hjóna á þrítuga konu. Þau voru síðan dæmd fyrir árásina.

Stefndi kveður að ummælin í N1 séu fyrirsögn í blaðagrein Tímans en ekki blaðagrein DV, en greinin hafi verið birt í heild sinni ásamt fyrirsögninni í DV. Hafi greinin verið birt orðrétt og rétt haft eftir. Hvað varði ummælin í O1, sé þar einungis um að ræða lýsingu á grein Tímans sem höfð var undir umræddri grein. Ekki verði séð að í ummælunum felist nokkuð annað en sannindi þar sem einungis sé fullyrt að í umræddri grein Tímans hafi birst umfjöllun um hrottalega árás hjónanna og að þau hafi verið dæmd fyrir árásina. Báðar staðhæfingarnar séu sannar.

Að lokum sé undir þessum flokk krafist ómerkingar á ummælum í staflið F í kröfulið 1, en ummælin eru eftirfarandi:

(F1) Auk þessarar árásar kærði konan þau hjón fyrir að hafa hellt lími yfir bifreið hennar.

Stefndi kveður að með þessum ummælum sé haft eftir konunni að hún hafi á þessum tíma kært hjónin fyrir umrædda háttsemi. Stefndi byggir á því að ummælin séu sönn.

Um ætlaðan fjölda dóms- og kærumála. Undir þessum flokki telji stefnandi til eftirfarandi ummæli sem hann telur röng:

(A1) Margdæmd Aratúnshjón.

(C1) Hjónin eru með nokkurn feril ákærumála á bakinu.

(I1) Hjónin eru með nokkurn feril kæru- og dómsmála á bakinu en í dómsskjölum sem DV hefur undir höndum kemur fram að 5. maí 1978 hafi þau bæði greitt sektir fyrir að ganga í skrokk á manni á Klúbbnum 28. ágúst árið 1977.

(A2) Eins og fram kom í helgarblaði DV eiga Aratúns-hjónin, Sigurður Stefánsson og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sér sögu ofbeldisverka og ofsókna.

(B3) Hjónin eru með nokkurn feril ákærumála á bakinu...

(C3) Aratúnshjónin eiga sér langa sögu ákærumála...

Stefndi kveður að ummæli C1, I1, B3 og C3 séu öll sama eðlis, þ.e. að þar sé staðhæft að hjónin séu með nokkurn feril ákærumála á bakinu. Þessi ummæli verði að telja sönn. Í málinu liggi í fyrsta lagi fyrir tveir dómar þar sem stefnandi og eiginmaður hennar hafi verið fundin sek um líkamsásrásir skv. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (alm. hgl.). Séu þar komin tvö ákærumál sem þau hafi á bakinu. Í öðru lagi skal hér vísað til lögregluskýrslna sem lagðar séu fram af hálfu stefnda í máli þessu, en þar megi sjá kærur hjónanna Brynju og Karls á hendur stefnanda og eiginmanni hennar. Í þriðja lagi megi hér vísa til kæru öryggisvarðarins sbr. framangreinda umfjöllun um það atriði. Telja verði ljóst að þessi ferill meira en nægi til að kalla megi „nokkurn feril ákærumála“ og sé ekki hægt að halda því fram að þar sé orðum ofaukið. Verði því að telja að framangreind ummæli séu sönn.

Ummæli A1 „Margdæmd Aratúnshjón“ sé fyrirsögn blaðagreinar. Eins og fram hafi komið hafi hjónin bæði verið dæmd tvisvar. Deila megi um hvort það nægi til að telja þau „margdæmd.“ Stefndi telur að ekki sé farið út fyrir merkingarfræðilegan ramma hugtaksins í þessu tilviki. Hvað sem því líði sé augljóst að fyrirsögnin vísi til nánari umfjöllunar í greininni sjálfri þar sem ítrekað komi fram að um tvö tilvik sé að ræða. Verði því að telja að ummælin séu sönn.

Ummæli A2. Ummælin séu sönn, en með þeim sé vísað til fyrri blaðagreinarinnar þar sem nánar sé lýst umræddri ofbeldissögu og sé hún eins og áður segi óumdeilanlega staðfest í tveimur dómum.

Um gamla réttarsátt og refsidóm. Undir þennan flokk telji stefnandi allmörg ummæli í blaðagreinum stefnda þar sem fjallað sé um eða minnst á refsidóm sem stefnandi hlaut í sakadómi Reykjavíkur árið 1989 og dómsátt sem hún gekkst undir árið 1978, en í báðum tilvikum hafi verið um líkamsárás skv. 217. gr. almennra hegningarlaga að ræða.

Hér sé því ekki haldið fram af hálfu stefnanda að ummælin séu röng heldur sé því haldið fram að stefnda sé óheimilt að fjalla um þessa atburði svo löngu eftir að þeir hafi gerst, þ.e. 23 og 32 árum síðar. Í þessu sambandi vísar stefnandi til 5. gr. kosningalaga nr. 24/2000 sem fjalli um óflekkað mannorð. Stefndi telur það ekki skipta nokkru máli hvort stefnandi hafi óflekkað mannorð eða ekki. Þá vísi stefnandi til 2. mgr. 238. gr. alm. hgl. en þar segir: Hafi maður, er sætt hefur refsidómi fyrir einhvern verknað, síðar öðlast uppreist æru, er ekki heimilt að bera hann framar þeim sökum, og leysir sönnun því ekki undan refsingu, er svo stendur á.“

Stefndi mótmælir því að ákvæðið eigi við í þessu máli enda hafi stefnandi aldrei öðlast uppreisn æru sinnar. Þá vísi stefnandi til 84. gr. alm. hgl. en ákvæðið er svohljóðandi: „Nú hefur maður hlotið í fyrsta sinn refsidóm fyrir brot, sem hefur skerðing borgararéttinda í för með sér, og refsing fer ekki fram úr 1 árs fangelsi, þá nýtur hann að liðnum 5 árum frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, allra réttinda, sem fást með uppreist á æru, enda hafi hann ekki sætt ákæru á þeim tíma fyrir brot, sem þyngri hegning liggur við en sektir.“

Stefnandi haldi því fram að ákvæðið eigi við um refsidóm þann er stefnandi hlaut árið 1989 og ætti því að leiða til þess að hún nyti sömu réttinda og hefði hún öðlast uppreisn æru. Þessu mótmælir stefndi, þar sem ákvæðið geri kröfu um að aðili sem vilji njóta réttinda skv. ákvæðinu sé að hljóta refsidóm í fyrsta sinn. Stefnandi hafði áður gengist undir dómsátt þar sem hún hafi gengist við líkamsárás og broti skv. 217. gr. alm. hgl. Dómsátt í refsimálum hafi sömu réttaráhrif og sakfelling og því beri að líta svo á að stefnandi hafi árið 1989 hlotið sinn annan refsidóm í skilningi 84. gr. alm. hgl. Auk þessa byggir stefndi á því að ekki nægi að uppfylla ákvæði 84. gr. til að ákvæði 2. mgr. 238. gr. alm. hgl. eigi við, heldur þurfi aðili alltaf að hafa formlega hlotið uppreisn æru til að ákvæðið eigi við.

Um miskabótakröfuna. Stefndi hafnar miskabótakröfu stefnanda. Með vísan til framangreinds hafnar stefndi því að hann hafi með ummælum sínum brotið gegn þeim réttarreglum sem stefnandi vísi til sbr. 234.-237. gr. alm. hgl. og eigi 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 því ekki við. Þá sé því mótmælt sem ósönnuðu að stefnandi hafi fengið hótanir eða að skemmdir hafi verið unnar á eignum stefnanda í kjölfar umfjöllunar stefnda. Hafi svo verið sé fráleitt að stefndi geti borið ábyrgð á því. Þá sé áréttað að stefnan beinist að stefnda einum, sem sé starfsmaður hjá dagblaði, en ekki að dagblaðinu sjálfu. Röksemdir um að blaðið sé gefið út í hagnaðarskyni hafa því augljóslega enga þýðingu til stuðnings miskabótakröfunni.

Þá sé öllum staðhæfingum stefnanda um andlegar afleiðingar í kjölfar umfjöllunarinnar mótmælt sem ósönnuðum auk þess sem ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl milli umfjöllunarinnar og hins meinta andlega tjóns.

Um birtingu dómsins. Kröfu stefnanda um að stefnda verði gert að greiða 400.000 kr. til að kosta birtingu dóms í málinu er mótmælt, þar sem 2. mgr. 241. gr. alm. hgl. eigi ekki við, enda hafi stefndi ekki gerst sekur um ærumeiðandi aðdróttun í garð stefnanda eins og rakið hafi verið hér að framan. Verði ekki fallist á það sé fjárhæðinni mótmælt sem alltof hárri og þess krafist að hún verði lækkuð umtalsvert.

Kröfu stefnanda um að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birtar í næsta tölublaði DV eftir að dómur gengur í málinu, er mótmælt. Í fyrsta lagi sé því mótmælt að ummæli stefnda feli í sér nokkurs konar brot gegn stefnanda eins og að framan hefur verið rakið. Í öðru lagi sé því mótmælt að stefnandi geti haft slíka kröfu uppi gagnvart stefnda um birtingu dóms í DV. Rétt hefði verið og nauðsynlegt að stefna útgefanda til að ná þessari kröfu fram. Því sé byggt á aðildarskorti hvað þessa kröfu varðar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Nánar um málsástæður stefnda. Stefnandi hefur byggt á því að ummæli stefnda brjóti gegn 234.-237. gr. alm. hgl. Stefndi byggir sýknukröfur sínar aðallega á meginreglunni um að sannindi ummæla leiði til sýknu, enda sé sú meginregla alkunn, sbr. t.d. gagnályktun frá 2. mgr. 238. gr. alm. hgl. Þau tilvik/ummæli sem stefnt sé út af í þessu máli megi í raun flokka í tvennt:

a. Ummæli sem stefndi hafi sýnt fram á og sannað að séu sönn. Eins og framangreind umfjöllun beri með sér hefur stefnandi í flestum tilvikum þegar sýnt fram á og sannað að ummælin sem mál þetta fjallar um séu rétt og sönn. Vísist til þeirrar umfjöllunar hér.

b. Önnur ummæli sem stefnt er út af séu af þeim toga að um sé að ræða beinar tilvitnanir í frásögn annarra aðila af tilteknum atburðum. Hér sé aðallega um að ræða ummæli sem feli í sér beinar tilvitnanir í eldri blaðagrein er birtist í Tímanum hinn 8. apríl 1987, og í einu tilviki hafi verið um að ræða birtingu á umræddri grein í heild sinni. Í öllum tilvikum hafi verið skýrt tekið fram að um beina tilvitnun í umrædda grein væri að ræða án þess að stefndi hafi tekið sérstaklega undir eða lýst skoðun sinni á greininni eða innihaldi hennar. Þá sé í einhverjum tilvikum um að ræða staðhæfingar öryggisvarðar hjá Fjarðarkaupum um að hann hafi kært hjónin fyrir líkamsárás. Margstaðfest sé í dómum Hæstaréttar sú meginregla að blaðamönnum sé heimilt að hafa eftir frásagnir annarra ef rétt sé farið með innihald þeirra. Auk þessa telur stefndi að ekki séu neinar ærumeiðingar fólgnar í umræddu efni sem vitnað hafi verið til, og að stefnanda hafi ekki tekist slík sönnun. Hvað sem því líði hafi ekki verið sýnt fram á að nein þeirra ummæla er fram koma í umræddu efni séu ósannar eða rangar. Verði ekki fallist á það sé til vara vísað til þeirrar meginreglu að frásögn af ærumeiðingu sem almenningi sé þegar kunn sé að vítalausu. 

Að lokum vísar stefndi til meginreglunnar um tjáningarfrelsi, sbr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, en samkvæmt ákvæðinu eru allir menn frjálsir skoðana sinna og sannfæringar og eigi allir rétt á að láta í ljós hugsanir sínar. Byggir stefndi á því að efni þeirra blaðagreina, sem í þessu máli sé deilt um, hafi átt fullt erindi til almennings sem hluti af þjóðfélagsumræðunni.

Sýknukrafa stefnda er einkum byggð á 234.-241. gr. alm. hgl. nr. 19/1940. Þá sé vísað til 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Jafnframt sé byggt á 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Kröfu um málskostnað styður stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggð á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Niðurstaða

Stefnandi hefur krafist ómerkingar á ummælum sem birtust í DV föstudaginn 17. september 2010, mánudaginn 20. september 2010 og föstudaginn 24. september 2010. Um er að ræða fimmtán ummæli í 1. tl. stefnu undir stafliðum A-O, sem og ein ummæli í 2. tl. stefnunnar og þrenn ummæli í 3. tl. stefnu sem öll lúta að því með einum eða öðrum hætti að stefnandi hafi brotið gegn nágrönnum sínum og öryggisverði í Fjarðarkaupum og sé með fjölda dóms- og kærumála og refsidóma. Höfundur þeirra er tilgreindur stefndi, Jón Bjarki. Stefndi ber ábyrgð á efni greina þeirra sem ummælin birtust í, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

Umfjöllunin í DV á rót sína að rekja til deilna nágranna í Aratúni 34 annars vegar og Aratúni 36 hins vegar. Deilur þessar urðu ansi harðar og rötuðu frásagnir af þeim í bloggheima og fjölmiðla. Í hinum umstefndu ummælum er oftast talað um Aratúnshjónin, eða stefnandi nafngreind ásamt eiginmanni sínum. Hér verður að líta til þess að hjónin eru tveir einstaklingar, hvort með sína æru og sinn málshöfðunarrétt. Að mati dómsins er umfjöllun blaðsins mjög einhliða og oft á tíðum óvægin og vegið nærri stefnanda og fjölskyldu hennar. Þá var ekki haft samband við stefnanda. Dugar hér ekki að haft hafi verið samband við eiginmann hennar.

Varðandi ætluð brot stefnanda gegn nágrönnum sínum vísar stefnandi til 1. kröfuliðar í dómkröfum, stafliði B og D, svo og til 3. kröfuliðs, stafliðar A. Ummælin eru eftirfarandi:

(B1)... og kona hans Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sem búsett eru í Aratúni í Garðabæ og sökuð hafa verið um gróft ofbeldi gegn nágrönnum sínum, voru árin 1978 og 1987 dæmd fyrir líkamsárásir.

(D1) Fyrr í sumar voru Sigurður, Margrét og börn þeirra sökuð um að hafa ráðist á Brynju Arnardóttur Scheving, mann hennar Karl Jóhann Guðsteinsson og ungabarn þeirra við heimili þeirra í Aratúni.

(A3) ... eftir að hafa í tvígang orðið fyrir aðkasti og ofbeldi af hálfu Aratúnshjónanna svokölluðu, þeirra Sigurðar Stefánssonar og konu hans Margrétar Lilju Guðmundsdóttur.

Með ofangreindum ummælum er stefnanda gefin að sök refsiverð háttsemi sem varðar við 217. og/eða 218. gr. almennra hegningarlaga.

Stefndi hefur lagt fram lögregluskýrslur frá 3. og 18. júlí 2010 og kæruskýrslur Brynju Arnardóttur Scheving og Karls Jóhanns Guðsteinssonar frá 5. og 19. júlí 2010. Þessar skýrslur beinast að ætluðu ofbeldi eiginmanns og sonar stefnanda og kærum á hendur þeim. Ríkissaksóknari felldi ofangreind lögreglumál niður og urðu því ekki eftirmálar af kærum þessum. Hvorugt lögreglumálið beinist að stefnanda og ekki verður séð að Brynja og Karl hafi sett fram kæru á hendur henni. Því er rangt að stefnandi hafi verið sökuð um gróft ofbeldi eða ofbeldi gegn nágrönnum sínum, eða að hún hafi ráðist að þeim. Verður því fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu þeirra með vísan til 241. gr. sbr. 235. gr. alm. hgl

Um ætlaða líkamsárás á öryggisvörð í Fjarðarkaupum og fullyrðingar þess efnis að ríkissaksóknari sé með kæru til meðferðar, þá krefst stefnandi ómerkingar á 1. kröfulið, stafliðum K, L og M, sem eru svohljóðandi.

(K1) Kæra hjá ríkissaksóknara.

(L1) Samkvæmt öruggum heimildum DV liggur nú inni kæra hjá ríkissaksóknara vegna ásakana um árás þeirra hjóna og sonar þeirra á öryggisvörð í Fjarðarkaupum...

(M1) Í kjölfarið hófst atburðarás sem leiddi til þess að hann kærði þau til lögreglu fyrir grófa líkamsárás.

Í töluliðum (L1) og (M1) er stefnanda gefin að sök líkamsárás sem varðar við 217. gr./og eða 218. gr. Fyrir liggur dómur Héraðsdóms Reykjaness þar sem eiginmaður stefnanda og sonur eru fundnir sekir um líkamsárárás á öryggisvörð í Fjarðarkaupum. Ósannað er að ummælin í (L1) og (M1) eigi við rök að styðjast gagnvart stefnanda. Verður því fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu þeirra gagnvart stefnanda með vísan til 241. gr. sbr. 235. gr. alm. hgl.

Ummælin í (K1), kæra til ríkissaksóknara, er millifyrirsögn sem ekki er hægt að tengja sérstaklega við stefnanda. Því er hafnað kröfu um ómerkingu þeirra ummæla.

Í þriðja lagi eru tilgreind ætluð brot stefnanda gagnvart öðrum nágrönnum hennar og er hér vísað til eftirfarandi ummæla:

(E1) Sigurður og Margrét voru árið 1987 dæmd fyrir líkamsárás þar sem sannað taldist að þau hefðu fært konu á þrítugsaldri ofan í baðkar og sprautað yfir hana vatni eins og það er orðað í dóminum. Sigurður og Margrét voru dæmd í 15 daga skilorðsbundið fangelsi ...

(G1) Tildrög málsins voru þau að hjónin sátu fyrir konunni og kipptu henni inn í íbúð sína og fóru með inn í baðherbergi þar sem þau köstuðu henni ofan í baðker, sprautuðu köldu vatni á hana, börðu og misþyrmdu kynferðislega.

(N1) Hjón misþyrma þrítugri konu.

(O1) Hrottalegri árás lýst í Tímanum árið 1987 birtist umfjöllun um hrottalega árás þeirra hjóna á þrítuga konu. Þau voru síðan dæmd fyrir árásina.

(F1) Auk þessarar árásar kærði konan þau hjón fyrir að hafa hellt lími yfir bifreið hennar.

Það er einkar ósmekklegt af stefnda að vísa til dóms er stefnandi hlaut árið 1989 vegna atburða er áttu sér stað tveimur árum áður. Í tilviki stefnanda á dómurinn ekkert erindi við almenning í dag, né er hann innlegg í umfjöllun um stefnanda, nema þá til að sverta orðspor hennar. Stefndi hafði nefndan dóm undir höndum eins og fram kemur í DV föstudaginn 17. september 2010 (bls. 16). Þrátt fyrir það er hallað réttu máli og ásýnd stefnanda gerð verri en hún í raun var.

Samkvæmt greindum dómi eru tildrög málsins þau að A kastaði stól inn um eldhúsgluggann hjá stefnanda og braut hann og viðurkenndi A það fyrir dómi. Þá mun A hafa slegið tengdaföður stefnanda í andlitið og brotið í honum tönn. Í kjölfar þess urðu atburðir þeir sem ákært var fyrir, en í ákæruskjali er stefnandi og eiginmaður hennar ákærð fyrir að „.. í anddyri íbúðar ákærðu að …ráðast á … og að taka hana þar og færa á bakið ofan í tómt baðker í baðherbergi íbúðarinnar, halda henni þar föstum tökum og sprauta yfir hana alla með vatni úr handsturtunni og henda henni að því loknu fram á gólf, …“ Ósannað er að köldu vatni hafi verið sprauta yfir A, hún barin og henni misþyrmt kynferðislega. Því er fallist á ómerkingu ummæla (G1) með vísan til 241. gr. sbr. 235. gr. alm. hgl. Hins vegar þykja ummælin í (E1) vera í samræmi við þann dóm er stefnandi hlaut og er því hafnað kröfu um ómerkingu þeirra ummæla. Þá er ósannað að A hafi kært stefnanda fyrir að hafa hellt lími yfir bifreiðina og eru þau ummæli einnig ómerkt með vísan til sömu lagaákvæða.

Á sömu blaðsíðu í grein sinni í DV vísar stefndi til blaðagreinar í Tímanum sem birtist 8. apríl 1987 þar sem ummæli eru tekin upp í gæsalöppum. Stefndi ber ábyrgð á þessari birtingu, sbr. 15. gr. laga nr. 56/1957. Stefnda mátti vera ljóst að nefnd blaðagrein var ekki í samræmi við greindan dóm. Matskennt er hvað telst vera misþyrming eða hrottaleg árás, en eftir atvikum er því hafnað að ómerkja ummæli tilgreind í stafliðum (N1) og (O1).

Í fjórða lagi er í hinum umstefndu ummælum tilgreint að um mikinn fjölda dóms- og ákærumála stefnanda sé að ræða. Hér telur stefnandi til eftirfarandi ummæli sem hún telur röng:

(A1) Margdæmd Aratúnshjón.

(C1) Hjónin eru með nokkurn feril ákærumála á bakinu.

(I1) Hjónin eru með nokkurn feril kæru- og dómsmála á bakinu en í dómsskjölum sem DV hefur undir höndum kemur fram að 5. maí 1978 hafi þau bæði greitt sektir fyrir að ganga í skrokk á manni á Klúbbnum 28. ágúst árið 1977.

(A2) Eins og fram kom í helgarblaði DV eiga Aratúns-hjónin, Sigurður Stefánsson og Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sér sögu ofbeldisverka og ofsókna.

(B3) Hjónin eru með nokkurn feril ákærumála á bakinu...

(C3) Aratúnshjónin eiga sér langa sögu ákærumála...

Ágreiningslaust er að stefnandi var dæmd í 15 daga skilorðsbundið fangelsi með dómi sakadóms Reykjavíkur árið 1989 og er það eini refsidómurinn sem stefnandi hefur hlotið. Árið 1978 undirgekkst stefnandi réttarsátt í sakadómi Reykjavíkur og samþykkti að greiða 30.000 króna sekt til ríkissjóðs vegna brots á 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Hér er um 32 ára og 23 ára gömul mál að ræða sem ósmekklegt er að draga inn í umfjöllun málsins um stefnanda. Stefnandi er með hreint sakarvottorð og ekki liggur fyrir að hún hafi verið kærð til lögreglu, sbr. umfjöllun hér að framan. Því er ósannað að nefnd ummæli eigi við rök að styðjast gagnvart stefnanda. Verður því fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu þeirra með vísan til 241. gr. sbr. 235. gr. alm. hgl.

Þau ummæli er eftir standa eru:

(H1)Taktu hitt augað á honum líka.

(J1)Þá sagði fórnarlambið fyrir dómi að hann hefði heyrt kvenmann kalla: „Taktu hitt augað á honum líka”.

Fyrri ummælin er millifyrirsögn, sem vísar til seinni ummælanna. Hvergi er stefnandi nafngreind í sambandi við þessi ummæli. Þykja því ekki efni til að ómerkja þau og er kröfu stefnanda hafnað.

Þá verður endurtekin umfjöllun stefnda ekki réttlætt með tilvísun til 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Með vísan til 1. og 2. mgr. 22. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956, er fallist á kröfu stefnanda um að forsendur og niðurstöðu dóms þessa skuli birta í næsta tölublaði DV sem út kemur eftir uppsögu dómsins. Breytir engu um þá kröfugerð þótt útgefandi blaðsins eigi ekki aðild að málinu, enda hvílir þessi skylda á honum lögum samkvæmt. Hefur Hæstiréttur fallist á kröfu um birtingu í sambærilegu tilviki sbr. dóm réttarins í máli nr. 329/2010. Ekki er hins vegar ástæða til þess að gera stefnda að greiða stefnanda kostnað til að standa straum af frekari opinberri birtingu dómsins.

Stefnandi á rétt á miskabótum samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 úr hendi stefnda vegna áðurnefndra ærumeiðandi ummæla sem eru hæfilega ákveðnar 700.000 kr. með vöxtum svo sem nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun bóta er einnig litið til þess, að stefndi virðist hafa tvíeflst í fréttaflutningi sínum eftir að stefnandi og fjölskylda hennar kröfðust, hinn 10. september 2010, afsökunar og leiðréttingar á  ummælum í helgarblaði DV 23. júlí 2010 og vefsvæðinu DV.is 23.-26. júlí 2010, en hin umstefndu ummæli voru fyrst birt 17. september 2010.

Stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 750.000 kr.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Framangreind ummæli í 1. kröfulið, A,B,C,D,F,G,I,L,M, 2. kröfulið A og 3. kröfulið A,B,C, sem nánar greinir í forsendum þessa dóms, skulu vera dauð og ómerk.

Stefndi, Jón Bjarki Magnússon, greiði stefnanda, Margréti Lilju Guðmundsdóttur, 700.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. nóvember 2010 til greiðsludags.

Birta skal forsendur og niðurstöðu dóms þessa í fyrsta tölublaði DV sem út kemur eftir uppsögu dómsins.

Stefndi greiði stefnanda 750.000 krónur í málskostnað.