Print

Mál nr. 173/2008

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Þjófnaður
  • Vanaafbrotamaður
  • Upptaka
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. maí 2008.

Nr. 173/2008.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir, vararíkissaksóknari)

gegn

Anthony Lee Bellere

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Ólafur Helgi Árnason hdl.)

(Ása Ólafsdóttir hrl.

 Berglind Svavarsdóttir hrl.

 Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. réttargæslumenn)

 

Kynferðisbrot. Börn. Þjófnaður. Síbrotamaður. Upptaka. Miskabætur.

A var ákærður fyrir brot gegn 3. mgr. 202. gr., 209. gr. og 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með nánar tilgreindri háttsemi gegn þremur ungum stúlkum. Þá var hann einnig ákærður fyrir vörslur á barnaklámi og þjófnað. A játaði sök vegna þjófnaðarins en neitaði sök vegna annarra ákæruefna. Var A sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum var gefin að sök. Við ákvörðun refsingar A var litið til þess að hann er síbrotamaður. Þá var brotavilji hans einbeittur og brot hans beindust að ungum reynslulitlum stúlkum, sem hann beitt blekkingum til að komast í samband við. Þótti refsing A hæfilega ákveðin fangelsi í fimm ár. Þá þótti A með háttsemi sinni hafa bakað sér skyldu til greiðslu miskabóta til stúlknanna sem þóttu hæfilega ákveðnar á bilinu 200.000 til 1.000.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 13. mars 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til að greiða A 800.000 krónur, B 400.000 krónur og C 1.300.000 krónur, í öllum tilvikum auk nánar tilgreindra vaxta og dráttarvaxta.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af liðum A 1 til A 4 í ákæru  og hljóti vægustu refsingu sem lög leyfa vegna liðar B 5, en til vara að viðurlög verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir það sem honum er gefið að sök í öllum ákæruliðum, sem og um heimfærslu til refsiákvæða.

Ákærði er síbrotamaður. Brotavilji hans var einbeittur og beindust brot hans samkvæmt ákæruliðum A 1 til A 3 gegn ungum og óreyndum stúlkum, sem hann beitti blekkingum til að komast í samband við. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald, sem ákærði hefur sætt vegna málsins frá 24. mars 2008.

Héraðsdómur verður staðfestur með vísan til forsendna hans að því er varðar bætur til A og B, þó þannig að upphafstími vaxta og dráttarvaxta af bótum til handa A verður ákveðinn í samræmi við kröfugerð hennar eins og í dómsorði greinir. Bætur til C eru hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur, en um vexti af þeim fer samkvæmt því er nánar segir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Anthony Lee Bellere, sæti fangelsi í 5 ár. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 24. mars 2008.

Héraðsdómur skal vera óraskaður um greiðsluskyldu ákærða gagnvart B. Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2005 til 3. janúar 2006, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði greiði C 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. júlí 2006 til 12. mars 2007, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.115.999 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 622.500 krónur, og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola hæstaréttarlögmannanna Ásu Ólafsdóttur, Berglindar Svavarsdóttur og Steinunnar Guðbjartsdóttur, 124.500 krónur til hverrar.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 15. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 26. júlí 2007 á hendur Anthony Lee Bellere, kennitala [...], Bárugötu 22, Reykjavík, fyrir eftirtalin hegningarlagabrot:

                                                                           A.

Kynferðisbrot með því að hafa:

1. Í júlí 2005, á heimili sínu, í að minnsta kosti fimm skipti, tælt A, sem þá var 14 ára, til samræðis, bæði í leggöng og endaþarm, með því að beita hana blekkingum og nýta sér yfirburði sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar, en ákærði komst í samband við stúlkuna með því að segjast, í samskiptum við hana á veraldarvefnum, vera Magnús Guðmundsson 18 ára.

Er þetta talið varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.

2. Í nóvember og desember 2005, í mörg skipti í samskiptum við B á veraldarvefnum og í síma, sýnt stúlkunni, sem þá var 12 ára, lostugt og ósiðlegt athæfi, með klúru og klámfengnu tali og skrifum. Ákærði bað stúlkuna um að bera á sér brjóstin í vefmyndavél og um að senda sér mynd af brjóstum sínum og kynfærum, spurði hvort hún væri hrein mey og hvort hann mætti afmeyja hana, spurði hvort hann mætti sleikja hana og bað hana um að „fá það“ í síma. Ákærði komst í samband við stúlkuna með því að segjast, í samskiptum við hana, vera Maggi 18 ára.

Er þetta talið varða við 209. gr. almennra hegningarlaga, en til vara 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

3. Aðfaranótt laugardagsins 22. júlí 2006 þröngvað C til samræðis með því að beita hana ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðung. Ákærði tældi stúlkuna, sem þá var 16 ára, til að gista á heimili sínu með því að nýta sér yfirburði sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar og segjast, í samskiptum við hana á veraldarvefnum, vera Gunni 19 ára, og er hún lá sofandi í rúmi hans lagðist hann ofan á hana og þröngvaði henni til kynmakanna þrátt fyrir mótmæli hennar og að hún reyndi að ýta honum frá sér, en stúlkan vaknaði við að hann var að sjúga á henni hálsinn.

Er þetta talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, áður 194. og 195. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 40/1992, en til vara við 3. mgr. 202. gr. almennra, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.

4. Þriðjudaginn 29. nóvember 2006, haft í vörslu sinni í farsíma sínum tvær ljósmyndir sem sýna stúlkubörn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en myndirnar fundust við skoðun lögreglu á símanum sem lagt var hald á umræddan dag að Granaskjóli 34, Reykjavík.

Er þetta talið varða við 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 39/2000 og 2. gr. laga nr. 14/2002.

                                                               B.

5. Þjófnað, með því að hafa, sunnudaginn 9. júlí 2006, í versluninni Hagkaup,Hagasmára 1, Kópavogi, stolið þremur pakkningum með reyktum hunangsgrís að verðmæti krónur 4.656.

Er þetta talið varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

Dómkröfur:

a)           Að ákærði verði dæmdur til refsingar.

b)           Að farsími af tegundinni Nokia sem lögregla lagði hald á 29. nóvember 2006              verði með vísan til 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga gerður              upptækur.

c)           Að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta sem hér segir:

Af hálfu A, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð krónur 800.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2005 til 3. janúar 2006, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga, til greiðsludags.

Af hálfu C, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.300.000 með vöxtum samkvæmt 8. gr. frá 22. júlí til 5. nóvember 2006, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Af hálfu B, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð krónur 400.000 auk vaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2005 til greiðsludags.

Af hálfu ákærða er þess krafist aðallega að hann verði sýknaður af 1.-4. tl. í kafla A í ákæru. Til vara er þess krafist að ákærði hljóti vægustu refsingu er lög leyfa, sem jafnframt verði hegningarauki við dóm Hæstaréttar frá 15. febrúar 2007. Þá er þess krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á þeim. Loks er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun á rannsóknarstigi og vegna dómsmeðferðarinnar.

Ákæruliður A.1.

Málavextir.

Upphaf máls þessa má rekja til þess að barnaverndarnefnd Reykjavíkur fór fram á það við lögregluna í Reykjavík, með bréfi dags. 12. ágúst 2005, að fram færi lögreglurannsókn vegna gruns um að A hefði orðið fyrir refsiverðu athæfi af hendi ákærða. Vísaði nefndin í því sambandi til 202. gr. almennra hegningarlaga. Kemur fram í kærunni að móðir stúlkunnar hefði beðið nefndina um aðstoð vegna gruns hennar um að ákærði, sem komist hefði í samband við stúlkuna í gegn um internetið, hefði lokkað hana til fylgilags við sig og sagst vera mun yngri en hann raunverulega væri, eða 18 ára. Hefði móðirin sagst hafa vissu fyrir því að dóttir hennar hefði heimsótt manninn að Bárugötu 22.

Í kjölfar þessa kom móðirin, D, til lögreglu 13. september sama ár og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur hennar, A. Kemur fram í kæruskýrslunni að stúlkan hefði greint henni frá því, eftir [...] fyrstu helgina í júlí, að hún ætti kærasta sem væri hálfamerískur og héti Anthony Lee Bellere og væri 18 ára gamall. Ætti hann heima á Bárugötu og héti móðir hans E og ynni í [...]. Hefði stúlkan farið heim til hans daglega fyrstu tvær eða þrjár vikur júlímánaðar 2005. Þá hefði stúlkan eitt sinn komið heim frá ákærða, vikuna fyrir 17. júlí þá um sumarið, með risastóran sogblett á hálsinum. Sagðist D hafa spurt stúlkuna út í þessi mál á þessum tíma og hún þá svarað að hana langaði til að segja henni eitthvað en hún þyrði það ekki. Kvaðst móðirin hafa ekið fram hjá Bárugötu 22, laugardaginn 17. júlí 2005, og þá séð reiðhjól stúlkunnar þar fyrir utan. Í vikunni þar á eftir hefði hún aftur gengið á stúlkuna og hefði hún þá svarað að ákærði væri að fara á sjó og að hann ætlaði að gefa henni peninga og leggja inn á reikning hennar en áður hefði hann lofað að gefa henni hálsmen. Rétt fyrir verslunarmannahelgina hefði borist póstsending frá ákærða, ætluð stúlkunni, en í henni hefðu verið ýmsir skartgripir og ástarbréf. Kvaðst D hafa afhent bréfið og gjafirnar til barnaverndarnefndar.

Fyrir liggja í málinu þrjú bréf til A, dags. 29. og 31. júlí 2005 á Akureyri, undirrituð af Tony. Kemur þar meðal annars fram eftirfarandi: „A þú verður að sætta þig við að ég sé að gera þér svona því þú ert ástin mín og ég á þig og ég er virkilega ástfanginn af þér.“

Tekin var fyrst skýrsla af A í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. september 2005 í samræmi við a-lið 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Kvaðst hún þá hafa verið í sambandi við ákærða á MSN á netinu og í gegnum síma. Hefði hún upplýst ákærða um að hún væri 14 ára en hann hefði sagst vera 18 ára. Hins vegar kannaðist hún þá ekki við að hafa hitt ákærða. Stúlkan kom á ný fyrir dóminn 27. október 2005 og kvaðst þá hafa skýrt rangt frá í fyrri skýrslunni varðandi það að hún hefði aldrei hitt ákærða. Hefði hún ekki þorað að segja allan sannleikann varðandi samskipti sín við ákærða vegna hótana frá manni sem hringt hefði og hótað fjölskyldumeðlimum limlestingum ef kæra á hendur ákærða yrði ekki dregin til baka. Hefði hún sérstaklega óttast að eitthvað myndi henda systur sína sem þá hefði verið vanfær. Þá hefði ákærði einnig verið búinn að tala um það við hana á netinu, eftir að hafa verið kallaður í skýrslutöku hjá lögreglu, að hún skyldi ljúga. Ætti hún að segjast hafa hitt ákærða á einkamáli og að hún hefði sagt honum að hún væri 16 ára. Skýrði hún svo frá að hún hefði kynnst ákærða sumarið 2005 á netinu í gegnum betra.net. Einnig hefðu þau verið í samskiptum á MSN og hann þá notað netfangið reykur1@hotmail.com. Kvaðst hún einnig hafa talað við hann í síma og skipst á sms-skeytum við hann. Hefði hún sagt honum að hún væri 14 ára. Sagði hún ákærða hafa viljað hitta sig og beðið sig um að koma heim til hans að Bárugötu 22. Hefði hún farið þangað fyrst, annað hvort í lok júní eða byrjun júlí, um kl. átta að kvöldi. Hefði hún farið þangað hjólandi. Hefði ákærði lýst fyrir henni hvaða götur hún skyldi hjóla frá heimili sínu að Bárugötunni. Þá hefði hann lýst húsinu sem hann byggi í þannig að það væri hvítt með flagnaðri málningu og rauðu þaki. Skyldi hún fara þar inn á bílastæðið og geyma hjólið þar, ganga síðan upp stigann að dyrunum þar sem væri hvítur póstkassi með mynd af blásturshorni við hliðina á dyrunum. Ætti hún að fara þar inn, loka, setja í lás, ganga upp viðarstiga og fara upp til vinstri fram hjá appelsínugulri hurð og að hvítri hurð og fara þar inn í herbergið. Lýsti stúlkan því að ákærði hefði verið í herberginu þegar hún kom, alklæddur. Hún hefði þó ekkert séð hann því svartur plastpoki eða eitthvað þess háttar hefði byrgt gluggann og hún því mjög lítið séð. Eina birtan sem borist hefði inn í herbergið hafi verið í gegnum smágat á hurðinni. Hefði hún rétt séð glitta í rúmið, ljós sem logaði á tölvu, skrifborð og skrifborðsstól, kassalaga vekjaraklukku með rauðum stöfum og korktöflu sem hangið hefði uppi á vegg með póstkortum á. Ákærði hefði klætt hana úr öllum fötunum og lagt hana á bakið í rúmið. Eftir að hafa sjálfur afklæðst hefði hann snert hana alls staðar, þar á meðal brjóst og kynfæri, og farið með fingur inn í kynfæri hennar. Að hans beiðni hefði hún og snert getnaðarlim hans. Hann hefði svo haft við hana samfarir. Hafi það annars vegar verið um leggöng, og þá þannig að hann hefði látið hana liggja á bakinu og hann sjálfur legið ofan á, en hins vegar um endaþarm, og hefði ákærði þá fengið hana til að fara á fjórar fætur og hann síðan sett getnaðarlim sinn inn í rassinn. Stúlkan kvaðst ekki hafa viljað þetta en ekki tjáð honum það. Hefði þetta verið hennar fyrsta reynsla af kynlífi. Sagði hún ákærða hafa haft samfarir við sig oftar en einu sinni í þessari fyrstu heimsókn. Meðan á því stóð og á eftir hefði sér liðið mjög illa og hún hefði meitt sig.

A kvað ákærða hafa hringt strax daginn eftir og beðið sig um að koma aftur í heimsókn. Hefði hún ekki þorað annað en að gera það. Hefði hann þá einnig haft við hana samfarir og hún jafnframt snert getnaðarlim hans. Kvaðst hún hafa farið til ákærða í alls fimm eða sex skipti, nánast dag eftir dag, eftir að ákærði hefði hringt og beðið hana að koma. Hefði ákærði alltaf klætt hana úr fötunum, lagt hana í rúmið, snert hana og/eða hún snert hann, og hann svo haft við hana samfarir um leggöng og líklega í tvö til þrjú skipti í endaþarm. Á þessum tíma hefði hún ekki verið byrjuð á blæðingum en yfirleitt hefði blætt eitthvað í hvert skipti sem hann hefði haft við hana samfarir. Sérstaklega hefði blætt mikið í annað skiptið. Hefði af þessum sökum myndast risastór blóðpollur í rúmi ákærða. Stúlkan kvaðst aldrei hafa séð ákærða vegna myrkursins í herberginu. Hún hefði þó skynjað við snertingu að hann væri sköllóttur, með hring í hægra eyra og skeggbrodda. Er stúlkan var spurð hvers vegna hún hefði farið endurtekið til ákærða, þrátt fyrir að hafa svarað að henni hefði liðið þar illa í hvert skipti, svaraði hún því til að hún hefði talið að eitthvað myndi annars henda hana eða fjölskyldu hennar. Hefði hún jafnvel óttast að ákærði myndi drepa hana en kvað hann þó ekki beinlínis hafa ógnað sér eða hótað. Sagði hún ákærða hafa í upphafi logið því til að hann héti Magnús Guðmundsson en einhvern tímann þegar hún kom til hans hafi hann skýrt henni frá sínu rétta nafni.

Er skýrsla var fyrst tekin af ákærða hjá lögreglu 4. september 2005 kvaðst hann vera saklaus af kæru um kynferðisbrot gagnvart A. Hann hefði aldrei hitt hana og hún hefði aldrei komið á Bárugötu 22. Hins vegar kannaðist hann við að hafa talað við hana á MSN. Þá kannaðist hann við að hafa sent henni bréf með smágjöfum, en bréfið hefði hann skrifað á Akureyri. Ákærði kom á ný fyrir lögreglu 3. desember 2005 og var þá kynnt yfirheyrsla yfir stúlkunni fyrir dómi. Neitaði hann enn sök og kvaðst hafa losnað úr fangelsi í júlí 2005 og farið út á sjó viku eða hálfum mánuði seinna, en hann hafi verið lögskráður á Síldey NS 25 hinn 17. sama mánaðar. Ákærði var enn yfirheyrður vegna málsins 27. apríl 2006 og var þá kynnt niðurstaða DNA-rannsóknar af blóðsýnum sem fundust í dýnu og sæng í herbergi hans. Kvaðst hann þá ekki mótmæla niðurstöðunni en ítrekaði sem fyrr að hann hefði aldrei hitt stúlkuna. Skýringin á blóðblettunum hlyti að vera sú að stúlkan hefði farið inn í herbergi hans þegar hann hafi ekki verið heima.

Framkvæmd var húsleit hjá ákærða 28. október 2005 í framhaldi af úrskurði héraðsdóms. Liggur fyrir lögregluskýrsla þar um ásamt ljósmyndum af vettvangi.

Fyrir liggur í málinu greinargerð Ingu Maríu Vilhjálmsdóttur félagsráðgjafa vegna viðtalsmeðferðar sem A hafði fengið hjá henni. Kemur þar meðal annars fram að stúlkan hafi fyrir kynnin af ákærða glímt við tilfinningalegan vanda en að reynsla hennar af samskiptum við hann hafi gert henni erfiðara fyrir en ella að glíma við þá erfiðleika. Kemur og fram það álit Ingu Maríu að stúlkan hafi látið leiðast lengra í samskiptum sínum við ákærða vegna persónulegs vanda síns en annars hefði verið.

Sýni úr blóðblettum sem fundust í dýnu og sæng í herbergi ákærða voru send til greiningar hjá Rettsmedisinsk Institutt við háskólann í Osló hinn 16. desember 2005 ásamt samanburðarsýnum frá A og ákærða. Reyndust niðurstöður þær að DNA-snið í báðum sýnunum reyndust eins og DNA-snið stúlkunnar.

Skýrslur við aðalmeðferð máls.

Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst hafa haft samskipti við A í gegnum einkamál á netinu. Hefði hún sagst vera fædd 1981 en ekki 1991. Samskiptin hefðu síðan farið yfir á MSN. Sagði hann að þau hefðu fljótlega komist að því að amma hennar og móðir hans þekktust. Hins vegar hefði hann þrátt fyrir það ekki áttað sig á aldri stúlkunnar því hann hefði ruglað henni saman við systur hennar sem sé nokkuð eldri, fædd áttatíu og eitthvað, og hafi hann staðið í þeirri trú að hann væri í raun í samskiptum við hana. Ákærði kannaðist ekki við að hafa sagst heita Magnús og vera 18 ára og kvaðst aldrei hafa hitt stúlkuna, aðeins talað við hana í síma. Hefðu samtöl þeirra aðallega snúist um fjölskyldumál og framangreind tengsl milli móður hans og ömmu hennar. Stúlkan hefði hins vegar sent honum mynd af sér úr gsm-síma sínum og því viti hann hvernig hún líti út. Hann geti því staðfest að mynd í farsíma sínum, sem fjallað er um í ákærulið A.4, og móðir stúlkunnar hefur sagt vera af stúlkunni fáklæddri, sé ekki af henni. Spurður um bréf og gjafir sem hann hafi sent stúlkunni kvaðst ákærði hafa keypt hálsmen og eitthvað þess háttar einnota dót handa henni í hrekkjabúð á Akureyri um verslunarmannahelgina 2005 og hafi þá verið ölvaður. Þetta væri ekkert sérstakt því hann væri svona við alla. Einnig hefði haft þarna áhrif að hann hefði litið svo á að stúlkan væri eins konar fjölskylduvinur. Um verslunarmannahelgina 2005 hafi hann lagt peninga inn á bankareikning stúlkunnar og þá komist að því hvað hún væri gömul. Hefði ástæða þessa verið sú að komið hefði fram í samtali þeirra að hana langaði í bjór. Þar sem hann hefði sjálfur verið að drekka bjór á Akureyri hefði hann vorkennt henni að geta ekki líka fengið bjór. Til þess að þetta gæti gengið eftir hefði hann þurft að fá bæði kennitölu hennar og reikningsnúmer. Hefði hann þá áttað sig á hvað hún væri gömul og hætt samskiptum við hana eftir það.

Ákærði var spurður hvort hann hefði skýringar á því að við rannsókn á blóði sem fannst í rúmi ákærða hefðu fundist DNA-snið sem væru sams konar og DNA-snið stúlkunnar. Gat hann ekki gefið neina einhlíta skýringu á því en benti á að eftir að hann hefði losnað af Litla-Hrauni 1. júlí 2005 hefði hann ákveðið að hafa húsið opið til að lofta út vegna kattar sem hann hefði haldið á þessum tíma og gæti vel verið að stúlkan hefði á þeim tíma komið í herbergið án þess að hann vissi af því. Sjálfur hefði hann þá ekki notað herbergið nema sem geymslu fyrir DVD-myndir og ýmislegt dót. Spurður af verjanda hvenær hann hefði byrjað vinnu eftir að hann lauk afplánun 1. júlí þetta ár sagði ákærði að verið gæti að hann hefði farið nokkrum dögum fyrr til Seyðisfjarðar til að undirbúa þar skipið til veiða sem gögn málsins staðfesti að hann hafi verið lögskráður á hinn 17. júlí.

Vitnið D, móðir stúlkunnar, kvaðst hafa orðið vör við það, fyrstu vikurnar í júlí, að dóttir hennar væri að fara eitthvað út snemma á morgnana. Er hún hefði gengið á stúlkuna hefði hún ekkert viljað um það segja annað en það að hún færi upp á Bárugötu. Kvaðst vitnið hafa farið þangað eitt sinn, líklega laugardaginn 17. júlí þetta sumar, og hafi hún þá séð hjólið hennar fyrir utan Bárugötu 22 ásamt tveimur öðrum hjólum og staðið í þeirri trú að stúlkan væri þar að hitta einhverja aðra unglinga. Þau foreldrar hennar hefðu svo spurt stúlkuna út í þetta í kjölfarið og hún þá svarað því til að kærasti sinn ætti heima þar en hann væri 18 ára og ætti þrjú systkini. Hefði hún og skýrt þeim frá því að þau hefðu kynnst í gegnum netið á svokölluðu stjörnutorgi. Þá kvaðst vitnið hafa orðið vör við að stúlkan væri að tala í síma á nóttunni. Kvaðst hún svo hafa spurt stúlkuna nánar út í þetta og hefði hún þá sagt manninn heita Anthony Lee Bellere. Hefðu þau foreldrarnir þá kannað í tölvunni með aldur mannsins og hefði stúlkan ekki viljað trúa því þegar þau hefðu upplýst hana um hver réttur aldur hans væri. Einhvern tímann eftir þetta sagðist vitnið hafa tekið upp umslag, sem stúlkan hefði fengið í pósti frá ákærða, og farið með það til barnaverndarnefndar. Hefðu verið í því lyklakippa, hálsmen og bréf sem liggi fyrir í málinu. Aðspurð hvort hún gerði sér grein fyrir hver afstaða stúlkunnar hefði verið til þessa manns á þessum tíma sagðist vitnið ekki geta sagt neitt til um það. Hins vegar væri ljóst að hún hefði á þessum tímabili breyst mikið í hegðun, verið mjög ör og pirruð og í raun hegðað sér alveg furðulega. Væri félagsleg staða stúlkunnar slæm. Hún hefði fyrir átt erfitt í skóla, allt frá 11 ára aldri. En á þeim tíma sem þetta hefði komið upp hefði hún hætt að umgangast þá krakka sem hún hefði verið í samskiptum við. Hefði hún í kjölfarið flosnað upp úr skólanum sem hún var þá í en þó klárað hann um vorið. Sérstaklega hefði hún átt erfitt um veturinn eftir að hún hefði áttað sig á raunverulegum aldri mannsins. Væri líðan hennar enn slæm og virtist sem hún hefði ekki neina löngun til að lifa. Hefði hún í fyrstu verið treg til að þiggja aðstoð frá sérfræðingi en undir lokin hafi það þó orðið úr og væri hún í stöðugri meðhöndlun.

Vitnið kvað ákærða hafa hringt nokkrum sinnum í þau foreldrana eftir að mál þetta kom upp og verið að spyrja hvort hann hefði nokkuð skaðað hana. Hefði hann reynt að fá þau til að draga kæruna til baka með alls konar hótunum. Þá hefði hann eitt sinn hringt og þóst vera vinur ákærða. Hefði hann þá hótað föður stúlkunnar alvarlegum líkamsmeiðingum. Sérstaklega aðspurð um kunningsskap á milli fjölskyldu ákærða og vitnisins svaraði hún því til að rétt væri að móðir ákærða og amma sín hefðu unnið saman en enginn samgangur hefði verið á milli þessara tveggja fjölskyldna.

Vitnið Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti skýrslu um tæknirannsókn sem hann vann vegna þessa ákæruliðar. Sagði hann rannsókn á blóðblettum úr rúmdýnu og sæng hafa leitt í ljós að DNA-snið í báðum þessum blettum væru sams konar og úr brotaþola sem þýddi í raun að þau væru eins. Vitnið sagði að líkur á að finna einstakling með sama snið væru taldar vera að lágmarki einn á móti milljarði. Vitnið kvað ekki hafa verið önnur lífsýni í þessum blettum.

Vitnið Inga María Vilhjálmsdóttir félagsráðgjafi kvaðst hafa haft A í viðtalsmeðferð hjá sér. Hefði stúlkan fengið tilvísun til sín 12. ágúst 2005 frá Baldri Thorsteinson heimilislækni vegna þunglyndis, kvíða, félagsfælni og einangrunar ásamt erfiðleikum í skóla. Hefði einnig komið fram í tilvísun læknisins að stúlkan ætti í kynferðislegum samskiptum við mun eldri mann og að þau samskipti hefðu verið kærð til lögreglu. Vitnið kvaðst hafa hitt stúlkuna í fyrsta skipti 5. september 2005 ásamt foreldrum hennar en viðtöl við hana hefðu alls orðið 51. Vitnið kvað líðan hennar ekki vera góða og hún ætti erfitt í skóla vegna þunglyndis og kvíða en hefði þó klárað grunnskóla. Vitnið kvað stúlkuna hafa verið trega til að ræða samskipti sín við ákærða, hún ætti erfitt með að orða líðan sína og segja frá viðkvæmum hlutum. Hún hefði átt við kvíða og þunglyndi að etja fyrir, en þetta atvik hefði ekki hjálpað til. Vitnið kvaðst telja að stúlkan hefði látið leiðast lengra í samskiptum sínum við þennan mann vegna þess að hún hefði staðið höllum fæti og ekki haft nægar varnir fyrir til að átta sig á hlutum. Vitnið kvað erfitt að lýsa áhrifum á stúlkuna vegna þess að hún hefði ekki getað rætt þetta í neinu samhengi. Það hvað stúlkan væri illa stödd í dag væri að hluta til vegna þessara samskipta en erfitt væri að átta sig á í hve miklum mæli.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök og kveðst aldrei hafa hitt A. Hann játar þó að hafa verið í samskiptum við hana í gegn um MSN á netinu og eins símleiðis. Hafi spjall þeirra eingöngu verið um tónlist og kvikmyndir og fleira þess háttar en alls ekki verið á kynferðislegum nótum. Heldur ákærði því fram að hann hafi verið kominn á sjó þann dag sem móðir stúlkunnar taldi sig sjá hjólið hennar fyrir utan hús hans, en þann dag, 17. júlí 2005, hafi hann verið lögskráður á bát eins og gögn staðfesti.

Stúlkan hefur hins vegar borið að hún hafi á umræddu tímabili, að beiðni ákærða, í fimm til sex skipti heimsótt hann að Bárugötu og að ákærði hafi í öll skiptin haft við hana samfarir, bæði um leggöng og í endaþarm. Hefur hún lýst aðkomu þar á staðnum, herbergjaskipan og hvernig gluggi hafi verið byrgður með svörtum plastpokum. Hafi þar meðal annars verið korktafla á vegg og kassalaga vekjaraklukka. Fer lýsing þessi mjög saman við ljósmyndir af vettvangi og lýsingu lögreglu á því hvernig aðstæður voru þar er framkvæmd var þar húsleit. Frásögn hennar fær og stuðning af vætti D, móður hennar, um að stúlkan hefði sagt henni frá ferðum sínum í hús við Bárugötuna á morgnana og um að hún hefði séð hjól stúlkunnar fyrir utan heimili ákærða við þá götu. Breytir engu í þessu sambandi sú staðhæfing ákærða að fyrir liggi að á þeim degi sem móðirin taldi sig hafa séð hjólið, hafi hann verið lögskráður á skip, enda liggur fyrir að umrætt skip lét fyrst úr höfn tveimur dögum seinna. Þá fær framburður brotaþola einnig stuðning í vætti D og Ingu Maríu Vilhjálmsdóttur félagsráðgjafa um andlegt ástand stúlkunnar eftir atburðinn. Loks verður að telja sannað, með niðurstöðum DNA-rannsóknar á blóði sem fannst í rúmdýnu og sæng ákærða, að stúlkan hafi verið í því rúmi og eru skýringar ákærða á því að blóðið fannst þar fjarstæðukenndar að mati dómsins. Rennir það stoðum undir þann framburð stúlkunnar að henni hafi blætt eftir samfarir við ákærða. Þegar allt framangreint er virt verður að telja að framburður stúlkunnar fái fulla stoð í þeim gögnum sem fyrir liggja. Eftir að hafa horft og hlýtt á upptöku af framburði stúlkunnar sem hún gaf hjá héraðsdómara 27. október 2005 og farið að öðru leyti vandlega yfir hann er það niðurstaða dómsins að framburður hennar sé mjög trúverðugur. Þar sem hann styðst einnig í hvívetna við gögn málsins þykir mega leggja hann til grundvallar niðurstöðu í málinu, meðal annars varðandi það að þau ákærði hafi haft samræði á heimili hans svo oft og með þeim hætti sem í ákæru greinir.

Við mat á því hvort ákærði hafi beitt stúlkuna blekkingum og nýtt sér yfirburði sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar verður að horfa til þess framburður stúlkunnar að ákærði hafi í upphafi samskipta þeirra þóst vera 18 ára og heita Magnús Guðmundsson. Fær sá framburður hennar og stoð í vætti móður hennar D um að stúlkan hefði á sínum tíma skýrt þeim foreldrum sínum frá því að hún væri að heimsækja 18 ára kærasta sinn. Þá fer ekki á milli mála, þegar litið er til ljósmynda af herbergi ákærða og framburðar stúlkunnar, að ákærði hefur kappkostað að hindra að birta kæmist inn í herbergi hans og torvelda á annan hátt að stúlkan gæti séð hvernig hann liti út í raun. Þá hefur hann augljóslega undirbúið heimsókn hennar til hans í upphafi með þetta sama í huga. Þegar þessi háttsemi hans er metin heildstætt er það niðurstaða dómsins að fram sé komin lögfull sönnun um að ákærði hafi blekkt stúlkuna og nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni vegna aldurs- og þroskamunar, sem fólst í því að hann var á þessum tíma 39 ára en hún aðeins 14, og tælt hana til þeirra kynlífsathafna með sér sem um ræðir.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í þessum ákærulið og þar þykir réttilega færð til refsiákvæða.

Ákæruliður A.2.

Málavextir.

Upphaf máls þessa má rekja til þess að Fjölskyldu- og félagsþjónusta [...] fór fram á það við lögregluna í [...], með bréfi dags. 1. desember 2005, að fram færi lögreglurannsókn vegna gruns um að B, sem þá var 12 ára gömul, hefði orðið fyrir kynferðisbroti af hendi óþekkts aðila. Kom fram í beiðninni að B hefði leitað til námsráðgjafa í [...]skóla í [...] hinn 30. nóvember sama ár eftir að hafa séð í DV tveimur dögum áður frétt og netfang manns er hún hefði verið í samskiptum við, en í þessari frétt hefði komið fram að maður þessi hefði verið að ofsækja ungar stúlkur. Hefði maðurinn þar verið kallaður barnaperri og nafngreindur sem ákærði í máli þessu. Hefði komið fram að maðurinn hefði netfangið reykur1@hotmail.com og hefði telpan þá áttað sig á því að hún hefði sjálf verið í netsamskiptum við mann með sama netfang í gegnum samskiptaforritið MSN. Hefði hann sagst vera 18 ára en hún hefði sagt honum að hún væri 12 ára.

Tekin var skýrsla af B hjá Héraðsdómi [...] 30. mars 2006 í samræmi við a-lið 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Kvaðst hún hafa verið á MSN hjá systur sinni þegar einhver sem hún þekkti ekki hefði farið að tala við hana og senda henni mynd af sér í símann. Hefði hann sagt að honum fyndist hún sæt og spurt hvað hún væri gömul. Kvaðst telpan þá hafa sagst vera 12 ára en hann hefði sagst vera 18 eða 19 ára. Hann hefði svo hringt í hana strax daginn eftir án þess að hún minntist þess að hafa gefið honum upp símanúmerið sitt. Hefði hann sagst heita Maggi og spurt hana meðal annars hvort hún væri hrein mey og hvort hann mætti afmeyja hana. Þá hefði hann spurt: „Viltu flassa mig?“ því hann hefði vitað að hún væri með vefmyndavél á tölvunni. Hann hefði og spurt hana hvort hún vildi hitta hann en hún svarað því neitandi vegna þess að hann væri 19 ára. B kvaðst oft hafa talað við hann á MSN eftir þetta. Einnig hefðu þau skipst á að hringja hvort í annað. Hefði hann alltaf verið að biðja hana um að „flassa“. Einhverju sinni þegar hann hefði verið á Seyðisfirði hefði hann beðið hana um að vera í renndri peysu fyrir framan vefmyndavélina svo hún gæti rennt henni frá. B kvað hann einnig hafa spurt hvort hann mætti sleikja hana og beðið um að hún sendi honum mynd af brjóstum sínum og kynfærum. Þá minntist hún þess að í tvígang hefði hann beðið hana um að „fá það“ í símann. Hefði hún alltaf neitað öllum slíkum beiðnum. Hún hefði þó sent honum andlitsmynd af sér, tekna á símann. Sjálfur hefði hann hins vegar sent henni mynd af dökkhærðum pilti sitjandi í stól að reykja og sagt hana vera af sér. Hann hefði þó ekki alltaf talað á þessum nótum og hefði hann þá stundum verið skemmtilegur.

B sagði ákærða hafa beðið hana um heimilisfang hennar því hann hefði sagst ætla að senda henni eitthvað. Hefði hann síðan oft talað um að senda henni eitthvað en af því hefði aldrei orðið. Hún kvaðst aldrei hafa orðið við beiðnum ákærða um að hitta hann. Þau hefðu átt samskipti einu sinni eða tvisvar á dag og því hefði lokið þegar hún sá fréttina í DV. Í framhaldinu hefði hún farið til námsráðgjafa í skólanum og sagt henni frá þessu. Þegar hún hefði sagt ákærða að þau þyrftu að hætta að tala saman hefði hann þóst fara að gráta og ætla að drepa sig.

B kvað ákærða hafa byrjað að tala aftur við sig í febrúar á netinu undir öðru netfangi, ussuss1@visir.is. Hann hafi þá sagst vera 16 eða 17 ára og sent mynd af öðrum strák. Kvaðst hún hafa vitað að þetta væri hann vegna þess að hann hefði látið hana hafa sama símanúmer og fyrr. Sagði hún ákærða hafa í samskiptum sínum í gegnum MSN haft fasta tilvísun á heimasíðu hans með slóðinni www.folk.is/eyrnapinnar.

B kvaðst hafa fengið martraðir eftir þetta og henni fyndist óþægilegt að vera nálægt fullorðnum karlmönnum. Þá óttaðist hún að hitta ákærða á götu í Reykjavík.

Ákærði var fyrst yfirheyrður vegna málsins hjá lögreglu 9. febrúar 2006. Kvaðst hann þá ekkert kannast við að hafa verið í sambandi við B og að það væri af og frá að hann væri að hafa samband við svo ung börn. Þá kannaðist hann ekki við að hafa kynnt sig í tölvusamskiptum sem Magga sem væri 18 ára gamall. Er ákærði var yfirheyrður á ný 2. október 2006 hélt hann að mestu fast við sinn fyrri framburð en játaði þó að hafa hringt í símanúmer telpunnar en þá eingöngu til að forvitnast um hver væri hinum megin á línunni. Hann hefði þó ekki fengið neina vitneskju um það fyrr en hann var yfirheyrður hjá lögreglu hvaða stúlka hefði það símanúmer.

Við athugun lögreglu á því hver héldi úti heimasíðunni www.folk.is/eyrnapinnar fengust þær upplýsingar hjá visir.is að heimasíðan tengdist netfanginu ussuss4@visir.is. Hjá viðkomandi símafyrirtæki fengust síðan þær upplýsingar að móðir ákærða, E, væri skráð fyrir IP-tölu tölvunnar sem skráði umrætt netfang.

Í málinu liggur fyrir ljósmynd af ungum manni sem B kvaðst hafa fengið senda frá ákærða með þeirri umsögn að það væri mynd af honum sjálfum. Einnig fylgja rannsóknargögnum myndir af hluta af þeim MSN-samskiptum sem telpan segist hafa staðið í við ákærða og eru sagðar hafa verið teknar af föður hennar af tölvuskjá telpunnar.

Fram hefur verið lögð greinargerð Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings, vegna sex viðtala sem hún tók við B samkvæmt ósk Barnaverndarnefndar [...]. Kemur þar meðal annars fram að telpan hafi orðið fyrir ákveðnu áfalli er hún uppgötvaði eftir frétt í DV að netfang mannsins sem þar var fjallað um hafi verið það sama og netfang þess aðila sem hún hafi verið í samskiptum við, eða reykur1@hotmail.com. Hafi þetta valdið henni ýmsum erfiðleikum og vanlíðan sem hafi minnkað eftir að hún fór að nýta sér viðtölin. Hafi hún undir lokin talið að þetta háði sér ekki lengur.

Skýrslur við aðalmeðferð máls.

Ákærði neitaði sök. Hann kvaðst í fyrstu aldrei hafa talað við B enda megi sjá af skýrslum að hún hafi verið á MSN-spjallrás systur sinnar. Stuttu síðar kvaðst ákærði hafa talað við hana í síma eftir að hafa verið í samskiptum við hana á MSN og hafi það verið vegna þess að hann hefði lent í því að hafa talið sig vera í samskiptum við kvenmann á netinu og svo hefði það reynst vera karlmaður. Kannaðist ákærði við að hafa verið í einhverjum MSN-samskiptum við hana og talað eitthvað við hana í síma. Aðspurður hvort hann hefði í samskiptum sínum á netinu kallað sig Magga 18 ára svaraði hann því ekki beint en kvaðst yfirleitt kalla sig Tony. Loks neitaði hann því að hafa staðið í kynferðislegum skrifum á netinu. Í netskrifum sínum spjallaði hann aðallega um tónlist, kvikmyndir og þess háttar.

Vitnið F, móðir B, kvaðst fyrst hafa fengið vitneskju um mál þetta þegar hún hefði sýnt dóttur sinni frétt í DV varðandi ákærða og sagt við hana að hún þyrfti að gæta sín. Hefði B lesið fréttina án þess þó að ræða málið við sig neitt frekar þá. Nokkru síðar hefði námsráðgjafi í skóla telpunnar hins vegar haft samband við sig og sagt sér frá samtali sem hún hefði átt við B þar sem hún hefði sagst hafa verið í sambandi við manninn sem fréttin var um. Hann væri 16 ára og héti Maggi og hún hefði reynt að losna við hann. Sagði vitnið að dóttir hennar hefði síðan skýrt henni frá því að þetta hefði í fyrstu verið saklaus samskipti. Þetta hefði svo þróast smám saman út í mjög kynferðislegt tal af hálfu ákærða og að hann hefði meðal annars beðið hana um myndir af brjóstum hennar og boðist á móti til að senda henni myndir af kynfærum og gjafir. Hefði telpan viljað losna við ákærða en án árangurs. Vitnið kvað þetta hafa haldið áfram eftir að málið var komið til lögreglu, samskipti á MSN og sms-skilaboð. Vitnið kvað B lítið vilja tala um þetta í dag en hún væri enn reið og liði illa. Hún væri hrædd og færi ekki í miðbæ Reykjavíkur nema í fylgd með sér af ótta við að rekast á ákærða. Þá fengi hún martraðir og vildi ekki slökkva ljós þegar hún færi að sofa.

G, vinkona B, skýrði frá því að hún hefði oft verið viðstödd þegar B var í sambandi við umræddan mann. Hefði maður þessi fyrst komið inn á MSN-ið hennar og byrjað þar að tala við hana. Hefði hann sagst heita Maggi og vera 17 ára en B hefði á móti sagt honum hvað hún væri þá gömul. Minnti vitnið fyrst að hún hefði sagst vera 13 ára en taldi er hún var aftur spurð um þetta að um misminni gæti hafa verið að ræða og að hún hefði líklega sagst vera 12 ára gömul. Hefði hann oft beðið B um að hitta sig og hringja í sig. Þegar þau hefðu talað saman í síma hefði hann alltaf hringt í hana og kvaðst vitnið meðal annars hafa heyrt hann halda því fram að þau væru saman og þegar hún neitaði því hefði hann hótað að drepa sig. Þá hefði hann látið senda skilaboð til hennar úr öðrum síma um að Maggi væri búinn að drepa sig og væri uppi á sjúkrahúsi. Kvaðst hún hafa heyrt hvað hann sagði við B með því að leggja eyrað upp að símanum og hlusta þannig. Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa orðið sjálf beinlínis vitni að kynferðislegu tali í þessum samskiptum. B hefði þó sagt henni frá slíku tali en hún væri búin að gleyma hvers eðlis það hefði verið. Hefði B fyrst komist að hinu sanna þegar hún hefði séð frétt um manninn í DV en þar hefði komið fram að maðurinn notaði netfangið reykur1@hotmail.com eða sama netfangið og umræddur Maggi hefði notað. Kvaðst vitnið hafa vitað til þess að B hefði verið mjög brugðið vegna þessa enda hefði hún staðið í þeirri trú að um 17 ára pilt væri að ræða. Hefði hún til dæmis ekki viljað slökkva ljósin þegar hún fór að sofa.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök. Hins vegar var framburður hans fyrir dómi mjög óstöðugur um hvort hann hefði verið í einhverjum samskiptum við telpuna í gegnum netið og símleiðis og þá á hvaða nótum þau samskipti hefðu verið. Sýnist þó liggja fyrir að ákærði viðurkennir að hafa verið í samskiptum með framangreindum hætti við telpuna án þess þó að þau hafi verið á kynferðislegum nótum.

Strax eftir að opinber umfjöllun hófst um meint kynferðisbrot ákærða á síðum DV skýrði B námsráðgjafa í skóla sínum frá klúru og klámfengnu tali manns í hennar garð sem notað hefði sama netfang og símanúmer og lýst var í DV að ákærði hefði notað. Var málið þá strax kært til lögreglu. Dómurinn hefur skoðað myndbands­upp­tökur af vitnisburði telpunnar og er einhuga um að hann sé trú­verðugur. Fær hann og stoð í vætti móður hennar, F, og vinkonunnar, G, um að B hefði skýrt þeim frá slíku tali mannsins. Þá fær framburður hennar og stoð í ljósmyndum, sem liggja fyrir og faðir telpunnar mun hafa tekið af tölvuskjá stúlkunnar, sem sýna MSN-samskipti af kynferðislegum toga frá manni sem gaf upp símanúmer sem skráð er á ákærða. Loks liggur fyrir að móðir ákærða var skráð fyrir IP-tölu tölvunnar, sem skráði netfangið ussuss4@visir.is og að það netfang tengdist heimasíðunni www.folk.is/eyrnapinnar, sem telpan hefur sagt að ákærði hafi vísað á í samskiptum sínum á netinu. Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi sýnt telpunni, sem þá var 12 ára, lostugt og ósiðlegt athæfi, með klúru og klámfengnu tali og skrifum með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Hefur ákærði með greindri háttsemi gerst sekur um brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður A.3.

Málavextir.

Hinn 4. ágúst 2006 barst lögreglunni á [...] beiðni frá félags- og skólaþjónustu [...] á [...] um rannsókn á meintu nauðgunarbroti manns, sem kallað hefði sig Gunna, gagnvart C. Kemur fram í bréfinu að nefndinni hefði borist tilkynning frá neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landspítala-háskólasjúkrahúsi um að C hefði komið þangað 23. júlí 2006 vegna nauðgunar þá um nóttina. Í framhaldi hefði H félagsmálastjóri tvívegis rætt við stúlkuna, 1. og 4. ágúst, og hefði þá komið fram hjá henni að hún hefði farið í rútu frá [...] til Reykjavíkur hinn 21. júlí í leyfisleysi. Í Reykjavík hefði hún hitt vin sinn I og Gunna sem væri 19 ára gamall. Hefði samist um að hún fengi að gista hjá Gunna sem byggi hjá móður sinni að Bárugötu 22. Hefði hún komið heim til Gunna um miðnættið og gist í herberginu hans. Hefði hún verið mjög þreytt og sofnað fljótlega. Hún hefði svo vaknað um þrjú til fjögurleytið um nóttina við að Gunni hefði farið að bera út blöð. Hún hefði svo vaknað á ný um sexleytið við það að Gunni hefði snúið henni að sér í rúminu og byrjað að kyssa á henni hálsinn. Hefði hún barist á móti og sagt nei og reynt að ýta honum frá sér. Hefði nauðgunin ekki tekið langan tíma og hefði Gunni farið fram á eftir. Henni hefði fundist hún öll vera dofin á eftir og ekki munað eftir neinu fyrr en um hádegisbilið. Hefði hún einhvern tímann eftir þetta hringt í J, vinkonu sína á [...], og sagt henni frá hvað gerðist og síðan hefði hún fengið vini sína til að fara með sig á neyðarmóttökuna. Kemur loks fram í bréfinu að umræddur Gunni hefði ítrekað sent stúlkunni sms-skeyti þar sem hann hótaði m.a. að hann ætli að taka líf sitt. Hefði Gunni þessi símann 848-9984.

Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að við athugun lögreglu í kjölfarið hefði komið í ljós að enginn Gunni byggi að Bárugötu 22. Hins vegar byggi þar skráður eigandi símanúmersins 848-9984 sem væri ákærði í máli þessu. Hann væri ekki 19 ára heldur tæplega fertugur, byggi hjá móður sinni og bæri út Fréttablaðið að nóttu til.

Í skýrslu Jóhönnu Jónasdóttur læknis sem framkvæmdi réttarlæknisfræðilega skoðun á C, sunnudaginn 23. júlí 2006 kl. 01.30, er haft eftir stúlkunni að I hafi ekið henni að húsi við Bárugötu um miðnættið aðfaranótt laugardagsins. Hafi hún þar hitt Gunna og sofnað þar í herbergi hans á efstu hæð. Einhvern tímann eftir þrjú hafi hún svo vaknað við það að Gunni hafi verið lagstur ofan á hana allsber og verið að sjúga á henni hálsinn. Hafi hann tekið hana úr nærbuxunum, farið inn í hana og haft við hana samfarir. Hafi það verið mjög sárt en hún hefði aldrei haft samfarir áður. Hafi hann verið fljótur að ljúka sér af og hún sagst ekki vita hvort hann hefði fengið sáðlát en hann hefði notað smokk. Hafi hann svo farið skyndilega í slopp sem legið hafi á gólfinu og út úr herberginu. Fram kemur einnig að stúlkan hafi komið á neyðarmóttökuna í fylgd I og K. Í skýrslu læknis segir svo um ástand sjúklings við skoðun: „Titrar, ofandar og tárin hrynja. Skelfur og á mjög erfitt með að segja frá atburðinum.“ Þá kemur einnig fram í skýrslu læknis að rauðblár blettur, sogblettur, 2-3 cm í þvermál, sé vinstra megin á hálsi. Á meyjarhaftinu sé fersk (tætt) rifa klukkan sex. Rauðbrúnir kekkir í slíminu við meyjarhaftið og framan við meyjarhaftið við portio kl. 6 sé afrifa, sprunga í slímhúðinni sem sé 2 cm löng og léttblæðandi. Engin merki hafi sést um sæðisfrumur. Loks kemur fram að tekin hafi verið DNA-sýni frá sogbletti, hálsi og frá nára og pubissvæði.

Sýni sem safnað var á neyðarmóttöku voru send til DNA-greiningar hjá Rettsmedisinsk Intitutt við háskólann í Osló. Voru sýnin tekin á stöðum þar sem stúlkan taldi að hún hefði verið kysst og merkt annars vegar sem A1, askja með einum pinna merkt háls, og A2, askja með einum pinna merkt sogblettur á hálsi. Segir í niðurstöðum rannsóknarstofunnar að bæði sýnin hafi gefið jákvæða svörun við munnvatnsprófum og þau hafi síðan verið rannsökuð með tilliti til þekjufruma. Hafi niðurstöður greininga á báðum sýnum gefið til kynna að í þeim væri að finna blöndur DNA-sniða frá a.m.k. tveimur einstaklingum og hafi kyngreinir sýnt að um væri að ræða blöndur sem rekja mætti til karls og konu. Í sýni A1 hafi reynst eitt DNA-snið í miklum meirihluta og hafi það verið sams konar og DNA-snið brotaþola. Allar aukasamsætur, sem fram hafi komið í sýninu, hafi reynst til staðar í DNA-sniði ákærða. Niðurstöður greiningar á sýni A2 hafi leitt í ljós blöndu DNA-sniða sem séu sams konar og DNA-snið brotaþola og ákærða.

Tekin var skýrsla af C hjá Héraðsdómi [...] 30. ágúst 2006 í samræmi við a-lið 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Kvaðst hún þá hafa kynnst Gunna á betra.net í lok október 2005. Hefðu þau fyrst haft samskipti í gegnum MSN á netinu og frá því í desember 2005 í gegnum síma. Þau hafi oft talað saman á netinu eða u.þ.b. 4-5 sinnum í viku. Hefði hann oftast átt frumkvæði að samskiptum þeirra. Hefði hann oft sagt eitthvað kynferðislegt við hana á netinu en hún hefði ekki talað þannig við hann. Hefði hann þannig spurt hana einhvern tímann að því hvort hann mætti ríða henni. Hefði hann sagst heita Gunni, vera 19 ára og búa á Bárugötu 22. Hann hafi sent henni mynd af mjóum strák í blárri skyrtu. J vinkona hennar hefði einnig talað við hann en ekki eins oft. C sagði að sér hefði líkað ágætlega við Gunna og að þau hefðu verið vinir. Hefði hann beðið hana um að hitta sig og boðið henni að gista hjá sér. Hefði hana langað til að fara og hún svo látið verða af því 21. júlí 2006.

C kvaðst hafa farið til Reykjavíkur föstudaginn 21. júlí 2006. Hún kvaðst hafa tekið rútu frá [...] til [...] og þaðan áfram til Reykjavíkur. Hún kvaðst hafa komið til Reykjavíkur um klukkan 11 um kvöldið og verið sótt á BSÍ af vini sínum I. C kvaðst hafa verið með I um kvöldið, farið með honum á bar og hitt vini hans en síðan hafi hann ekið henni að Bárugötu 22 um eittleytið þar sem hún hafi ætlað að gista hjá Gunna. C kvaðst ekki hafa neytt áfengis eða vímuefna. Hafi hún beðið I sem hún hefði kynnst í gegnum MSN samskipti að ná í sig á BSÍ. Hefðu þau eitthvað verið saman að rúnta þar til I hefði skutlað henni á Bárugötu 22, einhvern tímann milli kl. hálfeitt og eitt. Þegar hún hefði komið þangað hefði hún hringt í Gunna og hefði hann lýst leiðinni inn í húsið fyrir henni í gegnum síma. Sagði hún húsið vera steinhús og hefði hún gengið upp útitröppur, bakdyramegin, og opnað þar dyr. Eftir að hún kom þar inn hefði hún eitthvað villst til að byrja með því hún hefði farið niður í kjallara en þar hafi verið eitthvert partý í gangi. Hún hefði svo snúið við og farið upp stigann og upp á 2. hæð, og þar inn í herbergi. Er hún hefði opnað þar herbergisdyrnar hefði allt verið þar svart því engin birta hefði verið í herberginu. Hefði Gunni verið þar inni en hún hefði ekki séð hann vegna þess hversu dimmt var inni. Hún kvaðst þó hafa fundið að hann var búinn að raka á sér höfuðið og eins kvaðst hún hafa þekkt röddina því þau hefðu rætt nokkrum sinnum saman í síma. Henni hefði þó fundist hann tala geðveikt fullorðinslega miðað við að hann væri 19 ára. Sagði hún að þau hefðu lagst saman upp í rúm og talað saman. Kvaðst hún þá enn hafa verið fullklædd en hún gæti ekki sagt til um hvernig hann hefði þá verið klæddur. C kvað þau ekki hafa verið að kyssast meðan þau voru að tala saman uppi í rúmi en hann hefði strokið henni um allan líkamann, þar á meðal brjóstin og að neðan. Hefði hún til að byrja með ekki tekið því neitt illa. Um kl. 3 um nóttina hefði hann sagst þurfa að fara til að bera út Fréttablaðið og hefði hún þá sjálf bara farið að sofa. Hún hefði þó áður kveikt ljósið í herberginu. Lýsti hún herberginu þannig að það hefði verið mjög lítið og inni í því hefði verið rúm, náttborð, tölvuborð og tölva, sjónvarp, korktafla og hillur með fullt af DVD-myndum. Hefði hún háttað sig þegar hann var farinn og sofnað íklædd síðum náttbol og nærbrók. Hún kvaðst svo hafa vaknað um 6 leytið við að hann lá ofan á henni og var að sjúga á henni hálsinn. Síðan hefði hann farið undir sængina og klætt hana úr fötunum en sjálfur hefði hann verið nakinn. Hún hefði beðið hann um að hætta því. Kvaðst hún hafa fundið fyrir hörðu tippinu á honum. Hefði hann þá spurt hana hvort hann mætti ríða henni. Hefði hún þá sagt nei en hann hefði samt sett tippið inn í kynfæri hennar. Hún hefði þá reynt að ýta honum frá sér en hann samt haldið áfram. Þetta hefði staðið yfir í mesta lagi í 5 mínútur og hefði hún ekki orðið vör við að maðurinn fengi fullnægingu eða sáðlát. Henni hefði loks tekist að ýta honum frá sér. Hefði hann þá hætt og farið út úr herberginu án þess að segja neitt. Hefði hún ekki hitt hann eftir það. Stúlkan sagðist ekkert muna eftir sér, frá þeirri stundu sem maðurinn fór út og þar til hún yfirgaf húsið kl. 12 daginn eftir, að öðru leyti en því að hún myndi að sér hefði liðið illa. Þá hefði hún ekkert verið hrædd við hann allt þar til hún vaknaði með hann ofan á sér.

Eftir að hún fór út úr húsinu hefði hún gengið niður í bæ og tekið þaðan strætó í Kringluna. Hefði hún mælt sér þar mót við kunningja sinn sem kallaður sé L. Hefðu þau skroppið í Smáralind en þaðan hefði hann síðan keyrt hana á [...] þar sem hún hefði ætlað að gista hjá M. Þegar þangað var komið hefði hún hringt í J vinkonu sína og sagt henni hvað gerst hefði. J hefði svo sagt henni að hringja í I og K og biðja þá að hitta sig. Eftir að hafa sagt I hvað hefði gerst hafi hann beðið hana að bíða þarna. Hefðu þeir K svo komið og farið með hana á neyðarmóttökuna.

Er ákærði var fyrst yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins 22. ágúst 2006 kvaðst hann ekki þekkja C og ekki kannast við að hafa kallað sig Gunna. Sagði hann enga stúlku hafa gist hjá sér allt frá því að hann byrjaði að bera út Fréttablaðið 1. júlí 2006. Hann kannaðist við að vera með símanúmerið 848-9984. Ákærði var yfirheyrður á ný 12. mars 2007 og neitaði hann þá enn að hafa komið nálægt stúlkunni hvað þá að hafa þröngvað henni til samræðis.

Í málinu liggur fyrir greinargerð Ingibjargar Sigurjónsdóttur sálfræðings, en hún hafði C í viðtalsmeðferð bæði áður en mál þetta kom upp og einnig í kjölfar þess. Kemur þar fram að stúlkan hafi komið í sjö viðtöl til hennar fyrir umrætt atvik en hún hafi þá meðal annars átt við talsverða depurð að stríða. Eftir atvikið, eða á tímabilinu frá 12. mars til 12. júní 2007, hafi hún átt níu viðtöl við stúlkuna en í millitíðinni, eða fyrst eftir að umrætt atvik átti sér stað, hefði Vigdís Erlendsdóttir, forstöðumaður Barnahúss, átt þrjú viðtöl við hana á tímabilinu 13. september til 15. desember 2006. Kemur fram að stúlkan hafi eftir atvikið búið við mikinn ótta sem einkum komi fram á kvöldin. Sofi hún við ljós og hafi lengi vel haft herbergisdyrnar opnar til að eiga greiða undankomuleið ef á hana yrði ráðist.

Fram hefur verið lagt yfirlit yfir hringingar og sms-sendingar á milli síma ákærða og C. Má þar meðal annar sjá að á tímabilinu frá 26. desember 2005 til 3. ágúst 2006 fer mikill fjöldi sms-skilaboða á milli GSM-síma ákærða og brotaþola. Ná þessar skeytasendingar hámarki dagana áður en hún fer til Reykjavíkur og fara þá nokkrir tugir skeytasendinga á milli þeirra daglega. Þá má einnig sjá að hringt var úr símanúmeri ákærða í símanúmer C stuttu eftir miðnætti 22. júlí 2006, eða kl. 00.23, og fór símtalið í gegnum GSM-sendi sem staðsettur er á Landakotsspítala eða næsta nágrenni við heimili ákærða.

Skýrslur við aðalmeðferð málsins.

Ákærði neitar sök. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa hitt C. Hins vegar gæti vel staðist að hann hefði haft samskipti við hana á netinu án þess að hann væri viss um það. Ákærði kvaðst ekki kunna skýringar á því hvers vegna DNA-snið í sýni, sem tekið var af hálsi stúlkunnar, kæmi saman við DNA-snið hans og stúlkunnar. Aðspurður hvers vegna hans símanúmer hefði ítrekað tengst númeri stúlkunnar kvað ákærði hugsanlegt að hann hefði rætt við hana án þess að vita að um þessa tilteknu stúlku væri að ræða. Þá var ákærði spurður að því hvort hann hefði einhverja skýringu á því að fyrirliggjandi símagögn sýndu að samskipti hefðu átt sér stað á milla sími hans og stúlkunnar um sendi á Landakotsspítala, sem væri skammt frá heimili hans, einmitt um það leyti sem stúlkan hefði sagst hafa komið til hans umrætt sinn. Svaraði ákærði því svo til að hann gæti ekki svarað því hvort hún hefði komið þangað og þá til að hitta hann eða ekki. Hitt vissi hann að í kjallara sama húss hefði verið mikill gestagangur á þessum tíma og alls konar fólk vanið komur sínar þangað. Hún hefði alla vega ekki hitt hann þarna á staðnum. Loks kvaðst ákærði á þessum tíma hafa borið út blöð. Hefði hann hafist handa við að bera út Moggann ásamt Blaðinu um miðnættið en að því loknu, um kl. 2 - 3, hefði hann komið heim til að ná þar í Fréttablaðið og þá borið það út í framhaldi í nokkur hverfi.

Jóhanna Jónasdóttir, læknir á neyðarmóttöku, staðfesti og skýrði frekar skýrslu sína fyrir dómi. Sagði hún að fersk rifa á meyjarhafti gæfi til kynna að um fyrstu samfarir hefði verið að ræða. Fersk sprunga sem verið hefði í slímhúð gæti vel hafa myndast við að lim hefði verið þrýst inn í leggöng. Hins vegar gæfi slík sprunga ekki endilega vísbendingu um að stúlkan hefði ekki verið tilbúin til samræðis. Vitnið staðfesti að sæði hefði ekki fundist í leghálsi. Hins vegar gæti hún ekki lagt sjálfstætt mat á hvort smokkur hefði í raun verið notaður eða ekki. Umsögn í skýrslunni um að smokkur hefði verið notaður hafi verið höfð eftir stúlkunni sjálfri en þó sé oft eins og ungar stúlkur áttuðu sig ekki endilega á hvort smokkur hefði verið notaður eða ekki. Um ástand stúlkunnar sagði vitnið minnisstætt að hún hefði virst óörugg og barnaleg og í miklu uppnámi. Hins vegar hefði hún verið vel áttuð og skýr í frásögn og ekki undir áhrifum neinna vímugjafa.

Stefanía Björg Sæmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, kvaðst hafa verið viðstödd gerð skýrslu hjá lækni og réttarfarslega skoðun. Sagði hún C hafa verið í miklu uppnámi. Hefði hún í upphafi átt mjög erfitt með að segja frá. Hefði hún titrað og grátið og átt erfitt með að segja frá atburðinum.

Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur í tæknideild lögreglu, staðfesti rannsókn sem hann vann vegna þessa ákæruliðar og skýrði hana frekar. Sagði hann tölfræðilega ekki útlokað að munnvatn gæti hafa borist á milli t.d. með því að nota sama handklæði en taldi það mjög ólíklegt. Hins vegar hefðu þá jafnvel átt að finnast þar DNA-snið frá öðrum. Vitnið kvað líkur á því að sýni kæmi frá öðrum en ákærða, þar sem um væri að ræða fullt snið eins og í sýni A2, vera einn á móti milljarði en líkurnar minnki eitthvað þegar ekki sé um að ræða fullt snið eins og reyndin hafi verið í sýni A1. Loks staðfesti vitnið að engar sáðfrumur hefðu verið greinanlegar í sýnum frá kynfærum stúlkunnar.

Vitnið N, móðir C, kvað að hringt hefði verið í sig frá neyðarmóttökunni í Reykjavík og tilkynnt að dóttir hennar væri þar stödd og hefði orðið fyrir nauðgun. Sagðist vitnið hafa staðið í þeirri trú að dóttir sín væri þá á [...]. Komið hefði hins vegar í ljós að hún hefði stungið af til Reykjavíkur. Hefði hún ekki beðið þau foreldrana um leyfi og líklega metið það svo að hún fengi ekki leyfi til að fara ef hún bæði um það. Vitnið kvað stúlkuna ekki hafa verið líka sjálfri sér eftir að umrætt atvik átti sér stað. Hún hefði þó ekkert rætt þetta við sig og sjálf sagðist vitnið ekkert hafa verið að pressa á hana með það því hún hefði talið að nógu erfitt væri fyrir stúlkuna að hafa upplifað þetta þó að hún þyrfti ekki einnig að fara lýsa þessu nákvæmlega fyrir foreldrum sínum. Þá hefði stúlkan fyrst á eftir hvorki talað né borðað og enginn hefði mátt snerta hana. Hún hefði kastað mikið upp og horast mjög. Líðan hennar hefði augljóslega verið skelfileg og í raun hefði hún virst sem allt annað barn. Hún hefði ekki brosað í langan tíma á eftir, verið eirðarlaus og sofið illa. Ári eftir atburðinn hefði hana ekki langað til að lifa lengur. Hún hefði ekkert hugsað um útlitið, ekki mætt í skóla og síðasta sumar hefði hún ekkert getað unnið vegna þessa. Vitnið kvað þau foreldrana svo hafa uppgötvað í sumar að stúlkan hefði stolið öllum þeim pillum sem hún fann á heimilinu. Er þau hefðu rætt það við hana hefði hún talað um að hún vildi ekki lifa lengur. Í framhaldi af því hefði hún farið til geðlæknis. Aðspurð hvernig líðan stúlkunnar hefði verið fyrir umrætt atvik sagði vitnið að hún hefði áður en til þessa kom verið búin að fara í nokkur viðtöl til sálfræðings vegna næringarvandamála. Kvað vitnið stúlkuna hafa lokið grunnskólanámi og byrjað nám í framhaldsskóla í haust. Hún hefði þó gefist upp á því og hafi þá verið búin að mæta mjög illa. Eftir atvikið hefði stúlkunni verið boðin aðstoð sálfræðings, fyrir milligöngu Barnaverndarstofu, en það hefði dregist nokkuð í byrjun og síðan verið svo stopult að þau hefðu gefist upp á því. Hefði stúlkan þá fengið aðstoð hjá Ingibjörgu Sigurjónsdóttur sálfræðingi og verið í meðferð hjá henni allt fram í byrjun síðasta sumars en þá hefði orðið nokkurt hlé. Stúlkan sé nú aftur komin í meðferð hjá henni.

Vitnið J, vinkona C, sagði C lítillega hafa talað um að hún ætti samskipti við mann á netinu. Hann væri 18 ára en hún vissi ekki hvað hann héti. Vitnið kvaðst ekki vita hvað þau ræddu um og kvaðst ekki vita hvort hún hefði fengið mynd af honum. C hefði hringt í hana daginn eftir umrætt atvik og sagt að maður hefði reynt að nauðga henni. Hefði hún og sagt að hann hefði viljað hafa slökkt ljós. Hefði henni augljóslega liðið illa og verið nær gráti. Aðspurð kvaðst vitnið ekki hafa orðið vör við breytingar á C en vitnið hafi ekki svo mikil samskipti við C í dag því sjálf hefði hún flust brott um svipað leyti. Vitnið staðfesti og að framburður sinn hjá lögreglu hvað þetta varðaði væri réttur og þá meðal annars að maðurinn hefði sagt henni að hann væri 19 ára gamall en hann hefði reynst vera um fertugt.

Vitnið I kvaðst þekkja til C frá [...] en þau hefðu kynnst á netinu. Hefði hann boðist til að sækja hana á BSÍ þegar hún hefði sagst ætla að koma í bæinn. Hefðu þau eytt nokkrum tíma saman um kvöldið og meðal annars rúntað eitthvað um bæinn. Í framhaldi hefði hún sagst ætla að hitta vin sinn sem hún hefði sagst hafa kynnst á netinu og hefði hann því ekið henni í hús í miðbænum rétt um miðnætti. Hún hefði svo hringt í sig undir morgun daginn eftir með kökk í hálsinum eins og hún væri nýbúin að gráta, og beðið hann um að sækja sig. Þegar hann, ásamt K félaga sínum, hefðu svo sótti hana, í grennd við sama stað og hann hefði ekið henni á, hefði hún verið grátandi. Hefðu þeir á leiðinni spurt hana út í hvað gerst hefði og hún þá skýrt þeim frá því að maðurinn hefði ekki verið sá sem hann hefði þóst vera en að það hefði verið dimmt svo hún gæti ekki lýst honum nákvæmlega. Eftir að hafa fengið ráð hjá vinalínunni um hvað gera skyldi hefðu þeir ekið með hana á neyðarmóttökuna. Vitninu var sýnd ljósmynd af húsi ákærða og taldi vitnið að þetta væri húsið sem C hefði farið inn í. Er vitnið var nánar spurt út í tímasetningar, með hliðsjón af framburði hans hjá lögreglu og því hvenær stúlkan kom til skoðunar á neyðarmóttöku, sagði hann ljóst að sig hefði misminnt um að stúlkan hefði hringt í sig undir morgun sömu nótt. Hefði það líklega verið á sunnudagskvöldið. Þá taldi hann og rétt það sem haft er eftir honum í lögregluskýrslu að stúlkan hefði verið stödd í Þingholtshverfinu, nálægt Hallgrímskirkju, þegar þeir K sóttu hana.

Vitnið K kvað C hafa talað um að hún ætlaði að vera hjá vini sínum á föstudagskvöldinu. Vitnið kvaðst lítið hafa verið með henni þá um kvöldið. Aðspurður hvernig þá hefði legið á C sagði vitnið að hún hefði virst hlédræg og feimin. Þau hefðu svo hist aftur aðfararnótt sunnudags. Hún hefði þá hringt grátandi í I og minnti vitnið að hún hefði sagt að sér hefði verið nauðgað. Kvaðst vitnið því hafa hringt í vinalínuna og fengið ráð um hvað gera skyldi. Hefðu þeir sótt hana í miðbæ Reykjavíkur. Hún hefði verið niðurbrotin, í uppnámi og sagt fátt.

Tekin var símaskýrsla af L. Sagði hann C hafa sent sér sms-skilaboð um að hún væri á leiðinni til Reykjavíkur. Hefðu þau þá aldrei áður hist en verið í einhverjum samskiptum í gegn um MSN á netinu. Hefði einnig komið fram hjá henni að hún ætlaði að gista fyrstu nóttina hjá einhverjum strák eða manni. Kvaðst vitnið þá hafa stungið upp á að þau hittust. Hefðu þau svo hist á laugardeginum, milli kl. 12 og 1, í Kringlunni, en farið þaðan í Smáralind. Hefðu þau setið þar og spjallað saman þegar hann hefði spurt hana út í sogblett á hálsinum. Hefði hún sagt honum að henni hefði verið nauðgað. Kvað vitnið sér hafa skilist á stúlkunni að hún hefði komið beint frá þessum manni og í Kringluna. Hefði hún virst niðurdregin. Vitnið kvaðst svo hafa ekið með hana í hverfið við BSÍ en hún hefði sagst ætla þar til einhvers stráks sem hún ætlaði að gista hjá.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir, sálfræðingur á [...], staðfesti greinargerð sem hún vann vegna viðtalsmeðferðar sem stúlkan fékk hjá henni. Vitnið kvaðst hafa byrjað að hitta C áður en þetta mál kom upp eða þegar hún hefði verið í 10. bekk. Hefði ástæða þessa þá verið tiltekin einkenni þunglyndis og kvíða. Þessi einkenni hefðu hins vegar farið vaxandi í kjölfar umrædds atburðar. Ætti stúlkan erfitt með svefn og sýndi greinileg merki um ótta og versnandi líðan eftir þennan atburð.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök. Hann kannast ekki við að hafa hitt C. Hins vegar geti verið að þau hafi haft einhver samskipti á netinu en hann telur sig þó ekki vissan um það.

C hefur hins vegar fullyrt að hún hafi komið að Bárugötu 22 skömmu eftir miðnætti umrædda nótt og gist í herbergi ákærða en hann hafi þá verið búinn að segja henni að hann væri 19 ára að aldri og væri kallaður Gunni. Hafi hún vaknað við það að hann lá nakinn ofan á henni og var að sjúga á henni hálsinn. Hafi hann klætt hana úr náttfötunum en hún hafi beðið hann um að hætta því. Hafi hún fundið fyrir hörðu tippinu á honum. Hafi hann þá spurt hana hvort hann mætti ríða henni en hún hafi neitað því. Þrátt fyrir það hafi hann sett tippið inn í kynfæri hennar. Hafi hún reynt að ýta honum frá sér en hann samt haldið áfram. Þetta hafi staðið yfir í mesta lagi í 5 mínútur en þá hafi henni tekist að ýta honum frá sér.

I hefur borið að hann hafi ekið C rétt um miðnættið umrædda nótt að húsi nálægt miðbæ Reykjavíkur þar sem hún hafi ætlað að gista hjá manni sem hún hefði verið í sambandi við. Hefur C lýst því að hún hafi verið í símasambandi við manninn sem hún ætlaði að hitta þegar hún kæmi á staðinn og hafi hann með þeim hætti lýst fyrir henni hvernig hún ætti að rata inn í húsið og upp í herbergi hans á 2. hæð. Staðfesta skýrslur um símanotkun að hringt hefur verið úr símanúmeri ákærða í símanúmer stúlkunnar kl. 00.23 þessa nótt og hafi ákærði þá verið staddur nálægt GSM-sendi við Landakot sem er rétt við heimili ákærða. Þá ber hér að líta til þess að stúlkan hefur lýst aðkomu að húsinu, hvernig gengið er inn í það upp á 2. hæð, og útliti á herbergi ákærða þannig að mjög samræmist þeim ljósmyndum sem teknar hafa verið af vettvangi. Þá þykir, með vísan til niðurstöðu DNA-rannsóknar á sýnum sem tekin voru af hálsi C á þeim stað þar sem sogblettur myndaðist og framburðar vitnisins Björgvins Sigurðssonar í því sambandi, nægilega í ljós leitt að á tilgreindum stað á hálsi stúlkunnar hafi verið að finna leifar af munnvatni úr ákærða. Enn ber hér þess að geta að vitnin I, K og L báru allir um slæmt ástand C daginn eftir umrætt atvik og að hún hefði skýrt þeim að meira eða minna leyti frá því að hún hefði orðið fyrir nauðgun þá um nóttina. Sama verður ráðið af læknisfræðilegri skoðunarskýrslu Jóhönnu Jónasdóttur, læknis neyðarmóttöku, og vitnisburði hennar og Stefaníu Bjargar Sæmundsdóttur hjúkrunarfræðings.

Þegar allt framangreint er virt, og einnig til þess litið að staðfest er með framangreindri skýrslu Jóhönnu Jónasdóttur og vætti hennar að fersk rifa var á meyjarhafti stúlkunnar og einnig í slímhúð á því svæði, verður að telja að framburður stúlkunnar fái fulla stoð í þeim gögnum sem fyrir liggja. Eftir að hafa horft og hlýtt á upptöku af framburði stúlkunnar, sem hún gaf hjá héraðsdómara 30. ágúst 2006, og farið að öðru leyti vandlega yfir hann, er það niðurstaða dómsins að framburður hennar sé mjög trúverðugur en framburður ákærða að sama skapi ótrúverðugur. Þar sem framburður stúlkunnar samkvæmt framansögðu styðst við gögn málsins þykir mega leggja hann til grundvallar niðurstöðu í málinu.

Eins og fyrr segir hefur stúlkan lýst því að hún hafi vaknað við það að ákærði lá allsber ofan á henni. Hafi hann í framhaldi byrjað að færa hana úr fötunum en hún beðið hann um að hætta því. Hann hefði samt haldið áfram en spurt hvort hann mætti hafa samfarir við hana. Hún hafi svarað því neitandi en hann samt sett tippið inn í kynfæri hennar. Hún hafi þá reynt að ýta honum frá en hann samt haldið áfram. Þegar framangreind atburðarás er virt, og einnig til þess litið að annars vegar er um að ræða 16 ára stúlkubarn en hins vegar 39 ára fullorðinn, þrekvaxinn, karlmann, talsvert stærri og sterkari, verður að telja að ákærði hafi neytt aflsmunar til að þröngva stúlkunni til samræðis. Hefur ákærði því gerst sekur um nauðgun skv. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.

Ákæruliður A.4.

O, systurdóttir ákærða, mætti hjá lögreglustjóranum í Reykjavík 29. nóvember 2005 og kærði hann fyrir líkamsárás að Granaskjóli 34. Eftir lok skýrslutöku framvísaði hún farsíma ákærða sem hún kvað hann hafa gleymt á staðnum. Reyndist þar að finna nektarmyndir af börnum auk yfirlits yfir símasamskipti ákærða við unglinga og börn. Lögreglan tók farsímann í sínar vörslur.

Er ákærði var yfirheyrður um málið hjá lögreglu og eins fyrir dómi neitaði hann að hafa átt þær ljósmyndir sem fundust í farsímanum eða að þekkja stúlkurnar sem þær sýna. Hljóti myndirnar að hafa vistast inn á símtækið sjálft en ekki símkortið og því setið eftir í minni símans frá fyrri eiganda. Kvaðst ákærði hafa fengið símann gefins þegar hann hafi verið staddur á bar á Seyðisfirði um árið 2005 en hann myndi ekki nafn þess manns sem gaf honum símann. Hefði gefandinn verið eitthvað svekktur yfir símanum því honum hefði gengið illa að hringja úr honum í kærustuna. Hefði hann ætlað að fleygja honum en ákærði kvaðst hafa fengið hann til að gefa sér frekar símann.

O, systurdóttir ákærða, kannaðist ekki við það fyrir dómi að hafa afhent lögreglu umræddan síma eða að hafa fundið myndir af börnum í símanum. Kvaðst hún kannast við að hafa séð mynd af manneskju sem var ber að ofan en það hefði ekki verið barn.

Vitnið Stefán Örn Guðjónsson rannsóknarlögreglumaður kvaðst fyrir dómi kannast við upplýsingaskýrslu, ritaða af Þórði Kormákssyni, varðandi farsíma og staðfesti það rétt sem þar kemur fram.

Þórður Kormáksson, hjá kærumóttöku lögreglunnar, gaf og skýrslu fyrir dómi og staðfesti upplýsingaskýrslu sína frá 29. nóvember 2005. Vitnið kvaðst muna eftir umræddu atviki og stúlkunni. Vitnið staðfesti að skýrslan væri rétt.

Niðurstaða.

Ákærði neitar því að hafa vitað um þær tvær ljósmyndir af stúlkubörnum sem fundust í umræddum farsíma. Kannast hann við að hafa átt símann en að hann hafi fengið hann gefins frá ókunnugum manni á bar á Seyðisfirði og hljóti myndirnar þá þegar að hafa verið vistaðar inn á símann þegar hann fékk hann að gjöf. Er það mat dómsins að skýringar ákærða á tilvist myndanna séu ótrúverðugar. Þar sem telja verður að umræddar myndir sýni stúlkubörn á kynferðislegan og klámfenginn hátt verður ákærði sakfelldur fyrir vörslu þeirra. Telst háttsemi hans réttilega færð til refsiákvæðis í ákæru.

Ákæruliður B.5.

Ákærði játar sök. Þar sem játning hans er í samræmi við gögn málsins verður hann sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir og þar er réttilega færð til refsiákvæðis.

Ákvörðun refsingar og upptaka.

Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði á ákærði að baki langan sakaferil og hefur hann frá árinu 1983 hlotið samtals 25 refsidóma sem hafa samtals hljóðað upp á yfir 11 ára óskilorðsbundna fangelsisrefsingu. Hafa flestir dómarnir verið fyrir ýmiss konar auðgunarbrot, aðallega þjófnaði, en ákærði var dæmdur fyrir hlutdeild í ránsbroti á árinu 1999. Síðast var hann dæmdur í Hæstarétti 15. febrúar 2007 í 5 mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur og fyrir að aka bifreið, sviptur ökurétti. Brot þau sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru öll framin fyrir uppkvaðningu þess dóms. Verður refsing ákærða nú því dæmd sem hegningarauki við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga.

Brot ákærða skv. lið A.1 til A.3 í ákæru eru alvarleg og beindust að ungum stúlkum sem höfðu litla eða enga reynslu af kynlífi. Hefur ákærði á skipulegan og yfirvegaðan hátt beitt blekkingum til að komast í samband við þær og síðan nauðga, misnota eða misbjóða þeim kynferðislega. Þykir ákærði hafa sýnt styrkan og einbeittan brotavilja við framningu brotanna. Að þessi virtu og með hliðsjón af því að ákærði er síbrotamaður þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár.

Með vísan til 1. tl., 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er gerður upptækur Nokia farsími sem lögregla lagði hald á 29. nóvember 2006, sbr. ákærulið A.4.

Miskabætur.

D, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, A, hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta. Er krafan rökstudd þannig að brot ákærða hafi verið alvarlegt og að ásetningur hans til verknaðarins hafi verið einbeittur og mikill. Brotið hafi valdið stúlkunni umtalsverðum miska. Hún hafi verið ung og á viðkvæmum aldri þegar brotið hafi verið gegn henni og hafi þetta verið hennar fyrsta reynsla af kynlífi. Hafi stúlkan þurft að leita sér sérfræðiaðstoðar til að vinna úr afleiðingum brotsins og hafi það haft neikvæð áhrif á geðheilsu og félagslega aðlögun hennar, skaðað sjálfsmynd hennar og dregið úr sjálfstrausti.

Ákærði hefur með athöfnum sínum brotið ítrekað gegn brotaþola sem var ung að árum og óreynd þegar hún átti kynferðisleg samskipti við ákærða. Enda þótt fyrir liggi að stúlkan hafi átt við kvíða og þunglyndi að etja fyrir er ljóst að brot ákærða hafa þar ekki hjálpað til. Má ætla að stúlkan hafi látið leiðast lengra í samskiptum sínum við ákærða vegna þess að hún stóð höllum fæti fyrir og hafði ekki nægar varnir til að verjast þeim. Voru brot ákærða til þess fallin að valda brotaþola sálrænum skaða. Er í þessu sambandi vísað til greinargerðar Ingu Maríu Vilhjálmsdóttur félagsráðgjafa og skýrslu hennar hér fyrir dómi. Samkvæmt þessu, og með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, ber að dæma ákærða til að greiða A 800.000 krónur í miskabætur og ber sú fjárhæð vexti eins og í dómsorði greinir.

F, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar, B, hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 400.000 krónur auk vaxta. Er krafan rökstudd þannig að ákærði hafi sært blygðunarsemi telpunnar og brotið gegn persónu hennar og friði. Muni brotið hafa áhrif á andlega og þar með líkamlega heilsu hennar um ókomna tíð. Hafi telpan, fyrst eftir að hún áttaði sig á við hvern hún hefði verið í samskiptum, fengið martraðir. Þá fyllist hún hræðslu þegar hún sé á ferð í nágrenni við heimili ákærða.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, vottorðs Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings, og skýrslu hennar hér fyrir dómi verður að telja að brot ákærða hafi valdið B tjóni. Á hún rétt á miskabótum á grundvelli háttsemi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Þykja þær hæfilega ákvarðaðar 200.000 krónur og ber sú fjárhæð vexti eins og í dómsorði greinir.

N og P hafa, fyrir hönd ólögráða dóttur sinnar C, krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 1.300.000 krónur auk vaxta. Er krafan rökstudd þannig að ákærði hafi gerst sekur um ólöglega meingerð gegn persónu brotaþola. Brot ákærða sé til þess fallið að valda brotaþola vanlíðan og óöryggi í samskiptum sínum við karlmenn. Brotið hafi verið mjög alvarlegt, sérstaklega þegar litið sé til þess að um miklu eldri mann hafi verið um að ræða sem beitt hafi barn vísvitandi blekkingum, eingöngu í því skyni, að því er virðist, að komast í kynferðislegt samband við stúlkuna. Hafi hún búið við mikla andlega örðugleika í kjölfar brotsins og breyst mjög í hátterni og lunderni. Af greinargerð Ingibjargar Sigurjónsdóttur sálfræðings og framburði hennar fyrir dómi verður ráðið að brotaþoli hafi haft tiltekin einkenni þunglyndis og kvíða áður en ákærði braut gegn henni. Þessi einkenni hafi hins vegar farið vaxandi í kjölfar umrædds atburðar. Hafi stúlkan átt erfitt með svefn og sýnt greinileg merki um ótta og versnandi líðan eftir þennan atburð. Má ætla að stúlkan hafi látið leiðast lengra í samskiptum sínum við ákærða vegna þess að hún stóð höllum fæti fyrir og hafði ekki nægar varnir til að verjast ágengni hans. Brot ákærða var til þess fallið að valda C sálrænum skaða. Á hún því rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga. Þykja þær hæfilega ákvarðaðar 800.000 krónur og ber sú fjárhæð vexti eins og í dómsorði greinir.

Sakarkostnaður.

Ákærði greiði útlagðan sakarkostnað samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, að fjárhæð 121.345 krónur, ferðakostnað vitnis, 11.419 krónur og ferðakostnað réttargæslumanns 12.741 krónu. Ákærði greiði og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, þóknun hans fyrir réttargæslu á rannsóknarstigi og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákvarðast allt með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Mál þetta sótti af hálfu ákæruvaldsins Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari.

Dóm þennan kveða upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari, sem dómsformaður, og héraðsdómararnir Sigríður Ólafsdóttir og Sigurður Hallur Stefánsson.

                                                               Dómsorð:

Ákærði, Anthony Lee Bellere, sæti fangelsi í 4 ár.

Upptækur er gerður til ríkissjóðs Nokia farsími sem lögregla lagði hald á 29. nóvember 2006, sbr. ákærulið A.4.

Ákærði greiði A 800.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. júlí 2005 til 3. desember 2005 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði B 200.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. desember 2005 til 2. október 2006 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði C 800.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. júlí 2006 til 12. mars 2007 en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði samtals 1.651.955 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnar- og réttargæslulaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmann 697.200 krónur og þóknun til réttargæslumanna brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, 211.650 krónur, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 298.800 krónur og Berglindar Svavarsdóttur héraðsdómslögmanns, 298.800 krónur. Ákærði greiði og ferðakostnað Berglindar Svavarsdóttur, 12.741 krónu.