Print

Mál nr. 129/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Nauðungarsala
  • Ábyrgð
  • Veðleyfi
  • Veðskuldabréf

                                     

Mánudaginn 2. mars 2015.

Nr. 129/2015.

Sigfríð Gerður Hallgrímsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Sparisjóðnum á Suðurlandi

(Bjarni Lárusson hrl.)

Kærumál. Kærufrestur. Nauðungarsala. Ábyrgð. Veðleyfi. Veðskuldabréf.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu SG um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál hennar á hendur S. Var þeirri kröfu SG vísað frá Hæstarétti þar sem kærufrestur var liðinn. Jafnframt var kærður úrskurður héraðsdóms þar sem vísað var frá dómi kröfu SG um að samningsskilmálum, sem beiðni S um nauðungarsölu byggði á, yrði vikið til hliðar sem óréttmætum og veðheimild samkvæmt þeim dæmd ógild. Krafðist SG þess að umræddur úrskurður yrði ómerktur og héraðsdómi gert að taka kröfu hennar til efnismeðferðar. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að samkvæmt 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu yrði ekki í máli eftir XIII. kafla laganna leyst úr ágreiningi um annað en þá ákvörðun sýslumanns sem varð tilefni málsins. Frá því mætti þó víkja ef aðilarnir væru á einu máli um að fá leyst úr öðrum ágreiningi varðandi nauðungarsöluna og héraðsdómari fellst á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreininginn. S hefði í þessu máli ekki fyrir sitt leyti samþykkt að SG gæti haft uppi umrædda kröfu. Breytti í því tilliti engu þótt krafa S um frávísun kröfunnar hefði fyrst verið höfð uppi við munnlegan flutning málsins í héraði. Samkvæmt því var ómerkingakröfu SG hafnað. Þá kom fram í niðurstöðu Hæstaréttar að SG, sem hafði veitt leyfi til að veðsetja fasteign sína til tryggingar veðskuldabréfi sem dóttir hennar gaf út til S , hefði mátt vera ljóst að greiðslumat hefði einnig miðast við tekjur þáverandi sambúðarmaka dóttur hennar og að það hefði verið undir SG sjálfri komið hvort hún óskaði eftir að sjá matið áður en hún samþykkti að veðsetja eign sína. Samkvæmt þessu var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júní 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál hennar á hendur varnaraðila. Jafnframt er kærður úrskurður sama dómstóls 27. janúar 2015 þar sem vísað var frá dómi kröfu sóknaraðila um að samningsskilmálum, sem beiðni varnaraðila um nauðungarsölu byggðist á, yrði vikið til hliðar sem óréttmætum og veðheimild samkvæmt þeim dæmd ógild og hafnað kröfu um að nauðungarsala á fasteign hennar að Marteinslaug 10 í Reykjavík næði ekki fram að ganga. Kæruheimild að því er varðar fyrri úrskurðinn er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið en að því er varðar síðari úrskurðinn í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að leitað verði álits EFTA-dómstólsins í samræmi við kröfu sína. Jafnframt krefst hún þess aðallega að úrskurðurinn 27. janúar 2015 verði „ómerktur, heimvísað og héraðsdómara ... gert að taka allar dómkröfur sóknaraðila í héraði ... til efnismeðferðar.“ Til vara krefst hún þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 22. nóvember 2013, um að nauðungarsala á fasteigninni skuli fara fram, verði „ógilt og felld úr gildi með dómi.“ Að því frágengnu krefst sóknaraðili þess að nauðungarsölubeiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að vísað verði frá Hæstarétti kröfu sóknaraðila um öflun álits EFTA-dómstólsins. Jafnframt krefst hann þess aðallega að hinn kærði úrskurður 27. janúar 2015 verði staðfestur „að efni til“ en til vara að synjað verði öllum kröfum sóknaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

Við fyrirtöku málsins í héraði 7. febrúar 2014 lagði sóknaraðili fram beiðni um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um tiltekin atriði. Með hinum kærða úrskurði 5. júní sama ár var þeirri beiðni hafnað. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 er slíkur úrskurður kæranlegur eftir almennum reglum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 144. gr. þeirra laga er kærufrestur tvær vikur frá uppkvaðningu úrskurðar en sá frestur var löngu liðinn þegar kæran barst héraðsdómi 9. febrúar 2015. Kröfu sóknaraðila um öflun álits EFTA-dómstólsins er því vísað frá Hæstarétti.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og kemur því ekki til álita krafa hans um málskostnað í héraði.

I

Krafa sóknaraðila um ómerkingu úrskurðarins 27. janúar 2015 er reist á því að héraðsdómi hafi borið að taka til efnismeðferðar aðalkröfu hennar í héraði um að samningsskilmálum sem krafa um nauðungarsölu væri reist á yrði vikið til hliðar og veðheimild samkvæmt þeim yrði talin ógild. Samkvæmt 2. mgr. 75. gr. laga nr. 90/1991 verður ekki í máli eftir XIII. kafla laganna leyst úr ágreiningi um annað en þá ákvörðun sýslumanns sem varð tilefni málsins. Frá þessu má þó víkja ef aðilarnir eru á einu máli um að fá leyst úr öðum ágreiningi varðandi nauðungarsöluna, sem varðar ekki aðra en þá, og héraðsdómari fellst á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þann ágreining. Varnaraðili hefur ekki fyrir sitt leyti samþykkt að sóknaraðili geti haft uppi í málinu kröfu um annað en þá ákvörðun sýslumanns sem er tilefni málsins. Í því tilliti breytir engu þótt krafa varnaraðila um frávísun kröfunnar hafi fyrst verið höfð uppi við munnlegan flutning málsins í héraði. Samkvæmt þessu er ómerkingarkröfu sóknaraðila hafnað.

II

Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði 27. janúar 2015 undirritaði sóknaraðili 26. apríl 2006 skjal með yfirskriftinni „Niðurstaða greiðslumats“ samhliða því að rita sama dag sem veðsali undir skuldabréf útgefið af dóttur sinni til varnaraðila. Í skjalinu kom fram að greiðslumat á lántaka hefði verið byggt á „meðaltekjum heimilisins“. Sóknaraðila mátti því vera ljóst að greiðslumatið miðaðist einnig við tekjur þáverandi sambúðarmaka dóttur sóknaraðila. Þá var í skjalinu tekið upp ákvæði 3. mgr. 4. greinar samkomulags 1. nóvember 2001 um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga þess efnis að ábyrgðarmaður gæti með samþykki greiðanda kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengist í ábyrgðina. Það var því komið undir sóknaraðila sjálfri hvort hún óskaði eftir að sjá matið áður en hún samþykkti að veðsetja fasteign sína. Loks var í skjalinu, í samræmi við áskilnað í 2. mgr. 4. greinar samkomulagsins, tekið fram að meira en helmingi lánsins væri  varið til að greiða eldri skuldir hjá varnaraðila. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Kröfu sóknaraðila, Sigfríð Gerðar Hallgrímsdóttur, um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins er vísað frá Hæstarétti.

Hinn kærði úrskurður 27. janúar 2015 er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2015.

I

                Mál þetta var tekið til úrskurðar 21. janúar sl. að loknum munnlegum málflutningi.

                Sóknaraðili er Sigfríð Gerður Hallgrímsdóttir, Marteinslaug 10, Reykjavík.

                Varnaraðili er Sparisjóðurinn á Suðurlandi, Austurvegi 6, Selfossi.

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að samningsskilmálum sem beiðni varnaraðila um nauðungarsölu byggist á verði vikið til hliðar sem óréttmætum, og veðheimild samkvæmt þeim dæmd ógild. Til vara krefst sóknaraðili þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 22. nóvember 2013 um að láta nauðungarsölu ná fram að ganga, verði felld úr gildi, og nauðungarsölugerðin stöðvuð. Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að uppboðsbeiðni varnaraðila verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Endanlegar kröfur varnaraðila eru þær að aðalkröfu sóknaraðila verði vísað frá dómi og að öðrum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að úrskurðað verði að hin umþrætta nauðungarsala megi fara fram. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

II

Málavextir

Upphaf máls þessa má rekja til þess að sóknaraðili veitti dóttur sinni, Höllu Rós Eiríksdóttur, leyfi til að veðsetja fasteign sína að Engihjalla 1 í Kópavogi. Var veðið til tryggingar greiðslu veðskuldabréfs sem Halla Rós gaf út til varnaraðila 26. apríl 2006. Með undirritun sinni á veðskuldabréfið viðurkennir Halla Rós að skulda varnaraðila þrjár og hálfa milljón króna sem endurgreiða skyldi með 300 afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. júní 2006. Var veðskuldabréfið skv. fyrirsögn þess bundið vísitölu neysluverðs og kjörvöxtum.  Í veðskuldabréfinu er að finna í níu töluliðum stöðluð ákvæði. Varða þau m.a. vísitölubindingu, vexti, gjaldfellingu og hina veðsettu eign. Í 7. tl. skilmála veðskuldabréfsins er að finna heimild til handa varnaraðila, sé skuld gjaldfallin, til að selja veðið nauðungarsölu án dóms, sáttar eða fjárnáms skv. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Sóknaraðili undirritaði veðskuldabréfið um samþykki sitt sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar Engihjalla 1. Samhliða undirritun  skuldabréfsins undirritaði sóknaraðili skjal sem ber yfirskriftina „Niðurstaða greiðslumats“. Þar kemur fram að „Undirritaður/ritaðir ábyrgðamenn óska eftir að gangast í ábyrgð (sjálfskuldaábyrgð) eða veita veð í fasteign minni/okkar fyrir neðangreinda lántaka á þeim skuldum sem tilgreindar eru í skjali þessu“. Lántaki væri Halla Rós Eiríksdóttir og lánsupphæð 3.500.000 kr. Í dálki sem ber yfirskriftina „Greiðslumat“ kemur fram að „Samkvæmt samkomulagi banka og sparisjóða, Félagsmálaráðuneytisins og Neytendasamtakanna um ábyrgðir á skuldum einstaklinga eða vegna eigin ákvörðunar, hefur sparisjóðurinn metið getu ofangreinds lántakanda til að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar“. Greiðslumatið byggir á gögnum sem sparisjóðurinn hefur aflað sér eða lántakandi látið í té. Niðurstaða greiðslumats er byggð á upplýsingum um framfærslukostnað og önnur föst útgjöld, meðaltekjur heimilisins og greiðslubyrði lána. Framfærslukostnaður og önnur föst útgjöld miðast að lágmarki við fjárhæðir sem gefnar séu út af Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna. Sparisjóðurinn ber ekki ábyrgð  fjárhag sinn. Jákvæð niðurstaða greiðslumats felur ekki í sér tryggingu fyrir því að skuldari efni skyldur sínar. Í dálki sem ber yfirskriftina „Niðurstaða greiðslumats“ kemur fram að „Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að lántakandi geti efnt skuldbindingar sínar miðaða við núverandi fjárhagsstöðu“. Í dálki sem ber yfirskriftina „Ráðstöfun lánsfjár“ kemur fram að meira en helmingi lánsupphæðar verði varið til greiðslu á skuldum lántakanda hjá sparisjóðnum. Í dálki sem ber yfirskriftina „Úrdráttur úr 3. mgr. 4. gr. samkomulags um notkun ábyrgða“ kemur fram að „Tryggt skal að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggur fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Ef niðurstaða greiðslumatsins bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lánið verið veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega.“ Í lok skjalsins er undirskrift sóknaraðila þar sem hann lýsir því jafnframt yfir að „Sjálfskuldarábyrgðamaður/menn og/eða veðsali staðfesta með undirritun sinni að hann/þeir hafi fengið og kynnt sér bækling um sjálfskuldaábyrgðir og lánsveð“.

                Með yfirlýsingu um veðsetningu og veðbandslausn, dags. 19. maí 2008, óskaði Halla Rós, með samþykki varnaraðila, eftir því að fá að flytja umrætt veðskuldabréf af fasteigninni Engihjalla 1 í Kópavogi yfir á fasteign sóknaraðila að Marteinslaug 10 í Reykjavík. Sóknaraðili undirritaði yfirlýsinguna um samþykki sitt sem þinglýstur eigandi síðargreindar fasteignar. Við reitinn þar sem gert er ráð fyrir undirritun þinglýsts eiganda er svohljóðandi yfirlýsing: ,,Ég undirritaður hef kynnt mér efni bréfs þessa og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem veðleyfisgjafa er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni gildandi samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.“

                Hinn 23. september 2008 var greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins breytt. Þar kemur fram að 16. sama mánaðar hafi eftirstöðvar skuldarinnar numið samtals 4.026.622 krónum, þar af hafi gjaldfallnar afborganir og verðbætur verið 30.161 króna, en vextir, dráttarvextir og kostnaður verið 97.406 krónur. Höfuðstól lánsins beri að endurgreiða á 360 gjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. nóvember 2008. Vextir og vísitala skyldu reiknast frá 16. september 2008, miðað við grunnvísitölu 310. Sóknaraðili undirritaði skilmálabreytinguna fyrir hönd Höllu Rósar og um samþykki sitt sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar að Marteinslaug 10. Greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins var aftur breytt 20. apríl 2011. Þar segir að 12. sama mánaðar hafi eftirstöðvar lánsins verið samtals 5.706.121 króna, þar af hafi gjaldfallnar afborganir og verðbætur verið 345.504 krónur og vextir, dráttarvextir og kostnaður 982.529 krónur. Höfuðstól lánsins beri að endurgreiða á 360 gjalddögum á eins mánaðar fresti, í fyrsta sinn 1. maí 2011. Vextir og vísitala skyldu reiknast frá 12. apríl 2011, miðað við grunnvísitölu 367,7. Sóknaraðili undirritaði yfirlýsinguna um samþykki sitt sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar að Marteinslaug 10. Við reitinn þar sem gert er ráð fyrir undirritun þinglýsts eiganda er svohljóðandi yfirlýsing ,,Ég undirritaður hef kynnt mér efni skjals þessa auk upphaflegs skuldaskjals og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem eiganda hinnar veðsettu eignar er fólgin. Ef undirritaður er ekki skuldari og veðsetningin heyrir undir lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, samþykki ég efni bréfs þessa með tilvísun til viðfests samnings um lánsveð.“

                Umrædd skuld hefur verið í vanskilum síðan á gjalddaga 1. október 2011. Í ársbyrjun 2013 var samþykktur samningur um greiðsluaðlögun, sbr. 17. gr. laga nr. 101/2010, þar sem Höllu Rós var veitt full eftirgjöf skulda sinna. Með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík, móttekinni 28. febrúar 2013, krafðist varnaraðili nauðungarsölu á fasteign sóknaraðila að Marteinslaug 10. Nauðungarsölubeiðnin beinist einungis að gjaldföllnum greiðslum, auk vaxta og kostnaðar, en ekki láninu í heild þótt það virðist skv. gögnum málsins hafa verið gjaldfellt, sbr. fyrirliggjandi greiðsluáskorun varnaraðila frá 11. maí 2012 þar sem sóknaraðili var krafin um greiðslu á yfir sex milljónum króna. Í málflutningi varnaraðila kom fram sú skýring að hann hefði þennan háttinn á til að komast hjá því að greiða hærri gjöld í ríkissjóð en gjöldin taka mið af þeirri fjárhæð sem liggur að baki nauðungarsölubeiðni. Að ósk sóknaraðila kannaði umboðsmaður skuldara gildi veðleyfis þess sem sóknaraðili veitti Höllu Rós. Var það afstaða varnaraðila að veðleyfið teldist gilt, sbr. tölvubréf varnaraðila til umboðsmanns skuldara frá 27. maí 2013.

Við fyrirtöku á beiðni varnaraðila um nauðungarsölu eignarinnar 28. október 2013 mótmælti sóknaraðili því að nauðungarsalan færi fram. Þegar beiðni varnaraðila um nauðungarsölu eignarinnar var tekin fyrir 22. nóvember 2013 krafðist sóknaraðili þess að gerðin yrði stöðvuð. Vísaði sóknaraðili til þess að ekki lægi fyrir greiðslumat eða þær forsendur sem nauðsynlegar væru á bak við greiðslumat. Varnaraðili krafðist þess að gerðin næði fram að ganga. Sýslumaður hafnaði mótmælum sóknaraðila og ákvað að uppboð myndi hefjast á eigninni. Sóknaraðili lýsti því yfir að hann myndi leita úrlausnar héraðsdóms um ákvörðun sýslumanns. Varnaraðili samþykkti að sóknaraðili leitaði úrlausnar dómsins, sbr. XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 4. mgr. 22. gr. laganna.

Undir rekstri málsins óskaði sóknaraðili þess að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum um skýringu á tilskipun 87/102/EBE varðandi neytendalán og tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, en því hafnaði dómurinn með úrskurði upp kveðnum 5. júní sl.

                Við meðferð málsins gáfu sóknaraðili, Halla Rós Eiríksdóttir, og fyrirsvarsmaður varnaraðila skýrslur.

III          

Málsástæður sóknaraðila

                Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að ábyrgðir þriðja aðila, þar á meðal veðleyfi eða svokölluð lánsveð, eins og um sé að ræða í máli þessu, falli undir gildissvið samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001. Auk stjórnvalda hafi verið meðal aðila að samkomulaginu, Samband íslenskra sparisjóða, en varnaraðili er innan vébanda þess og er því bundinn af samkomulaginu til jafns við aðra sparisjóði landsins. Ekki hafi verið nægilega gætt að ákvæðum samkomulagsins við lánveitingu í tengslum við framsal veðskuldabréfsins til varnaraðila á sínum tíma. Greiðslugeta greiðanda lánsins hafi ekki verið metin eins og fortakslaus skylda samkvæmt 3. gr. samkomulagsins kveði á um og varnaraðili hafi heldur ekki kynnt niðurstöður slíks mats fyrir sóknaraðila skv. 4. gr. samkomulagsins. Varnaraðili sé lánastofnun sem stundi útlánastarfsemi í atvinnuskyni, og séu samningar af því tagi sem um ræðir og varði veðsetningu í tengslum við skuldabréf, liður í þeirri starfsemi. Aftur á móti sé sóknaraðili einstaklingur sem hafi ekki neina sérþekkingu á fjármálastarfsemi og teljist sem slíkur almennur neytandi í þessu samhengi. Þá hafi ekki verið samið um skilmála veðskuldabréfsins sérstaklega við varnaraðila, enda um staðlað samningsform að ræða með skilmálum sem séu einhliða samdir af varnaraðila. Um slíka samninga gildi m.a. ákvæði 36. gr. a-d laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, auk þess sem sóknaraðili telur skilyrði 2. mgr. 36. gr. c sömu laga, sbr. 2. mgr. 36. gr., vera uppfyllt er varðar aðstöðumun aðila við samningsgerðina. Þar sem ófullnægjandi upplýsingar um niðurstöður greiðslumats hafi legið fyrir við samningsgerðina og ekki verið kynntar fyrir sóknaraðila virðist varnaraðili ekki hafa gætt að fortakslausum skyldum sínum skv. 3. gr. sbr. 4. gr. áðurnefnds samkomulags um notkun ábyrgða. Af þeim sökum telur sóknaraðili að ósanngjarnt sé af varnaraðila að bera fyrir sig samþykki sóknaraðila við því að veðsetja fasteign sína til tryggingar greiðslu skuldarinnar, líkt og hann gerir með því að krefja hann um greiðslu og krefjast í kjölfarið nauðungarsölu á fasteign sóknaraðila. Í ljósi þess krefst sóknaraðili aðallega ógildingar á veðsetningu fasteignar sinnar til tryggingar fyrir því skuldabréfi sem um ræðir.

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðila hafi skort réttmæta heimild til þess að krefjast nauðungarsölu. Samkvæmt 3. gr. veðskuldabréfsins hafi varnaraðili áskilið sér rétt til þess að gjaldfella meinta skuld auk þess sem hann hafi áskilið sér samkvæmt 7. gr. veðskuldabréfsins rétt til að krefjast nauðungarsölu án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms, til fullnustu gjaldfallinar skuldar. Sóknaraðili telur að þessi skilmáli sé óréttmætur þar sem hann raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda þ.e. sóknaraðila í óhag, sbr. 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936.

Sóknaraðili vísar til þess að meint veðandlag, Marteinslaug 10, sé heimili sitt, og njóti sem slíkt friðhelgi samkvæmt 71. gr. stjórnarskrá sem samkvæmt 3. mgr. sömu greinar megi aðeins takmarka með sérstakri lagaheimild beri brýna nauðsyn til vegna réttinda annarra. Jafnframt sé eignarréttur sóknaraðila friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár og megi því ekki skylda hann til að láta eign sína af hendi nema almenningsþörf krefji, samkvæmt lagafyrirmælum.

Sóknaraðili byggir enn fremur á því að lán samkvæmt umræddu veðskuldabréfi sé neytendalán og að um það gildi því lög nr. 121/1994 um neytendalán. Samkvæmt 5. gr. þeirra skuli lánssamningur vera gerður skriflega og fela í sér upplýsingar þær sem tilgreindar eru í 6. og 8. gr., en þar á meðal er heildarlántökukostnaður í krónum, reiknaður út skv. 7. gr., árleg hlutfallstala kostnaðar, þ.e. heildarlántökukostnaður lýst sem árlegri prósentu af upphæð höfuðstólsins reiknuð út samkvæmt 10.-12. gr., heildarupphæð sem greiða skal, þ.e. samtala höfuðstóls, vaxta og lánskostnaðar, fjöldi einstakra greiðslna, fjárhæð þeirra og gjalddagi (greiðsluáætlun). Skuldabréf það sem varnaraðili byggir kröfu sína á innihaldi ekki neinar slíkar upplýsingar um kostnað, og er þá, eins og kveðið sé á um í 14. gr., sóknaraðila óheimilt að krefja neytanda um greiðslu hans.

Sóknaraðili vísar enn fremur til þess að ekki sé í gerðarbeiðni eða öðrum fyrirliggjandi gögnum málsins skýrt með neinum hætti hvernig hinn gjaldfelldi höfuðstóll meintrar kröfu varnaraðila hafi orðið til. Þá sé ekki með neinum hætti skýrt hvernig hann sé sundurliðaður í undirliggjandi kostnaðarþætti sem liggja að baki þeim kröfufjárhæðum sem tilgreindar hafa verið af hálfu varnaraðila. Þá gæti verulegs tölulegs ósamræmis milli kröfunnar samkvæmt greiðsluáskorun annars vegar og nauðungarsölubeiðni hins vegar. Þannig sé í raun ómögulegt fyrir sóknaraðila að átta sig á því hvernig fjárhæð hinnar meintu kröfu sé reiknuð, hvort hún sé rétt fundin og tilgreind samkvæmt því, eða hvernig það komi heim og saman við þær fjárhæðir sem lánveitanda kunni hugsanlega að vera heimilt að innheimta  Þá hafa afborganir og eftirstöðvar lánsins á hverjum tíma ekki verið áritaðar á skuldabréfið sem sé þó skylt samkvæmt tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798, en það virðist varnaraðili hafa vanrækt.

Sóknaraðili telur að með því að bera fyrir sig óréttmæta skilmála í umræddu veðskuldabréfi og óljósar upplýsingar um meintar niðurstöður greiðslumats greiðanda skuldabréfsins, sem hafi bersýnilega veigamikil áhrif á hagsmuni sína, hafi varnaraðili veitt sér villandi upplýsingar um réttindi sín og skyldur sem ábyrgðarmanns og almennt sem neytanda. Samkvæmt lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nánar tiltekið 5. gr. eru óréttmætir viðskiptahættir bannaðir, og er sbr. 2. málsl. 8. gr. nánar kveðið á um það í III. kafla laganna hvað teljist til óréttmætra viðskiptahátta. Þar á meðal er skv. 1. mgr. 9. gr. sú háttsemi að veita neytendum rangar upplýsingar um lögbundin réttindi þeirra sbr. g-lið. Samkvæmt. 2. mgr. eru viðskiptahættir villandi ef ekki er greint frá upplýsingum sem telja má að almennt skipti máli fyrir neytendur eða þeim er leynt og þær eru til þess fallnar að hafa áhrif á ákvörðun neytanda um að eiga viðskipti. Kröfugerð og nauðungarsölubeiðni varnaraðila feli í sér villandi upplýsingar, sérstaklega varðandi lögboðin réttindi sóknaraðila sem, eins og fyrr segir, er óheimilt skv. 5. gr. laga nr. 57/2005. Einnig séu þær til þess fallnar að hafa áhrif á ákvarðanir hans varðandi viðskipti við varnaraðila.

Að lokum vísar sóknaraðili til þess að svo virðist sem varnaraðili hafi ekki heldur gætt að skilyrðum gildandi laga og reglna við veðflutning af Engihjalla 1, Kópavogi, yfir á Marteinslaug 10, Reykjavík, sem getið er um með áritun dags. 7. maí 2008 á hið umþrætta skuldabréf. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 skuli þinglýsingastjóri vísa skjali sem afhent sé til þingslýsingar frá ef það varðar bein eða óbein eignarréttindi að fasteign og ekki er getið fasteignanúmers hennar. Á hinu umþrætta veðskuldabréfi komi hvergi fram fasteignanúmer þeirrar eignar sem varnaraðili krefjist nú nauðungarsölu á, þ.e. Marteinslaug 10, og ekki hafa heldur verið lögð fram nein gögn um framangreindan veðflutning sem bera slíkt númer með sér. Þannig verður ekki annað ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins en að með réttu hefði þá þegar átt að vísa skjalinu frá þinglýsingu, og sé því vafa undirorpið hvort meint veðsetning sem varnaraðili hefur byggt kröfu sína á hendur sóknaraðila á, hafi yfirhöfuð öðlast gildi og hvort hún geti þar með verið lögvarin.

                Um lagarök vísar sóknaraðili til laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ólögmæta löggerninga, einkum 36. gr. og þá sérstaklega til ákvæða stafliða a-d í þeirri grein sem og til laga um neytendalán nr. 121/1994, sbr. lög nr. 30/1993. Einnig vísar hann til laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, laga nr. 33/1944 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, þinglýsingalaga nr. 39/1978, sem og til annarra réttarreglna eftir því þær sem kunna að eiga við í máli þessu. Þá byggir stefndi kröfur um málskostnað úr hendi stefnanda á 130. gr. og eftir atvikum 131. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður varnaraðila

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að í alla staði hafi verið staðið rétt að veitingu lánsins til lántakans og veðsetningu fasteigna sóknaraðila til trygginga skuldinni. Greiðslumat á greiðanda bréfsins hafi farið fram, í samræmi við ákvæði títtnefnds samkomulags frá 1. nóvember 2001, áður en lánveiting hafi hafið fram. Hafi greiðslumatið verið byggt á upplýsingum sem m.a. hafi verið veittar af greiðanda skuldabréfsins, Höllu Rós. Niðurstaða matsins hafi verið jákvæð, þ.e. að greiðandi gæti staðið undir greiðslum afborgana, vaxta og verðbóta af skuld skv. bréfinu. Sóknaraðila hafi verið kynnt þessi niðurstaða og hún upplýst um réttarstöðu sína sem ábyrgðarmaður/veðsali skv. reglum tilvitnaðs samkomulags. Hafi hún, 26. apríl 2006, ritað nafn sitt undir niðurstöðuna og þá fullyrðingu að hún hafi þegið leiðbeiningar um réttarstöðu sína í formi upplýsingabæklings. Höllu Rós hafi gengið ágætlega að standa í skilum með greiðslur af bréfinu fyrstu árin en þegar vanskil hafi orðið hafi varnaraðili tvívegis heimilað henni að breyta skilmálum skuldabréfsins. Í bæði skiptin hafi sóknaraðili samþykkt skuldbreytingarnar fyrir sitt leyti.

                Varnaraðili vísar til stuðnings kröfu sinni um nauðungarsölu fasteignar sóknaraðila til áratugalangrar framkvæmdar við fullnustu veðskulda og viðamikilla dómaframkvæmdar um hana. Hafi engin haldbær rök verið færð fyrir því að nauðungarsala skuli ekki ná fram að ganga.

                Um lagarök vísar varnaraðili til 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 9. gr. sömu laga. Um málskostnaðarkröfu vísar hann til 130., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991.

IV

Niðurstaða

                Mál þetta er rekið á grundvelli XIII. kafla laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Samkvæmt 2. mgr. 75. gr. laganna verða ekki hafðar uppi í málinu kröfur um annað en þá ákvörðun sýslumanns sem varð tilefni málsins, svo og málskostnað, sbr. þó 3. mgr. ákvæðisins. Frá þessu má þó víkja ef aðilarnir eru á einu máli um að fá leyst úr öðrum ágreiningi varðandi nauðungarsöluna, sem varðar ekki aðra en þá, og héraðsdómari fellst á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn þá um þann ágreining. Aðalkrafa sóknaraðila er þess efnis að samningsskilmálum sem beiðni varnaraðila um nauðungarsölu byggist á verði vikið til hliðar sem óréttmætum, og veðheimild samkvæmt þeim dæmd ógild. Framangreint skilyrði um að aðilar séu á einu máli um að fá leyst úr öðrum ágreiningi er ekki uppfyllt í máli þessu og verður því að vísa aðalkröfu sóknaraðila frá af sjálfsdáðum.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu deila aðilar um réttmæti nauðungarsölubeiðni varnaraðila. Grundvöllur beiðninnar er veðskuldabréf sem dóttir varnaraðila, Halla Rós Eiríksdóttir, gaf út til varnaraðila máls þessa 26. apríl 2006. Með skuldabréfinu viðurkenndi Halla Rós að skulda varnaraðila þrjár og hálfa milljón króna sem skyldu greiðast með 300 mánaðarlegum greiðslum, þ.e. lánið var til 25 ára. Mun lánið að mestu leyti hafa verið notað til að greiða upp eldri skuldir lántaka. Lánið hefur verið í vanskilum frá gjalddaga 1. september 2011 en áður hafði Halla Rós staðið skil á afborgunum að mestu leyti. Tvívegis höfðu þó verið gerðar breytingar á greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins en með þeim báðum var mánaðarlegum gjalddögum fjölgað, að því er virðist í því skyni að lækka greiðslubyrði lánsins. Sóknaraðili veitti Höllu Rós leyfi til að veðsetja fasteign sína að Engihjalla 1, Kópavogi til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Síðar var veðið, með samþykki beggja málsaðila, flutt yfir á fasteign sóknaraðila að Marteinslaug 10.

Kröfur sínar um að nauðungarsalan nái ekki fram að ganga byggir sóknaraðili fyrst og fremst á því að ósanngjarnt sé af varnaraðila að bera fyrir sig veðleyfið þar sem varnaraðili hafi ekki gætt að skyldum sínum samkvæmt samkomulagi sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, fyrir hönd aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda gerðu sín á milli og tók gildi 1. nóvember 2001. Óumdeilt er að samkomulagið, sem nær til margvíslegra ábyrgða á skuldum einstaklinga, m.a. veðleyfa á skuldabréfum, tekur til veðsetningar sem um er deilt í máli þessu.

Fyrir liggur að samhliða undirritun á veðskuldabréfið, til staðfestingar á samþykki veðsetningarinnar, undirritaði sóknaraðili skjal er ber yfirskriftina „Niðurstaða greiðslumats“. Í skjalinu kemur m.a. fram að niðurstaða greiðslumats bendi til þess að lántaki geti efnt skuldbindingar sínar miðað við núverandi fjárhagsstöðu. Staðfesti sóknaraðili með undirritun sinni á skjalið að hún hefði fengið og kynnt sér bækling um sjálfskuldaábyrgðir og lánsveð. Í framburði sóknaraðila og Höllu Rósar kom fram að Halla Rós hefði komið með skuldabréfið og niðurstöðu greiðslumatsins til sóknaraðila til undirritunar. Sóknaraðili minntist þess ekki að upplýsingabæklingur hefði fylgt. Hvað varðar greiðslumatið sjálft þá ber sóknaraðili að hún hafi ekki séð það og viti ekki hvort það hafi verið framkvæmt í raun. Á þessum tíma hafi hún þó talið að Halla Rós og þáverandi sambýlismaður hennar, Sturla Viktorsson, gætu staðið undir afborgun veðskuldabréfsins. Halla Rós kannaðist ekki við að varnaraðili hefði kynnt henni að hann þyrfti að meta þyrfti greiðslugetu hennar vegna lántökunnar en hún taldi sig, á þeim tíma sem lánið var tekið, geta staðið í skilum með það. Fullyrti Halla Rós að hún hefði ekki verið beðin um upplýsingar um fjárhag sinn eða að afhenda gögn þar að lútandi. Hún kvaðst ekki geta skýrt hvernig áætlun um greiðslur til hennar frá fæðingarorlofssjóði eða launaseðlar sambýlismanns hennar hefðu komist í vörslur varnaraðila en skjöl þessi lagði varnaraðili fram við aðalmeðferð málsins.

                Við fyrirtöku nauðungarsölubeiðni varnaraðila hjá sýslumanninum í Reykjavík 22. nóvember 2013 er bókað eftir varnaraðila, í tilefni af áskorunum sóknaraðila um að leggja fram formlegt greiðslumat, að skriflegt greiðslumat sé ekki til. Hins vegar hefur varnaraðili lagt fram skjal er ber heitið „Fjárhagsyfirlit –Halla Rós Eirík [181181 5089)]“ en um er að ræða skjáskot úr tölvukerfi hans frá 17. október 2013. Í yfirlitinu kemur fram að viðskiptamaður sé Halla Rós Eiríksdóttir og maki hennar sé Bergþór Ingi Þráinsson. Fjöldi barna á heimilinu sé tveir. Óumdeilt er að Halla Rós bjó ekki með nefndum manni er lántakan fór fram, heldur Sturlu Viktorssyni. Hefur komið fram af hálfu varnaraðila að fjárhagsyfirlitið sé tengt við þjóðskrá og sé það ástæða þess að Bergþór Ingi sé skráður sem maki Höllu Rósar. Þau munu hafa búið saman síðan 2012. Í fjárhagsyfirlitinu eru hreinar tekjur sagðar 350.000 krónur. Frá þeim dregst greiðslubyrði lána eftir lánveitingu, 80.000 krónur, en fyrir lánveitingu 120.000 krónur. Þá kemur til frádráttar annar fastur kostnaður, 45.000 krónur, og framfærslukostnaður, 172.817 krónur. Í niðurstöðu er afgangur sagður 12.183 krónur fyrir lánveitingu en 52.183 krónur eftir lánveitingu. Breyting á mánuði er sögð 40.000 krónur en breyting á ári 480.000 krónur. Neðst í fjárhagsyfirlitinu kemur fram í þar til gerðum dálkum „Samþykkt“ og „Breytt 08.05.2006“. Er breytingin þannig eftir töku lánsins.

                Að mati dómsins verður ekki annað ráðið en að framlagt fjárhagsyfirlit hafi verið unnið í tengslum við umrædda lánveitingu til Höllu Rósar enda virðast þær upplýsingar sem þar koma fram vera í samræmi við framlögð skattframtöl hennar og þáverandi sambýlismanns hennar frá 2006 og 2007. Þannig virðast ráðstöfunartekjur þeirrar skv. framtölum og álagningarseðlum vera í samræmi við fjárhagsyfirlitið. Þá sést að umrætt lán virðist hafa verið notað til að greiða upp smærri skuldir þeirra við lánastofnanir sem styður að greiðslubyrði þeirra af lánum hafi lækkað við töku lánsins eins og gert er ráð fyrir í fjárhagsyfirlitinu. Í tilefni af athugsemdum sem fram komu í málflutningi sóknaraðila er rétt að taka fram að í samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga er ekki kveðið á um að óheimilt sé að byggja á tekjum maka við framkvæmd greiðslumats. Í því samhengi verður enn fremur að horfa til þess að Halla Rós og Sturla voru samsköttuð. Með vísan til framangreinds verður því að miða við að varnaraðili hafi framkvæmt greiðslumat í umrætt sinn og uppfyllt þannig lágmarksskilyrði 3. gr. samkomulagsins að því leyti. Sú staðreynd að varnaraðili hefur undir höndum áætlun frá fæðingarorlofssjóði þar sem fram kemur áætlun á greiðslum sjóðsins til Höllu Rósar á árinu 2006 styður enn fremur að greiðslumat hafi farið fram.

Í 4. gr. samkomulagsins er fjallað um upplýsingagjöf ábyrgðarmanns áður en til skuldaábyrgðar er stofnað. Í ákvæðinu er í fyrsta lagi kveðið á um það að fjármálafyrirtækjum beri að gefa út upplýsingabækling um skuldaábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent eru ábyrgðarmönnum til undirritunar. Í 2. mgr. 4. gr. ræðir um hvernig ábyrgðarmaður skal með undirritun sinni staðfesta að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklingsins og staðfesta sérstaklega ef það á við að honum sé kunnugt um að ráðstafa eigi meira en helmingi lánsfjárhæðar til uppgreiðslu eldri lána. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skal tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 141/2012, frá 17. apríl 2012, er byggt á þeim skilningi að skylda lánveitanda til að kynna ábyrgðarmanni niðurstöðu greiðslumats nái ekki fortakslaust til þess að kynna honum gögn sem liggja til grundvallar niðurstöðunni. Máli skipti að ábyrgðarmanni hafi verið bent á þann möguleika að kynna sér slík gögn. Í dómnum er jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að skylda hvíldi ekki á lánveitanda til að geyma undirgögn til stuðnings matinu svo þau mættu vera aðgengileg síðar.

Með framangreindu skjali „Niðurstaða greiðslumats“ var sóknaraðila kynnt jákvæð niðurstaða greiðslumats. Þá var tilgreint sérstaklega að jákvæð niðurstaða fæli ekki í sér tryggingu fyrir því að skuldari efndi skyldur sínar. Ekki er fallist á það með sóknaraðila að honum hafi ekki verið afhentur upplýsingabæklingur um ábyrgðir, en með undirritun skjalsins staðfesti sóknaraðili að hafa kynnt sér upplýsingabækling um sjálfskuldarábyrgð og lánsveð. Ekki fæst séð að varnaraðili hefði með öðrum hætti betur getað tryggt sér sönnun um að réttilega hafi verið staðið að málum. Þrátt fyrir að fallast megi á það með sóknaraðila að fyrirliggjandi gögnum um gerð greiðslumatsins sé áfátt, og að þau séu ekki í samræmi við þær kröfur sem gera megi til varnaraðila sem fjármálastofnunar, þá leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að samþykki sóknaraðila til veðsetningar skuli fellt úr gildi með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þegar atvik málsins eru metin heildstætt, þ. á m. að ekkert í málinu bendir til þess að Halla Rós hafi á þeim tíma sem hún gekkst undir lánveitinguna ekki getað staðið í skilum með hana, verður ekki fallist á það með sóknaraðila að ósanngjarnt sé af hálfu varnaraðila eða andstætt góðri viðskiptavenju, í skilningi ákvæðisins, að bera fyrir sig hið umþrætta veðleyfi. Því ná kröfur sóknaraðila ekki fram að ganga á þessari forsendu.

Auk framangreindrar málsástæðu, um að varnaraðili hafi ekki gætt að skyldum sínum samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, teflir sóknaraðili fram fjölmörgum öðrum málsástæðum því til stuðnings að sýslumanni beri að stöðva nauðungarsöluna.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðila hafi skort réttmæta heimild til þess að krefjast nauðungarsölu á þeim grunni að skilmáli sem fram kemur í 3. gr. veðskuldabréfsins, þar sem varnaraðili áskilur sér rétt til þess að gjaldfella meinta skuld, sé óréttmætur þar sem hann raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda þ.e. sóknaraðila í óhag, sbr. 3. mgr. 36. gr. c samningalaga nr. 7/1936. Dómurinn getur ekki fallist á að umræddur skilmáli sé óréttmætur enda ekki annað leitt í ljós en að hann sé í samræmi við viðskiptavenjur.

Sóknaraðili vísar til þess að meint veðandlag sé heimili sitt og njóti sem slíkt friðhelgi samkvæmt 71. gr. stjórnarskrá sem samkvæmt 3. mgr. sömu greinar megi aðeins takmarka með sérstakri lagaheimild beri brýna nauðsyn til vegna réttinda annarra. Jafnframt sé eignarréttur sóknaraðila friðhelgur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár og megi því ekki skylda hann til að láta eign sína af hendi nema almenningsþörf krefji, samkvæmt lagafyrirmælum. Dómurinn getur ekki fallist á að framangreind stjórnarskrárákvæði komi í veg fyrir að einstaklingar geti með frjálsum samningum sett að veði fasteignir sínar til tryggingar skuldum sínum eða annarra, jafnvel þótt þeir haldi heimili í viðkomandi fasteign. Þvert á móti mætti ætla að það væri ólögmæt takmörkun á eignarrétti þeirra að banna slíkar ráðstafanir.

Sóknaraðili byggir enn fremur á því að þar sem veðskuldabréfið innhaldi ekki upplýsingar um árleg hlutfallstala kostnaðar sé lánveitanda skv. 14. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán sé varnaraðila óheimilt að krefjast greiðslu hans. Þá sé ekki í gerðarbeiðni eða öðrum fyrirliggjandi gögnum málsins skýrt með neinum hætti hvernig hinn gjaldfelldi höfuðstóll meintrar kröfu varnaraðila hafi orðið til, eða hann sundurliðaður með neinum hætti. Tölulegt ósamræmi sé milli kröfunnar samkvæmt greiðsluáskorun annars vegar og nauðungarsölubeiðni hins vegar. Þá hafa afborganir og eftirstöðvar lánsins á hverjum tíma ekki verið áritaðar á skuldabréfið sem sé þó skylt samkvæmt tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798. Að mati dómsins er í þessu samhengi til þess að líta að óumdeilt er að Halla Rós hefur ekki staðið í skilum með greiðslur afborgana af veðskuldabréfinu frá 1. október 2011. Við aðalmeðferð málsins upplýstist að krafa varnaraðila um nauðungarsölu byggist á gjaldföllnum afborgunum en ekki gjaldfelldum höfuðstól. Ágreiningur um útreikning kröfu varnaraðila samkvæmt veðskuldabréfinu, þ.m.t. hvaða kostnaðar honum sé heimilt að krefjast, kemur því ekki til skoðunar á þessu stigi málsins heldur eftir lok nauðungarsölu, komi til hennar, þegar sýslumaður úthlutar söluverði fasteignarinnar.

Sóknaraðili vísar enn fremur til þess að varnaraðili hafi, með því að bera fyrir sig óréttmæta skilmála í umræddu veðskuldabréfi og óljósar upplýsingar um meintar niðurstöður greiðslumats greiðanda skuldabréfsins, veitt sér villandi upplýsingar um réttindi sín og skyldur sem ábyrgðarmanns og almennt sem neytanda sem brjóti í bága við lög nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Að framangreindu var, í tengslum við umfjöllun um greiðslumat, ekki fallist á það með sóknaraðila að ósanngjarnt sé af hálfu varnaraðila eða andstætt góðri viðskiptavenju, í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936, að bera fyrir sig hið umþrætta veðleyfi.  Enn fremur var komist að því að ekki hefði verið sýnt fram á að skilmálar bréfsins væru óréttmætir. Verður ekki séð að framagreind rök sóknaraðila, er virðast snúa að sömu atriðum, breyti þeirri niðurstöðu.

Að lokum vísar sóknaraðili til þess að þar sem ekki sé getið um fasteignanúmer á skjali er varðar veðflutning lánsins af Engihjalla 1, Kópavogi, yfir á Marteinslaug 10, Reykjavík, hefði þá þegar átt að vísa skjalinu frá þinglýsingu, og sé því vafa undirorpið hvort meint veðsetning sem varnaraðili hefur byggt kröfu sína á hendur sóknaraðila á, hafi yfirhöfuð öðlast gildi og hvort hún geti þar með verið lögvarin. Í málinu liggur fyrir skjal er varðar umræddan veðflutning. Í því kemur fram fastanúmer Marteinslaugar 10 samkvæmt fasteignaskrá. Þá liggur fyrir að sóknaraðili samþykkti veðsetningu á Marteinslaug 10 með undirskrift sinni á skjalið og geta ætlaðir vankantar á þinglýsingu því engu breytt um gildi skuldbindinga hennar gagnvart varnaraðila. Eru því rök sóknaraðila hvað þetta atriði varðar haldlaus.

Með vísan til alls framangreinds verður því að hafna vara- og þrautavarakröfu sóknaraðila sem lúta að því að krafa varnaraðila um nauðungarsölu á fasteign hennar nái ekki fram að ganga.

Með hliðsjón af því hve gögnum varnaraðila um gerð greiðslumatsins var áfátt og að hann lagði ekki fram áætlun um greiðslur sóknaraðila frá fæðingarorlofssjóði fyrr en við aðalmeðferð málsins, þrátt fyrir að hafa haft áætlunina í sínum vörslum um árabil, þykir eftir atvikum rétt að málskostnaður falli niður.

Við meðferð málsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl. en hann tók við rekstri málsins eftir að sóknaraðili, sem í fyrstu gætt hagsmuna sína sjálf, hafði skilað greinargerð.      

Af hálfu varnaraðila flutti málið Bjarni Lárusson hrl.

Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Aðalkröfu sóknaraðila, Sigfríðar Gerðar Hallgrímsdóttur, um að samningsskilmálum, sem beiðni varnaraðila, Sparisjóðsins á Suðurlandi, um nauðungarsölu byggist á, verði vikið til hliðar sem óréttmætum og veðheimild samkvæmt þeim dæmd ógild, er vísað frá dómi

Hafnað er kröfum sóknaraðila sem lúta að því að kröfu varnaraðila um nauðungarsölu á fasteign hennar að Marteinslaug 10, Reykjavík, nái ekki fram að ganga.

      Málskostnaður fellur niður.