Print

Mál nr. 194/2004

Lykilorð
  • Lífeyrissjóður
  • Opinberir starfsmenn

Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. nóvember 2004.

Nr. 194/2004.

Þorvaldur Ólafsson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Lífeyrissjóðir. Opinberir starfsmenn.

Þ taldi að við útreikninga á lífeyri hans bæri að miða við laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslunnar á hverjum tíma en ekki við laun skipaskoðunarmanns, en því starfi gegndi Þ síðast. Þótt L hafi á árinu 1965 veitt viðtöku iðgjöldum sem Þ greiddi til Lífeyrissjóðs togarasjómanna og veitt Þ réttindi í samræmi við það samkvæmt heimild í lögum um L, hafði það ekki áhrif á hvaða launafjárhæð bæri að miða við þegar ellilífeyrir væri reiknaður út. Samkvæmt lögunum ætti að miða við laun fyrir starf er sjóðsfélagi gegndi síðast og uppfyllti Þ ekki skilyrði undantekningar frá þeirri reglu. Ekki var fallist á að reglur laganna brytu gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár. Var L sýknaður af kröfum Þ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. maí 2004. Hann krefst þess að viðurkennt verði að hann eigi rétt til lífeyris úr hendi stefnda miðað við laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslu Íslands á hverjum tíma, eftir að hann hættir störfum og hefur töku lífeyris. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Að virtum atvikum málsins er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var l. mars sl., er höfðað 11. nóvember 2002 af Þorvaldi Ólafssyni, kt. 060836-3029, Breiðási 11, Garðabæ, á hendur Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, kt. 711297-3919, Bankastræti 7, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að hann eigi rétt til lífeyris úr hendi stefnda miðað við laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslu Íslands á hverjum tíma eftir að hann hættir störfum og hefur töku lífeyris. Krafist er og málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að hann verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðar­reikningi.

 

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefnandi hóf störf sem vélstjóri hjá Skipa­útgerð ríkisins 17. janúar 1961 og greiddi iðgjöld til stefnda frá þeim tíma. Frá árinu 1962 var hann yfirvélstjóri hjá Vita- og hafnarmálastofnun og um tíma frá árinu 1968 var hann 1. vélstjóri hjá Landhelgis­gæslunni. Frá 1. desember 1976 var hann skipa­skoðunarmaður hjá Siglinga­stofnun til ársins 1987.

Fram hefur komið að á árunum 1958 til 1961 starfaði stefnandi á togurum og greiddi á því tíma­bili iðgjöld í Lífeyrissjóð togarasjómanna og undirmanna á far­skipum. Á árinu 1965 flutti stefnandi réttindi, sem hann hafði aflað þar, til stefnda, sem voru reiknuð 499 dagar, samtals að fjárhæð 17.506,04 krónur.

Stefnandi telur að við útreikninga á lífeyri hans beri að miða við laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslu Íslands á hverjum tíma, en ekki við laun skipaskoðunar­manns en því starfi gegndi stefnandi síðast. Almenna reglan er sú samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um stefnda að upphæð ellilífeyris er reiknaður sem hundraðs­hluti af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót sem við starfslok fylgja stöðunni er sjóðfélagi gegndi síðast. Stefnandi telur að rétturinn til þess að miða ellilífeyri hans við laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslunnar verði leiddur af  6. mgr. sömu lagagreinar, en þar segir að hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum í stefnda skuli miða lífeyrinn við hæsta launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í að minnsta kosti tíu ár, ella skuli miða við það hærra launaða starf sem hann að við­bættum enn hærra launuðum störfum gegndi í að minnsta kosti tíu ár. Hæst launaða starf stefnanda segir hann að hafi verið þegar hann var á togurum, samtals í eitt ár, sjö mánuði og fjóra daga miðað við ráðningar­daga. Næst hafi hann verið yfirvélstjóri á vitaskipinu Árvakri, fyrst undir rekstri Vita- og hafnarmálastofnunar og síðar undir rekstri Landhelgisgæslunnar, samtals í sjö ár og sjö mánuði. Þriðja starfið og lægst launaða af hærra launuðum störfum en fyrir starf skipaskoðunarmanns hafi verið starf 1. vélstjóra hjá Skipaútgerð ríkisins á olíuskipinu Þyrli, farþegaskipinu Herjólfi og strandferðaskipinu Skjaldbreið, samtals í eitt ár og hálfan mánuð.

Af stefnda hálfu er því mótmælt að skilyrðum um tíu ára starfstíma samkvæmt framan­greindri reglu sé uppfyllt og því geti stefnandi ekki átt rétt til lífeyris þar sem miðað sé við laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslunnar þegar hann hefur töku lífeyris. Réttindi sem stefnandi hafi flutt úr Lífeyrissjóði togarasjómanna geti ekki talist til starfstímans sem laga­ákvæðið fjalli um. Í málinu er því deilt um það hvort í umræddum réttindaflutningi úr Lífeyrissjóði togarasjó­manna til stefnda felist að stefnandi hafi með honum náð 10 ára starfstíma samkvæmt 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997.

Í greinargerð stefnda er fundið að því að stefnandi hafi ekki lagt fram gögn er sýni að hann hafi haft hærri laun á meðan hann var á sjó en fyrir starf skipaskoðunarmanns. Undir rekstri málsins aflaði stefnandi gagna um laun og greiðslur iðgjalda í Lífeyrissjóð togarasjómanna og til stefnda. Einnig aflaði hann útreikninga og saman­burðar á launum stefnanda sem togarasjómanns árin 1958 til 1961 og hæstu launum skoðunarmanns og vélaeftirlitsmanns hjá Skipaskoðun ríkisins eins og fram kemur í álitsgerð Vigfúsar Ásgeirssonar hjá Talnakönnun hf., dagsettri 3. nóvember 2003. Um þessar upplýsingar og útreikninga er ekki ágreiningur. Hins vegar er deilt um það hvort miða beri við lögskráningardaga stefnanda á sjó eða ráðningardaga, en lög­skráningar­­dagar á árunum 1958 til 1961 teljast samtals eitt ár og fjórir og hálfur mánuður, en ráðningardagar á sama tímabili eitt ár, sjö mánuðir og fjórir dagar eins og að ofan greinir. Ágrein­ingur þessi kom upp við munnlegan málflutning en stefnandi telur þá máls­ástæðu stefnda að miða beri við lögskráningardaga en ekki ráðningardaga of seint fram komna.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi hafið störf sem vélstjóri hjá Skipa­útgerð ríkisins 17. janúar 1961. Í fyrstu hafi hann verið undirvélstjóri á olíu­skipinu Þyrli, en síðar á farþegaskipinu Herjólfi og strandferðaskipinu Skjald­breið. Við upphaf ráðningar hans hafi hann sjálfkrafa orðið sjóðfélagi hjá stefnda. Hinn 1. febrúar 1962 hafi stefnandi hafið störf sem yfirvélstjóri hjá Vita- og hafnar­mála­stofnun á vitaskipinu Árvakri og hafi hann áfram greitt iðgjöld til stefnda. Um áramót 1968/1969 hafi Vita- og hafnarmálastofnun hætt rekstri skipsins en Land­helgis­­gæslan hafi yfirtekið hann og hafi stefnandi starfað þar áfram í átta mánuði. Á árinu 1969 hafi stefnandi aftur hafið störf sem vélstjóri á fiskiskipum og gegnt þeim til loka árs 1975. Árið 1976 hafi hann sinnt yfir­vélstjóra­störfum á erlendu flutninga­skipi, en 1. desember 1976 hafi hann verið skipaður skipaskoðunarmaður hjá Siglingastofnun ríkisins, nú Siglingastofnun Ís­lands. Þeim starfa hafi hann gegnt fram til ársins 1987, en þá hafi hann farið út í eigin atvinnurekstur. Á árinu 1992 hafi hann hafið vélstjórnarstörf á olíuskipinu Bláfelli, sem hafi verið í eigu Olíufélagsins hf. og árið 1993 hafi hann ráðist sem l. vélstjóri á Faxa RE-241 og gegnt því starfi til ársins 1999. Frá þeim tíma hafi hann verið afleysingavélstjóri á skipum Hafrannsóknar­stofnunarinnar, Landhelgis­gæslunnar og Björgunar.

Áður en stefnandi kom til starfa hjá ríkinu hafi hann greitt iðgjöld til Lífeyris­sjóðs togarasjómanna er hann gegndi störfum á ýmsum togurum árin 1958 til 1961. Tímabilið 2. apríl til 17. september 1958, eða í 5½ mánuð, hafi hann gegnt vél­stjóra­störfum á b/v Aski. Lögskráðir dagar, þ.e. dagar sem stefnandi hafi gegnt störfum á hafi úti, hafi samtals verið 169. Stefnandi hafi því starfað í tæpt hálft ár við sjómennsku árið 1958 en hinn helming ársins hafi hann gengið í Vélskóla Íslands til þess að afla sér vélstjórnarréttinda. Árið 1959 hafi stefnandi starfað á sama skipi sem III. vélstjóri tímabilið 8. maí til 13. október, samtals í 159 daga. Þá hafi hann starfað sem III. vélstjóri á m/s Litlafelli tímabilið 15. desember til 31. desember, samtals í 17 daga. Stefnandi hafi því sinnt sjómennsku samtals í 176 daga árið 1959, en hann hafi gengið í Vélskóla Íslands samhliða sjómennskunni. Árið 1960 hafi stefnandi gegnt störfum III. vélstjóra á m/s Litlafelli tímabilið 1. janúar til 17. janúar eða í 17 daga. Þá hafi hann gegnt störfum II. vélstjóra á m/s Fylki tímabilið 4. júní til 16. ágúst, eða í 74 daga, og á m/s Frey tímabilið 26. ágúst til 31. desember, í 128 daga. Samtals hafi stefnandi því gegnt vélstjórnarstörfum í 219 daga árið 1960. Stefnandi hafi lokið vélstjóraprófi vorið 1959 og hafi útskrifast frá rafmagnsdeild Vélskóla Íslands vorið 1960, en samanlögð menntun hans svari til 4. stigs vélstjóra­náms. Árið 1961 hafi stefnandi hafið störf á Þyrli en áður en til þess kom hafi hann skilað 16 dögum sem II. vélstjóri á m/s Frey, tímabilið 1. janúar til 16. janúar 1961. Stefnandi hafi óskað eftir flutningi áunninna réttinda í Lífeyrissjóði togarasjómanna yfir til stefnda árið 1965. Stjórn stefnda hafi samþykkt flutninginn, en samtals hafi verið um að ræða laun vegna 499 lögskráningardaga árið 1958 til 1961. Réttinda­flutningurinn hafi formlega átt sér stað 7. maí 1965.

Með bréfi 23. janúar 2002 hafi lögmaður stefnanda farið þess á leit við stefnda að hann veitti álit sitt á þýðingu réttindaflutningsins, hvort í honum fælist yfirfærsla fjár­muna eingöngu eða jafnframt flutningur þess tíma sem stefnandi hefði varið annars staðar til öflunar þeirra fjármuna. Óskað hafi verið eftir nákvæmum upplýsingum um réttarstöðu stefnanda á þeirri stundu er réttindaflutningurinn var framkvæmdur, hvaða lög hefðu þá gilt um sjóðinn, hvaða áhrif síðargildandi löggjöf hefði á réttarstöðu stefnanda og hvort sá réttur sem stefnandi hefði öðlast 7. maí 1965 héldist þrátt fyrir breytta löggjöf. Þá hafi fyrirsvars­menn stefnda verið inntir svara við því hvort stefnandi öðlaðist sjálfkrafa þann rétt sem síðar tilkomin löggjöf hefði veitt sjóð­félögum stefnda. Óskað hafi verið eftir nákvæmum útskýringum á hinni svokölluðu tíu ára reglu og hvort túlka mætti hana svo að við flutning réttinda yfir til stefnda úr öðrum lífeyrissjóði flyttust ekki einungis þeir fjármunir sem kynnu að hafa verið fyrir hendi í þeim sjóði heldur einnig önnur réttindi og aðrar skyldur, til að mynda að til tekna reiknaðist sá tími sem það hefði tekið stefnanda að afla nefndra fjármuna. Um verulegt hagsmunamál væri að ræða fyrir stefnanda enda væri högum hans svo komið að á fyrri hluta starfsferils síns hefði hann greitt af mun hærri launum til sjóðsins en á síðari hluta hans. Starf skipaskoðunarmanns hjá Siglingastofnun ríkisins gæfi af sér mun lægri tekjur en staða vélstjóra á skipum Landhelgisgæslunnar. Með flutningi 499 lögskráningar­daga yfir til stefnda hefði stefnandi öðlast rétt til greiðslna úr sjóðum stefnda samkvæmt tíu ára reglunni, væru þeir umreiknaðir í ár. Svör stefnda hefðu verið þau að stefnanda bæri einungis réttur til greiðslna úr sjóðum stefnda miðað við starf skipaskoðunarmanns hjá Siglingastofnun, en væri afstaða stefnda óbreytt væri óskað eftir skriflegum rökstuðningi.

Fyrirspurnum lögmanns stefnanda hafi verið svarað með bréfi 11. febrúar 2002. Spurningunni um réttindaflutninginn úr Lífeyrissjóði togarasjómanna til stefnda árið 1965 hafi verið svarað þannig að hann hafi falið í sér flutning á tíma og starfshlutfalli, sem hafi verið 100%, en réttindaávinnsla í B-deild stefnda reiknist ekki út frá fjárhæð iðgjalds heldur tíma og starfshlutfalli. Þegar til ellilífeyristöku komi sé það megin­reglan að ellilífeyrir taki mið af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgdu stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi hafi gegnt síðast, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Jafnframt komi fram að síðari lagasetning um stefnda hefði almennt áhrif á réttindi allra sjóðfélaga í sjóðnum og að lífeyrir stefnanda kæmi til með að reiknast út frá þeim lögum sem yrðu í gildi þegar hann hæfi töku lífeyris. Löggjafinn hefði heimildir innan vissra marka, með tilliti til þeirra marka sem stjórnarskráin setti, til að breyta réttindum sjóðfélaga og kynnu slíkar breytingar jafnframt að hafa áhrif á réttindi þeirra sem þegar hefðu áunnið sér réttindi í lífeyrissjóðum. Útskýringar á hinni svo­kölluðu tíu ára reglu í 6. mgr. 24. gr. laganna hafi verið þær að reglan hafi komið inn í lög um stefnda með lögum nr. 98/1980. Á árinu 1983 hafi fyrst reynt á það í framkvæmd hvort tíu ára reglan tæki til þeirra réttinda sem flutt væru í stefnda. Af því tilefni hafi verið óskað eftir áliti Arnljótar Björnssonar, þá prófessors við Háskóla Íslands, en samkvæmt því eigi þeir sjóðfélagar sem unnið hafi fyrir hærri launum meðan þeir áttu aðild að öðrum lífeyrissjóði ekki rétt til viðmiðunar samkvæmt tíu ára reglunni þrátt fyrir réttindaflutning til stefnda. Stefndi hafi í fram­kvæmd fylgt álitinu og því ekki talið heimilt að telja þann tíma, sem fluttur hafi verið úr öðrum sjóðum, til tíu ára reglunnar.

Stefnandi hafi krafist þess með bréfi 31. júlí 2002 að um lífeyrisréttindi hans færi samkvæmt launum yfirvélstjóra á skipum Landhelgisgæslunnar á hverjum tíma og að önnur niðurstaða fæli í raun í sér að stefnandi hefði orðið fyrir verulegum réttindamissi við flutning áunninna réttinda sinna úr Lífeyrissjóði togarasjómanna yfir til stefnda árið 1965, ella hefði réttindaflutningurinn ekki í för með sér neina fjárhags­lega þýðingu. Stefnandi hafi sótt um leyfi til flutnings iðgjalda vegna láns sem hann hafi þurft á að halda hjá stefnda og hafi flutningurinn verið samþykktur. Stefnandi hafi verið skipaður skipaskoðunarmaður hjá Siglingastofnun ríkisins 1. desember 1976 og hafi hann gegnt því starfi til ársins 1987. Allan þann tíma hafi hann verið sjóðfélagi stefnda. Laun skipaskoðunarmanns hafi verið mun lægri en launin sem hann hafi notið sem yfirvélstjóri og l. vélstjóri á vitaskipinu Árvakri og enn lægri en launin sem hann hefði aflað sér sem togarasjómaður. Með bréfi stefnda 14. ágúst 2002 hafi kröfum stefnanda verið hafnað.

Stefnandi byggi á því að hann eigi rétt til lífeyrisgreiðslna úr hendi stefnda í samræmi við laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslu Íslands á hverjum tíma eftir að hann hættir endanlega störfum og hefur töku lífeyris. Stefnandi sé fæddur 6. ágúst 1936 og því rúmlega 66 ára gamall. Þrátt fyrir að honum sé nú heimilt að láta af störfum og hefja töku lífeyris hafi hann ákveðið að bíða með það, enda spili þar inn í niðurstaða þessa máls. Miklu muni fyrir stefnanda hvort hann komi til með að taka laun samkvæmt launatöxtum skipaskoðunarmanna hjá Siglingastofnun Íslands eða 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslunnar. Mál þetta sé því höfðað til viðurkenningar á rétti stefnanda til lífeyrissjóðsgreiðslna í samræmi við laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslu Íslands eftir að hann hefur töku lífeyris hjá stefnda. Það sé höfðað á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 enda hafi stefnandi lögvarða hagsmuni af niðurstöðu þess.

Eins og fram komi í málavaxtalýsingu hafi stefnandi gegnt störfum á togurum fram til 17. janúar 1961 en þann dag hafi hann hafið störf sem 1. vélstjóri á olíuskipinu Þyrli. Ágreiningslaust sé að stefnandi hafi sinnt störfum í 499 lög­skráningar­daga á hinum ýmsu togurum fyrir 17. janúar 1961 og að sá dagafjöldi hafi verið fluttur úr Lífeyrissjóði togarasjómanna til stefnda. Þá sé ekki ágrein­ingur um að þessi fjöldi lögskráningardaga nemi einu ári og fjórum og hálfum mánuði. Ráðningardagarnir hafi hins vegar verið 579, þ.e. eitt ár sjö mánuðir og fjórir dagar. Nærtækast sé að miða hér við ráðningardaga stefnanda á sjó enda taki lögskráningar­dagarnir einungis til útivistardaga skips en ekki þess tíma er skip liggi við bryggju á milli veiðiferða þrátt fyrir að unnið sé við skip í höfn. Stefnandi hafi gegnt störfum 1. vélstjóra á olíuskipinu Þyrli, farþegaskipinu Herjólfi og strandferðaskipinu Skjald­breið, í þessari röð, tímabilið 17. janúar 1961 til 31. janúar 1962 eða í eitt ár og hálfan mánuð, og hann hafi gegnt störfum yfirvélstjóra á vitaskipinu Árvakri, undir rekstri Vita- og hafnarmálastofnunarinnar tímabilið 1. febrúar 1962 til áramóta 1968/1969 eða í sex ár og ellefu mánuði og yfirvélstjórastörfum á sama skipi undir rekstri Landhelgisgæslu Íslands tímabilið 1. janúar 1969 til 31. ágúst 1969 eða í átta mánuði. Stefnandi hafi því gegnt störfum í samtals tíu ár og þrjá mánuði á fiskiskipum og skipum hins opinbera, en lífeyris­sjóðs­greiðslur vegna þess tíma hafi ýmist verið greiddar beint í sjóð stefnda eða fluttar yfir í þann sjóð með samþykkt stefnda 7. maí 1965.

Hæst launaða starf stefnanda fyrr á sjóðfélagatíma sínum hjá stefnda hafi verið vélstjórnarstarf á togurum, samtals 579 dagar, eða eitt ár, sjö mánuðir og fjórir dagar. Næsta starf í röðinni hafi verið staða yfirvélstjóra á vitaskipinu Árvakri, fyrst undir rekstri Vita- og hafnarmálastofnunarinnar og síðar undir rekstri Landhelgisgæslu Íslands en þeirri stöðu hafi stefnandi gegnt í 7 ár og 7 mánuði. Þriðja starfið og það lægst launaða hafi verið starf 1. vélstjóra hjá Skipaútgerð ríkisins, samtals í eitt ár og hálfan mánuð og beri að miða við það við ákvörðun lífeyrisgreiðslna til stefnanda eftir að hann hættir störfum og hefur töku lífeyris. Skipaútgerð ríkisins sé þó ekki lengur til og olíuskip, farþega- og strandferðaskip séu nú öll í einkaeigu og gildi um launakjör l. vélstjóra á þeim skipum kjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins og Vélstjóra­félags Íslands. Laun 1. vélstjóra samkvæmt kjarasamningnum séu hærri en laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslu Íslands, en þar sem Skipaútgerð ríkisins hafi rekið skipin, sem stefnandi var á, sé eðlilegt að miða lífeyri hans við laun 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslu Íslands á hverjum tíma enda séu þau lægri en laun 1. vélstjóra á farskipum í einkaeigu. Ákvæðum 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um lægst launaða starfið af hærra launuðum störfum sé því fylgt til hins ýtrasta. Stefnandi fari ekki fram á lífeyri í samræmi við laun vélstjóra á togurum heldur í samræmi við stöðu 1. vélstjóra á skipum Landhelgisgæslu Íslands, en það sé lægst launaða staða sem stefnandi hafi gegnt meðan hann var sjóðfélagi hjá stefnda að undanskildu starfi hans sem skipaskoðunarmanns hjá Siglingastofnun ríkisins.

Stefndi viðurkenni réttindaflutning stefnanda úr Lífeyrissjóði togarasjómanna til stefnda og að það hafi einmitt verið tími og starfshlutfall stefnanda sem hafi verið flutt yfir til stefnda. Hins vegar sé því haldið fram af hálfu stefnda að þrátt fyrir að starfstími stefnanda á togurum hafi verið fluttur yfir til stefnda, beri ekki að túlka það svo þegar kemur að túlkun ákvæðis 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Ágreiningur sé því um hvort réttindi, sem stefnandi hafi flutt úr Lífeyrissjóði togarasjómanna yfir til stefnda árið 1965, teljist til starfstíma í skilningi tíu ára reglunnar í framangreindu lagaákvæði. Stefndi virtist byggja á því að þegar að túlkun tíu ára reglunnar komi þá taki flutningur réttinda úr öðrum sjóðum einungis til þeirra fjármuna sem fluttir hafi verið á milli sjóða en ekki til þess tíma sem það hafi tekið að afla fjármunanna. Rök stefnda fyrir því virtust alfarið byggja á áliti Arnljóts Björnssonar frá árinu 1983.

Samkvæmt 3. mgr. 31. gr. laga nr. 1/1997 sé sjóðsstjórn stefnda heimilt að fengnu samþykki fjármálaráðherra að veita viðtöku, vegna manns sem gerist sjóðfélagi hjá stefnda, fé er kunni að vera endurgreitt hans vegna úr sjóði, tryggingafélagi eða stofnun og veita honum réttindi í samræmi við það. Ákvæðið feli ekki í sér neins konar takmörkun á umfangi réttinda sem viðkomandi einstaklingur flytji yfir í stefnda. Líta verði á þau réttindi á sama hátt og réttindi, sem hann hafi öðlast á sjóðfélagatíma sínum hjá stefnda, enda teljist sá tími, sem farið hafi í öflun hinna yfirfærðu réttinda, til sjóðfélagatíma hans hjá stefnda. Stefnandi uppfylli því skilyrði hinnar svokölluðu tíu ára reglu 6. mgr. 24. gr. laganna, enda sé hvergi að finna í lögunum ákvæði sem takmarki eða skerði hin yfirfærðu réttindi þannig að þau teljist á einhvern hátt verðminni en þau réttindi sem stefnandi hafi beinlínis öðlast á sjóð­félagatíma sínum hjá stefnda.

Líta verði á áunnin lífeyrissjóðsréttindi stefnanda sem eign hans sem njóti verndar 72. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995. Stefndi hafi sam­þykkt flutning áunninna réttinda stefnanda til stefnda. Innifalinn í þeim réttinda­flutningi hafi verið sá tími sem það hafi tekið stefnanda að afla þeirra réttinda á togurum. Njóti stefnandi ekki réttinda samkvæmt 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 vegna réttindaflutningsins hafi þau réttindi hans í raun glatast, enda hefði hann átt rétt til lífeyrissjóðsgreiðslna úr Lífeyrissjóði sjómanna hefði réttinda­flutningurinn aldrei komið til. Verði lagaákvæðið túlkað á þann veg að réttindi stefnanda samkvæmt umræddri tíu ára reglu séu ekki til staðar styðji lögmæt eða málefnanleg sjónarmið ekki þá mismunun sem leiði af reglunni, en þeir sjóðfélagar sem flytji réttindi sín yfir til stefnda njóti að þessu leyti lakari réttar en sjóðfélagar sem hafi áunnið sér öll sín réttindi á sjóðfélagatíma sínum hjá stefnda. Sé þá um að ræða brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, enda sé stefnanda þá mismunað á grundvelli stöðu hans að öðru leyti.

Samkvæmt áliti Arnljóts Björnssonar sé meginreglan sú að sjóðfélagi, er fái leyfi til að flytja fé úr öðrum sjóði, eigi að njóta réttinda "í samræmi við það", þ.e. hann eigi almennt að öðlast réttindi hjá stefnda sem svari til þess að iðgjöld sem hann flytji hafi upphaflega verið greidd til stefnda en ekki þess sjóðs sem flutt hafi verið úr. Túlkun stefnda á meðferð yfirfærðra réttinda stefnanda úr Lífeyrissjóði togara­sjó­manna til stefnda sé ósanngjörn og rakalaus. Fjárhagslegt tjón stefnda sé hér ekki til staðar enda ekki verið að krefja stefnda um greiðslu lífeyris til stefnanda miðað við mun hærri laun, sem hann hafi aflaði sér utan sjóðfélagatíma síns hjá stefnda, heldur þvert á móti miðað við laun sem hann hafi aflað á sjóðfélagatímanum.

Stefnandi byggi kröfur sínar aðallega á 6. mgr. 24. gr. og 3. mgr. 31. gr. laga nr. 1/1997, 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 3. gr. laga nr. 97/1995, og 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995.  Um málskostnað sé vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og um virðisaukaskatt til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Hlutverk stefnda sé eins og annarra lífeyrissjóða að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum laga um stefnda, nú lög nr. 1/1997. Upphæð ellilífeyris hjá stefnda sé hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgi stöðunni fyrir fullt starf, sem sjóðfélagi hafi gegnt síðast, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna. Meginreglan við greiðslu ellilauna hjá stefnda sé svokölluð eftir­manns­regla, sbr. 35. gr. Samkvæmt henni geti sjóðfélagar valið um það hvort lífeyrisgreiðslur til þeirra breytist til samræmis við breytingar, sem verði á launum er á hverjum tíma eru greidd fyrir það starf sem þeir gegndu síðast, eða eftir atvikum við breytingar á launum fyrir hærra launað starf samkvæmt ákvæðum 6. mgr. 24. gr. og 1. og 2. mgr. 28. gr. laganna.

Sérregla 6. mgr. 24. gr. laganna kveði á um það að hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum í sjóðnum, skuli miða lífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í að minnsta kosti tíu ár. Reglan hafi almennt verið kölluð tíu ára reglan, sem hafi komið inn í lög um starfsemi stefnda með lögum nr. 98/1980, en í þeim hafi falist nokkrar breytingar á lögunum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna. Nýr aðalkjarasamningur milli BSRB og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins hafi verið undirritaður 20. ágúst 1980 og í tengslum við hann hafi verið gert samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og bandalagsins um nokkur félagsleg réttindamál opinberra starfsmanna. Í samkomu­laginu hafi meðal annars verið kveðið á um það að gera skyldi vissar breytingar á lögunum um stefnda. Á grundvelli samkomulagsins hafi 9. september 1980 verið gefin út bráðabirgðalög  nr. 67/1980 um breytingar á lögunum um lífeyrissjóðinn sem hafi síðan verið staðfest með lögum nr. 98/1980. Þáverandi fjármálaráðherra hafi mælti fyrir frumvarpinu, sem hafi orðið að lögum nr. 98/1980, og hafi meðal annars fjallað um nýmælið sem felist í tíu ára reglunni. Hann hafi sagt að ákvæðið geti haft gildi gagnvart þeim starfsmönnum, sem gegni ábyrgðarmiklum störfum, en vilji taka við léttari störfum og þá lægra launuðum, en fram að þessu hafi það þýtt að lífeyrir þeirra skertist þá einnig. Ákvæðið sé vissulega mjög mikilvægt fyrir starfsmenn ríkisins, en engu að síður mikilvægt fyrir ríkið, vegna þess að það hafi verið afskaplega óþægilegt að menn, sem ef til vill hafi tapað starfsorku sinni og gegni mikilvægum störfum í þjónustu ríkisins, hafi haldið dauðahaldi í þessa stöðu, þó þeir væru orðnir óhæfir til að gegna henni vegna þess að menn hafi verið að hugsa um hver yrði lífeyrir þeirra. Hér sé opnað fyrir það, að hafi menn gegnt slíkum stöðum í tíu ár geti þeir fengið lífeyri í samræmi við það þegar lífeyrisaldri er náð, jafnvel þótt þeir hafi allra seinustu árin gegnt starfi sem hafi verið lægra launað. Ákvæðið um tíu ára regluna hafi því fyrst og fremst verið hugsað sem valkostur fyrir þá opinberu starfsmenn, sem hafi viljað fara í einfaldari störf við lok starfsævinnar, nokkurs konar „sólarlags“ - ákvæði. Reglan hafi verið hugsuð sem undan­tekningarregla. Meginreglan við greiðslu lífeyris hjá stefnda sé að miða við laun fyrir það starf sem sjóðfélagi hafi gegnt síðast, sbr. nú 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997.

Ágreiningur máls þessa snúist í fyrsta lagi um það hvort þau réttindi sem stefnandi hafi flutt úr Lífeyrissjóði togarasjómanna yfir til stefnda árið 1965 geti talist til starfstíma í skilningi 6. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 og í öðru lagi við hvaða laun eigi að miða ellilífeyri stefnanda. Stefnandi byggi viðurkenningarkröfu sína á 6. mgr. 24. gr. laganna, tíu ára reglunni. Hann telji að með flutningi á réttindum úr öðrum lífeyrissjóði felist flutningur á sjóðfélagatíma samkvæmt lagaákvæðinu. Þessi tíu ára regla þekktist í reglum nokkurra lífeyrissjóða opinberra starfsmanna og starfsmanna sveitarfélaga, t.d. 6. mgr. 8. gr. laga nr. 2/1997 um lífeyrissjóð hjúkrunar­fræðinga, en hins vegar þekktist hún ekki almennt í reglum lífeyris­sjóða. Í ákvæðinu felist sérregla sem beri að skýra þröngri lögskýringu. Krafa stefnanda um að réttindaflutningur hans til stefnda hafi falið í sér að hann öðlaðist rétt til viðmiðunar samkvæmt tíu ára reglunni kalli hins vegar á rýmkandi lögskýringu. Ákvæðið beri að skýra eftir orðanna hljóðan enda óheimilt að beita rýmkandi lögskýringu á sérreglur. Ákvæðið veiti aðeins rétt til hærri ellilífeyris hafi sjóðfélaginn gegnt hinu hærra launaða starfi á sjóð­félagatíma sínum hjá stefnda, eins og segi skýrum orðum í lagaákvæðinu. Þar sem um sérreglu sé að ræða hefði þurft að taka það sérstaklega fram í 3. mgr. 31. gr. laganna hefði sjóðfélagatími í öðrum lífeyrissjóði átt að teljast til tíu áranna samkvæmt 6. mgr. 24. gr. laganna við réttindaflutning.

Réttindaflutningurinn hafi falið í sér flutning á tíma og starfshlutfalli sem hafi verið 100% starfshlutfall, en réttindavinnsla í B-deild stefnda reiknist ekki út frá fjárhæð iðgjalds heldur tíma og starfshlutfalli. Sjóðfélagar sem unnið hafi fyrir hærri launum meðan þeir áttu aðild að öðrum lífeyrissjóði eigi ekki rétt til viðmiðunar samkvæmt tíu ára reglunni, þrátt fyrir réttindaflutning til stefnda. Þegar að ellilífeyris­töku komi sé það meginreglan að ellilífeyrir taki mið af föstum launum fyrir dag­vinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem við starfs­lok fylgi stöðu þeirri fyrir fullt starf sem sjóðfélagi hafi gegnt síðast, sbr. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997. Stefnandi hafi síðast á sjóðfélaga­tíma sínum hjá stefnda gegnt starfi skipaskoðunarmanns. Lög um stefnda standi ekki til þess að unnt sé að fallast á kröfu stefnanda og sé þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að taka dómkröfu stefnanda til greina.

Allt kerfi stefnda sé miðað við kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í 3. gr. laga nr. 1/1997 segi að sjóðfélagar í A-deild sjóðsins séu þeir starfsmenn ríkisins sem ekki eigi aðild að B-deildinni og fái greidd laun „...á grundvelli kjarasamninga opinberra starfsmanna, eða á grundvelli launaákvarðana samkvæmt lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.“ Í 6. mgr. 23. gr. laganna segi að taki sjóðfélagi ekki laun samkvæmt samningum eða öðrum launaákvörðunum sem miðist við kjarasamninga opinberra starfsmanna, Kjaradóm, kjaranefnd eða kjarasamninga, sem sveitarfélög geri á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, skuli stjórn sjóðsins ákveða þau viðmiðunarlaun sem iðgjöld eru greidd af og miðað sé við til greiðslu lífeyris og skulu þau ákveðin með hliðsjón af launaákvörðunum sem gildi um ríkis­starfsmenn eða starfsmenn sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 94/1986 um kjara­samninga opinberra starfsmanna og lögum nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjara­nefnd. Þar sem lífeyriskerfi stefnda sé miðað við kjarasamninga opinberra starfsmanna sé ekki hægt að miða við hvaða viðmiðunarlaun sem er við greiðslu ellilífeyris, enda væri það andstætt því kerfi sem sjóðurinn byggðist á og 6. mgr. 23. gr. laganna. Ef fallist yrði á kröfur stefnanda væru viðmiðunarlaun hans komin út fyrir launakerfi opinberra starfsmanna og sé þegar af þeirri ástæðu ekki hægt að fallast á kröfu stefnanda.

Stefnandi haldi því fram að njóti hann ekki réttinda samkvæmt 6. mgr. 24. gr. laganna vegna réttindaflutningsins hafi þau réttindi glatast, enda hefði hann átt rétt til lífeyrissjóðsgreiðslna úr Lífeyrissjóði togarasjómanna hefði réttindaflutningurinn aldrei komið til. Þessari fullyrðingu stefnanda sé mótmælt sem rangri enda séu honum reiknuð full réttindi hjá stefnda, hvort sem litið sé til starfstíma eða starfshlutfalls. Hins vegar reiknist fluttur réttur til sjóðsins ekki til sjóðfélagatíma, samkvæmt sérreglunni í 6. mgr. 24. gr. Ástæða þess að stefnandi hafi flutt réttindi sín úr Lífeyrissjóði togarasjómanna yfir til stefnda hafi verið sú að hann hafi sótt um lán hjá stefnda. Réttindaflutningurinn hafi því veitt honum lánsrétt hjá stefnda, sem hann hefði ella ekki verið búinn að öðlast. Þegar réttindaflutningurinn átti sér stað hafi tíu ára reglan ekki verið til, en hún hafi ekki komið inn í lög stefnda fyrr en árið 1980. Stefnandi hefði heldur enga tilraun gert til að sýna fram á hvaða lífeyris hann hefði notið úr Lífeyrissjóði togarasjómanna hefði hann ekki flutt réttindi, til samanburðar við þau réttindi sem hann muni njóta hjá stefnda. Stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að hann hafi misst réttindi við réttindaflutninginn né að hann muni njóta lakari kjara, en sönnunarbyrðin fyrir því sé hjá stefnanda.

Stefnandi haldi því jafnframt fram að ef niðurstaðan verði sú að 6. mgr. 24. gr. laganna sé á annað borð túlkuð þannig að réttindi stefnanda samkvæmt um­ræddri tíu ára reglu séu ekki til staðar, þá feli það í sér mismunun, þ.e. að sjóðfélagar sem flytji réttindi sín yfir til stefnda njóti lakari kjara en þeir sem áunnið hafa sér öll sín réttindi á sjóðfélagatímanum hjá stefnda og stríði slíkt gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnar­skrár. Stefndi ítreki að ákvæði 6. mgr. 24. gr. sé sér­regla og hún gildi aðeins í undantekningar­tilfellum, en í fæstum tilfellum komi sér betur fyrir sjóðfélaga að miða ellilífeyri við hana. Stefnandi hafi verið meðhöndlaður eins og aðrir sem flutt hafa réttindi sín úr öðrum lífeyrissjóðum til stefnda og sama reglan gildi um þá alla. Í Hrd. 1998 bls. 1426 hafi meðal annars verið byggt á því að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu leiddu til þess að ekki væri heimilt að láta sjóð­félagana gjalda þess í lægri lífeyri að hafa tekið að sér lægra launað starf hjá ríkinu, en viðkomandi sjóðfélagi hafði ekki verið tíu ár í hæst launaða starfinu, sem hann hefði gegnt. Í héraðsdómnum, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti, meðal annars með vísan til forsendna, hafi ekki verið fallist á það.

Varðandi málskostnaðarkröfuna sé vísað til 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um greiðslu er jafngildi virðisaukaskattsgreiðslu stefnda af málflutningsþóknun sé byggð á 1ögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og sé honum því nauðsyn að fá fjárhæð þessa dæmda sér til handa úr hendi stefnanda.

 

Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga um stefnda nr. 1/1997 er ellilífeyrir sjóðfélaga reiknaður sem hundraðshluti af launum sem við starfslok fylgja stöðu er sjóðfélaginn gegndi síðast. Hundraðshlutinn fer eftir iðgjaldagreiðslutíma og starfshlutfalli sjóð­félagans og er 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir en hlutfallslega lægri fyrir minna starfshlutfall samkvæmt sama lagaákvæði. Með flutningi réttinda stefnanda úr lífeyrissjóði togarasjómanna til stefnda, eins og að framan er rakið, nýtist sá réttur við útreikninga á upphæð ellilífeyris hans samkvæmt þessum reglum.

Þótt stefndi hafi á árinu 1965 veitt viðtöku endurgreiðslum úr lífeyrissjóði togara­sjó­manna og veitt stefnanda réttindi í samræmi við það samkvæmt heimild í 3. mgr. 31. gr. framangreindra laga hefur það ekki áhrif á hver laun beri að miða við þegar ellilífeyrir er reiknaður út samkvæmt 24. gr. laganna. Eins og stefndi hefur réttilega bent á er meginreglan sú samkvæmt 2. mgr. 24. gr. að við útreikninga á ellilífeyri ber að miða við laun fyrir starf er sjóðfélagi gegndi síðast. Í 6. mgr. sömu lagagreinar felst undantekning frá þessari meginreglu þar sem segir að hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum í stefnda skuli miða við hæst launaða starfið eða hærra launað starf að viðbættum enn hærra launuðum störfum í að minnsta kosti tíu ár. Þar er ótvírætt átt við sjóðfélaga­tíma viðkomandi félagsmanns en ekki þann tíma sem flust hefur milli sjóða vegna endurgreiðslu iðgjalda samkvæmt 3. mgr. 31. gr. laganna, sem nýtist við útreikninga samkvæmt 2. mgr. 24. gr. eins og að framan er lýst, enda verður hvorki af lögunum ráðið né öðrum réttarheimildum að heimilt sé að telja iðgjalda­greiðslutímann, sem fluttur var úr lífeyrissjóði togarasjómanna samkvæmt framangreindri reglu, til sjóð­félaga­­tíma stefnanda hjá stefnda sem vísað er til í 6. mgr. 24. gr. laganna. Stað­hæfingar stefnandi um að hann hafi þar með glatað rétti vegna réttinda­flutningsins og tilvísanir hans til ósanngirni í þessu sambandi breyta hins vegar engu um efni þessara lagareglna. Ekki verður heldur fallist á að framangreindar reglur brjóti gegn jafnræðis­reglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, enda standa engin rök til þess að í þeim felist mis­munun gangvart stefnanda og þeim sem eru á annað borð í sambærilegri stöðu og hann. Samkvæmt þessu uppfyllir stefnandi ekki skilyrði laga­ákvæðis­ins um að hafa gegnt hærra launuðu starfi í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum. Verður þar með ekki fallist á að krafa stefnanda í málinu hafi lagastoð og ber því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af henni.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að málskostnaður falli niður.  

Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, er sýknaður af kröfum stefnanda, Þorvaldar Ólafssonar, í málinu.

Málskostnaður fellur niður.