Print

Mál nr. 507/2016

Landsbankinn hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.)
gegn
Páli Kristinssyni (Björn Þorri Viktorsson hrl.)
Lykilorð
  • Skuldabréf
  • Ábyrgð
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fyrning
Reifun

Í febrúar 2009 gaf J út skuldabréf til L hf. og gerðist P ábyrgðarmaður þess. Bú J var tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2011 og lauk skiptum í mars 2012. Í ágúst 2014 hóf L hf. innheimtuaðgerðir á hendur P sem ábyrgðarmanni og í desember sama ár gaf hann út skuldabréf til L hf. til uppgjörs á ábyrgð sinni. Í málinu krafðist P þess að síðargreint skuldabréf yrði ógilt og L hf. gert að greiða sér tilgreinda fjárhæð sem hann hafði greitt umfram skyldu. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var með vísan til 3. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. talið að skuldbinding J samkvæmt skuldabréfinu frá febrúar 2009 hefði fallið niður fyrir fyrningu tveimur árum frá skiptalokum þrotabús hans. Að virtri 7. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda var sami fyrningarfrestur talinn gilda um P sem ábyrgðarmann skuldarinnar. Hefði krafa L hf. á hendur P því verið fallin niður fyrir fyrningu þegar bankinn hóf innheimtuaðgerðir sínar í ágúst 2014. Að þessu gættu og með hliðsjón af yfirlýsingu L hf. við flutning málsins fyrir Hæstarétti var jafnframt talið að skuldbinding P samkvæmt skuldabréfinu frá desember 2014 væri niður fallin og að hann ætti rétt á þeirri endurgreiðslu sem hann krafðist.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júlí 2016. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétti lýsti áfrýjandi yfir að verði komist að þeirri niðurstöðu að skuldbinding stefnda samkvæmt skuldabréfi útgefnu 10. febrúar 2009 hafi fallið niður fyrir fyrningu sé viðurkennt að skuldbinding samkvæmt skuldabréfinu sem stefndi gaf út 29. desember 2014 skuli falla niður og eigi þá stefndi rétt á þeirri endurgreiðslu sem hann geri kröfu um. Að þessu gættu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ógilt er skuldabréf að fjárhæð 4.000.000 krónur, útgefið 29. desember 2014 af stefnda, Páli Kristinssyni, til áfrýjanda, Landsbankans hf.

Áfrýjandi greiði stefnda 515.764 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. apríl 2016 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2016.

                Mál þetta, sem dómtekið var 17. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 24. nóvember sl.

                Stefnandi er Páll Kristinsson, kt. [...], til heimilis að Norðurbraut 44, Árborg.

                Stefndi er Landsbankinn hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík.

                Dómkröfur stefnanda eru þær í fyrsta lagi að dæmt verði ógilt skuldabréf að fjárhæð 4.000.000 útgefið 29. desember 2014 af hálfu stefnanda til stefnda. Í öðru lagi er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð kr. 515.764 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 488.033 frá 1. október 2015 til 1. nóvember (svo) en af kr. 515.764 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

                Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

                                                                              Málavextir.

                Stefndi lýsir aðdraganda málsins svo að félagið Scanis ehf. hafi verið viðskiptavinur Landsbanka Íslands hf., forvera stefnda, frá árinu 2007, en stofnandi þess hafi verið Agnar Agnarsson. Þann 10. febrúar 2009 hafi Agnar,  sem verið hafi framkvæmdastjóri félagsins, farið í útibú stefnda í Breiðholti og óskað eftir því að bankinn keypti af félaginu viðskiptaskuldabréf að fjárhæð 5.000.000 króna. Hafi skuldari á bréfinu verið Jón Þorgilsson, en þrír einstaklingar hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð in solidum, Soffía Pálsdóttir, sem mun vera móðir Jóns, stefnandi, sem mun vera móðurafi Jóns og Álfheiður Jónsdóttir, sem mun vera amma Jóns. Stefndi kveður að skoðað hafi verið hvort lántaki og ábyrgðarmenn hafi verið í skuld við bankann en svo hafi ekki verið. Hafi stefndi þá samþykkt að kaupa skuldabréfið með því skilyrði að framseljandinn gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir fjárhæð bréfsins. Hafi forsvarsmaður félagsins samþykkt það og hafi bréfið verið keypt 10. febrúar 2009 og andvirði þess varið til greiðslu á yfirdrætti á tékkareikningi félagsins. Eftir kaupin hafi stefndi sent öllum sjálfskuldarábyrgðarmönnum tilkynningu um að bankinn hefði keypt skuldabréfið og hafi stefnandi fengið tilkynningar um hver áramót um stöðu sjálfskuldarábyrgðar sinnar í samræmi við ákvæði 7. gr. laga nr. 32/2009. Stefnandi segir að ekkert greiðslumat hafi verið framkvæmt á lántaka og þá hafi honum ekki verið veittar upplýsingar um réttindi og skyldur ábyrgðarmanna. Stefndi bendir á að kröfuhafi bréfsins, Scanis ehf., hafi ekki verið aðili að samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, en að því standi Samtök banka og verðbréfafyrirtækja f.h. aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða f.h. sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra af hálfu stjórnvalda. Stefnandi heldur því fram að hann hafi gerst ábyrgðarmaður á umræddu skuldabréfi fyrir tilstuðlan tengdasonar síns, Ásgeirs Vilhjálmssonar, en skuldabréfið hafi tengst ákveðnu uppgjöri á viðskiptum hans. Þrátt fyrir að Jón Þorgilsson hafi verið skráður skuldari á bréfið hafi verið munnlegt samkomulag milli aðila um að um skuld Ásgeirs væri að ræða. Hafi Ásgeir lofað stefnanda að skuldabréfið yrði ógilt stuttu síðar og hafi hann talið stefnanda trú um að um væri að ræða tímabundna ráðstöfun í mjög skamman tíma. Annað hafi komið á daginn og örfáum dögum eftir útgáfu bréfsins hafi Scanis ehf. framselt bréfið til stefnda og jafnframt samþykkt eigin sjálfskuldarábyrgð á því. Hafi stefnandi fengið tilkynningu frá stefnda um sjálfskuldarábyrgð sína þann 4. mars 2009. Þann 3. nóvember sama ár hafi verið gerð skilmálabreyting á skuldabréfinu sem hafi kveðið á um 6 mánaða frestun greiðslna og í framhaldi af því hafi aðalskuldari lánsins, Jón Þorgilsson, lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og hafi þá 11.gr. laga nr. 101/2010 orðið virk og greiðslum frestað. Umsókn hans hafi verið hafnað og hafi bú hans verið tekið til gjaldþrotaskipta þann 2. desember 2011 en skiptum hafi lokið 13. mars 2012. Hafi stefnandi á þessum tíma fengið fjölmargar tilkynningar frá stefnda um vanskil á láninu.

                Stefnandi segist hafa lagt traust á tengdason sinn, Ásgeir Vilhjálmsson, sem hafi sagt að hann væri í samningaviðræðum við bankann, en í ágúst 2014 hafi krafan verið komin í lögfræðiinnheimtu. Hafi stefnandi freistað þess að fá stefnda til að fella ábyrgðina niður á grundvelli mannúðarsjónarmiða en það hafi ekki borið árangur. Hafi í kjölfarið átt sér stað samningaviðræður milli aðila og hafi stefnandi þann 16. desember 2014 greitt 270.000 krónur vegna lögfræðikostnaðar og þann 29. desember sama ár hafi hann gefið út skuldabréf að fjárhæð 4.000.000 króna til uppgjörs á ábyrgð sinni. Mun stefndi hafa framkvæmt greiðsluerfiðleikamat á stefnanda og hafi niðurstaðan verið sú að hann hafi verið talinn geta greitt skuldina. Mun sjálfskuldarábyrgð stefnanda vegna hins fyrra skuldabréfs þá hafa verið felld niður. Stefndi kveðst hafa greitt af skuldabréfinu frá undirritun þess og nemi greiðslur hans fram að birtingu stefnu 245.764 krónum. Þann 31. ágúst 2015 hafi stefnandi krafist þess að skuldabréfið yrði fellt niður og jafnframt að stefndi endurgreiddi stefnanda fjárútlát vegna málsins en því hafi verið hafnað með bréfi stefnda sem borist hafi 29. september sama ár. Nafn félagsins Scanis ehf. mun hafa verið breytt í Samis ehf. þann 27. mars 2011, en félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 31. maí 2011 og skiptum lokið þann 26. september sama ár.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi byggir á því annars vegar að ábyrgð hans vegna fyrra skuldabréfsins hafi verið fyrnd við útgáfu seinna skuldabréfsins. Þá er einnig byggt á því að ábyrgð stefnanda hafi frá upphafi verið haldin alvarlegum annmörkum og sé ógildanleg. Í báðum tilvikum hafi verið ósanngjarnt af hálfu stefnda að bera ábyrgð á fyrra skuldabréfinu fyrir sig. Sé því algjör forsendubrestur fyrir útgáfu seinna skuldabréfsins og beri að ógilda það og endurgreiða stefnanda þá fjármuni sem hann hafi látið af hendi vegna ábyrgðarinnar.

                Stefnandi byggir á því að skiptum á búi Jóns Þorgilssonar, aðalskuldara hins fyrra skuldabréfs, hafi lokið 13. mars 2012. Samkvæmt 2. mgr. 165. gr. laga nr. 21/1991 hafi þá hafist nýr tveggja ára fyrningarfrestur um kröfuna. Samkvæmt 3. mgr. sama lagaákvæðis verði fyrningu einungis slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrestsins mál á  hendur þrotamanninum og fái dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum. Slíkt viðurkenningarmál hafi stefndi aldrei höfðað og megi því vera ljóst að krafan hafi fallið niður fyrir fyrningu þann 13. mars 2014. Í 7. gr. laga nr 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda sé lögfest sú meginregla að fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanni  reiknist eftir sömu reglum og gildi um aðalkröfuna. Hafi verið um að ræða frávik frá eldri fyrningarlögum en breytingin hafi verið talin gerð til einföldunar. Eftir setningu laganna hafi því ekki lengur verið um að ræða misjafnan fyrningarfrest ábyrgðarkröfu og aðalkröfu. Þá hafi verið ítrekað í lögskýringargögnum að kröfuhafi yrði eftir sem áður að gæta að því af sjálfsdáðum að kröfur á hendur aðalskuldara og ábyrgðarmanni fyrnist ekki. Stefnandi bendir á að við setningu ákvæðis 2. mgr. 165. gr. gjaldþrotalaga hafi verið liðin þrjú ár frá lögfestingu 7. gr. fyrningarlaga. Verði eðli málsins samkvæmt að túlka 2. mgr. 165. gr. gjaldþrotalaganna í samræmi við sett lög þess tíma. Með vísan til 7. gr. fyrningarlaga verði því 2. mgr. 165. gr. gjaldþrotalaga ekki túlkuð öðru vísi en svo að sá tveggja ára fyrningartími sem hafi hafist eigi líka við um stefnanda sem ábyrgðarmann. Leiði þetta til þess að krafa stefnda gagnvart stefnanda hafi ennfremur verið fallin niður fyrir fyrningu þann 13. mars 2014. Þá segi í 2. mgr. 25. gr. fyrningarlaga að krafa á hendur ábyrgðarmanni fyrnist ef aðalkrafan fellur niður fyrir fyrningu áður en fyrningu er slitið gagnvart ábyrgðarmanni skv. 15.-19. gr. laganna, enda leiði ekki annað af samningi. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi ekki slitið fyrningu gagnvart stefnanda skv. 15.-19. gr. laganna frá 13. mars 2012. Stefnandi telur að það hefði þó engu breytt um fyrningu kröfunnar gagnvart stefnanda, enda hafi stefndi verið bundinn við að rjúfa fyrningu kröfunnar í samræmi við 3. mgr. 165. gr. gjaldþrotalaga. Með vísan til þess byggir stefnandi á því að hann hafi gefið seinna skuldabréfið út þann 29. desember 2014 í rangri trú um skuld gagnvart stefnda. Bréfið hafi verið gefið út í þeim yfirlýsta tilgangi að gera upp ábyrgð stefnanda vegna hins fyrra skuldabréfs sem stefnandi hafi ekki áttað sig á að væri fyrnt. Þá hafi stefnandi lagt traust sitt á stefnda að um réttmæta skuld væri að ræða. Hafi stefnandi gefið skuldabréfið út í góðri trú um að stefndi ætti lögmæta kröfu á hendur sér vegna sjálfskuldarábyrgðar sinnar. 

                Stefnandi byggir einnig á 36. gr. laga nr. 7/1936, en samkvæmt því lagaákvæði sé heimilt að víkja löggerningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta, ef það verður talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við mat á ofangreindu skuli skv. 2. mgr. 36. gr. laganna líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar hafi komið til. Um hafi verið að ræða einhliða skuldayfirlýsingu af hálfu stefnanda til stefnda og hafi forsendan verið sú að stefnandi hafi staðið í þeirri lögvillu að hann hafi staðið í skuld við stefnda. Megi vera ljóst að stefnandi hefði aldrei samþykkt útgáfu bréfsins nema hann hefði verið sannfærður um að svo væri. Þegar litið sé til stöðu samningsaðila megi vera ljóst að verulegur aðstöðumunur hafi verið á þeim. Stefnandi sé ellilífeyrisþegi um áttrætt sem hafi enga fjármála- eða lögfræðiþekkingu. Stefndi sé fjármálafyrirtæki sem starfi á grundvelli opinbers leyfis og megi gera ríkar kröfur til hans um sérfræðiþekkingu og vönduð vinnubrögð við lánveitinguna og ábyrgðartökuna, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1991, sbr. og meginreglu 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002. Stefnandi hafi treyst því að um lögmæta skuld hafi verið að ræða sem stefndi hafi talið honum trú um að honum bæri að greiða. Þá hafi stefndi gengið á stefnanda með innheimtuaðgerðum þrátt fyrir að krafan væri fyrnd. Sé því ljóst að stefndi beri sök á því að stefnandi hafi greitt án skyldu og hafi stefndi mátt vita að lögmæti kröfunnar gagnvart stefnanda kynni að standa höllum fæti, hvort sem litið yrði til sjónarmiða um fyrningar eða skyldur stefnda samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða.

                Að því er fjárkröfu stefnanda varðar er byggt á meginreglu kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár. Stefnandi hafi greitt annars vegar 270.000 krónur vegna innheimtukostnaðar og 245.764 krónur í afborganir frá febrúar 2015. Er á því byggt að stefnandi eigi rétt til endurgreiðslu úr hendi stefnda, enda hafi hann greitt óréttmæta kröfu í góðri trú.

                Krafa stefnanda um dráttarvexti á endurgreiðslukröfu grundvallast á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og um tímamark dráttarvaxtakröfu er vísað til 3. mgr. 5. gr. sömu laga, en stefnandi byggir á því að hann hafi krafist endurgreiðslu þann 31. ágúst 2015.

                Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á 1. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

                Stefndi byggir á því að krafa hans á hendur stefnanda vegna fyrra skuldabréfsins  hafi verið ófyrnd þegar stefnandi hafi greitt hana með útgáfu á hinu seinna skuldabréfi. Þá byggir stefndi á því að skuldbinding stefnanda samkvæmt fyrra skuldabréfinu hafi verið bindandi fyrir hann og ekki hafi verið skilyrði fyrir hendi til að ógilda hana á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eða af öðrum ástæðum. Þá telur stefndi ekki lagaskilyrði á grundvelli kröfuréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár til þess að krefjast endurgreiðslu á þeim afborgunum sem stefnandi hafi innt af hendi af hinu seinna láni eða þeim kostnaði sem greiddur hafi verið vegna innheimtu á hinu fyrra láni.

                Stefndi byggir á því að þegar hið fyrra skuldabréf hafi verið gefið út hafi gilt lög nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, en þau hafi tekið gildi 1. janúar 2008 og fellt úr gildi eldri lög nr. 14/1905. Samkvæmt hinum eldri lögum hafi skuld á hendur aðalskuldara fyrnst á tíu árum en skuld á hendur ábyrgðarmanni á fjórum árum. Með lögum nr. 150/2007 hafi verið ákveðið að breyta þessu og lögfesta að ábyrgðarskuldbindingar fyrnist eftir sömu reglum og krafa á hendur aðalskuldara. Í 1. mgr. 5. gr. laganna segi að krafa samkvæmt skuldabréfi fyrnist á tíu árum og í 7. gr. segi að sé krafa tryggð með ábyrgð eða annarri sambærilegri trygginu reiknist fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanni eftir sömu reglum og gildi um aðalkröfuna. Sérstaklega sé tiltekið í greinargerð með lögunum að undir ákvæði 7. gr. falli tilvik þar sem krafa hafi verið framseld með skaðlausu framsali, þ.e. þegar krafa sé framseld með ábyrgð framseljanda á greiðslu kröfunnar. Krafa stefnda samkvæmt hinu fyrra skuldabréfi hafi verið gjaldfelld þann 20. desember 2011 er bú Jóns Þorgilssonar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta. Sá dagur sé upphafsdagur tíu ára fyrningar á kröfu stefnda á hendur stefnanda og því hafi krafan ekki verið fyrnd þegar stefnandi hafi greitt inn á hana 270.000 krónur þann 16. desember 2014 og síðan með uppgreiðslu kröfunnar með útgáfu hins seinna skuldabréfs þann 29. desember 2014. Með gildistöku laga nr. 142/2010 hafi 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti verið breytt þannig að fyrningartími allra krafna sem lýst sé í þrotabú væri sá sami án tillits til þess um hvers konar kröfu væri að ræða. Hafi fyrningartíminn verið ákveðinn tvö ár og taki hann einnig til krafna sem ekki hafi verið lýst við gjaldþrotaskiptin nema þær fyrnist á skemmri tíma eftir almennum reglum. Í greinargerð með lögunum komi fram að lagabreytingin sé liður í því að auðvelda einstaklingum sem teknir hafi verið til gjaldþrotaskipta, en bera áfram ábyrgð á skuldum sem ekki hafi fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin, að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Stefndi byggir á því að fyrningarreglan sem fram komi í 2. mgr. 165. gr. gjaldþrotalaga eigi bara við um fyrningu kröfu á hendur þeim einstaklingi sem úrskurðaður hafi verið gjaldþrota og taki reglan til þeirra krafna sem ekki hafi fengist greiddar úr þrotabúinu. Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að ofangreind fyrningarregla eigi við um kröfu bankans á hendur stefnanda á grundvelli 7. gr. fyrningarlaga. Reglan í gjaldþrotalögunum sé sérregla sem eingöngu eigi við um kröfu á hendur einstaklingi sem úrskurðaður hafi verið gjaldþrota en reglan eigi ekki við um aðila sem verið hafi í sjálfskuldarábyrgð fyrir sömu kröfu. Bú stefnanda hafi ekki verið tekið til gjaldþrotaskipta og því eigi fyrningarreglan ekki við um hann. Að mati stefnda hefði þurft að koma skýrt fram í 2. mgr. 165. gr. laganna ef vilji löggjafans hefði staðið til þess að þessi sérregla næði einnig til ábyrgðarmanna að sömu kröfu sem ekki hefðu verið úrskurðaðir gjaldþrota. Fram komi í 1. mgr. 25. gr. fyrningarlaga að þótt krafa fyrnist gagnvart einum af fleiri skuldurum hafi það ekki áhrif gagnvart öðrum skuldurum nema á annan veg hafi verið samið. Verði því að túlka 7. gr. fyrningarlaga á þann hátt að hún tryggi að kröfur á hendur samskuldurum og ábyrgðarmanni hafi sama fyrningarfrest en hún feli ekki í sér að fyrning gagnvart aðalskuldara leiði til þess að krafa á hendur samskuldara eða ábyrgðarmanni falli niður. Í 2. mgr. laganna sé kveðið á um áhrif fyrningar aðalkröfu gagnvart ábyrgðarmanni. Hafi krafa á hendur aðalskuldara fyrnst áður en fyrningu hafi verið slitið gagnvart ábyrgðarmanni, með þeim hætti sem lögin mæli fyrir um, teljist krafan á hendur ábyrgðarmanni jafnframt fyrnd. Stefndi telur þetta lagaákvæði eiga við þær aðstæður þegar upphafsdagur fyrningar sé mismunandi gagnvart aðalskuldara og ábyrgðarmanni. Ef krafa á hendur aðalskuldara fyrnist áður en krafan á hendur ábyrgðarmanni og kröfuhafi hafi á þeim tíma ekki slitið fyrningu gagnvart ábyrgðarmanni, falli krafan á hendur ábyrgðarmanni niður fyrir fyrningu um leið og krafan á hendur aðalskuldara fyrnist. Þetta ákvæði eigi ekki við þegar krafa á hendur aðalskuldara fyrnist á grundvelli sérlaga eins og 2. mgr. 165. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þá bendir stefndi á að umrædd krafa hans á hendur stefnanda séu eignarréttindi sem varin séu af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og því geti ákvæði 2. mgr. 165. gr. gjaldþrotaskiptalaga ekki stytt fyrningarfrestinn á kröfunni með afturvirkum hætti.

                Stefndi telur stefnanda ekki hafa sýnt fram á að fyrir hendi séu skilyrði til þess að ógilda ábyrgð stefnanda á skuldabréfinu á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Stefndi telur að hann hafi að öllu leyti farið að gildandi lögum og unnið í samræmi við ákvæði 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

                Stefndi byggir á því að skuldbinding stefnanda samkvæmt hinu fyrra skuldabréfi hafi verið bindandi fyrir hann samkvæmt meginreglum  kröfu- og samningaréttar um samningsábyrgð og að samninga skuli halda. Stefnandi hafi ritað undir skuldabréfið af fúsum og frjálsum vilja og ákveðið að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir barnabarn sitt án þess að kynna sér greiðslugetu hans. Beri hann einn ábyrgð á því. Þegar stefnandi hafi greitt upp kröfu stefnda samkvæmt hinu fyrra skuldabréfi hafi ábyrgð hans verið í fullu gildi og því hafi ekki átt sér stað nein ofgreiðsla til stefnda og verði því að hafna þeirri kröfu stefnanda. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi ekki greitt 270.000 krónur til stefnda þann 16. desember 2014, heldur hafi það verið Kristín Þorfinnsdóttir. Geti stefnandi því ekki krafist endurgreiðslu á fjárhæð sem annar aðili hafi greitt til stefnda þar sem hann sé ekki eigandi kröfunnar.

                Stefndi mótmælir sérstaklega upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda. Í bréfi lögmanns stefnanda til stefnda dagsettu 31. ágúst 2015 sé ekki gerð nein fjárkrafa á hendur stefnda á grundvelli ofgreidds fjár og því geti stefnandi ekki byggt á því að hann eigi rétt á dráttarvöxtum mánuði frá dagsetningu bréfsins í samræmi við ákvæði 5. gr. laga nr. 38/2001.

                Stefndi vísar um lagarök til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Einnig vísar hann til laga nr. 150/2007, einkum 7. og 25. gr. Hann vísar einnig til laga nr. 161/2002, einkum 19. gr. og til 36. gr. laga nr. 71936. Stefndi vísar einnig til meginreglna kröfu- og samningaréttar um samningsábyrgð og að samninga skuli  halda. Krafa um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

                Samkvæmt gögnum málsins gerðist stefnandi ábyrgðarmaður á skuldabréfi sem útgefið var þann 10. febrúar 2009 að fjárhæð 5.000.000 króna af hálfu Jóns Þorgilssonar en kröfuhafi var Scanis ehf. Stefndi mun hafa keypt skuldabréfið samdægurs en aðalskuldari lenti í greiðsluerfiðleikum og var bú hans tekið til gjaldþrotaskipta þann 2. desember 2011 og lauk skiptum í búi hans þann 13. mars 2012. Stefndi hóf innheimtuaðgerðir á hendur stefnanda sem ábyrgðarmanns í ágúst 2014 og þann 29. desember sama ár samþykkti stefnandi að gefa út skuldabréf að fjárhæð 4.000.000 króna til uppgjörs á ábyrgð sinni og er óumdeilt að útgáfa þess skuldabréfs hafi verið í beinum tengslum við framangreinda ábyrgð stefnanda á fyrra skuldabréfinu.

                Með 1. gr. laga nr. 142/2010 um breytingu á 2. og 3. mgr. 165. gr. laga nr 21/1991 um gjaldþrotaskipti, var ákveðið að fyrningartími allra krafna sem lýst sé í þrotabú verði sá sami án tillits til þess um hvers  konar kröfu sé að ræða og er sá tími tvö ár. Samkvæmt 3. mgr. 165. gr. laganna verður fyrningu krafna sem um ræðir í 2. mgr. aðeins slitið á ný með því að kröfuhafi höfði innan fyrningarfrests mál á hendur þrotamanninum og fái þar dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum gagnvart honum. Óumdeilt er að stefndi höfðaði ekki slíkt mál á hendur aðalskuldara. Samkvæmt 7. gr. laga nr. 150/2007 reiknast fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanni eftir sömu reglum og gilda um aðalkröfuna ef krafa er tryggð með ábyrgð eða annarri sambærilegri tryggingu. Engu breytir við útreikning fyrningarfrests þótt ekki sé unnt að krefjast fullnustu hjá ábyrgðarmanni fyrr en greiðslu hefur árangurslaust verið leitað hjá aðalskuldara eða að ábyrgðin sé að öðru leyti þess eðlis að hún sé til vara. Í 2. mgr. 25. gr. laganna er kveðið sérstaklega á um áhrif fyrningar aðalkröfu gagnvart ábyrgðarmanni. Hafi krafa á hendur aðalskuldara fyrnst áður en fyrningu hafi verið slitið gagnvart ábyrgðarmanni með þeim hætti sem í lögunum greinir, telst krafan á hendur ábyrgðarmanni jafnframt fyrnd. Með vísan til framangreindrar sérreglu 3. mgr. 165. gr. laga um gjaldþrotaskipti með síðari breytingum er því ljóst að krafa á hendur aðalskuldara fyrntist á tveimur árum og samkvæmt 7. gr. laga nr. 150/2007 gilti sami fyrningarfrestur um ábyrgðarmann skuldarinnar. Þegar stefndi hóf innheimtuaðgerðir gagnvart stefnanda var krafa hans á hendur honum því fallin niður sakir fyrningar en nægilega er í ljós leitt að útgáfa hins síðara skuldabréfs tengdist eingöngu ábyrgð stefnanda á hinu fyrra skuldabréfi. Allt að einu gekkst stefnandi undir skuldbindingu til uppgjörs á ábyrgð sem hann hélt að væri í fullu gildi. Stefnandi er ellilífeyrisþegi um áttrætt sem ekki er vitað að hafi neina sérstaka þekkingu á viðskiptum af þessu tagi en stefndi er fjármálafyrirtæki sem starfar á grundvelli opinbers leyfis og hefur sérfræðinga á því sviði á sínum snærum. Verður því að gera ríkar kröfur til stefnda um vönduð vinnubrögð við lánveitinguna. Að mati dómsins eru því fyrir hendi þau atvik sem mælt er fyrir um í 36. gr. laga nr. 7/1936, en þar er kveðið á um að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hafna ber þeirri málsástæðu stefnda þess efnis að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar komi í veg fyrir að kröfur stefnanda nái fram að ganga. Stefnda var í lófa lagið að höfða mál á hendur aðalskuldara í þeim tilgangi að slíta fyrningu. Það gerði hann ekki og verður hann að bera hallann af þeirri ákvörðun.  Með vísan til alls framanritaðs verður því fallist á aðalkröfu stefnanda.

                Fjárkrafa stefnanda byggist á því að hann hafi greitt stefnda fé umfram skyldu og verður á hana fallist. Hafna ber þeirri málsástæðu stefnda að þar sem annar aðili en stefnandi hafi greitt stefnda 270.000 krónur þann 16. desember 2014 sé stefnandi ekki eigandi kröfunnar. Í kvittun fyrir greiðslunni kemur skýrt fram að greiðslan sé vegna skuldabréfs þar sem stefnandi sé ábyrgðarmaður og er því nægilega sýnt fram á að greiðslan hafi verið í þágu stefnanda og er hann því réttur aðili að endurgreiðslukröfunni.

                Stefnandi krefst dráttarvaxta af tiltekinni fjárhæð frá 1. október 2015 til 1. nóvember án þess að greina ártal í því sambandi og dráttarvaxta af stefnukröfu frá þeim degi til greiðsludags. Dráttarvaxtakrafa stefnanda er því vanreifuð og því ekki dómtæk í þessu horfi en rétt þykir að dráttarvextir reiknist frá dómsuppsögu.

                Dómur þessi er saminn í samræmi við ákvæði e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 10. gr. laga nr. 78/2015.

                Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

                Ógilt er skuldabréf að fjárhæð 4.000.000 krónur, útgefið 29. desember 2014 af hálfu stefnanda, Páli Kristinssyni, til stefnda, Landsbankans hf. Stefndi greiði stefnanda skuld að fjárhæð 515.764 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.

   Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.