Print

Mál nr. 609/2015

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.)
Lykilorð
  • Hraðakstur
  • Réttlát málsmeðferð
  • Aðalmeðferð
  • Ómerking héraðsdóms
Reifun

X var ákærður fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið yfir leyfðum hámarkshraða. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þar sem að X hefði ekki mætt við þingfestingu málsins, þrátt fyrir lögmælt fyrirkall, og ekki hefði verið útivist af hans hálfu, þar sem lögmaður hefði verið mættur fyrir hans hönd og skipaður verjandi, hefði héraðsdómari að réttu lagi átt að neyta heimildar 162. gr., sbr. c. lið 90. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og leggja fyrir ákæranda að láta lögreglu handtaka X og færa hann fyrir dóm. Var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Ingibjörg Benediktsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

I

Með ákæru lögreglustjórans á Selfossi 15. október 2014 var ákærða gefið að sök að hafa að morgni 13. ágúst sama ár ekið tilgreindri bifreið suður Þrengslaveg við Lambafell í Sveitarfélaginu Ölfusi með 141 kílómetra hraða á klukkustund, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 kílómetrar á klukkustund. Er brotið talið varða við 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1., 5. og 6. mgr. 100. gr. sömu laga.

Héraðsdómur gaf 21. október 2014 út fyrirkall til ákærða, þar sem hann var kvaddur til að mæta á dómþingi 20. nóvember sama ár. Í fyrirkallinu var meðal annars tekið fram að sækti ákærði ekki þing að forfallalausu mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið brot það sem hann væri ákærður fyrir og dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum. Í áritun á fyrirkallið kom fram að ákærði óskaði eftir fresti fram að þingfestingu málsins til þess að tilnefna verjanda.

Ákærði sótti ekki þing 20. nóvember 2014 er málið var þingfest, en af hálfu hans mætti Torfi Ragnar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður, sem skipaður var verjandi. Málið var næst tekið fyrir 27. sama mánaðar og sótti ákærði ekki þing, en af hálfu hans var mættur fyrrgreindur verjandi, sem kvað ákærða vera erlendis og óskaði eftir að málinu yrði frestað. Eftir þetta var málið tekið fyrir fimm sinnum á tímabilinu frá 4. desember 2014 til 19. febrúar 2015 og þá ávallt bókað í þingbók að ákærði væri ekki mættur, en þing sótt af verjanda hans. Í síðasta þinghaldinu var málinu frestað til aðalmeðferðar 19. mars 2015. Í þinghaldi þann dag, án viðveru ákærða, var bókað í þingbók eftir verjanda hans að hann hafi ekki náð í ákærða þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og vissi ekki hvaða varnir ákærði hefði í hyggju að hafa uppi í málinu. Í framhaldi af þessu fór aðalmeðferð málsins fram með því að skýrsla var tekin af lögreglumanni og málið dómtekið við svo búið að loknum munnlegum málflutningi.

II

Með því að að ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins, þrátt fyrir lögmætt fyrirkall, og ekki varð útivist af hans hálfu, þar sem lögmaður var mættur fyrir hans hönd og skipaður verjandi, hefði héraðsdómari að réttu lagi átt að neyta heimildar 162. gr., sbr. c. lið 90. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og leggja fyrir ákæranda að láta lögreglu handtaka ákærða og færa hann fyrir dóm. Þess í stað kaus héraðsdómari, eftir að málið hafði eftir þingfestingu þess verið tekið fyrir fimm sinnum að ákærða fjarstöddum, að fram færi aðalmeðferð í því án nærveru ákærða, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008 um rétt ákærða til að vera við hana staddur.

Réttur sakaðs manns til að gefa skýrslu fyrir dómi og halda uppi vörnum eru ein mikilvægustu réttindi hans og þáttur í réttlátri málsmeðferð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr., sbr. b. lið 3. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Þessi regla er áréttuð í 1. mgr. 113. gr. laga nr. 88/2008. Á þessum rétti ákærða var brotið með þeirri málsmeðferð sem viðhöfð var í héraðsdómi. Verður því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms, en allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Torfa Ragnars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. maí 2015

                Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 15. október sl.       á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis í [...],

fyrir umferðarlagabrot

með því að hafa, að morgni miðvikudagsins 13. ágúst 2014, ekið bifreiðinni [...] suður Þrengslaveg við Lambafell í Sveitarfélaginu Ölfusi með 141 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund.

Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 37. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1., 5. og 6. mgr. 100. gr. sömu laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987.“

Málavextir.

                Samkvæmt lögregluskýrslu var Rannveig B. Sverrisdóttir varðstjóri að mæla hraða bifreiða við Lambafell, syðri Lambafellsnámu á Þrengslavegi í Ölfusi þann 13. ágúst 2014 kl. 10:07, þegar hún veitti athygli svartri fólksbifreið af gerðinni [...] með skráningarnúmerinu [...]. Segir í skýrslunni að bifreiðinni hafi verið ekið áberandi hratt suður Þrengslaveg fram hjá lögreglubifreiðinni. Hafi engin önnur bifreið verið á vegkaflanum og hafi hraði bifreiðarinnar mælst 146 km/klst. við bestu skilyrði. Akstur bifreiðarinnar var stöðvaður norðan við Raufarhólshelli og reyndist ákærði vera ökumaður hennar. Fram kemur í lögregluskýrslunni að ratsjá hafi verið prófuð fyrir mælingu kl. 09:53 og eftir mælingu kl. 10:10. Þá kemur þar fram að ákærða hafi verið sýndur mældur hraði á skjá ratsjárinnar en hann hafi neitað sök. Ekki kemur fram á hvaða hraða ákærði taldi sig hafa ekið. Þegar tekið hefði verið tillit til vikmarka væri mældur hraði bifreiðarinnar 141 km/klst. Fram kemur í lögregluskýrslunni að dagsbirta hafi verið, lítil umferð, þurrt og bjart og yfirborð vegar malbikað. Á umræddum vegarkafla er hámarkshraði 90 km/klst.

                Þann 21. október sl. var gefið út fyrirkall í máli þessu og skyldi það tekið fyrir fimmtudaginn 20. nóvember sl. kl. 10:00. Í fyrirkallinu var þess getið að sækti ákærði ekki þing mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið brot það sem hann var ákærður fyrir og dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum. Fyrirkall þetta var birt ákærða 27. október sl. og óskaði hann þá eftir fresti fram að þingfestingu til þess að tilnefna verjanda. Ákærði mætti ekki við þingfestingu málsins þann 20. nóvember sl. en Torfi Ragnar Sigurðsson hrl. mætti og var skipaður verjandi ákærða. Málið var tekið fyrir nokkrum sinnum og ávallt mætti verjandi ákærða með þær upplýsingar að hann hefði ekki náð í ákærða þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir síðan í nóvember 2014, bæði símleiðis og með tölvupóstum. Málinu var því frestað til aðalmeðferðar og við upphaf hennar þann 19. mars sl. upplýsti verjandinn að hann hefði ekki náð í ákærða þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og þá tók verjandinn fram að hann vissi ekki hvaða varnir ákærði hefði fram að færa í málinu.

                Við aðalmeðferðina var spiluð upptaka úr Eye-witness kerfi lögreglunnar sem sýnir eftirför lögreglubifreiðarinnar og samskipti ákærða við lögreglumanninn. Ákærði kvaðst vita að hann hefði verið að keyra hratt en hann vissi ekki á hvaða hraða hann hefði verið. Honum var gerð grein fyrir því að kærður hraði yrði 141 km/klst. Á myndskeiðinu sést hver mældur hraði bifreiðarinnar hafi verið. Þá var tekin skýrsla fyrir dómi af Rannveigu B. Sverrisdóttur varðstjóra. Hún skýrði svo frá að hún hafi verið að mæla hraða bifreiða við Lambafell og hafi hún mælt hraða [...] bifreiðar sem ekið hafi verið fram hjá henni og hafi hraðinn mælst 146 km/klst.  Hún hafi veitt bifreiðinni eftirför og náð að stöðva hana við Raufarhólshelli. Hún kvaðst hafa rætt við ökumann, sýnt honum mældan hraða og hafi hann sagt að hann vissi að hann hefði ekið hratt en ekki vitað hversu hratt. Hún kvað ratsjána hafa verið prófaða fyrir og eftir mælingu með hefðbundnum hætti. Hún kvað að lítil umferð hefði verið þarna og léki enginn vafi á því að það hafi verið hraði bifreiðar ákærða sem mældur hefði verið.

Niðurstaða.

 Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa ekið bifreið með 141 km hraða miðað við klukkustund á Þrengslavegi eins og nánar greinir í ákæru. Ákærði hefur ekki komið fyrir dóm en fyrir liggur að hann tjáði lögreglumanni á vettvangi að hann vissi að hann hefði ekið hratt en ekki hversu hratt. Fyrir liggur í máli þessu skýrsla lögreglumanns sem staðfestir að hraði bifreiðar ákærða hafi verið mældur með ratsjá 146 km/klst., en í ákæru hefur verið tekið tillit til vikmarka. Ákærða hefur verið birt fyrirkall þar sem þess var getið að sækti hann ekki þing mætti hann búast við því að fjarvist hans yrði metin til jafns við það að hann viðurkenndi að hafa framið brot það sem hann var ákærður fyrir og dómur yrði lagður á málið að honum fjarstöddum. Verjandi ákærða hefur lýst ítrekuðum tilraunum sínum til þess að hafa samband við hann, bæði símleiðis og með tölvupóstum. Þá hefur verjandinn lýst því yfir að hann viti ekki hvaða varnir ákærði hafi fram að færa í máli þessu.

Þegar allt framanritað er virt og höfð hliðsjón af niðurstöðu ratsjármælingar, framburði lögreglumanns um hraða bifreiðar ákærða, viðbrögðum ákærða í lögreglubifreiðinni og jafnframt því að ekki er loku fyrir það skotið að ákærði hafi kosið að una því að máli þessu yrði lokið með útivistardómi, þykir ekki varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða.

                Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.

Ákærði hefur með greindri háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Þykir hún hæfilega ákveðin 130.000 króna sekt til ríkissjóðs sem greiðist innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en ella sæti ákærði fangelsi í 10 daga. Þá ber að svipta ákærða ökurétti eins og krafist er í ákæru og með vísan til þeirra lagaákvæða er þar greinir. Þykir hæfilegt að svipta ákærða ökurétti í 1 mánuð frá birtingu dómsins að telja. 

Þá ber með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Torfa Ragnars Sigurðssonar hrl., 225.060 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

Dómsorð:

 Ákærði, X, greiði 130.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins en sæti ella fangelsi í 10 daga.

Ákærði er sviptur ökurétti í 1 mánuð frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans,   Torfa Ragnars Sigurðssonar hrl., 225.060 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.