Print

Mál nr. 261/2015

Lykilorð
  • Friðhelgi einkalífs
  • Tjáningarfrelsi
  • Skaðabætur

                                     

Fimmtudaginn 10. desember 2015.

Nr. 261/2015.

Ísak Nói Baldursson

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Ragnhildi Aðalsteinsdóttur og

Guðrúnu Elínu Arnardóttur

(Gunnar Ingi Jóhannsson hrl.)

Friðhelgi einkalífs. Tjáningarfrelsi. Skaðabætur.

Í höfðaði mál þetta vegna ummæla sem birtust í viðtali sem R tók af móður hans í tímariti sem G ritstýrði. Í viðtalinu var meðal annars vikið stuttlega að dómsmáli milli foreldra Í um forsjá yfir honum sem lauk með því að föður hans var einum dæmd hún. Í tengslum við þetta var tekinn orðrétt upp í greinina stuttur texti úr dómi í forsjármálinu, þar sem fram kom að matsmaður hafi talið báða foreldra Í hæfa til að fara með forsjá hans. Jafnframt voru birtar með greininni tvær ljósmyndir af Í sem var nafngreindur. Í krafðist þess að R og G yrðu dæmdar til refsingar samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þeim gert að greiða sér miskabætur auk kostnaðar af birtingu dóms í málinu. Í ljósi þess að sá sex mánaða frestur sem kveðið er á um í 1. mgr. 29. gr. almennra hegningarlaga til höfðunar einkarefsimáls hafði verið liðinn er málið var höfðað féll Í frá refsikröfunni fyrir Hæstarétti. Talið var að upplýsingar um nafn, fæðingardag og það hver færi með forsjá Í yrðu ekki taldar til einkamálefna hans sem leynt skyldu fara. Ekki var fallist á með Í að umfjöllunin hefði kastað rýrð á hann og fjölskyldu hans, enda væri talað vel um hæfni beggja foreldra en ekki vikið að neinu um Í sjálfan. Talið var að móður Í hefði verið heimilt að skýra frá forsjármálinu, sem hún hafði verið aðili að, og niðurstöðu þess og því hefði birting ummælanna ekki brotið gegn rétti Í til friðhelgi einkalífs. Hefði Í því ekki sýnt fram á að R og G hefðu valdið honum miska með umfjöllun sinni og voru þær sýknaðar í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2015. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. mars 2013 til 23. maí sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi á málið rætur að rekja til þess að grein með viðtali stefndu Ragnhildar Aðalsteinsdóttur af móður áfrýjanda birtist 7. mars 2013 í tímaritinu Vikunni sem stefnda Guðrún Elín Arnardóttir ritstýrði. Í viðtalinu var meðal annars vikið stuttlega að dómsmáli milli foreldra áfrýjanda um forsjá yfir honum sem lauk með því að föður hans var einum dæmd hún. Í tengslum við þetta var tekinn orðrétt upp í greinina stuttur texti úr dómi í forsjármálinu, þar sem fram kom að matsmaður hafi talið báða foreldra áfrýjanda hæfa til að fara með forsjá hans, en þau bæru bæði umhyggju fyrir honum, sýndu honum ástúð, hlúðu vel að honum og þekktu vel til eiginleika hans. Jafnframt voru birtar með greininni tvær ljósmyndir af áfrýjanda sem var nafngreindur. Mál þetta höfðaði hann 17. desember 2013 og krafðist þess að stefndu yrðu dæmdar til refsingar samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þeim gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur auk 400.000 króna vegna kostnaðar af birtingu dóms í málinu í tveimur dagblöðum, en jafnframt yrði kveðið á um skyldu til að birta forsendur og niðurstöðu dómsins í næsta tölublaði Vikunnar sem kæmi út eftir uppsögu hans. Með hinum áfrýjaða dómi voru stefndu sýknaðar af þessum kröfum. Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi í ljósi 1. mgr. 29. gr. almennra hegningarlaga fallið frá refsikröfu og hefur hann heldur ekki lengur uppi kröfur varðandi birtingu dóms í málinu, sem snýr þar með eingöngu að kröfu hans um miskabætur. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sýknu stefndu af þeirri kröfu.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest, en um málskostnað fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ísak Nói Baldursson, greiði stefndu, Ragnhildi Aðalsteinsdóttur og Guðrúnu Elínu Arnardóttur, hvorri fyrir sig 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2015.

Mál þetta sem dómtekið var þann 11. desember 2014 var höfðað 17. desember 2013 af Baldri Frey Einarssyni, Kristnibraut 91, Reykjavík, af hálfu ólögráða sonar hans, Ísaks Nóa Baldurssonar, til heimilis á sama stað, á hendur Ragnhildi Aðalsteinsdóttur, Herjólfsgötu 24, Hafnarfirði og Guðrúnu Elínu Arnardóttur, Lindargötu 56, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdar til refsingar og greiðslu miskabóta fyrir að hafa með eftirfarandi ummælum um viðkvæm einkamálefni stefnanda: Í dómnum í forsjármáli yngri drengsins kemur meðal annars fram að: ,,Matsmaður telji báða foreldra hæfa til að fara með forsjá barnsins. Þeir beri báðir umhyggju fyrir barni sínu, sýni því ástúð og hlúi vel að drengnum á heimilum sínum. Foreldrarnir lýsi drengnum á svipaðan hátt og þekki vel til eiginleika hans“ sem birtust á bls. 40 í 10. tölublaði Vikunnar, 75. árgangi, sem kom út 7. mars 2013 samhliða ólögmætri myndbirtingu af stefnanda þar sem hann var ásamt bróður sínum nafngreindur á bls. 42 í sama tölublaði, brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda, sbr. 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdar til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 7. mars 2013 til 23. maí 2013 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdar til að greiða stefnanda 400.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum.

Stefnandi krefst þess að forsendur og dómsorð dóms í málinu verði birtar í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur gengur, sbr. 59. gr. laga nr. 38/2011.

Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu auk virðisaukaskatts.

Stefndu krefjast sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.

Til vara krefjast stefndu þess að kröfu stefnanda um miskabætur verði hafnað eða hún lækkuð stórkostlega og að kröfum stefnanda um greiðslu kostnaðar við birtingu dóms og birtingu dómsins í Vikunni, verði hafnað.

Stefndu krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðaryfirliti, ásamt virðisaukaskatti.         

Við þingfestingu málsins, 19. desember 2013, kröfðust stefndu málskostnaðar-tryggingar úr hendi lögráðamanns stefnanda með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vegna líkinda fyrir ógjaldfærni stefnanda. Kröfunni var hafnað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2014.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Mál þetta er höfðað vegna viðtalsgreinar sem birtist í 10. tbl. tímaritsins Vikunnar, er kom út 7. mars 2013. Meginefni greinarinnar var viðtal við móður stefnanda um líf hennar og störf. Í viðtalinu var sagt frá því að hún hefði deilt við föður stefnanda um forsjá hans og í greininni er vitnað til ummæla dómkvadds matsmanns um forsjárhæfni foreldranna, sem fram komu í dóminum í forsjármálinu. Þetta var tengt við gagnrýni viðmælandans á það að ekki hafi verið heimild í lögum fyrir dómstóla til að dæma sameiginlega forsjá, heldur hafi þurft að velja milli jafnhæfra foreldra, sem í greininni segir reyndar ranglega að þá séu enn gildandi lög. Birtar eru tvær myndir af stefnanda með greininni og eiginnöfn hans tilgreind, en faðir stefnanda, sem fer einn með forsjá hans, hafði ekki veitt Vikunni heimild til birtingar mynda af honum eða upplýsinga um hann.

Lögmaður stefnanda sendi útgáfufélagi Vikunnar bréf 23. apríl 2013, þar sem krafist var greiðslu miskabóta o.fl. vegna brota gegn friðhelgi einkalífs stefnanda og ólöglegra myndbirtinga. Stefndu telja kröfurnar tilhæfulausar og um það snýst ágreiningur aðila.

Faðir stefnanda kom fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Vikan hafi með óvægnum hætti í máli og myndum fjallað um einkalíf stefnanda sem njóti meðal annars verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 16. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Það sé því ljóst að umfjöllun Vikunnar í heild brjóti gegn friðhelgi einkalífs stefnanda. Stefnandi eigi því rétt til miskabóta úr hendi stefndu vegna þessara friðbrota auk þess sem krafist sé að stefndu verði dæmdar til refsingar vegna brota á 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Íslenskan almenning varði ekkert um forsjármál það sem gengið hafi milli föður og móður stefnanda eða efnisatriði í niðurstöðu dómkvadds matsmanns um hæfi foreldra til að fara með forsjá stefnanda.

Það sé einn þáttur í friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að hver maður eigi rétt til eigin myndar. Í umfjöllun sinni noti Vikan mynd af stefnanda án þess að hafa fengið til þess leyfi hjá forráðamanni hans. Til þess beri einnig að líta að myndirnar hafi verið notaðar til þess að myndskreyta umfjöllun sem kasti rýrð á stefnanda og fjölskyldu hans. Hér sé um skýr og ótvíræð brot að ræða á friðhelgi einkalífs stefnanda.

Gerð sé sú krafa að stefndu verði dæmdar til refsingar fyrir að hafa með ummælum sínum um viðkvæm einkamálefni stefnanda sem birst hafi á bls. 40 í 10. tölublaði, 75. árgangs Vikunnar sem komið hafi út þann 7. mars 2013 og með ólögmætum myndbirtingum á bls. 42 í sama tölublaði, brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda, sbr. 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.

Réttur stefnanda til friðhelgi einkalífs og eigin myndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 229. gr. almennra hegningarlaga. Stefnandi sé ekki opinber persóna og eigi því ekki að þurfa að þola umfjöllun fjölmiðla um viðkvæm einkamálefni.

Fjöldi fólks lesi Vikuna og því hafi útbreiðsla myndar og umfjöllunar um einkamálefni stefnanda verið mikil og náð til fjölda fólks. Vikan sé gefin út í hagnaðarskyni og hvatinn að baki frétt stefndu sé einungis aukin hagnaðarvon. Reglur um varnaðaráhrif skaðabótareglna eigi að leiða til þess að stefnanda verði dæmdar háar miskabætur. Vikan sé gefin út af Birtingi útgáfufélagi ehf., en undanfarin ár hafi gengið mikill fjöldi dóma í Hæstarétti og héraðsdómi þar sem Birtingur eða blaðamenn félagsins og tengdra félaga hafi verið dæmdir fyrir ærumeiðingar, brot á friðhelgi einkalífs eða ólögmætar myndbirtingar, og gert að greiða miskabætur. Þrátt fyrir alla þessa áfellisdóma höggvi blaðamenn Birtings nú enn í sama knérunn, en málið sé höfðað á hendur ritstjóra og blaðamanni Vikunnar vegna brota gegn friðhelgi einkalífs saklauss fólks. Þar sem um ítrekuð og margendurtekin brot blaðamanna í störfum fyrir sama útgáfufélag og tengd félög sé að ræða og fjöldi áfellisdóma hafi verið látnir sem vindur um eyru þjóta sé rétt, með vísan til varnaðaráhrifa skaðabótareglna, að dæma stefndu til að greiða háar miskabætur.

Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en ljóst sé að stefndu hafi gerst sekar um ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda enda sé um að ræða skýr og ótvíræð brot á réttarreglum sem ætlað sé að vernda friðhelgi einkalífs stefnanda.

Þess sé krafist að stefndu verði dæmdar til að greiða 400.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í tveimur dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þá sé gerð sú krafa að forsendur og niðurstaða dóms í málinu verði birt í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur gangi í málinu.

Um tjáningarfrelsi stefndu vísi stefnandi til 2. mgr. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en tjáningarfrelsi njóti ekki verndar þegar brotið sé gegn friðhelgi einkalífs manna. Þegar metnar séu þær skorður sem friðhelgi einkalífs setji tjáningarfrelsinu skipti aðalmáli hvort hið birta efni, myndir og texti, geti talist þáttur í almennri þjóðfélagsumræðu og eigi þannig erindi til almennings. Umfjöllun stefndu um stefnanda tengist á engan hátt slíkri umræðu og framsetning umfjöllunarinnar virðist einungis hafa miðað að því að auka sölu Vikunnar. 

Vísað sé um kröfu um vexti og dráttarvexti til IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um vexti byggist á 8. gr. laganna, þar sem segi að skaðabótakröfur beri vexti frá þeim degi sem hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað, hér frá birtingu umfjöllunar Vikunnar 7. mars 2013, sbr. 4. gr. sömu laga. Krafa um dráttarvexti byggist á 9. gr. laganna, þar sem segi að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn sé mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi hafi lagt fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta, sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Hér sé miðað við dagsetningu kröfubréfs og því sé krafist dráttarvaxta frá 23. maí 2013 til greiðsludags.

Þess sé þess krafist að stefndu greiði stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi og byggist krafan á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þess sé krafist að dæmdur málskostnaður beri virðisaukaskatt.

Kröfum í máli þessu sé beint að stefndu Ragnhildi þar sem hún sé skráður höfundur texta í umræddri umfjöllun Vikunnar og gegn Guðrúnu Elínu, sem þáverandi ritstjóra Vikunnar, vegna ritstjórnarlegrar ábyrgðar á texta sem og þá sérstaklega myndbirtingu í blaðinu, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga nr. 38/2011, a- og c-lið, sbr. 3. tl. 1. mgr. 2. gr. sömu laga.

Um lagarök vísi stefnandi til 229. gr. og 1. mgr. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Einnig vísi stefnandi til 71. gr. stjórnarskrár, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 16. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá vísi stefnandi til 3. tl. 1. mgr. 2. gr., 51. gr., 56. gr. og 59. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og 1. mgr. b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti á miskabótakröfu byggist á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá sé krafa um málskostnað byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991. Einnig sé vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, svo sem hvað varði varnarþing, málsaðild og málskostnað.

Málsástæður og lagarök stefndu

Almenn sjónarmið um tjáningarfrelsi og svigrúm fjölmiðla til miðlunar upplýsinga

Löggjafinn og dómstólar hafi játað fjölmiðlum og einstaklingum verulegu svigrúmi til tjáningarfrelsis og almennrar umfjöllunar um menn og málefni. Rétturinn til tjáningar og miðlunar upplýsinga sé varinn af 73. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944 og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 10. gr. laga nr. 62/1994. Auk þess að fjalla um réttinn til tjáningar segi þar, að réttur til tjáningarfrelsis skuli jafnframt ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda. Með afskiptum stjórnvalda sé einnig átt við hlutverk dómstóla. Réttur þessi sé, samkvæmt dómafordæmum Mannréttindadómstóls Evrópu, sérlega ríkur af hálfu fjölmiðla, enda sé hlutverk þeirra að taka við og miðla upplýsingum afar mikilvægur í lýðræðissamfélagi, einnig í þeim tilvikum þegar fólk vilji tjá sig opinberlega um sín hugðarefni í viðtali. Í þessu sambandi sé rétt að vekja athygli á því að stefnandi kjósi að beina kröfu sinni að starfsmönnum fjölmiðils en ekki þeim aðila sem veitt hafi viðtalið, þ.e.a.s. móður sinni.

Rétturinn til tjáningarfrelsis takmarkist með þeim undantekningum sem gerðar séu í 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. sáttmálans. Ítrekuð dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu áskilji að þessar undanþágur frá meginreglunni um tjáningarfrelsi beri að túlka afar þröngt. Allar takmarkanir á tjáningarfrelsi beri að sýna fram á með sannfærandi hætti. Þannig megi samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 62/1994, einungis takmarka tjáningarfrelsi ef nauðsyn ber til í lýðræðislegu samfélagi (e. necessary in a democratic society). Orðið „nauðsyn“ í þessu sambandi hafi verið túlkað af mannréttindadómstólnum sem „knýjandi þjóðfélagsleg nauðsyn“ (e. pressing social need). Hvort slík nauðsyn sé fyrir hendi sé dómstólum í landsrétti látið eftir að meta og beri þeim við það mat að líta til þess hvernig mannréttindadómstóllinn hafi túlkað ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Þegar kröfur stefnanda í þessu máli séu metnar beri að hafa framangreind sjónarmið að leiðarljósi og takmarka ekki tjáningarfrelsi stefndu og móður stefnanda, nema telja megi að slíkt sé mjög brýnt og nauðsynlegt. Með tilliti til umkvörtunarefna stefnanda fari því þó fjarri að með ummælunum hafi verið gengið þannig á réttindi stefnanda að nauðsynlegt megi telja að skerða verði tjáningarfrelsi móður stefnanda og stefndu og takmarka tjáningarfrelsi einstaklinga almennt með þeim hætti sem felist í kröfum stefnanda.

Nánar um meint brot gegn friðhelgi einkalífs stefnanda

Stefndu hafni því alfarið að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda með þeim ummælum sem vitnað sé til í stefnu. Krafa stefnanda um miskabætur byggist á því að þau ummæli sem hann vitni til, hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs síns. Raunar sé tekið fram í stefnu að „umfjöllun Vikunnar í heild“ brjóti gegn friðhelgi einkalífs stefnanda. Þá sé að finna umfjöllun í stefnunni um meinta ólögmæta myndbirtingu af stefnanda, þótt ekki séu gerðar kröfur vegna þess. Stefndu mótmæli öllum málsástæðum stefnanda um framangreint.

Þrátt fyrir að stefnandi geti þess að myndbirting af sér hafi verið ólögmæt, sem stefndu mótmæli, leiki enginn vafi á því, að stefnandi krefjist ekki miskabóta vegna myndbirtingarinnar, enda sé slík krafa hvorki sett fram í stefnu né rökstudd sérstaklega. Stefndu telji myndbirtinguna hafa verið lögmæta, enda hafi móðir barns, hvort heldur sem hún nýtur forsjár eða ekki, fullan rétt á að birta sínar eigin myndir af börnum sínum og þurfi ekki leyfi forsjáraðila til þess.

Í stefnu komi fram, að íslenskan almenning varði ekkert um forsjármál það sem gengið hafi milli föður og móður stefnanda eða efnisatriði í niðurstöðu dómkvadds matsmanns um hæfi foreldra til að fara með forsjá barns. Í þessum orðum stefnanda felist beinlínis viðurkenning á því að það hafi ekki verið hans einkalífshagsmunir sem verið hafi til umfjöllunar í tímaritsgreininni, heldur forsjármál milli foreldra hans og hæfi þeirra til að fara með forsjá, þ.e.a.s. að þau væru bæði hæfir foreldrar sem þætti báðum mjög vænt um barnið sitt. Í umfjölluninni hafi verið stuttlega vikið að því að móðir og faðir stefnanda hefðu deilt um forsjá hans. Með tilliti til tjáningarfrelsis móður stefnanda hafi henni verið fullkomlega heimilt að ræða það mál, sem hún hafi verið aðili að. Þar hafi ekki á nokkurn hátt verið vikið að einkalífshagsmunum stefnanda, en það falli ekki undir einkalífsvernd 229. gr. almennra hegningarlaga einstaklings hvort foreldra tiltekins barns fari með forsjá þess. Það séu opinberar upplýsingar og raunar mikilvægt að hver sem er geti fengið slíkar upplýsingar. Það að móðir stefnanda hafi tjáð sig um að foreldrarnir hafi deilt um forsjá yfir stefnanda og að faðir stefnanda hafi fengið forsjá yfir honum, teljist því ekki á nokkurn hátt brot gegn „viðkæmum einkalífshagsmunum“ stefnanda sjálfs, enda hafi slíkir hagsmunir stefnanda ekki verið til umfjöllunar. Viðmælandi tímaritsins hafi einungis verið að benda á þá staðreynd, að þrátt fyrir að dómkvaddur matsmaður kæmist að þeirri niðurstöðu að foreldrar séu bæði hæf til að fara með forsjá, hafi orðið að velja annan hvort þeirra. Það þeirra sem ekki verði fyrir valinu upplifi það sem mikla höfnun, enda fái það ekki forsjá barns síns þrátt fyrir að vera hæft foreldri. Þessi gagnrýni hafi verið móður stefnanda fyllilega heimil.

Með sama hætti falli það ekki á nokkurn hátt undir einkalífshagsmuni stefnanda og 229. gr. almennra hegningarlaga, að fjallað hafi verið mjög stuttlega um niðurstöðu matsmanns um hæfi foreldra stefnanda til að fara með forsjá hans, allra síst með þeim hætti sem um ræði í þessu máli. Í ummælunum komi einungis fram að báðir foreldrar hafi verið metnir hæfir til að fara með forsjá, þyki báðum vænt um barnið og þekki það vel. Vilji móðir stefnanda sjálf tjá sig um niðurstöðu dómkvadds matsmanns um hæfi hennar sjálfrar til að fara með forsjárskyldur barns, þá sé henni það fullkomlega frjálst, enda njóti hún tjáningarfrelsis samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Það tjáningarfrelsi takmarkist t.d. af einkalífshagsmunum annarra sé á þá gengið, í þessu tilviki hafi móðir barnsins tjáð sig, en þó alls ekki svo að gengið hafi verið á einkalífshagsmuni stefnanda.

Stefndu mótmæli því að tímaritið Vikan hafi notað mynd af stefnanda án þess að hafa fengið leyfi til þess hjá forráðamanni hans og að myndin hafi verið notuð til að myndskreyta umfjöllun, sem hafi kastað rýrð á stefnanda og fjölskyldu hans. Í stefnu sé með öllu óútskýrt og órökstutt hvernig umfjöllunin hafi kastað rýrð á stefnanda sjálfan eða fjölskyldu hans. Af lestri umfjöllunarinnar verði raunar hið gagnstæða ráðið. Umfjöllunin sé mjög jákvæð í hans garð og hvergi sé rýrð kastað á fjölskyldu stefnanda eða hann sjálfan. Til dæmis hafi þess ekki verið getið í umfjölluninni að faðir stefnanda hafi hlotið dóm fyrir margar líkamsárásir, m.a. eina sem verið hafi svo alvarleg að ungur maður hafi látist af völdum hennar, sbr. Hrd. nr. 235/2003. Þess hefði verið hægt að geta að faðir stefnanda hefði 10 árum eftir dóminn ekki enn greitt aðstandendum hins látna eina krónu af dæmdum miskabótum. Hefði þessari fortíð föður stefnanda verið blandað saman við umfjöllunina í Vikunni mætti hugsanlega rökstyðja að hún hefði að einhverju leyti kastað rýrð á fjölskyldu stefnanda, en það hafi ekki verið gert.

Ljósmyndirnar af stefnanda sem um ræði séu í eigu móður stefnanda og hún hafi veitt leyfi til birtingar þeirra. Ekkert í lögum hindri að foreldri barns birti opinberlega eigin mynd af sínu eigin barni, hvort heldur um sé að ræða foreldri sem fari með forsjá eða ekki. Rétturinn til að fara með forsjá barns feli ekki í sér rétt til að ráða öllu því sem hitt foreldri barns taki sér fyrir hendur er varði barnið, enda sé réttur til forsjár ekki það sama og rétturinn til að vera foreldri. Foreldraréttur falli ekki niður nema við ættleiðingu.

Í rétti til forsjár felist tiltekin réttindi og skyldur og um inntak forsjár sé fjallað í barnalögum, nr. 76/2003. Forsjá barns feli bæði í sér rétt og skyldu foreldris til þess fyrst og fremst að ráða persónulegum högum barnsins og ákveða búsetustað þess. Þrátt fyrir að annað foreldri fari með þau réttindi og skyldur, eigi hitt foreldri barns ýmis réttindi og hafi ýmsar skyldur. Megi þar sem dæmi nefna framfærsluskyldu, umgengnisrétt, rétt til upplýsinga um barn og rétt og skyldu til að eiga í samskiptum við barn að öðru leyti. Í rétti foreldris, hvort sem um sé að ræða forsjárlaust foreldri eða ekki, felist réttur til að búa til minningar, svo sem með því að taka af barninu tækifærismyndir. Foreldri hafi fullan rétt til að birta slíkar myndir opinberlega, hvort sem er á netinu eða annars staðar, enda rúmist það innan marka laga sem kveði á um einkalífsvernd og sé þá ekki gengið lengra en nauðsynlegt sé. Móðir barnsins hafi veitt tímaritinu Vikunni viðtal um líf sitt og störf, og þar hafi m.a. komið fram að stefnandi væri barn hennar og mynd af honum verið birt. Ekki verði talið að með þessu hafi verið brotið gegn einkalífshagsmunum þriggja ára gamals barns. Sérstaklega sé áréttað, að í stefnu sé hvergi gerð tilraun til þess að útskýra hvaða einkalífshagsmuni um sé að tefla, sem brotið hafi verið gegn, eða hvernig hið meinta brot hafi komið við stefnanda eða skaðað hagsmuni hans.  

Ljóst sé að því fari fjarri að viðtalið við móður stefnanda og myndbirting af honum, hafi brotið gegn viðkvæmum einkalífshagsmunum stefnanda og að hlutaðeigandi hafi farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með greininni.

Refsikrafa

Stefnandi krefjist refsingar yfir stefndu með vísan til 229. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Skilyrði þessa ákvæðis sé, að skýrt hafi verið opinberlega frá einkamálefnum annars manns, án þess að nægar ástæður hafi verið fyrir hendi, er réttlættu verknaðinn. Eins og ráða megi af orðalagi ákvæðisins þurfi að uppfylla nokkur skilyrði svo verknaður samkvæmt ákvæðinu teljist refsiverður.

Í fyrsta lagi þurfi að hafa verið um einkamálefni að ræða. Í öðru lagi sé skilyrði að með umfjöllun hafi verið skýrt frá eða ljóstrað upp um einkamálefnið, sem eigi annars að fara leynt. Í þriðja lagi er skilyrði að ekki hafi verið nægar ástæður til að greina frá þeim atriðum sem verið hafi andlag umfjöllunarinnar. Á stefnanda hvíli sú sönnunarbyrði að sanna að stefndu hafi haft ásetning um að brjóta gegn ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga með umfjölluninni. Ásetningur sé skilyrði þess að brotið sé gegn refsiákvæðinu.

Stefndu telji ekkert framangreindra skilyrða uppfyllt í málinu og því komi beiting ákvæðisins ekki til álita. Í fyrsta lagi telji stefndu þau ummæli sem birst hafi í umræddri grein og vitnað sé til í stefnu ekki vera einkamálefni stefnanda í nokkrum skilningi. Ljóst sé að ummælin varði eingöngu hæfi foreldra stefnanda til að fara með forsjárskyldur. Fram komi að þeim þyki báðum vænt um stefnanda og þekki hann vel. Ummælin segi þannig ekkert um stefnanda sjálfan, hans persónu eða persónulegu hagi að öðru leyti. Hæfi foreldra stefnanda til að fara með forsjárskyldur sé að minnsta kosti ekki einkamálefni hans, heldur sé augljóslega ekki síður og raunar fyrst og fremst um málefni foreldranna að ræða. Þá hafi ekki verið skýrt frá neinu einkamálefni stefnanda, sem annars eigi að fara leynt. Hvorki geti þar verið um að ræða hver fari með forsjá barnsins né hæfi foreldra hans til að fara með forsjá.

Þá telji stefndu ekki uppfyllt það skilyrði ákvæðisins, að ekki hafi verið næg ástæða fyrir hendi til þess að birta ummælin sem um ræði. Öllum einstaklingum sé frjálst að ræða líf sitt og störf opinberlega ef þeir kjósa svo. Slíkt sé ekki mögulegt án þess að minnst sé á tilvist annarra einstaklinga. Megi sem dæmi nefna að erfitt yrði að rita endurminningar sínar ef fá þyrfti leyfi allra samferðamanna sinna gegnum lífið til að minnast á tilvist þeirra. Gildi í þessu, að ekki sé gengið lengra hverju sinni en nauðsyn beri til. Viðtalið við móður stefnanda í Vikunni hafi að sjálfsögðu verið í fullu samstarfi við hana. Viðtalið hafi að mjög litlu leyti snúist um stefnanda, en móðir hans hafi verið í fullum rétti á grundvelli meginreglna um tjáningarfrelsi til þess að geta um það að hún ætti börn og hver þau væru. Sá réttur hennar takmarkist ekki af einkalífshagsmunum stefnanda. Í viðtalinu hafi verið komið mjög stuttlega inn á forræðisdeilu móðurinnar við föður stefnanda. Sú umfjöllun hafi alls ekki gengið lengra en eðlilegt megi telja, en þar hafi einfaldlega verið vitnað til þess, að móðir barnsins hafi undir rekstri forsjármáls aðila, verið talin jafnhæf og faðir barnsins til að fara með forsjá þess. Ekki hafi á nokkurn hátt verið fjallað um einkamálefni stefnanda, viðkvæm eða önnur. Að því gættu sé ljóst að ekki sé uppfyllt það skilyrði 229. gr. almennra hegningarlaga, að ekki hafi verið næg ástæða til að birta ummælin sem um ræði. Umfjöllun hafi í sjálfu sér verið innlegg í umræðu um ákvarðanir í forsjármálum almennt, vegna þess að í inngangi að greininni, sem og greininni sjálfri, komi fram gagnrýni viðmælandans á að dómstólum hafi ekki verið heimilt að dæma sameiginlegt forræði, heldur þyrfti að velja milli foreldra, þótt báðir teldust hæfir.

Stefndu telji einnig að það skilyrði 229. gr. alm. hgl. sé ekki uppfyllt, að ljóstrað hafi verið upp um einkamálefni, sem leynt skuli fara. Ekkert í þeim ummælum sem um ræði flokkist undir einkalífshagsmuni sem ljóstrað hafi verið upp um, en hafi átt að fara leynt. Þvert á móti sé um að ræða upplýsingar, sem viðmælandi tímaritsins hafi haft fullan rétt til að ræða.

Loks vísi stefndu til þess að ósannað sé af hálfu stefnanda að stefndu hafi haft ásetning til að brjóta gegn 229. gr. alm. hgl., en nauðsynlegt sé að sanna slíkan ásetning til að koma við ábyrgð stefndu.

Miskabótakrafa

Stefndu telji að þær hafi ekki framið ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda með umfjöllun um stefnanda, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, enda hafi umfjöllunin ekki brotið gegn ákvæðum 71. gr. stjórnarskrár, 229. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, eða öðrum lögum. Stefnandi hafi heldur ekki sýnt fram á né leitt að því minnstu líkur að umrædd umfjöllun hafi eða geti hafa skaðað hagsmuni hans á einhvern hátt. Því beri að hafna miskabótakröfu stefnanda.

Til vara sé þess krafist að miskabótakröfu stefnanda verði hafnað eða hún lækkuð verulega, verði allt að einu komist að þeirri niðurstöðu að framin hafi verið ólögmæt meingerð gegn stefnanda og að stefndu beri ábyrgð á henni. Þess beri að gæta að umfjöllunin í tímaritinu hafi verið viðtal, sem tekið hafi verið við móður stefnanda, þar sem hún hafi tjáð sig fyrst og fremst um sitt eigið líf og núverandi störf, en hún sé efnilegur fatahönnuður og hafi það verið eitt meginefni viðtalsins. Ekki hafi verið um að ræða umfjöllun án samþykkis móður stefnanda. Færi svo að talið yrði að það atriði umfjöllunarinnar sem krafa stefnanda lúti að bryti gegn lögum, sé allt að einu um að ræða frásögn móður stefnanda sem stefndu hafi haft eftir henni með hennar samþykki. Verulega ósanngjarnt yrði að gera stefndu að greiða miskabætur vegna þess. Að framangreindu virtu ætti að hafna kröfu stefnanda um miskabætur, enda liggi ekkert fyrir um miska hans, að minnsta kosti lækka kröfuna verulega.

Stefndu mótmæli sérstaklega umfjöllun í stefnu undir miskabótakröfulið stefnunnar, þar sem reynt sé að rökstyðja að dæma eigi stefndu til að greiða hærri miskabætur en ella vegna þess að stefndu séu eða hafi verið starfsmenn stærstu tímaritaútgáfu landsins. Umfjöllun stefnunnar um þennan lið sé með algerum ólíkindum. Sérlega ósmekklegt sé af hálfu stefnanda að krefjast þess, að þar sem um „margendurtekin brot blaðmanna í störfum fyrir sama útgáfufélag og tengd félög er að ræða og fjöldi áfellisdóma hafa verið látnir sem vindur um eyru þjóta [sé] rétt [...] að dæma stefndu til þess að greiða stefnanda háar miskabætur“. Staðreyndin sé sú, að hvorug stefnda í þessu máli hafi áður hlotið dóm fyrir brot gegn meiðyrðalöggjöfinni, friðhelgi einkalífs, ólögmætar myndbirtingar eða annað sambærilegt, þrátt fyrir þá staðreynd að t.d. stefnda Guðrún Elín hafi starfað í tvo áratugi við blaðamennsku, ritstjórn og útgáfu. Sú tilraun stefnanda að setja undir einn hatt stefndu, Birting útgáfufélag ehf., tengd félög og alla starfsmenn þeirra, þ.e.a.s. stóran hluta blaðamannastéttarinnar, til að áskilja sér hærri miskabætur, sé ósmekkleg og fullkomlega ómálefnaleg. Útgefandi tímaritanna hafi engin áhrif á það um hvaða efni fjallað sé í tímaritunum eða með hvaða hætti það sé gert. Það að ummæli í einhverju tímariti útgáfunnar hafi verið ómerkt áður, sem einhverjir aðrir starfsmenn hafi unnið að, eigi að leiða til þess að dæma skuli stefndu í þessu máli til hárra miskabóta, sé í besta falli rökleysa. Stefndu leyfi sér að mótmæla þessum hluta stefnunnar í heild sinni sem ómálefnalegum og órökstuddum. Þá vísi stefndu til þess að í gildi hjá útgefanda Vikunnar séu reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði, sem settar hafi verið 23. nóvember 2012, nokkrum mánuðum áður en umrædd grein hafi birst. Reglurnar, sem birtar séu á heimasíðu útgefandans, séu settar samkvæmt fyrirmælum 24. gr. fjölmiðlalaga, nr. 38/2011. Þær staðfesti ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla útgefandans.

Krafa um greiðslu kostnaðar vegna birtingu dóms

Stefndu hafni alfarið kröfu stefnanda um greiðslu kostnaðar vegna birtingar dóms í málinu. Einungis ein lagaheimild sé til í lögum sem unnt sé að styðja kröfu um greiðslu kostnaðar vegna birtingar dóms við, sbr. 241. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sú lagaheimild takmarkist af því, að eingöngu sé heimilt að dæma þann sem gerist sekur um ærumeiðandi aðdróttun til að greiða fjárhæð til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms. Þetta mál sé ekki meiðyrðamál heldur snúist um meint brot gegn friðhelgi einkalífs. Engar kröfur séu gerðar í málinu um ómerkingu ummæla á grundvelli þess að um ærumeiðandi aðdróttanir sé að ræða. Enginn lagagrundvöllur sé því til að verða við þessari kröfu stefnanda og beri að hafna henni.

Krafa um birtingu dóms í tímaritinu Vikunni.

Stefndu mótmæli kröfu stefnanda um að forsendur og dómsorð skuli birta í næsta tölublaði Vikunnar eftir að dómur gangi. Ákvæði 59. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, sé heimildarákvæði. Stefndu telji þessa kröfu stefnanda sérstaklega einkennilega í ljósi þess að hann telji að stefndu hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs síns með umfjöllun um viðkvæm einkamálefni sín. Engu að síður krefjist hann þess, að falli dómur á þann veg að viðurkennt verði að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs hans með umfjöllun um viðkvæm einkamálefni, skuli sú niðurstaða auglýst rækilega í víðlesnasta tímariti landsins og athygli þar með vakin á upphaflegri grein. Tímaritið Vikuna lesi að jafnaði um 50.000 manns á viku. Í kröfu stefnanda felist, að hinum viðkvæmu einkamálefnum hans verði rækilega komið á framfæri opinberlega í sama tímariti og hann telji að hafi brotið gegn einkalífshagsmunum sínum með sömu umfjöllun. Telja verði að þessi krafa sé í fullkominni andstöðu við málatilbúnað stefnanda og að henni beri að hafna.

Tilgangurinn að baki þessu heimildarákvæði fjölmiðlalaga sé sá sami og í 241. gr. almennra hegningarlaga, þ.e.a.s. fyrst og fremst sá að vekja athygli á dómum í meiðyrðamálum er varði aðdróttanir, þar sem aðdróttanir hafi verið dæmdar dauðar og ómerkar, en hagsmunir stefnenda í slíkum málum af því að koma á framfæri niðurstöðum dómsmála um ómerkingu ummæla séu skiljanlegir. Hins vegar sé með öllu órökrétt að krefjast birtingar dóms í máli þar sem aðili telji að fjallað hafi verið um viðkvæm einkamálefni hans án heimildar og án tilefnis. Þessari kröfu stefnanda sé því rétt að hafna.

Vextir og dráttarvextir

Kröfu um vexti og dráttarvexti sé mótmælt, enda eigi stefnandi ekki kröfu á hendur stefndu. Til vara sé þess krafist að vextir verði einungis miðaðir við dómsuppsögu, verði talin skilyrði til að dæma dráttarvexti.

Málskostnaður

Stefndu geri þá kröfu að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað í samræmi við 129. sbr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Stefndu séu ekki virðisaukaskattsskyldar og geri því kröfu um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

Lagarök

Um lagarök vísi stefndu til 71. og 73. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, sem og til 8. og 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994. Stefndu vísi til 229. og 241. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 og til fjölmiðlalaga, nr. 38/2011. Um málskostnað vísi stefndu til 129. sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða

Umfjöllun Vikunnar sem mál þetta snýst um er viðtal við móður stefnanda, sem segir þar á opinskáan hátt frá einkalífi sínu. Ekki er um það deilt í málinu að hún hafi veitt samþykki sitt fyrir birtingu viðtalsins og þeirra tveggja mynda af stefnanda sem því fylgdu og að hún hafi átt þær myndir. Meðal þess sem fram kemur í viðtalinu er að móðir stefnanda hafi deilt við föður hans um forsjá hans og að þegar drengurinn hafi verið rúmlega tveggja ára hafi föður verið falin forsjá hans með dómi. Faðir stefnanda bar fyrir dóminum að foreldrar hafi áður farið saman með forsjá stefnanda og að móðir hans hafi höfðað forsjármálið til að fá sér einni dæmda forsjá hans. Hann fari nú einn með forsjá hans en stefnandi njóti reglulegrar umgengni við móður sína. Þá kvaðst faðir stefnanda ekki hafa veitt heimild til umræddrar umfjöllunar Vikunnar.

Stefnandi telur að með umfjöllun og myndbirtingum í Vikunni, án heimildar föður hans, hafi stefndu brotið gegn rétti stefnanda til friðhelgi einkalífs, sem honum sé tryggður í 71. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944. Íslenskan almenning varði ekkert um forsjármál foreldra stefnanda eða efnisatriði í niðurstöðu dómkvadds matsmanns um hæfi foreldra til að fara með forsjá stefnanda. Kröfur stefnanda í máli þessu eru annars vegar vegna nafn- og myndbirtingar af stefnanda og hins vegar byggjast þær á því að í ummælunum: Í dómnum í forsjármáli yngri drengsins kemur meðal annars fram að: ,,Matsmaður telji báða foreldra hæfa til að fara með forsjá barnsins. Þeir beri báðir umhyggju fyrir barni sínu, sýni því ástúð og hlúi vel að drengnum á heimilum sínum. Foreldrarnir lýsi drengnum á svipaðan hátt og þekki vel til eiginleika hans“ felist umfjöllun um viðkvæm einkamálefni stefnanda.

Af hálfu stefndu er á því byggt að réttur þeirra til tjáningar og miðlunar upplýsinga sé varinn af 73. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944 og ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 10. gr. laga nr. 62/1994, en allar takmarkanir á tjáningarfrelsi beri að skýra þröngt og að stefnanda beri að sýna fram á að þær séu brýnar og nauðsynlegar. Stefndu hafna því að brotið hafi verið gegn einkalífshagsmunum stefnanda í umfjöllun blaðsins og telja hana innan þess svigrúms sem fjölmiðlar og einstaklingar hafi til tjáningarfrelsis og almennrar umfjöllunar um menn og málefni. Viðmælandi blaðsins eigi rétt á því að skýra frá því hvort hún eigi börn og hver þau séu og geti sá réttur ekki takmarkast af einkalífshagsmunum stefnanda. Þá hafi umfjöllunin verið innlegg í umræðu um ákvarðanir í forsjármálum almennt þar sem fram komi í inngangi og í greininni sjálfri gagnrýni viðmælandans á að dómstólum hafi ekki verið heimilt að dæma foreldrum sameiginlega forsjá.

Þegar metið er hvar draga skuli mörkin milli tjáningarfrelsis, sem nýtur verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrár, og friðhelgi einkalífs, sem varin er af 71. gr. hennar, skiptir almennt miklu máli hvort það efni sem birt er geti talist þáttur í þjóðfélagslegri umræðu og eigi þannig erindi til almennings. Gagnrýnin sem birtist í umfjölluninni í Vikunni þann 7. mars 2013 á lagaumhverfi forsjármála á þeim tíma, bæði af hálfu viðmælanda og blaðamanns, m.a. á forsíðu og í inngangi viðtalsins, er óréttmæt og villandi, enda hafði þá tekið gildi sú breyting á barnalögum, að unnt er að dæma sameiginlega forsjá barns gegn vilja annars foreldris, þjóni það hagsmunum barns, í forsjármálum sem þingfest eru eftir 31. desember 2012. Þessi gagnrýni þjónar ekki þeim tilgangi að teljast þáttur í þjóðfélagslegri umræðu sem erindi eigi til almennings. Sjónarmið um rýmkað tjáningarfrelsi af slíkum ástæðum eiga því ekki við í málinu og er málsástæðum stefndu í þá veru hafnað. Dómurinn tekur á hinn bóginn undir það með stefndu að skýra verður ákvæði sem takmarka tjáningarfrelsi þröngt og að í því felist að til þess að skorður verði settar við tjáningarfrelsi stefndu og móður stefnanda í umfjöllun um einkamálefni hennar, verði að sýna fram á það að án slíkrar takmörkunar sé, án nægjanlegrar ástæðu, brotið gegn þeim rétti stefnanda til friðhelgi einkalífs, sem lagaákvæðin, sem málsókn hans styðst við, eru sett til þess að vernda.

Móðir stefnanda skýrir m.a. frá því í viðtalinu í Vikunni hvaða börn hún eigi og hvernig forsjá þeirra sé háttað. Hún skýrir í því samhengi frá eiginnöfnum og fæðingarári stefnanda og birtar eru tvær myndir af honum, en stefnandi er ekki nefndur fullu nafni. Skráning upplýsinga um nafn barns og fæðingardag þess, svo og skráning upplýsinga um það hverjir séu foreldrar þess, er ætlað að tryggja grundvallarréttindi barns svo sem fram kemur í 7. gr. Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992, um rétt barns til skráningar við fæðingu, rétt til nafns og ríkisfangs og rétt til þess að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra, eftir því sem unnt er. Upplýsingar um eiginnöfn stefnanda og um það að hann sé sonur móður sinnar eru því upplýsingar sem stefnandi á rétt til að skráðar séu í þjóðskrá. Þá eru upplýsingar um nafn, fæðingardag og það hver fari með forsjá stefnanda aðgengilegar hverjum þeim sem eftir þeim leitar og verða ekki taldar til einkamálefna hans sem leynt skulu fara. Þessar upplýsingar, eins og þær eru fram settar í umfjöllun Vikunnar, eru samtvinnaðar frásögn af atburðum úr lífi móður stefnanda sem hún kýs að skýra frá í viðtalinu. Móðir stefnanda segir þar frá forsjármáli hennar og föður hans og því hversu þungbært það hafi verið henni að föður var falin forsjá stefnanda. Óhjákvæmilega kemur stefnandi við sögu í þeirri frásögn hennar, en þær upplýsingar sem varða hann eru ekki ítarlegri en leiðir af eðli málsins. Stefnandi styður það engum lagarökum, sem hann heldur fram, að ákvörðun um að heimila birtingu slíkra upplýsinga eða mynda af honum í eigu móður hans sé aðeins á valdi forsjárforeldris hans. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á það að brýnt eða nauðsynlegt hafi verið að halda þessum upplýsingum um hann leyndum, þannig að birting þeirra í þessu samhengi geti talist brot stefndu gegn friðhelgi einkalífs hans sem varði við ákvæði 229. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Ummælin sem tekin eru upp í dómkröfum stefnanda, og birtust í Vikunni með heimild móður hans, munu vera tekin úr dómi í forsjármáli því sem móðir stefnanda höfðaði á hendur föður hans. Þar er talað vel um foreldrahæfni beggja foreldra stefnanda, en ekki er vikið að neinu um stefnanda sjálfan, svo sem hverjir séu þeir eiginleikar hans sem foreldrar hans eru taldir þekkja vel til. Ekki verður fallist á það með stefnanda að umfjöllunin kasti rýrð á hann og fjölskyldu hans. Að því gættu að dómurinn telur að móður stefnanda hafi verið heimilt að skýra í Vikunni frá forsjármálinu, sem hún var aðili að, og niðurstöðu þess, verður ekki fallist á það með stefnanda, að með birtingu þessarar tilvitnunar í dóminn hafi stefndu brotið gegn rétti stefnanda til friðhelgi einkalífs.

Þegar af þeirri ástæðu, að ekki verður fallist á það með stefnanda að með umfjöllun Vikunnar hafi verið ljóstrað upp um einkamálefni stefnanda sem leynt skyldu fara án nægilegrar ástæðu og stefndu hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs hans þannig að varði refsingu samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga, verða stefndu sýknaðar af refsikröfu stefnanda í málinu. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að stefndu hafi valdið honum miska með ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu hans með umfjöllun sinni og verða stefndu sýknaðar af miskabótakröfu stefnanda og af kröfu um birtingu dóms í máli þessu í Vikunni. Þá verður hafnað fjárkröfu stefnanda, sem engin lagastoð er fyrir, til þess að standa straum kostnaði við birtingu dóms í máli þessu í tveimur dagblöðum. Stefnandi kveðst styðja kröfuna við 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það ákvæði á við um kostnað af birtingu áfellisdóms í máli um ærumeiðandi aðdróttun. Í ljósi þessarar niðurstöðu málsins verða báðar stefndu sýknaðar af kröfum stefnanda og skiptir þá ekki máli á hvaða grundvelli málsókn stefnanda á hendur hvorrar stefndu um sig er reist.

Með vísun til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað, sem ákveðinn er 700.000 krónur.

Dóminn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Ragnhildur Aðalsteinsdóttir og Guðrún Elín Arnardóttir, eru sýknaðar af öllum kröfum stefnanda, Ísaks Nóa Baldurssonar, í máli þessu.

Stefnandi greiði stefndu 700.000 krónur í málskostnað.