Print

Mál nr. 75/2016

Papco hf. (Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)
gegn
Ottó Sverrissyni (Valgeir Kristinsson hrl.)
Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Brottrekstur úr starfi
Reifun

O hóf störf hjá P hf. á árinu 2012 og starfaði þar fram í ágúst 2014 er honum var sagt fyrirvaralaust upp starfi vegna meints brots á trúnaðarskyldu. O höfðaði mál gegn P hf. og krafðist bóta vegna uppsagnarinnar. Var talið að P hf. hefði ekki með framburði fjármálastjóra félagsins gegn andmælum O sýnt fram á að hinn síðarnefndi hefði verið áminntur í skilningi vinnuréttar. Var talið að P hf. hefði ekki verið heimilt án áminningar að segja O upp starfi vegna vítaverðrar vanrækslu í starfi. Þá hefðu sannaðar ávirðingar P hf. á hendur O varðað lága fjárhæð. Taldi Hæstiréttur því að O ætti rétt til bóta vegna fyrirvaralausrar uppsagnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. janúar 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Með samningi 10. mars 2012 var stefndi ráðinn til starfa hjá áfrýjanda. Samkvæmt ráðningarsamningnum skyldi stefndi gegna starfi á fyrirtækjasviði sem sölufulltrúi og vinna að uppbyggingu á nýju sviði hjá áfrýjanda. Jafnframt skyldi stefndi vera „stuðningur við aðra starfsmenn fyrirtækjasviðs“ og sinna tilfallandi störfum sem yfirmaður myndi ákveða á hverjum tíma þótt þau féllu utan við framangreinda lýsingu. Næsti yfirmaður stefnda væri sölustjóri fyrirtækjasviðs, en stefndi myndi jafnframt „vinna mjög náið með framkvæmdastjóra.“ Í greinargerð áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að sölusvið hans hafi skipst í þrennt, neytendasvið, fyrirtækjaþjónustu og styrktarsvið. Hafi stefnda síðar verið falið að hafa yfirumsjón með styrktarsviðinu, en því hafi verið ætlað að selja vörur áfrýjanda til annarra, sem endurseldu þær til fjáröflunar. Þá skyldi stefndi hafa umsjón með styrkveitingum áfrýjanda. Samhliða þessu hafi stefndi áfram átt að sinna skyldum sem almennur sölumaður í fyrirtækjaþjónustu, en annar starfsmaður áfrýjanda hafi gegnt þar starfi sölustjóra.

Stefnda var sagt fyrirvaralaust upp starfi sínu hjá áfrýjanda með bréfi 15. ágúst 2014. Ástæða uppsagnar var þar sögð brot á trúnaðarskyldu. Með bréfi stéttarfélags stefnda 21. ágúst 2014 til áfrýjanda var leitað skriflegra skýringa á uppsögninni og svaraði nafngreindur lögmaður því erindi með bréfi 26. sama mánaðar. Þar sagði að á fundi framkvæmdastjóra áfrýjanda og stefnda hafi stefndi verið upplýstur um að framkvæmdastjórinn hefði sönnur fyrir því að stefndi hefði „ítrekað tekið vörur út úr húsi fyrirtækisins og afhent þær tilgreindum viðskiptamanni án þess að reikningsfæra umræddar vörur á viðskiptamannareikning viðkomandi viðskiptamanns.“ Hlypi tjón áfrýjanda á tugum þúsunda. Síðan sagði eftirfarandi: „Þá taldi framkvæmdastjórinn jafnframt að starfsmaðurinn hefði gerst sekur um samskonar athæfi gagnvart fleiri viðskiptamönnum félagsins og var starfsmanninum gerð grein fyrir því.“ Að lokum kom fram í bréfinu að áfrýjandi hefði leitað til lögreglu vegna þessa og óskað eftir að öll viðskipti sem stefndi hafi haft umsjón með í starfi sínu hjá áfrýjanda yrðu rannsökuð og hafi framkvæmdastjórinn mætt af því tilefni í skýrslutöku 18. ágúst 2014. Stæði yfir vinna hjá áfrýjanda við að safna saman frekari gögnum sem lögregla óskaði eftir að fá í hendur.

Af framangreindu svari áfrýjanda verður ráðið að ástæða uppsagnar stefnda hafi verið þau óreikningsfærðu viðskipti sem stefndi átti við Obladí ehf. 25. apríl og 13. maí 2014 og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi, en um „samskonar athæfi“, sem vísað var til í svarinu og framkvæmdastjóri áfrýjanda „taldi“ að stefndi „hefði gerst sekur um“, var ekkert sagt. Þar var heldur ekki vikið að afsláttum, sem stefndi hafi gefið viðskiptamönnum og áfrýjandi hefur borið fyrir sig að einnig hafi legið til grundvallar ákvörðun hans um uppsögn stefnda.

Vegna tilvísunar áfrýjanda til þess að hann hafi sett fram kæru til lögreglu er þess að gæta að það mál var fellt niður með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 9. október 2014 með vísan til 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Áfrýjandi kærði þá ákvörðun 1. nóvember 2014 til ríkissaksóknara, sem staðfesti hana 5. desember sama ár. Í rökstuðningi ríkissaksóknara fyrir þeirri niðurstöðu kom fram að kæranda hafi í skýrslutöku 18. ágúst 2014 verið bent á að koma að frekari gögnum kærunni til stuðnings, en kærandi hafi sagst hafa „tölvupósta og eitthvað fleira“ til þess að afhenda lögreglu. Þá yrði ekki annað ráðið af bréfi kæranda til stéttarfélags stefnda 26. ágúst 2014 en að kærandi hafi þá þegar verið að afla gagna sem lögregla hafi óskað eftir að fá send. Þau gögn hafi ekki borist. Samkvæmt gögnum sem áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt bar hann öðru sinni fram kæru til lögreglu 7. mars 2016, en samkvæmt málflutningi hans hér fyrir dómi hefur lögregla jafnframt fellt það mál niður.

II

Áfrýjandi heldur því fram að framkvæmdastjóri hans hafi áminnt stefnda munnlega á fundi 20. maí 2014 vegna þess að stefndi hafi ekki reikningsfært vörur, sem afhentar hafi verið Obladí ehf. 25. apríl og 13. maí sama ár. Fjármálastjóri áfrýjanda skýrði svo frá fyrir dómi að umræddan dag hafi verið haldinn fundur, þar sem allir starfsmenn í söludeild hafi verið teknir í viðtal. Hafi stefndi verið spurður út í áðurnefnd viðskipti og greint frá því að fyrirsvarsmaður félagsins væri vinur sinn og hlyti stefndi hafa gleymt að reikningsfæra viðskiptin. Aðspurð hvort stefndi hafi fengið áminningu á fundinum svaraði hún: „Mér finnst þetta náttúrulega bara vera pínu áminning ... já hann fékk það.“ Spurð um hvernig framkvæmdastjórinn hafi áminnt stefnda svaraði hún því til að hann hafi sagt stefnda að „þetta væri náttúrulega ekki í lagi og var vinsamlegast beðinn að laga þetta strax“. Þá hafi framkvæmdastjórinn í lok fundarins sagt stefnda að „hann hefði í rauninni ætlað að segja honum upp á þessum fundi, hann var með uppsagnarbréfið klárt“. Stefndi hafi á hinn bóginn sýnt iðrun, fundist þetta leiðinlegt og ætlað að „laga þetta“ og hafi þá verið ákveðið að „reyna að halda áfram með okkar samstarf.“ Stefndi hefur mótmælt að hann hafi fengið áminningu á fundinum.

Á atvinnurekanda hvílir sú skylda að tilkynna launþega með sannanlegum hætti að láti hann ekki af tiltekinni háttsemi í starfi geti það valdið brottrekstri úr því. Hefur áfrýjandi ekki með framburði áðurnefnds fjármálastjóra, gegn andmælum stefnda, sýnt fram á að hinn síðarnefndi hafi verið áminntur í skilningi vinnuréttar á fyrrnefndum fundi.

Samkvæmt kjarasamningi þeim, sem var í gildi á þeim tíma sem stefnda var sagt upp störfum, var áfrýjanda það heimilt án fyrirvara ef stefndi sýndi vítaverða vanrækslu í starfi sínu. Af gögnum málsins og málatilbúnaði áfrýjanda verður ráðið að ýmsar þær ástæður, sem hann teflir fram til stuðnings því að sér hafi verið heimilt að segja stefnda upp án fyrirvara, hafi ekki legið fyrir þegar það var gert. Þá varða þær ávirðingar, sem áfrýjandi ber stefnda á brýn og eru sannaðar, lága fjárhæð. Öðrum ávirðingum hefur stefndi andmælt og eru þær ýmist ekki studdar viðhlítandi gögnum eða þess eðlis með hliðsjón af starfi hans að áfrýjanda var ekki heimilt að víkja honum úr starfi vegna þeirra án undangenginnar áminningar. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Papco hf., greiði stefnda, Ottó Sverrissyni, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.    

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. nóvember 2015.

                Mál þetta höfðaði Ottó Sverrisson, Flétturima 21, Reykjavík, með stefnu birtri 26. janúar 2015 á hendur Papco hf., Stórhöfða 42, Reykjavík.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 9. október sl. 

                Stefnandi krefst greiðslu á 1.900.433 krónum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá stefnubirtingu, þ.e. 26. febrúar 2015, til greiðsludags.  Þá krefst hann miskabóta að fjárhæð 1.560.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. febrúar 2015 til greiðsludags.  Loks krefst hann málskostnaðar að mati dómsins. 

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefst hann þess að kröfurnar verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum krefst stefndi máls­kostnaðar að skaðlausu. 

                Stefnandi hóf störf sem sölumaður hjá stefnda í maí 2012.  Nokkru síðar varð hann sölustjóri styrktarsviðs fyrirtækisins.  Á árinu 2014 komu upp nokkur atvik sem urðu til þess að þann 15. ágúst sagði framkvæmdastjóri stefnda stefnanda upp störfum fyrirvaralaust.  Í uppsagnarbréfi segir að ástæða uppsagnar sé brot á trúnaðarskyldu. 

                Atvikin sem talin eru í greinargerð stefnda eru þessi:

                a.  Sala og afhending til veitingastaðarins Obladí án þess að reikningur hafi verið gerður. 

                b.  Stefnandi hafi í nokkrum tilvikum selt vörur með 100% afslætti, þ.e. gefið vöru. 

                c.  Sérstaklega er fjallað um 100% afslátt af pitsukössum og bréfpokum til fyrirtækisins Adams pizza. 

                d.  Að stefnandi hafi sagt samstarfsmönnum sínum að hann hygðist stofna fyrirtæki í samkeppni við stefnda og viljað ráða þá í vinnu. 

                a.  Viðskipti við veitingastaðinn Obladí

                Þann 25. apríl á stefnandi að hafa skráð inn pöntun fyrir veitingastaðinn Obladí og prentað út pöntunarstaðfestingu.  Hafi varan verið tekin til og stefnandi beðið sam­starfsmann sinn, sem var að fara á staðinn til að gera við uppþvottavél, að taka sendinguna.  Enginn reikningur hafi verið útbúinn vegna þessarar sendingar. 

                Vitnið Reynir Guðjónsson bar fyrir dómi að hann hefði farið á veitingastaðinn til þess að gera við uppþvottavél.  Hann hefði tekið með sér vörur til staðarins að beiðni stefnanda.  Þegar hann ætlaði að skrá varahlut á sama reikning hafi hann séð að vörurnar höfðu ekki verið reikningsfærðar. 

                Vitnið Lísbet Vala Snorradóttir, fjármálastjóri stefnda, sagði fyrir dómi að stefnandi hefði verið beðinn á fundi að reikningsfæra þessa sölu, en það hefði hann ekki gert.  Hún kvaðst hafa fylgst með því og þetta hefði ekki verið skráð inn á kenni­tölu fyrirtækisins Obladí.  Þá kvaðst hún telja að þetta hefði ekki verið skráð á stefnanda sjálfan.  Hún kvaðst muna að sumt á þessum afhendingarseðli passaði við rýrnun sem hefði komið fram á lagernum. 

                Stefnandi sagði að hann og forsvarsmaður umrædds veitingastaðar, Davíð Steingrímsson, væru félagar og hefðu verið vinir í mörg ár.  Hann vissi að hann hefði átt í erfiðleikum ímeð reksturinn á þessum tíma og viljað hjálpa honum.  Hann hefði skrifað þessa afhendingu á gulan miða, en ekki skráð á reikning fyrr en eftir að hann hafði verið minntur á þetta á fundi með framkvæmdastjóranum 8. maí.  Hann hefði þá skrifað þessa vöru á sig.  Sérstaklega aðspurður kvaðst hann telja að hann hafi mátt láta þennan viðskiptavin njóta þess afsláttar sem hann naut sem starfsmaður fyrirtækisins.  Hér hafi verið um að ræða lága fjárhæð og hann hafi komið með þetta fyrirtæki til stefnda, þar sem það væri enn í viðskiptum. 

                Þórður Kárason, framkvæmdastjóri stefnda, sagði að afsláttur starfsmanna væri hugsaður sem launauppbót til þeirra.  Ætlast væri til þess að hann væri eingöngu nýttur til kaupa á vörum fyrir þá sjálfa.  Í sama streng tóku flestir starfsmenn stefnda sem komu fyrir dóm. 

                Þann 13. maí á stefnandi að hafa afgreitt eiganda þessa veitingastaðar, borið vörur í bíl hans, en ekki gert neinn reikning.  Telur stefndi að enginn reikningur hafi verið gerður vegna þessarar afhendingar. 

                Vitnið Gunnar Veigar Ómarsson, sölustjóri stefnda, sagðist hafa séð að eigandi Obladí hefði komið og fengið 2 pakkningar af wc-pappír hjá stefnanda, en ekki hefði verið gerður neinn reikningur.  Lagði stefndi fram í málinu tölvupóst sem Gunnar hafði sent fjármálastjóra fyrirtækisins þennan dag og sagt henni frá þessu. 

                Stefnandi staðfesti að hann hefði látið eiganda Obladí fá tvær pakkningar, eina af wc-pappír og eina af eldhúsrúllum.  Þetta hefði svo verið skrifað á hann sjálfan á reikningi sem hafi verið greiddur 4. júní 2014. 

                Afrit af þessum reikningi hefur verið lagt fram í dóminum og má sjá að þar er auk annars skuldfært fyrir eina pakkningu af eldhúsrúllum og tvær af wc-pappír. 

                Vitnið Davíð Steingrímsson, forsvarsmaður Obladí, sagði í skýrslu sinni að hann og stefnandi hefðu þekkst í 25 ár.  Þegar stefnandi hafi farið að vinna hjá stefnda hafi hann flutt viðskiptin þangað.  Fyrirtæki sitt hefði verið illa statt á þessum tíma og stefnandi hefði skrifað á sig sjálfan þrjár eða fjórar pantanir.  Meðal annars hafi hann einu sinni farið og fengið vöru sem hefði verið skrifuð hjá stefnanda.  Taldi hann að það hefðu verið til nótur um allar þessar afhendingar. 

                b.  Vörur gefnar (100% afsláttur)

                Í greinargerð stefnda eru talin nokkur dæmi um að stefnandi hafi selt vörur með 100% afslætti, þ.e. gefið en ekki selt.  Síðasti reikningur með 100% afslætti hafi verið gefinn út 19. maí.  Hefur stefndi lagt fram fimm reikninga með þessum afslætti, tvo frá árinu 2013 og þrjá dags. í apríl og maí 2014. 

                Vitnið Lísbet Vala Snorradóttir sagði að starfsmenn hefðu ekki heimild til að ákveða 100% afslátt af vörum til viðskiptavina.  Fram kom hjá henni og Þórði Kárasyni framkvæmdastjóra að stundum væru gefin lítil sýnishorn.  Þá væri búnaður eins og sápuskammtarar oft gefinn, en þá væri sápan í skammtarann seld. 

                Stefnandi skýrði umrædd fimm tilvik fyrir dómi.  Sagði hann að afhending á kaffimálum til Kennarasambandsins hefði verið liður í tilraun hans til að ná Rimaskóla í viðskipti til stefnda.  Formaður sambandsins hefði verið starfsmaður í skólanum.  Þessi tilraun hefði tekist.  Skólar væru nú í miklum viðskiptum við stefnda.  Önnur dæmi væru sams konar, hann hefði verið að koma á eða styrkja viðskiptasambönd stefnda, eða afla auglýsinga.  Þetta hefði verið innan þeirra heimilda sem hann hefði haft.  Eitt dæmið væri styrkur til kraftlyftingamanna á Vesturlandi, hann hefði í stað fjárstyrks látið þá fá vöru til að selja. 

                Fundur aðila 20. maí 2014

                Þann 20. maí voru starfsmenn kallaðir á fund hver fyrir sig.  Stefnandi var einnig kallaður á fund.  Framkvæmdastjóri stefnda, Þórður Kárason, kvaðst hafa verið tilbúinn með uppsagnarbréf til að afhenda stefnanda á þessum fundi.  Hann hefði áminnt stefnanda fyrir að afhenda vörur án þess að skrifa reikning.  Stefnandi hefði þá sagst hafa bara gleymt því, lofað bót og betrun og að hann myndi skrá þessar úttektir strax.  Stefndi segir að hann hafi ekki gert það. 

                Vitnið Lísbet Vala Snorradóttir, sagði að stefnandi hefði fengið áminningu á þessum fundi.  Framkvæmdastjórinn hefði sagt honum í lok fundarins að hann hefði ætlað að segja honum upp, en þar sem stefnandi hefði sýnt iðrun hefði það ekki verið gert.  Stefnanda hefði verið sagt að hann yrði að laga það strax sem aflaga hefði farið. 

                Stefnandi sagði að hann hefði ekki verið áminntur á þessum fundi.  Honum hefði verið bent á ákveðin atriði og hann hefði lagfært þau. 

                c.  Afsláttur (gjöf) til Adams pizza

                Þann 15. ágúst útbjó stefnandi pöntun frá Adams pizza með 100% afslætti af 20.578 krónum. 

                Samstarfsmaður sagði seinna frá því að hann hefði þrisvar keyrt vörur til Adams pizza fyrir stefnanda, en ekki séð neinn reikning.  Stefnandi hafi sagst mundu ganga frá reikningi sjálfur.  Þetta hafi ekki sést í tölvukerfum stefnda. 

                Vitnið Smári Sigmundsson kvaðst að beiðni stefnanda hafa farið þrisvar sinnum með pitsukassa til Adams pizza.  Í fyrstu ferðinni hafi hann tekið þrjú búnt af hverri tegund.  Sagði hann að stefnandi hefði sagst mundu setja þetta inn á reikninga eftir helgina.  Hann hefði farið að skoða í tölvukerfinu eftir að stefnandi var hættur og þá hefði hann ekki fundið neinar sendingar á mánudögum, bara á miðvikudögum og fimmtudögum.  Hann hefði sagt Þórði framkvæmdastjóra frá þessu. 

                Vitnið Gunnar Veigar Ómarsson sagði að auglýsingakaup að fara í gegnum framkvæmdastjórann.  Hann ákvæði kaup á auglýsingum.  Sjálfur gæti hann ákveðið minni háttar auglýsingakaup. 

                Stefnandi sagðist hafa afhent þessa kassa og poka til Adams pizza.  Sagði hann að þarna hefði hann verið að afla mikilla viðskipta við nokkra pitsustaði fyrir stefnda.  Það hefði verið tiltölulega lág fjárhæð sem þarna hefði verið gefin eftir til að tryggja viðskipti. 

                d.  Hugmyndir stefnanda um stofnun fyrirtækis í samkeppni við stefnda 

                Í júní 2014 fór stefnandi og tveir aðrir sölumenn í ferð um Suðurland.  Stefndi segir að í þessari ferð hafi stefnandi rætt það opinskátt við samstarfsmenn sína að hann hygðist stofna fyrirtæki sem ætti að keppa við stefnda.  Þessir samstarfsmenn stefnanda hafi sagt framkvæmdastjóra stefnda frá þessum samræðum þeirra. 

                Vitnið Reynir Guðjónsson kvað stefnanda hafi verið að tala um að hann væri tilbúinn með eitthvert skjal sem þyrfti til að stofna fyrirtæki.  Nánar gat hann ekki sagt frá þessu atriði. 

                Vitnið Smári Sigmundsson staðfesti að stefnandi hefði sagst vera tilbúinn með eitthvað sem ætti bara eftir að senda. 

                Stefnandi sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði látið endurskoðanda útbúa fyrir sig skjöl um stofnun einkahlutafélags á árinu 2011, skömmu áður en hann hóf störf hjá stefnda.  Hann hefði ekki stofnað félagið þá.  Það hefði alltaf blundað í honum að stofna eigið fyrirtæki, en það hefði ekki verið sérstaklega í deiglunni á þessum tíma.  Hann hefði ekki sagst ætla að stofna fyrirtæki í samkeppni við stefnda. 

                Þórður Kárason sagði að sér hefði borist til eyrna að stefnandi hygðist stofna fyrirtæki í samkeppni við stefnda og hefði boðið tveimur sölumönnum stefnda starf hjá fyrirtækinu.  Þetta hefði ásamt fyrri atvikum orðið til þess að hann ákvað að segja stefnanda upp. 

                e.  Önnur atriði

                Vitnið Lísbet Vala Snorradóttir sagði að starfsmenn gætu keypt vörur á kostnaðarverði fyrir sjálfa sig.  Það væri síðan dregið af launum viðkomandi.  Þá mætti enginn afgreiða sig sjálfur við slík kaup. 

                Vitnið Aðalheiður Gréta Guðmundsdóttir sá um sölu af lager fyrirtækisins til starfsmanna.  Hún sagði að þeir ýmist staðgreiddu eða fengju skrifað og greiddu þá um mánaðamót.  Hún sagði að með leyfi starfsmanns gæti einhver annar komið og fengið vöru sem væri skrifuð á reikning starfsmannsins. 

                Vitnið Gunnar Veigar Ómarsson sagði að hann og aðrir starfsmenn mættu kaupa vörur á kostnaðarverði.  Það væri eingöngu ætlað fyrir þá sjálfa og þeirra heimili.  Þetta væri hugsað sem kjarabót fyrir starfsmennina. 

                Vitnið Reynir Guðjónsson sagði að það væru reglur um að hver gæti tekið út fyrir sig á kostnaðarverði. 

                Vitnið Smári Sigmundsson sagði að starfsmenn gætu keypt vörur fyrir sjálfa sig, ekki fyrir allan almenning. 

                Stefnandi kvaðst ekki hafa keypt mikið af vörum með starfsmannaafslætti.  Hann hefði talið þessi kaup fyrir vin hans hjá Obladí vera innan marka, þetta hefðu verið 10 til 15 þúsund krónur. 

                Vitnið Anton H. Heimdal Sigrúnarson var lagerstjóri hjá stefnda, en er nú hættur störfum.  Hann sagði að hann hefði stöku sinnum rekist á stefnanda á lagernum um helgar.  Einu sinni hefði hann verið að taka til vöru fyrir viðskiptavin og sagt að hann myndi ganga frá reikningi eftir helgina.  Anton kvaðst einu sinni hafa tekið eftir því að lagerstaðan hefði verið skráð röng og þá hefði stefnandi sagt að hann hefði gleymt að gera reikning og að hann myndi gera það. 

                Stefnandi sagði að sér hefði gengið mjög illa að fá vinnu aftur eftir að honum var sagt upp.  Stefndi hefði dregið að senda nauðsynleg vottorð til Vinnumála­stofnunar, þannig að hann hafi ekki fengið atvinnuleysisbætur.  Þá hefðu einhverjir þeirra sem hann sótti um vinnu hjá leitað eftir umsögn stefnda.  Sagðist hann vita að mannorð sitt væri skemmt á þessum markaði. 

                Þórður Kárason neitaði því að hann hefði staðið fyrir ófrægingarherferð á hendur stefnanda.  Hann staðfesti að starfsmannastjóri Hagkaups hefði sótt fast að fá að ræða við hann um stefnanda og hefði hann orðið við því.  Hann kvaðst ekki hafa sagt að stefnandi hefði stolið frá fyrirtækinu, en hann hefði sagt henni sína skoðun í trúnaði. 

                Arndís Arnarsdóttir, starfsmannastjóri Hagkaups, sagði fyrir dómi að stefnandi hefði sótt um vinnu hjá versluninni.  Hún hefði farið yfir ferilskrá hans og hefðu allir fyrri vinnuveitendur hans veitt honum góð meðmæli, nema stefndi.  Hún hefði talað við Þórð Kárason, sem hefði ekki gefið mjög ákveðið í skyn að stefnandi hefði verið óheiðarlegur.  Hann hefði sagt að það hefði verið músagangur hjá fyrirtækinu. 

                Stefnandi kvaðst ekki hafa gefið of mikið af sýnishornum í sölutilraunum sínum. 

                Stefndi kærði stefnanda til lögreglu fyrir fjárdrátt.  Ekki hafa önnur gögn um þessa kæru verið lögð fram í málinu en bréf ríkissaksóknara, dags. 5. desember 2014, þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að vísa kærunni frá samkvæmt 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi gerir í málinu annars vegar kröfu vegna ólögmætrar fyrirvaralausrar uppsagnar, hins vegar kröfu um miskabætur vegna ófrægingarherferðar. 

                Stefnandi byggir á því að þær sakir sem stefndi ber á hann séu ósannaðar.  Hann hafi ekki gerst sekur um þá vítaverðu háttsemi sem stefndi lýsi.  Eigi hann rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti. 

                Stefnandi kveðst við starfslok sín hafa átt kröfu til greiðslu á 2.346.355 krónum, sem hann sundurliðar svo:

                               Launatímabil                      Tímar/einingar                       Taxti                   Launakrafa

 

Grunnlaun            01.09.2014-30.11.2014                    3,00                       520.000 kr.           1.560.000 kr.

Desemberuppbót 01.12.2013-30.11.2014                    12/12                       73.600 kr.                73.600 kr.

Orlofsuppbót       01.05.2014-30.11.2014                    7/12                         39.500 kr.                23.042 kr.

Orlof 13,04%       01.05.2013-30.11.2014                    225,47                       3.059 kr.              689.713 kr.

____________________________________________________________________________

Samtals                                                                                                                                              2.346.355 kr.

                Frá þessari fjárhæð dregur stefnandi 445.922 krónur, sem stefndi greiddi þann 30. september 2014.  Krafa samkvæmt þessum lið er því að fjárhæð 1.900.433 krónur. 

                Miskabótakrafa stefnanda er byggð á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Stefndi hafi við uppsögnina gengið fram á særandi og harkalegan hátt og með því gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn æru, persónu og friðhelgi stefnanda.  Hinar röngu fullyrðingar og kæra til lögreglu spyrjist fljótt út og skaði æru stefnanda og valdi honum álitshnekki. 

                Stefnandi segir að stefndi hafi dreift út sögusögnum til ýmissa aðila, t.d. birgja og annarra sölumanna, um að stefnandi væri þjófur.  Hafi hann staðið fyrir skipulagðri ófrægingarherferð. 

                Stefnandi segir að mál þetta hafi valdið sér miklum andlegum þjáningum og öðrum óþægindum.  Hann hafi þjáðst af þunglyndi og kvíða.  Brot stefnda sé alvarlegt, en hann hafi ætlað sér að komast hjá því að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti með því að þjófkenna hann og kæra til lögreglu.  Þá hafi hann vís­vitandi tafið afgreiðslu atvinnuleysisbóta til stefnanda. 

                Stefnandi miðar miskabótakröfu sína við grunnlaun í þrjá mánuði og segir að hún sé hófleg. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi byggir á því að sér hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum fyrirvaralaust.  Trúnaðarbrestur hafi orðið milli þeirra. 

                Stefnandi hafi afhent vöru ýmist með 100% afslætti eða án þess að reiknings­færa hana.  Þá hafi hann misfarið með heimildir til að kaupa vörur til heimilisnota á kostnaðarverði.  Hann hafi haldið þessu áfram eftir að hann var áminntur.  Hann hafi veitt styrki þvert ofan í áætlanir fyrirtækisins um styrkveitingar og um leið hunsað fyrirmæli um að ráðfæra sig við framkvæmdastjóra.  Þá hafi hann tekið of mikið af vörum út sem sýnishorn. 

                Síðan vísar stefndi í greinargerð sinni til þeirra atvika sem lýst er hér að framan og er ekki nauðsynlegt að endurtaka þá lýsingu hér. 

                Heimild til fyrirvaralausrar uppsagnar telur stefndi sig hafa samkvæmt grein 12.1 í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins. 

                Stefndi mótmælir kröfu um miskabætur.  Þau atvik sem hún sé byggð á séu ósönnuð, en það sé rangt að hann hafi hafið skipulagða ófrægingarherferð gegn stefnanda. 

                Þótt uppsögn hafi valdið stefnanda óþægindum leiði það ekki til þess að hann geti krafist miskabóta.  Þá er því mótmælt að stefndi hafi ætlað sér að komast hjá greiðslu launa í uppsagnarfresti með því að kæra stefnanda til lögreglu.  Einnig er því mótmælt að stefndi hafi tafið afgreiðslu á umsókn stefnanda um atvinnuleysisbætur. 

                Til vara krefst stefndi lækkunar beggja kröfuliða stefnanda.  Hann gerir þá athugasemd við framsetningu stefnanda á kröfu hans að hann setji fram kröfu án tillits til þess sem greitt hafði verið, en dragi svo greiðsluna frá.  Geri hann ekki grein fyrir því hvernig frádráttur þessi skiptist á einstaka kröfuliði.  Krafan sé óskýr og útilokað fyrir stefnda að átta sig á samsetningu hennar. 

                Krafa um orlof sé óljós.  Ekki komi fram á hverju krafa um greiðslu upp­safnaðra orlofstíma á núverandi og fyrra orlofsári byggist.  Telur stefndi sig hafa gert upp allar orlofsgreiðslur til stefnanda.  Þá bendir stefndi á að ekki sé hægt að flytja óúttekna orlofsdaga á milli ára og óska eftir því að þeir verði greiddir út. 

                Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda sem of hárri og órökstuddri.  Atvik sem hér sé byggt á séu ósönnuð. 

                Niðurstaða

                Óumdeilt er að stefnandi var ráðinn til starfa með þriggja mánaða gagn­kvæmum uppsagnarfresti.  Honum var vikið úr starfi fyrirvaralaust 15. ágúst 2014 og voru honum greidd laun til starfsloka, en ekki í uppsagnarfresti.  Telur stefndi að sér hafi verið heimilt að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi.

                Um ráðningu stefnanda giltu ákvæðin í kjarasamningi VR og Samtaka atvinnulífsins.  Samkvæmt lokamálslið greinar 12.1 gildir uppsagnarfrestur ekki ef starfsmaður sýnir vítaverða vanrækslu í starfi sínu.  Samkvæmt orðanna hljóðan er gildissvið þessarar sérreglu tiltölulega þröngt, en telja verður að hér gildi almennar reglur um verulegar vanefndir og brot starfsmanns.  Trúnaðarbrestur milli starfsmanns og vinnuveitanda heimilar ekki fyrirvaralausa uppsögn í sjálfu sér, skoða verður ástæður trúnaðarbrestsins. 

                Stefnandi veitti það sem kallað er 100% afslátt af nokkrum reikningum.  Ekki var um háar fjárhæðir að ræða, en stefnandi kveðst hafa verið annars vegar að styrkja tiltekin málefni í samræmi við stefnu fyrirtækisins, hins vegar að styrkja viðskipta­sambönd eða koma þeim á.  Hefur hann gefið fullnægjandi skýringar á þeim fimm dæmum um þessar gjafir sem stefndi telur til og að þær hafi samræmst stefnu fyrir­tækisins.  Er ósannað að þessum afhendingum hafi hann brotið af sér gegn stefnda eða vanrækt skyldur sínar á annan hátt.  Þá hefur hann skýrt afhendingu án endurgjalds til fyrirtækisins Adams pizza með því að hann hafi verið að tryggja viðskiptahagsmuni stefnda.  Þeim skýringum hefur stefndi ekki hnekkt.  Þessi atriði heimiluðu stefnda því ekki að segja stefnanda upp störfum fyrirvaralaust. 

                Framkvæmdastjóri stefnda bar fyrir dómi um nákvæmar fyrirætlanir stefnanda um stofnun eigin fyrirtækis og samkeppni við stefnda.  Hafði hann þessa vitneskju sína eftir tveimur starfsmönnum sem farið höfðu með stefnanda í söluferð.  Starfs­mennirnir báðir komu fyrir dóm og báru ekki um annað en að stefnandi hefði sagt að hann ætti öll gögn sem þyrfti til að stofna fyrirtæki.  Gaf þetta stefnda tilefni til að spyrja stefnanda um fyrirætlanir hans, en af þeim gögnum og þeirri sönnunarfærslu sem fram fór fyrir dóminum er augljóst að stefndi hefur dregið allt of víðtækar ályktanir af frásögnum starfsmanna sinna og gripið til ráðstafana sem voru tilefnis­litlar.  Þetta tal stefnanda gaf stefnda ekki heimild til að segja honum upp störfum fyrirvaralaust. 

                Um viðskipti stefnanda við fyrirtæki vinar síns, Obladí, hefur stefndi gert athugasemdir og lúta megin málsástæður hans að brotum stefnanda gagnvart fyrirtækinu í þeim skiptum. 

                Sannað er að stefndi reikningsfærði ekki strax allt sem hann lét fyrirtæki þessu í té.  Skýrslur starfsmanna stefnda fyrir dóminum benda þó fremur til þess að hann hafi reikningsfært þær síðar.  Í framburði Antons Sigrúnarsonar kom fram að vöru sem vantaði á lagerinn hafi hann beðið stefnanda að reikningsfæra.  Fullyrðingar um að stefnandi hafi komið á lagerinn um helgar til að afhenda vörur eru ekki svo skýrar að af þeim verði dregnar ályktanir.  Er ósannað að einhverjar afhendingar stefnanda á vörum af lager fyrirtækisins hafi enn verið óreikningsfærðar er honum var vikið úr starfi. 

                Telja verður að stefnanda hafi verið óheimilt að skrá vöru, sem hann afhenti þessu fyrirtæki vinar síns, sem sölu til sjálfs sín á þeim kjörum sem starfsmönnum stóðu til boða.  Hlaut honum að vera ljóst að sala til viðskiptavina ætti að vera með venjulegum viðskiptaskilmálum, eftir atvikum með þeim afslætti sem um semdist innan þeirra marka sem voru sett.  Hér var um fá tilvik að ræða og tiltölulega lágar fjárhæðir.  Verður þessi yfirsjón stefnanda ekki metin svo alvarleg að hún heimilaði stefnda að segja honum upp fyrirvaralaust. 

                Sú málsástæða stefnda að stefnandi hafi keypt óhóflega af fyrirtækinu á kostnaðarverði er ekki rökstudd nánar en með tilvísun til framangreindra viðskipta við Obladí.  Framlögð gögn benda ekki til þess að stefnandi hafi keypt óhóflegt magn á þeim kostakjörum sem starfsmönnum voru veitt.  Þarf ekki að fjalla frekar um þessa málsástæðu. 

                Sú fullyrðing að stefnandi hafi gefið of mikið af sýnishornum er ekki studd gögnum og er ósönnuð. 

                Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á að stefnda hafi verið heimilt að segja stefnanda upp störfum fyrirvaralaust.  Þarf í þessu sambandi ekki að leysa úr því hvort hann hafi verið áminntur á fundinum 20. maí.  Þau atriði sem vitnað er til duga ekki, hvorki hvert fyrir sig né öll samanlögð, til að heimila fyrirvaralausa uppsögn.  Verður að dæma stefnda til að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti. 

                Til stuðnings miskabótakröfu sinni fullyrðir stefnandi að framkvæmdastjóri stefnda hafi staðið fyrir ófrægingarherferð á hendur sér.  Sönnunargögn um þetta eru ekki færð fram fyrir dóminum.  Skýrsla starfsmannastjóra Hagkaups um samtal við framkvæmdastjórann sýnir ekki að hann hafi gerst sekur um meingerð gegn æru eða persónu stefnanda, en ósannað er að hann hafi borið á hann sakir um auðgunarbrot.  Verður að hafna kröfu stefnanda um miskabætur. 

                Stefndi mótmælir útreikningi stefnanda á kröfunni.  Þau mótmæli eru ekki svo skýr að dugi til að hnekkja útreikningi stefnanda.  Stendur það stefnda næst að upplýsa hvernig reikna ætti laun sem stefnanda hefði borið á umræddu tímabili.  Verður aðal­krafa stefnanda samkvæmt þessum lið tekin til greina. 

                Stefndi verður dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem að virtu umfangi málsins og viðbættum virðisaukaskatti er ákveðinn 1.200.000 krónur. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Papco hf., greiði stefnanda, Ottó Sveinssyni, 1.900.433 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. febrúar 2015 til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.