Print

Mál nr. 436/2016

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)
gegn
Styrmi Gunnarssyni (sjálfur)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Verjandi
  • Réttlát málsmeðferð
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að S yrði leystur frá störfum sem verjandi X.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. maí 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili yrði leystur frá störfum sem verjandi í nánar tilgreindu sakamáli og annar skipaður í hans stað. Kæruheimild er í d. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa hans verði tekin til greina. 

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 skal áður en verjandi er skipaður eða tilnefndur gefa sakborningi kost á að benda á lögmann til að fara með þann starfa. Að jafnaði skal fara eftir ósk sakbornings við skipun eða tilnefningu verjanda. Þessi réttur sakbornings er varinn af c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en þar segir að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli fá að halda uppi vörnum „með aðstoð verjanda að eigin vali.“ Réttur sakbornings til að fá verjanda skipaðan eða tilnefndan að eigin vali sætir þó þeirri takmörkun að heimilt er með atbeina dómara að leysa verjanda frá störfum og skipa annan í hans stað, ef ætla má að verjandi muni hindra eða hafi hindrað rannsókn máls með ólögmætum hætti eða hafi brotið gegn starfsskyldum sínum á annan hátt, sbr. 2. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008.

Þegar metið er hvort verjanda verði vikið frá störfum á þessum grundvelli er þess að gæta að sú ráðstöfun felur í sér takmörkun á mikilvægum rétti sakaðs manns, sem er liður í því að tryggja honum réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Að því gættu verður þessari heimild ekki beitt nema verjandi hafi hindrað eða tiltekin líkindi standi til að hann muni hindra rannsókn svo einhverju máli skipti. Að sama skapi verður brot gegn starfsskyldum að öðru leyti að vera þess eðlis að það geti að einhverju marki haft áhrif á málsmeðferðina, sbr. dóm Hæstaréttar 14. október 2015 í máli nr. 688/2015.

Í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ekki lagt bann við því að verjandi eigi samtal við mann, sem ráðgert er að gefi skýrslu sem vitni við aðalmeðferð máls fyrir dómi, sbr. dóm Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014. Þá er ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að varnaraðili hafi reynt að hafa áhrif á þann framburð sem vitnið á eftir að gefa við aðalmeðferð málsins. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 30. maí 2016.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi, sóknaraðili þessa máls, krafðist þess með beiðni dags. 25. maí sl., sem móttekin var sama dag, að Styrmir Gunnarsson héraðsdómslögmaður, varnaraðili þessa máls, yrði leystur frá störfum sem verjandi X, kt. [...], í málinu nr. S-[...]/2016, og að annar verjandi yrði skipaður í hans stað. Vísar sóknaraðili til 2. mgr. 34. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Varnaraðili mótmælti framkominni kröfu í þinghaldi 26. maí sl., og krafðist úrskurðar dómara um kröfuna. Varnaraðili óskaði ekki eftir að leggja fram greinargerð og var mál þetta tekið til úrskurðar þann sama dag eftir að sóknar- og varnaraðili höfðu tjáð sig um framkomna kröfu.

I.

Krafa þessi barst dómara degi fyrir fyrirhugaða aðalmeðmeðferð máls ákæruvaldsins gegn X, en með ákæru lögreglustjórans á Suðurlandi, dags. 14. mars. sl., er ákærða gefin að sök hegningar- og umferðarlagabrot, þ.e. að hafa ekið bifreiðinni [...] á bifreiðaplani við bæinn [...] í [...] án nægjanlegrar aðgæslu þann [...] 2015 með þeim afleiðingum að stúlka fædd árið 2012 varð fyrir bifreiðinni og lést nær samstundis.

II.

Í kröfu sóknaraðila kemur fram að A hafi verið eina vitnið að sjálfum atburðinum. Í sakamálinu liggi frammi orðrétt endurrit ítarlegrar skýrslu sem lögregla hafi tekið af vitninu, sem og hljóðupptaka sem varnaraðili hafi hlýtt á. Sóknaraðili kveður framangreint vitni hafa leitað til lögreglu þann 24. maí sl., eftir símtal sem vitnið hafi fengið frá varnaraðila þá skömmu áður. Segir í kröfu sóknaraðila að í tilefni tilkynningarinnar hafi verið tekin símaskýrsla af A og eiginmanni hennar, en hann hafi heyrt hluta af umræddu símtali varnaraðila við vitnið.

Vísar sóknaraðili til þess að ætla megi að úrslit sakamálsins kunni að verulegu leyti að ráðast af framburði vitnisins fyrir dómi. Samkvæmt framburði A og eiginmanns hennar megi ætla að varnaraðili hafi í símtalinu verið að spyrja vitnið A eða fjallað um ákveðin atriði sem koma fram í rannsóknargögnum lögreglu, en það telji sóknaraðili í hæsta máta óeðlilegt m.a. með vísan til 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008. Þá vísar sóknaraðili í þessu sambandi að nokkru leyti til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 145/2014, sérstaklega með hliðsjón af því að ítarlegur framburður vitnisins liggi fyrir í rannsóknargögnum málsins. Þá telur sóknaraðili sýnt að umrætt símtal og framkoma varnaraðila við vitnið í símtalinu, hafi komið vitninu í það mikið uppnám að það geti haft raunhæf áhrif á framburð þess fyrir dómi og að varnaraðili hafi ekki gætt að ákvæðum 21. gr. siðareglna lögmanna um tillitssemi við vitnið í því sambandi, og að framangreind háttsemi varnaraðila sé þess eðlis að hún geti að einhverju marki haft áhrif á meðferð sakamálsins og vísar sóknaraðili í því sambandi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 688/2015.

III.

Varnaraðili, sem hafnar og mótmælir kröfu sóknaraðila, gerði grein fyrir símtali því sem hann átti við vitnið A og er tilefni máls þessa. Til að gæta samræmis milli aðila þykir rétt að gera grein fyrir frásögn varnaraðila af umræddu símtali sem fram kom í ræðu varnaraðila fyrir dómi. Varnaraðili kvaðst í upphafi hafa kynnt sig og greint vitninu frá því að hann væri verjandi ákærða X. Þá kvaðst hann hafa spurt vitnið hvort vel stæði á hjá vitninu og hvort vitnið væri tilbúið að ræða við varnaraðila og hafi vitnið svarað báðum spurningum játandi. Þá kvaðst varnaraðili hafa greint vitninu frá því að hann hefði undir höndum afrit af skýrslu sem vitnið gaf hjá lögreglu á rannsóknarstigi og yfirlitsmynd af vettvangi, en fyrir liggur að vitnið merkti inn á þá mynd þegar það gaf skýrslu hjá lögreglu. Varnaraðili kvaðst síðan hafa vísað til þess sem fram kemur í lögregluskýrslu vitnisins um að hún hafi sett föt inn í bifreið áður en hún gekk yfir bifreiðastæðið að hestum sem þar voru í girðingu. Í  framhaldi hafi hann spurt vitnið um númer bifreiðarinnar. Lengra hafi samræður þeirra ekki orðið þar sem vitnið hafi brugðist ókvæða við og hellt yfir varnaraðila skömmum í símtalinu. Hafnaði varnaraðili alfarið hugleiðingum vitnisins um að hann hafi ætlað að leggja vitninu orð í munn eða koma því úr jafnvægi. Kvaðst varnaraðili hafa verið kurteis, nærgætinn og tillitssamur í símtalinu. Annað sé eingöngu upplifun vitnisins sjálfs. Þá vísaði varnaraðili til lögbundinna skyldna verjanda sakaðra manna og mikilvægi þess að þeir geti sinnt skyldum sínum.  

IV.

Í máli þessu gerir sóknaraðili kröfu um að varnaraðili, sem skipaður var verjandi að ósk ákærða X í máli Héraðsdóms Suðurlands nr. [...]/2016, verði leystur frá störfum. Byggir sóknaraðili kröfu sína á upplýsingum sem lögreglu hafi borist frá vitni í framangreindu sakamáli, A, og sambýlismanni hennar, en vitnið A hafði verið boðuð til skýrslutöku við aðalmeðferð sakamálsins sem til stóð að færi fram  dagana 26. og 27. maí sl.

Kröfu sóknaraðila fylgdi samantekt lögreglu á símaskýrslum sem teknar voru annars vegar af vitninu A og hins vegar af sambýlismanni hennar, B í kjölfar tilkynningar vitnisins um framangreint símtal. Mun B hafa, eftir að A kveikti á hátalara símtækisins, heyrt meginhluta símtals varnaraðila við A, sem samkvæmt frásögn hennar fór fram fór þriðjudaginn 24. maí sl., klukkan 15:22. Samkvæmt samantekt lögreglu hafi varnaraðili greint A frá því að hann hefði undir höndum yfirlitsmynd af bílunum og framburð vitnisins hjá lögreglu og að hann væri viss um að nokkur atriði vantaði upp á í lögregluskýrslunni. Einnig hafi varnaraðili rætt um að minni manna væri misjafnt. Hafi varnaraðili sagt að vitnið hafi umrætt sinn byrjað að setja dót í bílinn og gengið síðan að hestum sem þar voru. Í framhaldi hafi varnaraðili spurt vitnið á hvaða bifreið hún hafi verið og um bílnúmerið. Á þeim tímapunkti í símtalinu hafi vitnið misst stjórn á skapi sínu. Í samantekt lögreglu af skýrslutöku yfir B kom fram að varnaraðili hafi verið kurteis og rólegur og harmað að símtalið hafi komið vitninu A í uppnám. Staðfesti hann frásögn A, sem rakin er hér að framan, og að A hafi í kjölfar spurningar um hvar bifreið hennar hafi verið á vettvangi í umrætt sinn misst stjórn á sér, orðið mjög reið, titrað og skolfið og afhent B símtækið.  

Sú meginregla gildir í sakamálaréttarfari að jafnan skal fara eftir ósk sakbornings við skipun verjanda, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008. Er þessi réttur sakbornings varinn af c-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar enda talinn liður í réttlátri málsmeðferð. Fyrir liggur að varnaraðili var verjandi ákærða á rannsóknarstigi og þá óskaði ákærði eftir að varnaraðili yrði skipaður verjandi hans við þingfestingu sakamálsins fyrir dómi þann 7. apríl sl. Við þeirri ósk ákærða var orðið enda ekkert fram komið um að undantekningar frá framangreindri meginreglu sem fram koma í 4. og 5. mgr. 33. gr. áðurnefndra laga og  í niðurlagsákvæði 3. mgr. áðurnefndrar lagagreinar hafi átt við. 

Af kröfu sóknaraðila verður ekki annað ráðið en að hann geri ekki athugasemd við að varnaraðili hafi sett sig í samband við vitnið. Í ræðu sóknaraðila fyrir dómi kom fram að verjendur hafi rétt að þessu leyti, en línan væri hárfín. Það er mat sóknaraðila að með símtali varnaraðila við vitnið A hafi varnaraðili verið að spyrja vitnið eða fjalla um tiltekin atriði sem koma fram í rannsóknargögnum lögreglu og sú háttsemi varnaraðila hafi verið í hæsta máta óeðlileg m.a. með vísan til 3. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008, en í því ákvæði og 2. mgr. sömu greinar er fjallað um það hvernig standa skuli að skýrslutöku fyrir dómi meðal annars ef vitnið hefur áður gefið skýrslu hjá lögreglu. Þá er það einnig mat sóknaraðila að varnaraðili hafi í símtalinu brotið gegn starfskyldum sínum með því að koma vitninu í mikið uppnám sem geti haft raunhæf áhrif á skýrslugjöf vitnisins fyrir dómi og að einhverju marki á meðferð sakamálsins. Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili til 2. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008.

Ákvæði 2. mgr. 34. gr. áðurnefndra laga felur í reynd í sér takmörkun á mikilvægum rétti sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar sem rakinn hefur verið hér að framan. Í 2. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008 segir, að ef ætla má að verjandi muni hindra eða hafi hindrað rannsókn máls með ólögmætum hætti eða hafi brotið gegn starfsskyldum sínum á annan hátt getur ákærandi eða lögregla leitað atbeina dómara og krafist þess að hann verði leystur frá störfum og annar skipaður í hans stað.

Hæstiréttur Íslands hefur í dómi frá 14. október 2015 í málinu nr. 688/2015 vísað til þess að framangreindri heimild 2. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008, verði ekki beitt nema verjandi hafi hindrað eða tiltekin líkindi standi til að hann muni hindra rannsókn svo einhverju máli skipti fyrir hana. Þá verði brot gegn starfsskyldum að öðru leyti að vera þess eðlis að það geti að einhverju marki haft áhrif á málsmeðferðina. Í framangreindu máli var talið að verjandi hafi brotið gegn þagnarskyldu verjanda en niðurstaða dómsins var að það brot verjandans hafi í því tiltekna máli ekki haft þau áhrif fyrir rannsókn málsins að næg efni væru til að víkja verjandanum frá störfum. Í dómi Hæstaréttar frá 12. febrúar 2015 í málinu nr. 145/2014 kemur fram að samtöl verjanda við vitni séu ekki andstæð lögum nr. 88/2008, en þó verði verjandi að gæta þess að hafa engin áhrif á framburð þeirra sem eiga eftir að gefa skýrslu fyrir dómi. Vísar Hæstiréttur til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 88/2008, þar sem fram kemur að það er hlutverk verjanda að draga fram í máli allt sem varða má skjólstæðingi hans til sýknu eða hagsbóta og gæta réttar hans í hvívetna, og meginreglu 18. gr. laga nr. 77/1988 um lögmenn, sem leggur þá skyldu á herðar lögmönnum að þeim ber aðeins að neyta lögmætra úrræða til að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna.    

Við mat á því hvort leysa eigi varnaraðila frá störfum í sakamáli því sem rekið er hér fyrir dómnum gegn X verður að líta til þeirra lagaákvæða sem rakin hafa verið hér að framan og snúa annars vegar að rétti sakbornings og skyldum verjanda og hins vegar til þess sem fram er komið í máli þessu um samskipti varnaraðila við vitnið A. Það er mat dómsins að varnaraðili hafi ekki með samtali sínu við vitnið A með ólögmætum hætti hindrað rannsókn sakamálsins svo einhverju máli skipti. Þá þykja þau atriði sem varnaraðili spurði vitnið um í símtalinu ekki vera þess eðlis að þau muni hindra þá sönnunarfærslu sem fram mun fara fyrir dómi í sakamálinu svo einhverju máli skiptir. Þá fellst dómurinn ekki á það með sóknaraðila að það uppnám sem vitnið A lýsti að hafa komist í meðan á símtalinu við varnaraðila stóð megi rekja til þess að varnaraðili hafi með framkomu sinni eða spurningum brotið gegn starfsskyldum sínum með þeim afleiðingum að það muni hafa áhrif á framburð vitnisins fyrir dómi og meðferð sakamálsins. Verður í því sambandi að hafa í huga að atburður sá sem málið nr. S-[...]/2016 fjallar um hefur án efa reynt mjög mikið á vitnið sem upplýsti að vera undir handleiðslu sálfræðings. Verður að skoða viðbrögð vitnisins A við símtali varnaraðila í því ljósi. 

Að öllu framansögðu virtu er kröfu sóknaraðili hafnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, lögreglustjórans á Suðurlandi, um að varnaraðili, Styrmir Gunnarsson héraðsdómslögmaður, verði leystur frá störfum sem verjandi X í málinu nr. S-[...]/2016 og annar skipaður í hans stað.