Print

Mál nr. 96/2008

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Dráttur á máli
  • Skilorð
  • Skaðabætur
Reifun

Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn Arnari Þorsteinssyni (Hilmar Ingimundarson hrl. Ólafur Thóroddsen hdl.) (Ása Ólafsdóttir hrl., réttargæslumaður)

       

Fimmtudaginn 25. september 2008.

Nr. 96/2008.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari)

gegn

Arnari Þorsteinssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.

 Ólafur Thóroddsen hdl.)

(Ása Ólafsdóttir hrl., réttargæslumaður)

 

Kynferðisbrot. Dráttur á máli. Skilorð. Skaðabætur.

A var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við X og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar, áhrifa fíkniefna og svefndrunga. Í héraðsdómi, sem staðfestur var um sakfellingu A, var talið sannað með vísan til framburðar X sjálfrar og tveggja vitna, auk niðurstöðu DNA-rannsóknar að A hefði framið verknað þann sem ákært var fyrir. Við ákvörðun refsingar A var meðal annars litið til þess að A hefði með háttsemi sinni gerst sekur um alvarlegt brot og ætti sér engar málsbætur. Var brot það sem A var nú ákærður fyrir framið fyrir tvo héraðsdóma í Danmörku og Noregi og bar því að dæma honum hegningarauka. Þótti refsing A hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði en þar af voru 12 mánuðir skilorðsbundnir með hliðsjón af verulegum drætti sem varð á rannsókn málsins. Þá var A jafnframt dæmdur til að greiða X miskabætur að fjárhæð 600.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. febrúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og honum gert að greiða X 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. ágúst 2003 til 10. janúar 2004, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð og skilorðsbundin að öllu leyti. Hann krefst þess jafnframt að bótakröfu verði vísað frá dómi, en að því frágengnu verði hún lækkuð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru. Hann hefur með háttsemi sinni gerst sekur um alvarlegt brot og á sér engar málsbætur. Refsing ákærða verður ákveðin sem hegningarauki við tvo héraðsdóma í Danmörku og Noregi, sem nánar er getið í hinum áfrýjaða dómi. Er refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði framdi brot sitt 10. ágúst 2003, en kæra brotaþola var borin fram 7. nóvember sama ár. Fyrsta lögregluskýrsla var tekin af ákærða 10. desember 2003. Lífsýni, sem tekin voru til DNA-greiningar, voru send til rannsóknar í Noregi og lá niðurstaða hennar fyrir í apríl 2004. Ákærði hafði þá farið úr landi og hélt sig næstu árin í Danmörku og Noregi. Fram er komið að lögregla sendi fyrirspurnir um ákærða til yfirvalda í þessum löndum og beiðni um að hafa uppi á honum, sem sýnist ekki hafa borið árangur fyrr en í mars 2007 þegar lögregluskýrsla var tekin af ákærða í Danmörku. Rannsókn málsins dróst þannig mjög úr hófi. Viðleitni lögreglu til að ná til ákærða var stopul og ómarkviss, en eftir að niðurstaða rannsóknar í Noregi lá fyrir var fullt tilefni fyrir lögreglu til að beita úrræðum, sem hún hefur tiltæk með alþjóðasamvinnu, til að finna ákærða og handtaka hann ef þyrfti til að geta lokið rannsókn málsins og senda það ákæruvaldinu til ákvörðunar um ákæru. Að þessu virtu verður ákærða ekki einum kennt um þann verulega drátt, sem varð á rannsókn málsins, og er því óhjákvæmilegt með vísan til forsendna héraðsdóms að fresta fullnustu 12 mánaða af refsivist ákærða skilorðsbundið í 3 ár frá uppsögu þessa dóms.

Ákvæði héraðsdóms um miskabætur handa X og vexti af þeim verður staðfest, svo og ákvæði hans um sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda og þóknun réttargæslumanns.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað, auk málsvarnarlauna og þóknunar réttargæslumanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Arnar Þorsteinsson, sæti fangelsi í 15 mánuði, en fresta skal fullnustu 12 mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar falla niður að liðnum 3 árum frá uppsögu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 523.066 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. nóvember 2007.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 26. apríl 2007 á hendur.

„Arnari Þorsteinssyni, kennitala 120968-4329, Bustrupgade 4, 1 t.v., Kaupmannahöfn,

Danmörku,

fyrir nauðgun, með því að hafa sunnudaginn 10. ágúst 2003, í svefnherbergi á þáverandi

heimili ákærða að Torfufelli 23, Reykjavík, haft samræði við X og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar, áhrifa fíkniefna og svefndrunga.

Telst þetta varða við 2., sbr. 1. mgr. 194. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007, sbr. áður 196. gr. almennra hegningarlaga sbr. 4. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu X, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð 810.000, auk vaxta skv. 8 gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. ágúst 2003 til 10. janúar 2004 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags."

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og frávísun skaðabótakröfu. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að skaðabótakrafa sæti verulegri lækkun. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins.

Hinn 6. nóvember 2003 kærði X ákærða fyrir háttsemi þá sem í ákæru greinir. Kvað hún málavexti hafa verið þá, að hún, ásamt fleira, fólki hafi verið að skemmta sér laugardagskvöldið 9. ágúst 2003. Um hádegisbil daginn eftir, 10. ágúst, hafi hún ásamt fleirum farið í gleðskap að Torfufelli 23, en þar hafi búið maður sem heiti Arnar. Hún lýsti því að áfengi og fíkniefni hafi verið haft um hönd í gleðskapnum og hún hafi neytt hvors tveggja. Þá lýsti hún því að um miðjan dag hafi hún farið ásamt vinkonu sinni í verslun en sótt áfengi í leiðinni. Er hún kom aftur í Torfufell 23, að því er hún taldi seinni part dags, hafi hún rætt við vin sinn í eldhúsinu en enn hafi verið gleðskapur í íbúðinni er hér var komið. Hún hafi fengið sér bjór að drekka en eftir það fengið black out. Næst lýsti hún því er hún vaknaði uppi í rúmi í svefnherbergi íbúðarinnar og þá verið klæðlaus, utan klædd bol að ofan. Hún kvað Arnar hafa verið að klæða sig í nærbuxur en hann hafi verið nakinn að öðru leyti. Hún hafi spurt hann hvar föt hennar væru og hafi hann þá fært henni fötin. Þau hafi ekki ræðst mikið við en hún hafi spurt um vini sína og verið greint frá því að þeir væru farnir á skemmtistaðinn Players í Kópavogi. Hún lýsti því að hún hafi gert sér grein fyrir því að hafðar hefðu verið við hana samfarir. Hún hafi ekki rætt þetta við Arnar. Hún lýsti í kæruskýrslunni, ferðum sínum þennan dag eftir að hún fór af heimili Arnars, en hún fór m.a. til skoðunar á neyðarmóttöku að kvöldi sama dags. Síðar verður vikið að því. í niðurlagi kæruskýrslunnar lýsti hún því að hún hafi síðar hitt Arnar á skemmtistað í borginni og þá borið þennan atburð upp á hann og hafi Arnar viðurkennt verknaðinn fyrir henni. X kvað sér hafa liðið mjög illa eftir atburðinn og hafi hún m.a. farið á áfengis- og geðdeild Landspítala þar sem hún dvaldist í eina viku. Þetta sé skýringin á því hvers vegna hún lagði ekki fram kæru fyrr.

Tekin var lögregluskýrsla af ákærða 10. desember 2003. Hann bar þá um samkvæmið á heimili sínu að Torfufelli 23 hinn 10. ágúst sama ár að X hefði sofnað þar. Hann neitaði hins vegar öllum kynferðislegum samskiptum við hana.

Eins og lýst var fór X á neyðarmóttöku að kvöldi 10. ágúst 2003. Þar voru tekin sýni, m.a. úr leggöngum og leghálsi.

Hinn 12. desember 2003 samþykkti ákærði að tekið yrði lífsýni úr munnholi hans til að nota til DNA samanburðarrannsóknar í málinu.

Sýnin voru send til Noregs til rannsóknar fyrir milligöngu rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði. í álitsgerð rannsóknarstofunnar sem dagsett er 5. maí 2004 segir m.a. svo í lokaniðurstöðukafla: „Samkvæmt framanskráðu var staðfest að sæði fannst í leggöngum konunnar og í nærbuxum hennar og reyndist unnt að framkalla DNA-snið frá leggöngum og úr nærbuxum. Reyndist DNA-efnið, sem þannig fékkst vera blanda en mest af því með sniði sem svarar til þess, er fannst hjá Arnari Þorsteinssyni (kt. 120968-4329). Ljósrit af bréfi Rettsmedisinsk Institutt frá 18.03.2004 fylgir hér með og svo fylgiskjal bréfsins með yfirskriftinni "Undersökels av biologisk materiale av human opprinnelse". Þar segir að líkurnar á því að finna samkyns DNA-snið hjá óskyldum einstaklingum séu minni en 1:1.000.000 og er þar miðað við norskar tíðnitölur."

3 Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákærði neitar sök. Hann kvað afstöðu sína óbreytta frá því að teknar voru af honum skýrslur hjá lögreglunni 10. desember 2003 og í Kaupmannahöfn 19. mars sl. en þá var ákærða kynnt niðurstaða DNA rannsóknarinnar sem rakin var að ofan. Ákærði kvaðst ekki þekkja X en hann hafi fyrst séð hana 10. ágúst 2003 er hún, ásamt fleira fólki, hafi verið í samkvæmi á þáverandi heimili hans. Hann kvað X hafa verið búna að sofa í 2-3 klukkustundir áður en fólkið fór úr samkvæminu. Hann kvaðst hafa orðið eftir ásamt X en hann ætlað að taka til í íbúðinni sem hafi verið mjög óþrifaleg eftir samkvæmið. Hann kvaðst hafa skrifað miða til X, en á miðanum hafi verið upplýsingar um nafn ákærða, símanúmer og heimilisfang. Ákærði lýsti því að X hafi þá vaknað og þau verið tvö í íbúðinni. Hún hafi spurt hvar fólkið væri og hafi hann sagt henni það. Ákærði kvaðst síðan hafa lagað kaffi og þau setið í eldhúsinu í um hálfa klukkustund uns hún fór í burtu í leigubíl sem ákærði pantaði fyrir hana.

Ákærða var kynntur efnislega vitnisburður X fyrir dómi. Ítrekað aðspurður kvaðst hann vilja halda því fram að hann hafi ekki átt nein kynferðisleg mök við X. Aðspurður hvort hann myndi atburðinn á heimili sínu á þessum tíma vel, kvaðst ákærði þá hafa verið búinn að vera „á viku eða 10 daga rúss-rugli". Hann kvaðst verða að neita sök og kvað sér vitanlega ekki hafa átt nein kynferðisleg samskipti við X. Þetta segði hann eftir sinni bestu vitund.

Ákærði kvaðst hafa flutt til Kaupmannahafnar í desember 2003. Þá kvaðst hann hafa verið við störf í Osló í 2 ár og allan tímann verið skráður þar til heimilis. Hann kvaðst svo hafa flutt aftur til Danmerkur í september 2005 þar sem hann hafi búið síðan. Ákærði kvaðst alltaf hafa svarað lögreglunni í Kaupmannahöfn er hún hafði við hann samband. Hann hafi ekki verið í neinum feluleik.

Vitnið X kvaðst hafa verið að skemmta sér þennan dag og um hádegisbil farið heim til ákærða að Torfufelli 23 ásamt fleira fólki. Hún kvaðst ekki hafa þekkt ákærða fyrir. Hún tók fram að tímasetningar væru óljósar hjá sér. Hún lýsti því er vinkona hennar ók henni í verslun þar sem hún kvaðst hafa hitt fyrir fólk sem hún þekkti og hafi hún fengið áfengi hjá þessu fólki. Hún hafi síðan haldið aftur í samkvæmið á heimili ákærða. Þar kvaðst hún hafa fengið sér bjór í eldhúsinu en hún muni ekki hvað gerðist eftir það, fyrr en hún vaknaði uppi í rúmi í svefnherberginu. Er hún vaknaði hafi hún strax gert sér grein fyrir því að henni hefði verið nauðgað eins og hún komst að orði. Hún kvað ekkert í samskiptunum við ákærða hafa verið þannig að hann hafi getað haft ástæðu til að ætla að hún væri samþykk því sem að hann gerði henni. Hún hafi aðeins verið klædd í bol sem hafði verið rifinn á öxlinni, en hún mundi ekki eftir því að hafa klætt sig úr fötunum. Ákærði hafi verið yfir henni og að klæða hana í nærbuxur. Nánar aðspurð kvaðst hún ekki vera viss hvort að ákærði klæddi hana í nærbuxurnar, en hann hafi staðið nakinn á gólfinu og klætt sig í eftir þetta. Hún kvaðst hafa litið yfir gólfið í herberginu og leitað að fötum sínum en ekki komið auga á þau. Hún hafi þá spurt ákærða um fötin og hafi hann þá fært henni þau. Hún hafi klætt sig en aðeins hugsað um það að komast út en hafi ekki þorað að ræða við ákærða um það sem gerðist. Er hún kom fram hafi hún séð að þau ákærði voru tvö ein á staðnum. Ákærði hafi hagað sér eins og ekkert hefði gerst. Hún hafi farið af staðnum eftir u.þ.b. 15 mínútur og haldið á skemmtistaðinn Players þar sem hún beið í sjokki eða taugaáfalli. Hún hafði verið titrandi, skjálfandi og grátandi er hún beið þarna. Hún kvaðst hafa farið með B af staðnum og í íbúð í Árbæjarhverfi. Hún lýsti því hvernig henni leið á þessum tíma. Síðan hafi hún farið á neyðarmóttöku til skoðunar. Hún lýsti því að henni hafi liðið illa við skoðunina og hún verið í miklu ójafnvægi þá og lýsti hún því nánar.

X kvaðst hafa hitt ákærða einu sinni eftir þetta en það hafi verið á skemmtistað í borginni. Hún hafi gengið á hann og spurt hvers vegna hann hafi gert henni það sem hún hefur nú lýst og hvort hann gerði sér grein fyrir afleiðingunum. Ákærði hafi þá viðurkennt atburðinn og rætt um það sem gerðist á annan hátt en gögn málsins beri með sér.

Hún lýsti afleiðingum þessa atburðar á sig og áhrifum sem dráttur málsins hefur haft á hana. Þá lýsti hún fyrirhugaðri meðferð vegna afleiðinga þessa máls.

Vitnið C kvaðst hafa ásamt fleira fólki, þar á meðal X, verið í gleðskap sem haldinn var á heimili ákærða þann 10. ágúst 2003. Hann lýsti því er flestir í gleðskapnum ákváðu að fara á skemmtistaðinn Players í Kópavogi, en þá hafi X verið sofnuð og hafi verið ákveðið að skilja hana eftir. C kvaðst ekki vita hvort ákærði varð eftir á heimili sínu er fólkið fór þaðan. Er hann hafði verið á Players um stund hafi X komið þangað og greinilega í miklu áfalli eða losti. Hafi sér ekki dulist að eitthvað mikið hefði komið fyrir. Hafi hún greint svo frá að Arnar hefði nauðgað henni eða haft við hana samræði. Komið hafi fram hjá X að hún hafi verið sofandi á meðan Arnar fór sínu fram og hún hafi vaknað með ákærða ofan á sér. C lýsti því að X hafi farið í neyðarmóttöku í fylgd D, konu sinnar, og B.

Vitnið B lýsti því er hann ók X á neyðarmóttöku og D hafi einnig verið með í för. Hann kvað svo langt um liðið að hann muni ekki hvar hann tók X upp. Það kunni þó að hafa verið á skemmtistaðnum Players. Hann kvaðst ekki hafa spurt hana út í það hvað hefði gerst. Hún hafi sagt að henni hefði verið nauðgað í partíi en hafi ekki greint nánar frá atburðinum. Hún hafi verið í geðshræringu og sjokki, grátandi og sýnilegt að eitthvað mikið var að og hann hafi viljað aka henni á neyðarmóttöku af þessum sökum.

Vitnið D lýsti því er hún, ásamt fleira fólki, hafi verið í samkvæmi að Torfufelli 23 þann 10. ágúst 2003. Hún vissi ekki hver var húsráðandi. Hún tók fram að hún myndi þennan tíma illa. Eftir samkvæmið hafi hún farið heim til sín og síðar á skemmtistaðinn Players. Síðar sama daga hafi X komið þangað í sjokki og hafi hún grátið. Þar hafi X rætt um að henni hefði verið nauðgað þar sem þau voru í samkvæminu fyrr um daginn. Hún hafi engan nafngreint í þessu sambandi. Hún lýsti því að hafa fylgt X á neyðarmóttöku ásamt B.

Vitnið E, fæðingar- og kvensjúkdómalæknir, staðfesti og skýrði gögn sem hann ritaði eftir skoðun X hinn 10. ágúst 2003. Fram kemur í niðurstöðu skoðunar að X hafi verið í algjörri vanlíðan, öll á iði, ofandað og í stanslausri endurupplifun. Mjög erfitt hafi verið að ná sambandi við hana. Af þessum sökum hafi skoðun verið hraðað svo sem mögulegt var. Þá segir í niðurstöðunni „teljum hana vera í erfiðri upplifun, sjokki og ef til vill rugluð af áfengi, við snögga líkamsskoðun sést þó roði fremst í leggöngum." Amar kvað roðann, sem lýst var, geta gefið til kynna að eitthvað hafi gerst í leggangaopinu, svo sem samfarir.

Vitnið F, fyrrum prófessor í réttarlæknisfræði, skýrði og staðfesti rannsókn þá sem áður var lýst. í álitsgerð, dagsettri 10. desember 2003, kemur fram að munir hafi borist rannsóknarstofunni í hvítum pappírspoka með rauðum innsigluðum miða sem hafi verið rofinn. F greindi frá því að aðeins innsiglið á pappírspokanum hafi verið rofið en ekki innsigli á sýnunum sjálfum. Þessi gögn hafi borist frá lögreglunni. Hann kvað sýnin hafa borist lögreglunni frá neyðarmóttöku, en ekki hafi verið óvenjulegt á þessum tíma að innsigli á gögnum frá neyðarmóttöku hafi verið rofin hjá lögreglu er þau bárust rannsóknarstofunni eins og var í þessu tilviki.

Niðurstaða

Samkvæmt framburði ákærða og vitnisburði C var X sofandi þegar gestirnir á heimili ákærða þann 10. ágúst 2003 fóru þaðan. Þá hefur X borið að þau ákærðu hafi verið tvö ein í íbúðinni er hún vaknaði. Ráða má af vitnisburði C, D og B, og af frásögn X, að hún hafi verið í miklu uppnámi er hún kom af heimili ákærða á þeim tíma sem hér um ræðir. Þetta fær einnig stoð í gögnum frá neyðarmóttöku sem rakin voru. Þessi gögn og vitnisburður eru til þess fallin að styðja frásögn X um það sem gerðist á heimili ákærða. Eins og rakið var eru fram komin læknisfræðileg gögn sem sýna að ákærði hefur haft kynferðisleg samskipti við X á þessum tíma þótt hann hafi alfarið neitað því. Reyndar bar ákærði um margra daga óreglu sína á þessum tíma og sér vitanlega hafi ekki átt sér stað nein kynferðisleg samskipti milli þeirra X.

Frásögn X er í samræmi við annað sem fram er komið í málinu, utan framburð ákærða. Dómurinn telur sannað með vitnisburði X, sem fær stoð í vitnisburði C, og með framburði ákærða að X hafi á þeim tíma sem hér um ræðir verið í því ástandi sem lýst er í ákærunni. Þá er sannað með vitnisburði X, sem fær stoð af vitnisburði D, B, og með stuðningi af gögnum frá neyðarmóttöku sem rakin voru og með vísan til niðurstöðu DNA-rannsóknar, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og er brot hans þar réttfært til refsiákvæðis. Ákærða verður gerð refsing samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga þó þannig að tekið er mið af refsinæmi brots ákærða á þeim tíma sem hann framdi brot sitt sem þá varðaði við 196. gr. almennra hegningarlaga, allt samanber meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði hefur frá árinu 1984 hlotið 16 refsidóma fyrir fjársvik, fjárdrátt, skjalafals, þjófnað, nytjastuld, umferðarlagabrot og fíkniefnabrot. Tveir síðustu refsidómarnir eru annars vegar 18 daga fangelsisdómur frá Noregi hinn 24. október 2005 og hins vega 14 daga fangelsi fyrir nytjastuld skv. dönskum dómi frá 3. maí sl. Nú ber að dæma hegningarauka sbr. 78. gr. almennra hengingalaga. Brot ákærða er alvarlegt og hafði þungbærar afleiðingar í för með sér fyrir X. Refsing ákærða þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 12 mánuði. Ákærði hefur frá árinu 2003 búið ýmist í Danmörku eða Noregi. Ekki hafa verið gefnar viðhlítandi skýringar á því hvers vegna ekki reyndist unnt að ná til ákærða sem búsettur hefur verið til skiptis í Danmörku og Noregi, eins og rakið var. Ákærða verður ekki kennt um dráttinn sem orðinn er á máli þessu. Rannsókn máls þessa hefur dregist úr hófi, svo fer gegn meginreglu 1. mgr. 33. gr. laga 19/1991 þar sem kveðið er á um það að hraða skuli meðferð máls eftir föngum. Dráttur málsins er einnig andstæður 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög 62/1994. Að öllu ofanrituðu virtu og einkum þeim langa tíma sem liðinn er frá framningu brotsins þykir eftir atvikum rétt að fresta fullnustu 9 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 1 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr.laganr. 22/1955.

Skaðabótakrafa X sundurliðast annarsvegar í miskabótakröfu að fjárhæð 800.000 krónur og hins vegar er skaðabótakrafa að fjárhæð 10.000 krónur vegna skemmda á fatnaði. Báðum kröfunum hefur verið andmælt. Skaðabótakröfunni fylgja engin gögn og er sá hluti kröfugerðarinnar ódómtækur og ber að vísa þeim hluta frá dómi. X á rétt á miskabótum frá ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabætur til hennar hæfilega ákvarðaðar 600.000 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 10. janúar 2004 en þá var mánuður liðinn frá því er ákærða var birt krafan. Auk þess greiði ákærði Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanni, skipuðum réttargæslumanni X, 249.000 krónur í réttargæsluþóknun. Þóknunin til réttargæslumanns er fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.

Ákærði greiði 148.606 krónur í sakarkostnað sem til féll á rannsóknarstigi málsins.

Ákærði greiði Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni 311.250 krónur í málsvarnarlaun. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar til lögmanna.

Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson, sem dómsformaður, Arngrímur Ísberg og Kristjana Jónsdóttir.

Dómsorð:

Ákærði, Arnar Þorsteinsson, sæti fangelsi í 12 mánuði en fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 1 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði X 600.000 krónur auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4 gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 10. ágúst 2003 til 10. janúar 2004 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 148.606 krónur í sakarkostnað sem til féll á rannsóknarstigi málsins.

Ákærði greiði Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanni 249.000 krónur í réttargæsluþóknun.

Ákærði greiði Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni 311.250 krónur í málsvarnarlaun.