Print

Mál nr. 789/2015

Magnús Ver Magnússon (Jóhann H. Hafstein hrl.)
gegn
íslenska ríkinu (Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)
Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Rannsókn
  • Símahlerun
  • Friðhelgi einkalífs
  • Gjafsókn
Reifun

M höfðaði mál gegn Í til heimtu skaða- og miskabóta að fjárhæð 10.000.000 króna vegna ólögmætra þvingunarráðstafana við rannsókn máls þar sem hann var grunaður um stórfelldan innflutning á fíkniefnum. Við rannsóknina var lögreglu meðal annars veitt heimild til aðgangs að upplýsingum um notkun símanúmera M aftur í tímann, til að hlera símtöl hans um tiltekinn tíma og til að koma fyrir eftirfarar- og hlustunarbúnaði í bifreið. Í viðurkenndi bótaskyldu á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og laut ágreiningur aðila að því með hvaða fjárhæð tjón M yrði bætt. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið að M hefði ekki fært sönnur á því fjártjóni sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna fréttaflutnings og almannaróms um rannsókn lögreglu gegn sér. Var kröfu hans um skaðabætur því hafnað. Að því er varðaði miskabótakröfu M var vísað til þess að aðgerðir lögreglu hefðu verið lögmætar og byggðar á rökstuddum grun um að alvarleg refsiverð brot kynnu að vera í bígerð og um hugsanlega aðkomu M að slíkri háttsemi. M hefði því ekki orðið fyrir óþarfa miska eða tjón umfram það sem óhjákvæmilega hlytist af aðgerðum sem þessum. Með hliðsjón af því tímabili sem markaðist af þeim dómsúrskurðum sem heimiluðu hina bótaskyldu háttsemi og að M hefði ekki lagt fram nægileg gögn til stuðnings kröfu sinni voru hæfilegar miskabætur ákveðnar 600.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. nóvember 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 10.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og að málskostnaður fyrir Hæstarétti verði felldur niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum málsins og í samræmi við kröfugerð stefnda verður málskostnaður ekki dæmdur fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Magnúsar Vers Magnússonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2015.

Mál þetta sem höfðað var 15. desember 2014 af Magnúsi Ver Magnússyni, Vallhólma 3, Kópavogi, gegn íslenska ríkinu var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 2. október 2015.

Stefnandi gerir kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miska og skaðabætur vegna ólögmætra meingerða að upphæð 10.000.000 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. , sbr. 3. mgr. 5. gr., sbr. IV. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur, frá 18. desember 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess að stefnukröfur verði lækkaðar til muna og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 7. nóvember 2012 höfðu lögreglu borist upplýsingar um að stefnandi stæði að innflutningi fíkniefna. Ekki er upplýst í málinu hvaðan upplýsingarnar komu en fullyrt að þær hafi komið frá áreiðanlegum upplýsingagjafa. Sá greindi frá því að stefnandi væri aðalskipuleggjandi innflutnings á stórri sendingu amfetamíns í fljótandi formi. Erlendir aðilar búsettir hér á landi áttu samkvæmt heimildum lögreglu að fullvinna efnið í neysluhæft form. Lögreglan fékk að sögn jafnframt upplýsingar frá öðrum aðila, að því er virðist á svipuðum tíma, um að stefnandi væri í samstarfi við pólskan aðila sem ætti von á 12 kg af amfetamíni með skipi á næstu dögum. Stefnandi var m.a. grunaður um að fjármagna innflutning á efnum, útvega burðardýr og selja efni þegar þau væru klár.

Tekið var fram í þessari skýrslu að stefndi héldi nokkuð til í Jakabóli þar sem væri aðstaða fyrir lyftingar en menn kæmu þar án þess að gera boð á undan sér og alls ólíklegir til lyftinga enda stoppuðu þeir stutt. Gengju með stefnanda inn og kæmu út eftir tvær mínútur.

Af greinargerð stefnda verður ráðið að á þessum grundvelli hafi lögreglan talið sig hafa stefnanda undir rökstuddum grun um aðild að stórfelldum innflutningi fíkniefna til landsins, þ.e. ætluðu broti gegn 173. gr. a. í almennum hegningarlögum. Lögð var fram krafa fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur um heimild til að fá upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um símanúmer stefnanda sem hringt var úr og í tiltekið símanúmer stefnanda en einnig önnur símanúmer og símtæki í eigu og vörslum stefnanda á tímabilinu frá 1. janúar 2012 til og með 5. desember 2012, IMEI númer, smáskilaboðasendingar (sms) til og frá og fleiri upplýsingar um símanotkun. Fallist var á kröfuna með úrskurði 8. nóvember 2012. Sami dómstóll úrskurðaði síðan að kröfu lögreglu þann 14. nóvember 2012, að henni væri heimilt að koma fyrir eftirfararbúnaði á og í bifreiðum sem stefnandi hefði umráð yfir eða afnot af til og með 12. desember sama ár. Eftirfararbúnaður var settur í bifreið stefnanda, [...], 14. nóvember og tekinn úr henni 26. nóvember. Jafnframt var slíkur búnaður settur í bílaleigubifreið sem stefnandi tók á leigu en tekinn úr næsta dag. Um aðra notkun á slíkum búnaði var ekki að ræða samkvæmt upplýsingum lögreglu.

16. nóvember 2012 veitti Héraðsdómur Reykjaness lögreglu heimild til að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmer og símtæki sem stefnandi hafði í eigu sinni eða umráðum frá og með 16. nóvember til og með 14. desember 2012. Á því tímabili voru tvö símanúmer sem stefnandi var skráður rétthafi að hlustuð. 18. sama mánaðar var svo lögreglu heimilað með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að koma fyrir og nota hlustunarbúnað í bifreiðum sem stefnandi hefði umráð yfir og eða afnot af frá 18. nóvember til og með 12. desember 2012. Alls voru því kveðnir upp fjórir rannsóknarúrskurðir vegna rannsóknar lögreglu á tímabilinu frá 8. til og með 16. nóvember 2012.

Áhöld eru uppi um hvort tilkynning frá lögreglu til stefnanda hafi borist honum í símtali 20. eða 21. október 2014 en hér verður lagt til grundvallar að það hafi verið 21. október í samræmi við framburð stefnanda enda liggur það nær stefnda að sanna dagsetninguna. Með tölvupósti 1. október 2014 var síðan lögmanni stefnanda tilkynnt með sannanlegum hætti að rannsókn á hendur stefnanda hefði verið hætt.

Stefnandi hafði því ekki hugmynd um þessar aðgerðir fyrr en sá lögreglumaður sem stýrt hafði rannsókninni hringdi í hann 21. ágúst 2014 og lýsti framangreindum rannsóknaraðgerðum sem fram höfðu farið. Krafði stefnandi að sögn þá þegar lögreglumanninn um gögn og upplýsingar án þess að orðið hafi verið við þeirri beiðni. Lögreglumaðurinn benti stefnanda á að leita aðstoðar lögmanns en sá gæti óskað upplýsinga um gang rannsóknarinnar á stefnanda.

Lögmaður stefnanda óskaði með tölvupósti þann 3. september 2014eftir gögnum og upplýsingum um umrædda rannsókn sem snéru að stefnanda. Svar barst sama dag um rannsóknina; m.a. að henni hefði verið hætt um leið og heimildir samkvæmt framangreindum dómsúrskurðum runnu sitt skeið. Þó hafi verið tekin ákvörðun um að bíða með tilkynningu til stefnanda um rannsóknina þar til niðurstöður bærust úr erlendri rannsókn vegna málsins. Engin gögn fylgdu þessum pósti. Eftir ítrekanir bárust lögmanni stefnanda tilvísaðir fjórir rannsóknarúrskurðir sem kveðnir voru upp á tímabilinu 8. til 18. nóvember 2012. 1. október 2014 bárust lögmanni stefnanda loks með tölvupósti gögn þau er lögð voru fram fyrir dómi. Þá voru liðin rétt tæp tvö ár frá því að óskað var eftir heimildum dómstóla til þvingunarúrræða.

Lögmaður stefnanda óskaði í kjölfarið upplýsinga og svara frá ríkissaksóknara við ákveðnum atriðum, sbr. nánar stefnu málsins. Rökstuðningur fékkst ekki fyrir því hvers vegna lögregla tilkynnti ekki stefnanda fyrr um lok rannsóknar en greint var frá því að slíkar skýringar hefðu ekki verið veittar af lögreglu fyrr en með bréfi 9. september 2014, en þá hafði stefnanda verið tilkynnt símleiðis um aðgerðir lögreglu. Upplýst var að gögnum vegna úrskurðanna hefði verið eytt. Ósk stefnanda um að fá tilvísað bréf lögreglu til ríkissaksóknara var hafnað.

II.

Stefnandi telur að líta beri svo á að rannsókn lögreglu á honum hafi staðið í nærri þrjú ár, eða frá janúar 2012 til 1. október 2014, þegar lögmanni hans var tilkynnt um að rannsókn málsins, þar sem stefnandi hefði réttarstöðu grunaðs, væri lokið. Stefnandi hafi sætt þvingunaraðgerðum af hálfu lögreglu um tveggja mánaða skeið, í nóvember og desember 2012, en rannsóknin hins vegar staðið allt frá janúar 2012, sbr. úrskurð frá 8. nóvember 2012.

Stefnandi byggir á því að rannsókn lögreglu hafi ekki átt rétt á sér og hafi verið tilefnislaus og án rökstudds gruns. Stefnandi telur sig ekki hafa með nokkru móti valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Því hafi tilgreindir dómsúrskurðir ekki verið lögum samkvæmt og aðgerðir á grundvelli þeirra ólögmætar. Það skjal sem lögregla vísar til og lagt er fram í málinu og lá til grundvallar rannsóknaraðgerðum staðfesti með engu móti rökstuddan grun, enda hafi þær upplýsingar sem vísað var til verið með öllu óstaðfestar.

Þá telur stefnandi það í andstöðu við 2. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008 að tilkynna honum ekki um lok rannsóknar fyrr en næstum tveimur árum eftir að hún hófst. Jafnframt að lögreglan hafi brotið gegn 3. ml. 1. gr. fyrirmæla ríkissaksóknara nr. 1/2012 með því að gera ekki ríkissaksóknara grein fyrir á hverju mat lögreglustjóra byggðist, þegar ákvörðun var tekin um að tilkynna ekki um beitingu þvingunarúrræða skv. XI. kafla laga nr. 88/2008. Þá hafi lögregla með aðgerðarleysi sínu og seinagangi um eyðingu gagna og upplýsinga sem aflað hafði verið með þvingunaraðgerðum brotið gegn 1. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008. Verður málatilbúnaður stefnanda ekki skilinn með öðrum hætti en að framangreind brot meðal annarra eigi að leiða til bótaskyldu stefnda.

Stefnandi byggir og á því að ríkissaksóknari hafi ekki sinnt sínu lögboðna eftirlitshlutverki, sbr. 2. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008, og hafi því tjón stefnanda orðið umfangsmeira en þurft hefði, þar sem rannsókn málsins dróst óhóflega. Stefnandi byggir einnig á að ríkissaksóknari hafi valdið honum tjóni með því að hafa ekki tilkynnt honum um lok rannsóknar að ári liðnu, sbr. 3. ml. 1. gr. fyrirmæla ríkissaksóknara um eftirlit embættis hans með hlustun lögreglu.

Stefnandi telur að lögreglan og ríkissaksóknari hafi með framferði sínu brotið gegn friðhelgi einkalífs með aðgerðum sínum, sbr. 71. gr. laga nr. 33/1944 stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 8. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, og beri því að greiða bætur vegna þess, sbr. 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

Stefnandi telur að sá óhóflegi dráttur sem orðið hafi á rannsókn málsins hafi verið brot á 1. mgr. 70. gr. stjskr., sbr. hliðstæða reglu í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hafi reglan verið skýrð þannig að hún gildi ekki síður um málsmeðferðina á rannsóknarstigi.

Stefnandi byggir miskabótakröfu sína á því að lögreglan og ríkissaksóknari hafi brotið á grundvallarmannréttindum hans. Hafi stefnandi ekkert gert til að kalla yfir sig þetta óréttlæti og telur hann að krafa um 10.000.000 kr. sé sanngjörn krafa, sé litið til þess hversu alvarlegt brotið er og hversu mikilvæg réttindi friðhelgi einkalífs eru, en þau njóti verndar samkvæmt stjórnarskránni og lögum um mannréttindasáttmála Evrópu.

Um lagarök vísar stefnandi einkum til laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 eins og að framan er rakið. Þá vísar hann til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, m.a. um varnarþing til 1. tl. 32. gr. og 1. tl. 33. gr. laganna.

III.

Stefndi telur að tímabil rannsóknar sé ekki svo langt sem stefnandi byggir á heldur hafi hún byrjað 7. nóvember 2012 þegar upplýsingar um stefnanda bárust og hafi því staðið yfir í eitt ár og ellefu mánuði.

Stefndi mótmælir því að tilvísaðir úrskurðir héraðsdóms hafi ekki verið lögum samkvæmt og aðgerðir á grundvelli þeirra ólögmætar. Lögreglan hafi grundvallað aðgerðir sínar á upplýsingum frá tveimur áreiðanlegum aðilum um að stefnandi væri viðriðinn stórfelldan innflutning á fíkniefnum. Allar aðgerðir lögreglu í framhaldi hafi því sótt stoð í og grundvallast á dómsúrskurðum þar sem lagt var til grundvallar í öllum tilvikum að rökstuddur grunur væri fyrir hendi og skilyrði laga nr. 88/2008 uppfyllt. Því hafi rannsókn lögreglu á engan hátt verið tilefnislaus og aðgerðir hennar fullkomlega lögmætar.

Stefndi fellst á með stefnanda að lok rannsóknar lögreglu hafi markast af tilkynningu þess efnis til stefnanda 1. október 2014 en bendir á að þótt aðgerðum samkvæmt dómsúrskurðum hafi verið hætt í árslok 2012, hafi rannsókn haldið áfram þar sem upplýsingar bárust um breyttar áætlanir við ætluð brot og því hafi verið talið nauðsynlegt að halda rannsókn opinni þar eð ekki var vitað hvenær innflutningur fíkniefnanna átti að eiga sér stað. Grunur hafi hins vegar leikið á því að innflutningur amfetamínsvökvans væri yfirstaðinn og fullvinnsla efnanna væri í gangi.

Stefndi tekur undir með stefnanda að úrræði XI. kafla sakamálalaga nr. 88/2008 séu inngrip í einkalíf einstaklinga og því sé þeim ekki beitt nema brýn nauðsyn sé talin vera fyrir hendi. Til marks um að sú regla sé í heiðri höfð hafi í tilviki stefnanda verið ákveðið að fara ekki fram á framlengingu á úrskurðum héraðsdóms þegar þeir runnu sitt skeið á enda, heldur fara að nýju fram með kröfur ef rannsóknarhagsmunir krefðust þess síðar. Slíkar upplýsingar bárust ekki og því hafi stefnanda verið tilkynnt í ágúst 2014 um aðgerðirnar og að rannsókn sem hafði legið í láginni um nokkurn tíma væri hætt, sem gerðist síðan formlega 1. október 2014.  

Af greinargerð stefnda verður ekki dregin önnur ályktun en sú að í ljósi þess að lögreglan eyddi gögnum, sem aflað var á grundvelli úrskurðar R-[...]/2012, 5. september 2014, og gögnum vegna úrskurðar R-[...]/2012 hafi verið eytt áður, þó ekki liggi fyrir hvenær það var gert, sé ekki grundvöllur til greiðslu skaðabóta vegna brotsgegn 1. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008.

Stefndi fellst á að lögreglunni hafi láðst að senda tilkynningu eftir að hlustun á símum stefnanda var hætt. Með því hafi verið brotið gegn reglum ríkissaksóknara nr. 1/2012 þar sem áskilið er að tilkynna skuli ríkissaksóknara um lok hlustunar. Sú tilkynning var ekki send ríkissaksóknara fyrr en eftir að stefnanda var tilkynnt um aðgerðir lögreglu í þeim efnum. Lögreglustjórum sé, skv. 1. tl. reglnanna, ætlað að senda ríkissaksóknara upplýsingar sem þessar á 6 mánaða fresti. Stefndi ætlar þó að það hafi verið mat lögreglustjóra að það gæti skaðað frekari rannsókn málsins ef stefnanda væri tilkynnt um hlustunina á þeim tíma enda rannsókn þá enn í gangi. 

Stefndi telur engar upplýsingar í málinu gefa til kynna að stefnandi hafi borið skaða af þeim rannsóknaraðgerðum sem beindust að honum. Aðgerðir lögreglu hafi í alla staði verið lögformlegar, byggðar á dómsúrskurðum og tilefnið verið skýrt. Því sé sakargrundvöllur sem byggi á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 ekki fyrir hendi. Telur stefndi reyndar áhöld um hvort stefnandi byggi kröfu sína á þeim grunni en það komi ekki skýrt fram í stefnu málsins.

Stefndi vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 eigi maður sem hefur verið borinn sökum í sakamáli rétt til bóta ef mál hans er fellt niður. Samkvæmt 2. gr. 228. gr. skuli dæma bætur vegna aðgerða skv. IX.–XIV. kafla laganna, en fella megi þær niður eða lækka ef sakborningur hefur sjálfur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Þetta sé hin svokallaða hlutlæga bótaregla sakamálalaganna með þeim fyrirvara sem fram komi í 2. mgr. greinarinnar. Stefndi lítur svo á að ekki verði séð að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann byggir kröfu sína á. Því fellst stefndi á að stefnandi eigi rétt á eðlilegum bótum skv. 1. mgr. 228. gr. laganna.

Stefndi mótmælir á hinn bóginn alfarið fjárhæð bótakröfu stefnanda sem allt of hárri. Ekkert liggi fyrir um meint tjón stefnanda annað en fullyrðingar hans sjálfs. Þótt vissulega sé óþægilegt að fá upplýsingar um að hafa verið hleraður, bendir stefndi á að viðkomandi veit ekki af símhlustun fyrr en eftir á og þá á að eyða gögnum eins fljótt og hægt er. Stefndi telur og rétt að hafa í huga við mat á fjárhæð bóta að lögreglumenn sem koma að símhlustun eru bundnir þagnarskyldu samkvæmt ýmsum lögum. Þeim sé því með öllu óheimilt að skýra frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt skal fara. Stefndi telur að öll þessi atriði komi til skoðunar auk þeirra forsendna sem lágu til grundvallar hlerunar þegar dómari metur miska stefnanda.

Stefndi andmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda og telur rétt að málskostnaður verði látinn niður falla.

IV.

Stefndi viðurkennir bótaskyldu sína á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 og fellst á að stefnandi eigi rétt á eðlilegum bótum úr ríkissjóði, enda telur stefndi að stefnandi hafi ekki sjálfur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann byggir kröfur sínar á í skilningi 2. mgr. ákvæðisins. Ekki verður annað séð en að stefndi fallist því á að stefnandi þurfi ekki að þola niðurfellingu eða lækkun bóta á þeim grundvelli. Ágreiningur er um nokkur atriði sem aðilar telja að geti haft áhrif á fjárhæð bóta en í grunninn snýst þó mál þetta einvörðungu um það með hvaða fjárhæð tjón stefnanda verði bætt.

Friðhelgi einkalífs nýtur verndar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Meðal annars með skírskotun til þessa ákvæðis stjórnarskrár hefur löggjafinn með 228. gr. laga nr. 88/2008 ákveðið að undir ákveðnum kringumstæðum líkt og þeim sem fyrir hendi eru í máli þessu beri þeim er verða fyrir skerðingum á þessum mikilsverðu mannréttindum bætur, jafnvel þótt talið verði að þær aðgerðir sem komu niður á þessari friðhelgi hafi fullnægt öllum lagaskilyrðum.

Stefnandi krefst bóta vegna fjártjóns. Í málflutningi var lögð áhersla á að stefnandi væri landsþekktur maður og út fyrir landsteinana vegna aflraunakeppna og annarra viðburða sem hann hefði bæði tekið þátt í en einnig skipulagt hér heima og erlendis. Fréttaflutningur og almannarómur um þá rannsókn sem lögregla stóð fyrir hafi því valdið honum miklu tjóni og skert möguleika hans á framangreindum sviðum. Þá bar stefnandi fyrir dómi að umræða um málið hafi haft slæm áhrif á rekstur hans á æfingaklúbbi og einkaþjálfunarþjónustu og taldi hann viðskiptavini hafa hrökklast frá vegna þessa. Hið sama ætti við um skipulagningu á aflraunakeppnum víða um land en einkum kostun þessara viðburða, sem hefði gengið mun verr eftir að málið kom upp. Enginn gögn eru lögð fram í málinu til að styðja þessar fullyrðingar og enginn rökstuðningur færður fyrir slíku tjóni, hvorki í stefnu málsins eða framlögðum gögnum. Þótt stefnandi sé vissulega nokkuð þekktur maður liggur ekkert fyrir í málinu hvernig sú ímynd sem hann hefur byggt upp hefur laskast af völdum aðgerða lögreglu þannig að hafi leitt til fjárhagslegs tjóns hans. Hinu verður ekki neitað að líkur hljóta að standa til þess að umfjöllun og umræða í framangreinda veru sé til tjóns fyrir þann sem fyrir verður. Engin gögn eru hins vegar lögð fram til að sýna fram á slíkt tjón eða að stefnandi sé umfram aðra útsettur fyrir slíku. Engin umfjöllun er um slíkt tjón í stefnu málsins eða það rökstutt og engar frekari skýrslur voru gefnar fyrir dómi til að undirbyggja kröfu sem þessa. Í dómkröfum er orðuð krafa til miska og skaðabóta en í meginmáli stefnu eingöngu fjallað um og krafist miskabóta. Dómurinn telur því í raun nokkurn vafa leika á því hvort bóta vegna fjártjóns sé yfir höfuð krafist, a.m.k. ætti slík kröfugerð að vera skýrari. Burtséð frá því er að mati dómsins fjártjón stefnanda með öllu ósannað í málinu og kemur því ekki til álita með vísan til framangreinds að dæma bætur vegna fjártjóns.

Stefnandi byggir mjög á því að allar aðgerðir lögreglu hafi verið ólögmætar enda hafi úrskurðir dómstóla er heimiluðu rannsóknaraðgerðir einnig verið ólögmætir og reistir á röngum forsendum. Verður málatilbúnaður hans ekki skilinn öðru vísi en svo að meint ólögmæti þessara aðgerða sé mikilvægur grundvöllur bóta eða skipti máli við ákvörðun bótafjárhæðar, þótt byggt virðist fyrst og fremst á hlutlægri bótaábyrgð samkvæmt tilvísun til 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Af þessum sökum verður talið rétt að fjalla um grundvöll þeirra aðgerða sem mál þetta er sprottið af. 

Varðandi tímabil rannsóknar á sér vissulega stað inngrip í einkalíf stefnanda þegar óskað var upplýsinga um símtöl, smáskilaboð, skilaboð í talhólf og önnur samskipti aftur í tímann, þ.e. allt frá 1. janúar 2012 til og með 5. desember, eins og heimilað var með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2015 samkvæmt beiðni í þá veru sama dag. Í því sambandi ber þó að líta til þess að söfnun á slíkum upplýsingum verður að teljast vægari skerðing á friðhelgi einkalífs almennt séð, í samanburði við beinar símhleranir og önnur rannsóknarúrræði XI. kafla laga nr. 88/2008 sem gera ráð fyrir að efni slíkra samtala og samskipta sé kannað í þaula, símtöl eða samtöl hleruð, þau tekin upp, fylgst með ferðum fólks o.fl. Tilvísaður úrskurður var byggður á 80. gr. laganna og veitti því ekki heimild til að kanna efni þeirra samskipta sem þar voru skoðuð. Ekkert bendir til annars en að sú takmörkun á heimildinni hafi verið virt af rannsakendum. Þessi skerðing á persónufrelsi og friðhelgi stefnanda, sem talin verður fremur væg, kemur þó til skoðunar við ákvörðun á miskabótum honum til handa.

Aðrir rannsóknarúrskurðir sem kveðnir voru upp með tveggja daga millibili á tímabilinu 14.–18. nóvember 2012 voru um heimildir á grundvelli 81. og 82. gr. laganna.

Þegar metinn er grundvöllur og lögmæti rannsóknarúrskurða sem þessara verður að ganga út frá því að dómari telji hverju sinni að fyrir liggi rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi og að önnur skilyrði laga séu uppfyllt. Á hitt ber vitaskuld að líta að úrskurðir sem þessir eru þeirrar náttúru að í langflestum tilvikum er enginn til andmæla og undanþága 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr., laga nr. 88/2008 þannig nýtt, eins og raunin var í öllum rannsóknarúrskurðum þessa máls. Það leiðir aftur til þess að úrskurðir sem þessir sæta að öllu jöfnu ekki endurskoðun áður en rannsóknarúrræðum er beitt. Vegna þessa verða hins vegar gerðar mjög ríkar kröfur til dómara um að meðalhófs sé gætt og réttindi borgara tryggð eins og frekast er kostur undir þessum kringumstæðum.

Í því máli sem hér er til úrlausnar voru beiðnir um rannsóknarúrskurði byggðar á því sem lögregla taldi vera áreiðanlegar heimildir um að stefnandi væri viðriðinn stórfelldan innflutning á hættulegum fíkniefnum og væri jafnvel aðalskipuleggjandi þessara meintu brota. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 16. nóvember er til að mynda tiltekið að brot þau sem verið var að rannsaka gætu varðað allt að tólf ára fangelsi og það metið svo að einsýnt væri að símhlerun eins og þar var heimiluð skipti miklu máli fyrir yfirstandandi rannsókn. Þá var því og slegið föstu að ríkir almannahagsmunir krefðust þess að gripið yrði til umkrafinna aðgerða. Fyrir lá frá og með fyrsta rannsóknarúrskurði að upplýsingar lögreglu hefðu verið áreiðanlegar og komið frá tveimur aðilum. Eins og fram kemur í greinargerð stefnda og var útskýrt nánar við aðalmeðferð málsins eru uppljóstrar og upplýsingagjafar lögreglu flokkaðir m.a. eftir áreiðanleika. Þar er horft m.a. til bakgrunns viðkomandi og þess hversu vel upplýsingar sem viðkomandi hafi áður gefið hafi reynst. Vitnið A, rannsóknarlögreglumaður, greindi fyrir dómi frá þessum viðmiðum lögreglu og sagði einstaklinga bera raðnúmer og vera flokkaða eftir ákveðnum reglum. Sá upplýsingagjafi sem í hlut átti í þessu máli var í föstu upplýsingasambandi og hafði verið til nokkurra ára var metinn mjög áreiðanlegur og upplýsingar frá viðkomandi höfðu margsinnis áður nýst lögreglu í hennar störfum. Stefndi vísaði um þetta atriði til 9. gr. reglna um sérstakar aðferðir og aðgerðir lögreglu við rannsókn sakamála nr. 516/2011 sem settar eru með heimild í 89. gr. laga nr. 88/2008, en III. kafli reglnanna fjallar sérstaklega um uppljóstrara. 

Þessi atriði eru tiltekin vegna margendurtekinna sjónarmiða stefnanda um að aðgerðir lögreglu hafi verið ólögmætar sem og tilvísaðir úrskurðir dómstóla. Eins og fyrr segir verður málatilbúnaður stefnanda skilinn þannig að framangreind atriði eigi að leiða til hækkunar á bótafjárhæð því bótagrundvöllurinn sem slíkur er hlutlægur.

Með vísan til framangreinds verður lagt til grundvallar að aðgerðir lögreglu hafi verið lögmætar og byggt á rökstuddum grun um að alvarleg refsiverð brot kynnu að vera í bígerð og um hugsanlega aðkomu stefnanda að slíkri háttsemi. Skilyrði 83. og 84. gr. laga nr. 88/2008 voru uppfyllt til að óska eftir heimildum samkvæmt 81. og 82. gr. sömu laga.

Burtséð frá því, hvort líta beri yfirhöfuð til slíkra þátta þegar tekin er ákvörðun um fjárhæð bóta í málum sem þessum þar sem bótaskylda er reist á 1. og 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, liggur þannig fyrir að mati dómsins að engar aðgerðir réttarvörsluaðila hafi verið þeirrar gerðar í þessu máli að bökuðu stefnanda óþarfa miska eða tjón umfram það sem óhjákvæmilega hlýst jafnan af aðgerðum sem þessum og ekki er deilt um. Skilyrðum 1. mgr. og 2. mgr. 228 gr. er hins vegar fullnægt og bótaskylda því ótvíræð að mati dómsins enda leiddu rannsóknaraðgerðir lögreglu ekki til neins, rannsókn var hætt og mál á stefnanda því fellt niður sbr. grunnskilyrði bóta í 1. mgr.

Engin gögn hafa verið lögð fram sem staðreyna með einhverjum hætti hvaða áhrif framangreind atvik og hin bótaskylda háttsemi hafði á stefnanda. Stefnandi gaf þó skýrslu fyrir dómi þar sem hann lýsti því að hann hefði orðið fyrir áfalli og greindi sérstaklega frá því að dóttir hans hefði orðið fyrir einelti í skóla vegna málsins sem varð til þess að hún flæmdist úr þeim skóla. Engin vottorð sérfræðinga eða önnur gögn hafa þó verið lögð fram í málinu sem undirbyggja bótakröfu stefnanda. Er því þannig eins farið í málinu um meint fjárhagstjón stefnanda og miska.

Bætur verða því dæmdar að álitum og með hliðsjón af dómaframkvæmd.

Dómurinn lítur svo á að það tímabil sem til grundvallar bótaákvörðun liggur geti ekki verið lengra en sem markast af þeim dómsúrskurðum sem heimiluðu hina bótaskyldu háttsemi. Ekki er fallist á að það hafi sjálfstæða þýðingu í málinu að ekki var fylgt fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 1/2012 eins og stefnandi bendir á. Slíkt getur eftir atvikum kallað á aðfinnslur og athugasemdir en hefur ekki þýðingu varðandi bótagrundvöll eða bótafjárhæð í málinu. Það sama gildir um meinta þýðingu þess í málinu hversu seint gögnum er vörðuðu stefnanda var eytt eða þess dráttar sem varð á því að lögregla tilkynnti stefnanda um þær aðgerðir sem gripið hafði verið til en það gerðist ekki fyrr en 1. október 2014. Þessar ákvarðanir voru byggðar á undanþágu 85. gr. laga nr. 88/2008 og eru undir mati rannsakanda komnar. Þegar þessi skylda er skoðuð í samhengi við þá hagsmuni einstaklinga sem meginreglunni er ætlað að vernda andspænis þeim almannahagsmunum sem einnig eru jafnan í húfi, þá verður að játa rannsakendum nokkuð svigrúm til að meta hvort undanþágunni skuli beitt í þágu rannsóknarhagsmuna. Rakið er stuttlega í greinargerð og við aðalmeðferð hvaða rök stóðu til þess að loka ekki rannsókn málsins þrátt fyrir að rannsóknarúrskurðir runnu sitt skeið, úr því að hún beindist ekki gegn stefnanda sérstaklega. Dómurinn telur að bótaskylda á þessum grunni verði ekki ákveðin á grundvelli hlutlægrar ábyrgðar, heldur komi eingöngu til álita ef sönnun tekst um að ákvörðun um beitingu undanþágunnar hafi verið saknæm og ólögmæt og hafi leitt til bótaskylds tjóns. Stefnanda hefur ekki tekist slík sönnun í máli þessu. Með sambærilegum rökum er því hafnað að dráttur á málinu sem stefnandi telur óhæfilegan eigi að leiða til bótaskyldu en slíkur dráttur getur á hinn bóginn haft áhrif á viðurlagaákvörðun sé máli haldið áfram, samanber dómafordæmi. Það athugist enda að á því tímabili sem hér um ræðir er lögregla ekki, í skilningi þeirra bótaákvæða sem hér eru til skoðunar, að rannsaka viðkomandi einstakling eða skerða með beinum hætti friðhelgi hans.

Með vísan til framangreinds telur dómurinn að sá tími sem komi einkum til skoðunar, þegar bætur eru ákvarðaðar, sé tímabilið þar sem heimiluð var hlerun og hljóðritun á símum og símtækjum stefnanda, sbr. nánar úrskurð frá 16. nóvember 2012, frá uppkvaðningu hans til 14. desember 2012 eða í 29 daga. Þá er horft til heimildar sem veitt var lögreglu til að koma fyrir eftirfararbúnaði á og í bifreiðum stefnanda frá 14. nóvember til 12. desember 2012. Því hefur ekki verið mótmælt af stefnanda að sá búnaður var tekinn úr bifreið stefnanda 26. nóvember samkvæmt stefnda og var því þessi heimild nýtt í 15 daga. Búnaður sem settur var innan sama tímabils á bílaleigubifreið, sem stefnandi hafði til umráða, var tekinn af degi síðar. Að lokum er horft til þess tíma sem lögreglu var heimilt að koma fyrir hlustunarbúnaði í bifreiðum ákærða, sbr. úrskurð frá 18. nóvember 2012 en sú heimild gilti til 12. desember sama ár eða í 27 daga. Lagt verður til grundvallar, sbr. framangreint um eftirfararbúnað, að þessi hlustunarheimild hafi einungis verið nýtt í einn dag, sbr. gögn málsins. Við bótaákvörðun verður að auki tekið tillit til heimildar sem lögreglu var veitt til athugana aftur í tímann frá janúar 2012 sbr. framangreint samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 8. nóvember 2012.

Dómurinn fellst ekki á með stefnanda og telur slíkt án lagastoðar að það komi til sérstakrar skoðunar dómsins við ákvörðun bóta til hækkunar, að slík ákvörðun eigi að virka sem hvatning til almennings um að sækja bætur og sem aðvörun til þeirra sem rannsóknarvald fara eða eigi að verka sem nokkurs konar refsing íslenska ríkisins, lögreglu og ríkissaksóknara.

Að öllu framangreindu virtu telur dómurinn að miskabætur til stefnanda skuli vera 600.000 kr.

Fallist er á vaxtakröfu stefnanda sem er eingöngu um dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þingfestingu málsins. Er þá horft framhjá tilvísun stefnanda til 3. mgr. 5. gr. laganna í ljósi kröfugerðarinnar að öðru leyti.

Stefnandi hefur lagt fram gjafsóknarleyfi vegna reksturs þessa máls fyrir héraðsdómi útgefið 22. október 2012. Rétt er því að málskostnaður milli aðila falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, sem telst, miðað við umfang málsins og rekstur þess, hæfilega ákveðin 496.000 kr.

Ólafur Karl Eyjólfsson héraðsdómslögmaður flutti mál þetta fyrir hönd stefnanda og Guðrún Sesselja Arnardóttir hæstaréttarlögmaður fyrir hönd stefnda.

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari, sem tók við málinu 15. september 2015, kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Magnúsi Ver Magnússyni, 600.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. desember 2014 til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans 494.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.