Mál nr. 805/2013

Lykilorð
  • Veðskuldabréf
  • Aðfinnslur
  • Kærumál
  • Ráðgefandi álit
  • Nauðungarsala

 

Mánudaginn 10. febrúar 2014.

Nr. 805/2013.

 

Páll Böðvar Valgeirsson og

Sigríður Jónsdóttir

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Arion banka hf.

(Karl Óttar Pétursson hrl.)

 

Kærumál. Nauðungarsala. Veðskuldabréf. Ráðgefandi álit. Aðfinnslur.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um gildi nauðungarsölu. Hafnað var kröfu P og S um að ógilt yrði nauðungarsala á fasteign þeirra, sem fram fór að beiðni A hf. á grundvelli veðskuldabréfs sem var gjaldfallið og í vanskilum. Samhliða kæru til Hæstaréttar höfðu P og S uppi beiðni um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tiltekin atriði er lutu að skýringu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, en þeirri beiðni var hafnað undir meðferð málsins fyrir réttinum.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. nóvember 2013 þar sem leyst var úr ágreiningi um gildi nauðungarsölu á fasteign sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr., sbr. 1. mgr. 79. gr., laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og nauðungarsala á fasteigninni Engjavegi 47 á Selfossi, sem fram fór 23. apríl 2013, verði felld úr gildi. Til vara að „uppboðsbeiðni varnaraðila verði hafnað og öll meðferð uppboðsmálsins hjá sýslumanninum á Selfossi verði ómerkt og felld úr gildi.“ Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kæru sóknaraðila verði vísað frá Hæstarétti, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar var gerð sú krafa að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins þar sem óskað yrði svara við sex spurningum um nánar tiltekin atriði er lúta að skýringu á tilskipun ráðsins 93/13/EBE 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum. Varnaraðili andmælti þessari kröfu sóknaraðila. Með bréfi Hæstaréttar 3. febrúar 2014 var sóknaraðilum tilkynnt að framangreindri kröfu þeirra um öflun ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins hefði verið hafnað.

Varnaraðili hefur engin haldbær rök fært fram fyrir frávísunarkröfu sinni og verður henni hafnað. Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Eftir þessum málsúrslitum verða sóknaraðilar dæmd til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að eftir að sóknaraðilar lögðu fram sameiginlega greinargerð fyrir Hæstarétt bárust réttinum svonefndar viðbótargreinargerðir bæði frá varnaraðila og  sóknaraðila, en með þessum tilskrifum fylgdi fjöldi gagna.  Fyrir þessum skriflega málflutningi er engin lagaheimild og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Frávísunarkröfu varnaraðila, Arion banka hf., er hafnað.

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Páll Böðvar Valgeirsson og Sigríður Jónsdóttir, greiði varnaraðila  250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. nóvember 2013.

Mál þetta, sem þingfest var 12. júní 2013 og tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 9. október 2013, barst dóminum þann 16. maí 2013 með beiðni, dags. 14. maí 2013. 

Sóknaraðilar eru Páll Böðvar Valgeirsson, kt. [...], Engjavegi 47, Selfossi og Sigríður Jónsdóttir, kt. [...], sama stað, en varnaraðili er Arionbanki hf., kt. [...], Borgartúni 9, Reykjavík.

Kröfur sóknaraðila eru:

1.     Að nauðungarsala á eigninni Engjavegi 7, fnr. 218-5833, Selfossi hjá sýslumanninum á Selfossi þann 23. apríl 2013 verði felld úr gildi.

2.    Til vara að uppboðsbeiðni gerðarbeiðanda Arion banka verði hafnað og öll meðferð uppboðsmálsins hjá sýslumanninum á Selfossi verði ómerkt og felld úr gildi.

Jafnframt krefjast sóknaraðilar málskostnaðar að skaðlausu.

Kröfur varnaraðila eru að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að nauðungarsala sýslumannsins á Selfossi á fasteigninni Engjavegi 47, fnr. 218-5833, Selfossi, sem fram fór þann 23. apríl 2013, í máli nr. 301/2012, verði staðfest. Jafnframt krefst varnaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi sóknaraðila.

Fyrir uppkvaðningu úrskurðar var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Málavextir

Í tilkynningu sinni til héraðsdóms lýsa sóknaraðilar málavöxtum svo að krafa varnaraðila um uppboð á eigninni sé byggð á veðskuldabréfi útgefnu af sóknaraðilum 21. september 2004, að fjárhæð kr. 13.300.000 til Kaupþings Búnaðarbanka hf.  Fastir vextir eru sagðir 4,20%, lánaflokkur sagður 0552 og grunnvísitala 234,6.  Í upphafi bréfsins segir:  „Útgefandi viðurkennir með undirritun sinni á skuldabréf þetta að skulda kröfuhafa þessa skuldabréfs, Kaupþingi Búnaðarbanka hf. kt. 560882-0419 eða þeim sem eignast skuldabréfið á löglegan hátt in solidum“. Samkvæmt bréfinu er skuldin tryggð með veði í Engjavegi 47, fnr. 218-5833.

Í veðskuldabréfinu er ákveðinn samningstexti (skilmálar) í 12 liðum.  Undir 1. lið segir: „Skuld þessi er bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá ofanskráðri grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll skuldarinnar breytast á hverjum gjalddaga í hlutfalli við breytingar á vísitölunni, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Af höfuðstól skuldar þessarar eins og hann er á hverjum tíma, ber skuldara að greiða fasta vexti skv. ofanskráðu. Vexti ber að greiða eftir á, á sama tíma og afborganir.  Fjárhæðir afborgana af skuld skv. skuldabréfi þessu skulu reiknaðar út á grundvelli jafngreiðsluaðferðar (annuitetsútreiknings). „

Undir lið nr. 4 eru vanskilaákvæði og segir að verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta/vísitöluálags af bréfinu sé heimilt að fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Beri þá að greiða dráttarvexti sem eru grunnur dráttarvaxta auk vanefndaálags sem Seðlabanki Íslands ákveður sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð. Í 7. lið bréfsins segir að þegar skuldin er fallin í gjalddaga geti veðhafi látið selja hina veðsettu eign nauðungarsölu til fullnustu kröfunni án undangengis dóms, sáttar eða fjárnáms skv. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 90/1991 um nauðungarsölu, en jafnframt megi gera aðför til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989. Auk þess að ná til höfuðstóls skuldarinnar skuli  nauðungarsölu- og aðfararheimildin ná til vísitöluálags, vaxta, dráttarvaxta, málskostnaðar eða innheimtukostnaðar, kostnaðar af gerðinni sjálfri og væntanlegs kostnaðar af frekari fullnustuaðgerðum. Rituðu sóknaraðilar undir veðskuldabréfið í votta viðurvist þann 21. september 2004 og var bréfið nr. 10826.

Kaupþing banki hf. framseldi bréfið þann 29. mars 2006 til Kaupthing mortages institutional investor Fund („KMIIF“), kt. 570106-9610, og er bréfið áritað um það framsal.

Með ákvörðun 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf. og þann 21. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um hvaða eignum, réttindum og skuldum yrði ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf.  Segir í hinni síðari ákvörðun að allar eignir flytjist yfir til hins nýja banka,  nema tilteknar eignir, sérgreindar í viðauka með ákvörðuninni. Þá segir að réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum flytjist ekki yfir til hins nýja banka. Jafnframt flytjist yfir öll tryggingarréttindi, þ.m.t. veðréttindi.

Þann 18. október 2011 tilkynnti Stefnir hf., sem varnaraðili kveður hafa verið rekstrarfélag KMIIF, til fyrirtækjaskrár um breytingu á nafni KMIIF í Arion bank mortages Institutional Investor Fund („ABMIIF“). ABMIIF framseldi veðskuldabréfið til varnaraðila þann 4. maí 2012 og er bréfið áritað um framsalið.

Þann 22. júní 2009 var gerð skilmálabreyting á greiðsluskilmálum veðskuldabréfsins, þannig að næstu greiðslu var frestað til 1. apríl 2010.  Áfallnir vextir skyldu leggjast við höfuðstól og mynda nýjan höfuðstól.  Skilmálabreytingin var undirrituð af hálfu Nýja Kaupþings banka hf. sem eiganda veðskuldabréfsins og kröfuhafa, sem og af báðum sóknaraðilum.

Þann 1. ágúst 2010 kveður varnaraðili að sóknaraðilar hafi ekki sinnt því að greiða af bréfinu og hafi sóknaraðilar ekki innt af hendi neina greiðslu af bréfinu frá þeim tíma. Veðskuldabréfið hafi þannig fallið í vanskil 1. ágúst 2010.

Varnaraðili kveður að sóknaraðilum hafi verið send milliinnheimtubréf þann 8. september 2010, 28. september 2010 og 15. október 2010 og liggja afrit bréfanna fyrir í málinu. Þar var skorað á sóknaraðila að krafan yrði greidd til að koma í veg fyrir frekari kostnað og innheimtuaðgerðir. Þá var einnig tekið fram að krafan færi í löginnheimtu ef áskorunum yrði ekki sinnt. Kveður varnaraðili að sóknaraðilar hafi ekki sinnt áskorunum varnaraðila um að greiða kröfuna.

Þann 5. janúar 2011 voru sóknaraðilum sendar greiðsluáskoranir sem voru birtar á lögheimili sóknaraðila fyrir sóknaraðila Sigríði með stefnuvotti 27. janúar 2011 skv. framlögðum gögnum. Þann 8. ágúst 2012 sendi varnaraðili nauðungarsölubeiðni til sýslumannsins á Selfossi.

Nauðungarsölubeiðnin var fyrst tekin fyrir hjá sýslumanninum á Selfossi þann 14. febrúar 2013 og fór byrjun uppboðs fram 27. mars 2013. Var síðastgreindan dag framhald uppboðs ákveðið þann 23. apríl 2013. Framhald uppboðs fór fram þann dag og var varnaraðili hæstbjóðandi. Við framhald uppboðs komu fram mótmæli frá sóknaraðila Páli, en sýslumaður taldi þau ekki þess eðlis að heimild væri til að stöðva uppboð.

Kveða sóknaraðilar að „eftir þá miklu hækkun skuldarinnar sem varð eftir hruni [sic.] 2008“ hafi sóknaraðilar hætt að geta greitt af skuldinni á árinu 2010 og  Arionbanki hf., sem þá hafi haft veðskuldabréfið í fórum sínum, gripið til þess ráðs að senda greiðsluáskorun og biðja um uppboð á veðinu, samanber greiðsluáskorun frá 5. janúar 2011 og uppboðsbeiðni frá 8. ágúst 2012.

Í málavaxtalýsingu sinni taka sóknaraðilar fram að ekki hafi þeim hugnast tilgangur svokallaðra „neyðarlaga“ sem aðeins hafi verið sett til bjargar vel stæðu fólki. Þá geta sóknaraðilar þess í málavaxtalýsingu sinni að gerðar hafi verið skilmálabreytingar á bréfinu. Jafnframt að eignin hafi verið slegin varnaraðila á téðu uppboði fyrir kr. 10.000.000 gegn mótmælum sóknaraðila. Kveða sóknaraðilar að þeir hafi verið órétti beittir og að uppboðsbeiðni hafi ekki verið rétt úr garði gerð og ekki verið óyggjandi heimild samkvæmt nauðungarsölulögum og réttarreglum um kröfuhafaskipti. Þá hafi ekki verið upplýst, hvernig varnaraðili hafi komist yfir skuldabréfið og á hvaða kjörum. Þá séu útreikningar á höfuðstól veðskuldabréfsins ekki lögum samkvæmt. Vísa sóknaraðilar um það einnig til þeirra mótmæla, sem sóknaraðilar lögðu fram til sýslumanns.  Séu sóknaraðilar því tilneyddir að bera málið undir dóm.

Varnaraðili mótmælir lýsingu sóknaraðila á málsatvikum að svo miklu leyti sem hún gengur gegn málavaxtalýsingu varnaraðila og þegar einstök atvik koma ekki fram í framlögðum gögnum í málinu. Jafnframt kveðst varnaraðili mótmæla sérstaklega fjölda ályktana sóknaraðila, sem fram komi í tilkynningu til héraðsdóms og greinargerð, enda eigi þær ekki við nein rök að styðjast og gangi sumar hverjar gegn framlögðum gögnum málsins. Auk þess mótmælir varnaraðili mála­vaxta­­lýsingu sóknaraðila almennt, bæði sem rangri og ósannaðri, að því leyti sem hún er ekki í samræmi við málavaxtalýsingu varnaraðila.

Þá voru lagðar fram athugasemdir af hálfu sýslumanns, dags. 1. júlí 2013, sbr. 3. mgr. 81. gr. laga nr. 90/1991, en óþarft þykir að rekja hér sérstaklega efni þeirra.

Málsástæður sóknaraðila

Í tilkynningu sinni til héraðsdóms vísa sóknaraðilar aðallega til 60. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 vegna embættistakmarka yfirvalda.  Þá kveðast sóknaraðilar vísa til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 og þess að uppboði hafi lokið og tilboði verið tekið.

Nánar tiltekið kveðast sóknaraðilar vísa til eftirfarandi málsástæðna sem koma fram í tilkynningu og í greinargerð.  Eru málsástæður sóknaraðila raktar hér á eftir eins og þeim er lýst í tilkynningu og greinargerð sóknaraðila.

a.                       Sóknaraðilar vísa til þess að uppboðsheimildin verði að bera með sér bæði hver sé kröfuhafi skuldarinnar og hvernig hafi verið greitt af bréfinu. Er í þessu efni vísað til almennra reglna kröfuréttar um kröfuhafaskipti og tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798, sem og til reglna um neytendavernd, sbr. lög um neytendalán nr. 121/1994, enda séu sóknaraðilar  neytendur og hafi ætíð staðið frammi fyrir sérfræðingum fjármálastofnana. Þá verði, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991, sbr. 1. tl. 2. gr. laganna, að upplýsa hvernig varnaraðili  komst yfir veðskuldabréfið og á hvaða kjörum og á hverju hann byggi heimild sína og þar með eignarhald sitt, ef um það er að ræða. Sé ósanngjarnt að krefja sóknaraðila um fullar efndir hafi varnaraðili eignast kröfuna á 52% af andvirði hennar eins og sóknaraðilar telji víst. Hafi kröfuhafaskipti orðið á bréfinu, þá séu þau með aðkomu íslenska ríkisins. Vísa sóknaraðilar til kvartana ESA í því sambandi. Sé því hugsanlegt að sóknaraðilar  geti borið fyrir sig ógildingarákvæði samningalaga sbr. 36. gr. þeirra málsástæðum sínum til grundvallar, sem og ákvæði skaðabótaréttar um ólögmæta auðgun, eftir að þessi atriði hafi verið upplýst til fullnustu.  Innheimtan brjóti í bága við nefnda 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 og sé nauðsyn að öll aðkoma íslenska ríkisins og Fjármálaeftirlitsins að málinu verði upplýst.

Sóknaraðilar benda á að skv. lögum nr. 90/1991 gildi ákvæði einkamálalaga nr. 91/1991 eftir því sem við á og benda sóknaraðilar í þessu efni á X. kafla laga nr. 91/1991 og skora á varnaraðila að upplýsa á hvaða verði varnaraðili hafi eignast kröfuna  og með hvaða hætti.

Sóknaraðilar benda á að hafi varnaraðili fengið bréfið án endurgjalds og sé aðeins innheimtuaðili sé uppboðsbeiðnin ekki rétt úr garði gerð, því þá vanti umboð.  Óljóst sé hvort varnaraðili hafi orðið eigandi veðréttarins á löglegan hátt.  Veðréttur sá, sem varnaraðili byggi á, sé grundvallaður á samningi milli upphaflegs kröfuhafa og sóknaraðila. Samningurinn hafi í raun aldrei öðlast réttarvernd vegna þess að útilokað hafi verið að gera sér fyrir fjárhæð kröfunnar eða hvert hámark hennar gæti orðið.  Vísa sóknaraðilar í þessu efni til 1. tl. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Þá sé óljóst hvernig varnaraðili hafi orðið kröfuhafi þeirrar uppboðsheimildar og hvernig bankinn sé aðili að veðréttinum og þannig getað farið fram á uppboð.  Byggi heimildir varnaraðila á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 verði ekki séð að þar sé skýrlega kveðið á um veðréttindin sem uppboðsheimildin byggist á.  Ef varnaraðili sé ekki raunverulegur eigandi bréfsins, heldur aðeins með bréfið til innheimtu, þá benda sóknaraðilar á að ekki hafi verið lagt fram umboð frá raunverulegum eiganda bréfsins til varnaraðila.  Þess vegna beri að ógilda uppboðið.

b.                       Þá kveðast sóknaraðilar byggja á því að bréfið hafi aldrei orðið viðskiptabréf, sbr. viðskiptabréfareglur viðskiptabréfaréttar eða kröfuréttar, þar sem aðilaskipti hafi ekki orðið við venjuleg og eðlileg viðskipti, heldur vegna svokallaðs hruns og aðgerða opinberra aðila í  því sambandi. Sóknaraðilar geti því borið fyrir sig þær málsástæður sem þau gera og krafið um þær upplýsingar sem þau krefji um.  Jafnvel þó talið verði að bréfið hafi verið eða orðið viðskiptabréf, þá hafi sóknaraðilar rétt til að bera fram málsástæður sínar.  Þeim sé fært að neita að greiða kröfuna sýni varnaraðili ekki fram á lögformlega heimild til bréfsins.  Sé talið að bréfið falli undir lög um neytendalán nr. 121/1994 þá haldi skuldari öllum mótbárum gagnvart síðari framsalshöfum sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.  Sé hins vegar talið að bréfið falli ekki undir nefnd lög um neytendalán þá sé ljóst að „Kaupthing Mortage Founds“, eins og segir í greinargerð sóknaraðila, dótturfélag Kaupþings banka geti ekki talist vera grandlaus um efni skuldabréfsins og lögskiptin að baki því, né heldur núverandi kröfuhafi.

c.                                        Sóknaraðilar vísa til þess að það sé grundvallarregla í öllum málum til fullnustu peningakröfu, að höfuðstóll kröfunnar verði að vera skýr og skiljanlegur, sbr. upphaf 6. gr. laga nr. 90/1991, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna, sbr. og upphaf 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.  Í þessu samhengi benda sóknaraðilar á 11. gr. (á að vera 13. gr. skv. leiðréttingu við munnlegan flutning málsins) laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þar sem segi:

„Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli vera verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.

Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.“

Verði að vera hægt að ráða af bréfinu sjálfu hver fjárhæð skuldarinnar sé, eftir atvikum með hliðsjón af opinberum ákvörðunum vaxta og verðbóta og að teknu tilliti til greiðslu afborgana og vaxta sem hafi verið ritaðar á bréfið.  Verði að mæla fyrir um hvernig fjárhæð vaxta og verðbóta verði fundin, þ.e. reiknigrundvöllurinn.

Sóknaraðilar byggja á því að útreikningsaðferð varnaraðila eins og hún birtist í ofangreindum ákvæðum í skuldabréfinu sjálfu sé ekki í samræmi við lög, heldur sé við útreikning á höfuðstól greinilega farið eftir 4. gr. III. kafla reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 en þar segi:

„Verðtrygging láns með ákvæði um að höfuðstóll þess miðist við vísitölu neysluverðs er því aðeins heimil að lánið sé til fimm ára hið minnsta.  Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.“

Sóknaraðilar byggja á að ofangreindar reglur Seðlabanka geti ekki fallið undir þá skilgreiningu sem hafa verði við ofangreint skilyrði 11. gr. (sem á þá væntanlega líka að vera 13. gr.) laga um vexti og verðtryggingu. Lánskostnaður sá sem innheimta átti sé því ólögmætur og þannig rangur.  Reglugerðarákvæðið hafi ekki lagastoð, en það sé byggt á VI. kafla laga nr. 38/2001 en þar verði ekki séð að Seðlabankanum sé heimilað að ákvarða að höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu eins og gert sé í nefndri 4. gr. reglugerðarinnar nr. 492/2001.

Verulegt ósamræmi sé milli nefndrar reglugerðar og laganna um reikningsaðferðir. Sú skýring standist ekki að „greiðslur“ séu í skilningi laganna „höfuðstóll“.

Í umræddum greinum laga nr. 38/2001 sé fjallað um greiðslur í fleirtölu og með því hljóti að vera vísað til afborgana og vaxtagreiðslna.  Engin heimild sé í lögum fyrir því viðbótarláni sem höfuðstólsfærslur á verðbótum feli í sér og það stangist á við grundvallarreglur í almennri lánastarfsemi.

Þá benda sóknaraðilar á að lánið sé svokallað verðtryggt jafngreiðslulán, þ.e. annuitetslán, en í bréfi Seðlabankans til Umboðsmanns Alþingis, dags. 30. ágúst 2011, komi fram að ókosturinn við slík lán sé að útreikningurinn sé ekki eins auðskilinn og útreikningur lána með jöfnum afborgunum, en í bréfinu takist Seðlabankanum í raun ekki að svara spurningum Umboðsmanns á fullnægjandi hátt. Bankar sem veiti slík lán geti ekki sýnt fram á útreikning á þeim enda svo flókið að aðeins sé það á færi hæfustu sérfræðinga. Geysilega erfitt sé því fyrir neytendur að átta sig á eðli lánanna vegna flækjustigs og séu því slík verðtryggð lán í eðli sínu svokallaðar afleiður sem hafi verið skilgreindar sem „Samningur þar sem uppgjörsákvæði byggist á breytingum einhvers þáttar á tilteknu tímabili, svo sem vaxta, gengis gjaldmiðla, verðbréfaverðs,  verðbréfavísitölu eða hrávöruverðs“. Kveða sóknaraðilar ljóst að hin meinta gjaldfallna skuld byggist á afleiðu sem ekki sé tiltekin peningafjárhæð skv. 3. tl. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 90/1991 og að skuldabréfið geymi ekki ákveðna peningafjárhæð til samræmis við 7. tl. 1. mgr. 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Upphaflegt bréf hafi því ekki fullnægt skilyrðum laga um beinar uppboðsheimildir, þar sem upphaflegum kröfuhafa, KB banka, hafi ekki verið heimilt að veita lán sem í eðli sínu hafi verið flókinn fjármálagerningur til neytenda.  Meginregla laga sé að afla verði dóms áður en gengið sé að skuldara. Undantekningar frá því séu réttarfarshagræði s.s. aðför skv. utanréttarsamningum eða skuldabréfum. Túlka þurfi slík frávik þröngt og hafna aðför ef aðfararheimild sé ekki jafn ákveðin og skýr sem dómsúrlausn væri.  Eigi þetta við í málinu og beri því að fallast á kröfur sóknaraðila. Lán sem þessi séu haldin slíkri óvissu um heildarskuld sem skuldari þurfi að greiða að óhjákvæmilegt sé að dómur sé undanfari aðfarar eða nauðungarsölu.  Þá kveða sóknaraðilar að lánið geti ekki verið í vanskilum ef það byggi á ólögmætum útreikningum kröfuhafa á skuldinni.  Hafi varnaraðili ekki sýnt fram á að skuldin sé gjaldfallin í skilningi laga nr. 90/1991 og í það minnsta ekki með hvaða hætti. Þá kveða sóknaraðilar ljóst að það hvernig framkvæmdin sé á grundvelli vísitöluútreiknings Hagstofunnar, að um afleiðusamning sé að ræða, sem ekki fái staðist.

Þá geti krafa varnaraðila ekki verið lögmæt þar sem varnaraðili hafi brotið gegn upplýsingaskyldu samkvæmt lögum um neytendalán þar sem verðbætur falli undir þann kostnað sem skylt sé að upplýsa með viðhlítandi dæmum og þar með sé ekki heimilt að innheimta verðbætur sem varnaraðili geri í málinu. Lánssamningurinn falli undir gildissvið laga nr. 121/1994 um neytendalán en lögin gildi um lánssamninga sem lánveitandi geri við neytendur í atvinnuskyni.

Þá vísa sóknaraðilar til laga nr. 33/2013 sem tóku gildi 1. nóvember 2013.  Í framhaldi þess byggja sóknaraðilar á því að tilskipun 87/102/EBE hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum um neytendalán og gildi einnig um húsnæðislán eftir breytingar með lögum nr. 197/2000. Tilgangur reglnanna hafi verið að tryggja neytendum mikilvægar upplýsingar við lánveitingar og auka þannig vernd þeirra.  Ríkar skyldur séu lagðar á lánveitanda varðandi upplýsingar til lántaka. Beri m.a. að veita upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar, þ.e. heildarlántökukostnað lýst sem árlegum hundraðshluta af höfuðstól. Þá vísa sóknaraðilar til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 um að verðtrygging skuli teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar og að KB banki hafi brotið gegn upplýsingaskyldu sinni samkvæmt því ákvæði þegar lánið var veitt. Jafnframt vísa sóknaraðilar til 14. gr. síðastgreindra laga um að séu vextir eða annar lántökukostnaður ekki tilgreindir í lánssamningi sé lánveitanda óheimilt að krefja neytanda um greiðslu þeirra. Þá sé lánveitanda óheimilt að krefja um greiðslu frekari lántökukostnaðar en sem tilgreindur sé í samningi skv. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994 og þar með þeirra verðbóta sem krafist sé greiðslu á í málinu.

d.                       Sóknaraðilar vísa til þess að skilmálum bréfsins hafi verið breytt án þess að það hafi verið upplýst í uppboðsbeiðni, en ekki hafi verið krafist uppboðs með hliðsjón af þessum skilmálabreytingum.

e.                                        Sóknaraðilar vísa til laga um neytendalán nr. 121/1993 (á væntanlega að vera nr. 121/1994) og tilskipunar EBE frá 5. apríl 1993 nr. 93/13/EBE, samanber forúrskurð Evrópudómsólsins í málinu nr. C-415/11. Í nefndum forúrskurði sé fjallað um jafnvægi milli kröfuhafa og skuldara, eða fjármálafyrirtækis og neytanda og að ekki sé rétt að ganga að skuldara/neytanda án þess að dómur hafi gengið um ágreining þeirra. Þegar atvik séu svo sem hér, þ.e. að ákveðinn forsendubrestur verði í þjóðfélaginu við svokallað bankahrun, þá sé ósanngjarnt að sóknaraðilar verði að bera hann einir, en viðkomandi kröfuhafi fái aðstoð ríkisins til að innheimta kröfuna, án þess að komið sé til móts við skuldarann/neytandann á nokkurn hátt. Um sé að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár. Að minnsta kosti sé varhugavert að heimila að ganga megi að veðinu án dóms eða í það minnsta án fjárnáms/aðfarargerðar. Tilskipun 93/13 EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 14/1995 og því verði við úrlausn málsins að hafa hliðsjón af framangreindum forúrskurði, en svigrúm til að víkja frá fordæmum Evrópudómstólsins sé takmarkað. Um þetta kveðast sóknaraðilar einnig vísa til 60. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar vegna eignarréttar. Afar takmarkaður sé réttur neytenda til að fá úrlausn um réttindi sín áður en eign þeirra sé seld á nauðungaruppboði skv. íslenskum lögum og neytendur séu að verulegu leyti sviptir rétti sínum til að bera fram andmæli á grundvelli óréttmætra samningsákvæða.

f.                         Sóknaraðilar byggja á að þau hafi kært ákvörðun umboðsmanns skuldara til kærunefndar í greiðsluaðlögunarmálum og þannig leitað sér aðstoðar samkvæmt lögum nr. 101/2010.  Réttur þeirra til greiðsluaðlögunar geti því enn verið fyrir hendi. Sóknaraðilar hafi leitað með mál sitt til stjórnvalds, þar sem enn hafi ekki verið kveðið á um réttindi þeirra.  Þetta leiði til þess að  sýslumaður hefði átt að fresta uppboðsaðgerðum. 

g.                       Að auki kveða sóknaraðilar að afgreiðsla málsins hjá sýslumanni hafi ekki verið lögum samkvæm. Byggja sóknaraðilar þetta á því að frumrit bréfsins hafi ekki legið frammi við uppboðssöluna og að sýslumaður hafi ekki, þá er greinargerðin var dagsett 11. júní 2013, afhent sóknaraðilum ljósrit úr gerðabókum embættisins eins og um hafi verið beðið. Hafi sýslumaður því ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar og beri því að ógilda uppboðsmeðferð málsins. Auk þess kveða sóknaraðilar að varnaraðili sé viðskiptabanki embættis sýslumannsins á Selfossi.

Ekki vísa sóknaraðilar til lagaákvæða vegna málskostnaðarkröfu sinnar.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili kveður kröfur sóknaraðila verulega vanreifaðar og óskýrar svo að erfitt sé að taka til varna og ætti að réttu að vísa málinu frá dómi ex officio þar eð ekki séu uppfyllt skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum d, e og f liða.

Þó kveðst varnaraðili geta lesið út úr málatilbúnaði sóknaraðila í tilkynningu til héraðsdóms og greinargerð þeirra ellefu [sic.] röksemdir til stuðnings ógildingarkröfu sinni.

Í fyrsta lagi að ekki sé upplýst í málinu hvernig varnaraðili eignaðist kröfuna, á hvaða verði og hvernig greitt hafi verið fyrir bréfið, í öðru lagi að umkrafið veðskuldabréf hafi aldrei orðið viðskiptabréf, í þriðja lagi að höfuðstóll kröfu varnaraðila sé ekki skýr og skiljanlegur eins og skilyrði 6. gr. l. nr. 90/1991 geri ráð fyrir, í fjórða lagi að skilmálabreytingar hafi ekki verið getið í uppboðsbeiðni og þar af leiðandi hafi ekki verið krafist uppboðs með hliðsjón af skilmálabreytingunni, í fimmta lagi að lög um nauðungarsölu nr. 90/1991 takmarki rétt neytenda skv. tilskipun ráðsins nr. 93/13/EBE og stangist þar af leiðandi á við þær skyldur sem íslenska ríkið hefur tekið á sig með innleiðingu tilskipunarinnar, í sjötta lagi að varnaraðilar hafi kært ákvörðun Umboðsmanns skuldara til kærunefndar í greiðsluaðlögunarmálum og þannig leitað sér aðstoðar samkvæmt lögum nr. 101/2010, í sjöunda lagi að varnaraðili hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína í samræmi við lög um neytendalán nr. 121/1994, í áttunda lagi að varnaraðili hafi ekki öðlast veðréttindi þau sem uppboðsheimildin byggi á, í níunda lagi að innheimta varnaraðila brjóti gegn 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 þar sem hann hafi eignast veðskuldabréfið á helmingi andvirði þess, og í tíunda lagi að framgangur nauðungarsölunnar hafi ekki verið lögum samkvæmt.

Varnaraðili kveðst mótmæla öllum málsástæðum sóknaraðila sem röngum, ósönnuðum og vanreifuðum. Ekkert augljóst samhengi sé milli þeirra og kröfu sóknaraðila um ógildingu, en sá annmarki geti einnig varðað frávísun málsins en að öðrum kosti að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Sóknaraðilar beri það þannig ekki fyrir sig að meintir annmarkar séu þess eðlis að sóknaraðilar hefðu getað varnað nauðungaruppboði, en þegar af þeim ástæðum beri að hafna kröfum sóknaraðila.

Varnaraðili kveður öll skilyrði laga nr. 90/1991 uppfyllt í nauðungarsölumálinu og hafnar um leið tíundu málsástæðu sóknaraðila. Varnaraðili kveður að sýslumanni hafi ekki verið annað fært en að taka ákvörðun um að halda gerðinni áfram og selja fasteign sóknaraðila á nauðungaruppboði.

Öll skilyrði 2. tl. 6. gr. laga nr. 90/1991 séu uppfyllt, sem og skilyrði 11. gr. laganna, enda hafi sýslumaðurinn á Selfossi kannað lögmæti og réttmæti beiðninnar skv. 13. gr. laganna og í framhaldinu ákveðið að láta uppboð fara fram. Sóknaraðilar hafi sönnunarbyrði fyrir því að skilyrðin hafi ekki verið uppfyllt. Þá vísar varnaraðili til 2. mgr. 22. gr. l. nr. 90/1991 sem hafi verið skýrð á þann veg að sýslumaður geti ekki lagt mat á framhald uppboðs með óbundnar hendur heldur gefi orðalag 2. ml. 2. mgr. 22. gr. laganna líkindi fyrir því að meta eigi niðurstöðu gerðarbeiðanda í hag. Ágreiningur um fjárhæð kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila geti ekki leitt til þess að varnaraðili geti ekki fengið fullnustu kröfu sinnar, heldur geti sá ágreiningur komið til skoðunar við úthlutun söluverðs eftir ákvæðum VIII. kafla laganna. Krafa varnaraðila sé á lífi og ógreidd. Sóknaraðilar hafi aldrei sýnt neinn raunverulegan vilja til að greiða kröfu varnaraðila eða að þau hafi getu til þess. Þá bendir varnaraðili á að þeir meintu annmarkar sem sóknaraðilar bera fyrir sig séu ekki þess eðlis að sóknaraðilar hefðu getað varnað uppboði. Af þeim sökum beri að hafna öllum kröfum sóknaraðila.

Vegna fyrstu málsástæðu sóknaraðila um að ekki sé upplýst í málinu hvernig varnaraðili eignaðist kröfuna, á hvaða verði og hvað hafi verið greitt fyrir bréfið, bendir varnaraðili á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldinu hafi verið stofnaður Nýi Kaupþing banki hf., sem nú beri  heitið Arion banki hf. Arion banki hf. hafi tekið við ýmsum réttindum og skyldum Kaupþings banka skv. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins dags. 21. október 2008. Í 1. lið þeirrar ákvörðunar segi að öllum eignum Kaupþings banka hverju nafni sem nefnast skuli ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf. þegar í stað. Ákveðnar eignir og réttindi skuli þó undanskilin og sé það nánar tilgreint í ákvörðuninni. Í 2. lið segi að Nýi Kaupþing banki hf. taki jafnframt við öllum tryggingarréttindum Kaupþings banka, þ.m.t. öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum bankans. Ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins hafi verið birtar opinberlega í Lögbirtingarblaði og á vefsíðu eftirlitsins. Það sé því óumdeilt að varnaraðili sé eigandi bréfsins og réttinda sem því fylgi. Þá byggir varnaraðili á að framangreind skilmálabreyting, sem sóknaraðilar undirrituðu athugasemdalaust, feli í sér viðurkenningu sóknaraðila á varnaraðila sem réttmætum kröfuhafa bréfsins. Þá byggir varnaraðili á því að auki að ekki sé það gildisskilyrði framsals, samkvæmt viðskiptabréfareglum, að skuldabréf sé ekki [sic.] stimplað um framsalið eins og sóknaraðilar virðist gera ráð fyrir.

Varnaraðili mótmælir því að honum beri að upplýsa um á hvaða verði umrædd krafa hafi verið færð yfir frá Kaupþingi banka til varnaraðila, enda hafi það  ekki áhrif á kröfuna gagnvart sóknaraðilum skv. meginreglum kröfuréttar. Samkvæmt meginreglum kröfuréttar sé kröfuhafa frjálst að ráðstafa kröfu sinni með samningi til annarra aðila og þurfi samþykki skuldara ekki til. Þá sé ekki skilyrði að endurgjald komi í stað þeirra kröfuréttinda sem afhent eru, þó varnaraðili sé ekki að vísa til þess að svo hafi verið í þessu tilviki. Þessi  málsástæða sóknaraðila hafi því enga þýðingu í málinu.

Vegna málsástæðu sóknaraðila um að skuldabréfið sé ekki áritað um afborganir sbr. tilskipun um áritun afborgana á skuldabréf frá 9. febrúar 1798 tekur varnaraðili það fram að áratugir séu liðnir síðan fjármálafyrirtæki hættu að árita skuldabréf í sinni eigu um greiddar afborganir. Breyttir viðskiptahættir og breytt tækni hafi valdið þessari þróun. Þess í stað gefi fjármálafyrirtækin út lausar kvittanir fyrir hverri afborgun og greiðslusaga hverrar kröfu sé varðveitt í bókhaldi fyrirtækisins og hjá Reiknistofu bankanna. Fjármálafyrirtækin hafi talið sér þetta heimilt og hafi þessi framkvæmd verið viðurkennd af Fjármálaeftirlitinu. Styðjist það við ákvæði 2. mgr. tilskipunar um áritun afborgana á skuldabréf nr. 9 frá 1798. Ákvæðið feli í sér að kvittanir fyrir afborgun á lausu blaði hafi fullt gildi gagnvart þeim sem gaf þær út, sem sönnun fyrir greiddri afborgun. Þá hafi sú framkvæmd að árita ekki frumrit skuldabréfa um afborganir en gefa í þess stað út lausar kvittanir, ekki áhrif á skuldbindingargildi viðkomandi skuldabréfs né innheimtu þess. Varnaraðili hafni þessari málsástæðu sóknaraðila enda hafi hún ekki áhrif á gildi nauðungarsölunnar.

Þá mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að margnefnt veðskuldabréf hafi aldrei orðið viðskiptabréf, sem rangri. Kveður varnaraðili  alkunnugt að skuldabréf teljast til viðskiptabréfa og kveðst varnaraðili m.a. vísa til almennra reglna um viðskiptabréf og áskilnað þeirra um eðli viðskiptabréfa. Meintur formgalli á framsali breyti ekki því að um viðskiptabréf sé að ræða. 

Varnaraðili mótmælir því sem röngu og órökstuddu að höfuðstóll kröfu varnaraðila sé ekki skýr og skiljanlegur eins og skilyrði 6. gr. l. nr. 90/1991 gera ráð fyrir.  Í 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna sé meðal annars áskilið að samningur um veðrétt þurfi að kveða á um veðrétt fyrir tiltekinni peningakröfu. Þessu skilyrði sé ekki fullnægt nema peningakrafan sé skilgreind í samningnum á svo skýran hátt að ljóst sé um hvaða kröfu sé um að ræða. Veðskuldabréf nr. 10826 mæli skýrt fyrir um fjárhæð kröfunnar sem bréfinu sé ætlað að tryggja, þ.e. kr. 13.300.000, og einnig með hvaða hætti fjárhæðin geti breyst. Í 1. lið veðskuldabréfsins komi skýrt fram að skuldin sé bundin vísitölu neysluverðs til verðtryggingar og að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá skráðri vísitölu á bréfinu sjálfu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Þá sé skýrt út hvernig vextir reiknist af láninu í sama lið. Lánaskjalið sé einfalt og auðlesið.

Varnaraðili kveðst mótmæla þeim ályktunum sóknaraðila að útreikningsaðferð varnaraðila á heildarkröfu sinni samkvæmt veðskuldabréfinu sé ekki í samræmi við lög. Ályktanir sóknaraðila séu mjög óljósar, vanreifaðar og órökstuddar með öllu. Sóknaraðilar vísi til 11. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 þar sem kveðið sé á um að greiðslurnar skuli verðtryggðar og til 4. gr. reglna Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 sem segi að höfuðstóll láns breytist á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út. Sóknaraðilar vísi til þessara ákvæða kröfu sinni til stuðnings um að höfuðstóll varnaraðila sé ekki reiknaður með réttum hætti án þess að rökstyðja og sýna fram á mismun á útreikningsaðferðum. Varnaraðili kveðst byggja á því að hvort sem greiðslur eru verðtryggðar, sbr. 11. gr. laga nr. 38/2001 eða höfuðstóll breytist, sbr. 4. gr. reglna SÍ nr. 492/2001, leiði það ekki til tölulegs misræmis heldur verði efnisleg niðurstaða sú sama. Af þeim sökum hafi meginregla laga nr. 38/2001 um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár ekki verið ranglega framkvæmd, þó reglur Seðlabankans nr. 492/2001 kveði á um verðbættan höfuðstól en 13. gr. laganna um að greiðslur skuli verðbættar. Þá bendir varnaraðili á að fjármálafyrirtækjum sé ekki skylt að birta upplýsingar um verðbættan höfuðstól á hverjum greiðsluseðli, eins og varnaraðili geri, en það sé gert m.a. til að sóknaraðilar geti fengið upplýsingar um mat á höfuðstól sem sé í samræmi við framtíðargreiðslur.

Varnaraðili mótmælir því að verðtryggt jafnvirðislán sé í eðli sínu afleiða og að umrætt bréf sé þannig afleiða. Kveður varnaraðili verðtryggingu vera rótgróna tegund skuldbindingar hér á landi sem byggist á tilteknum hagfræðilegum, sögulegum og fjármálalegum rökum, en verðtrygging eigi sér skýra heimild í lögum nr. 38/2001. Verðtrygging lánsskuldbindingar feli það í sér að höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Verðtrygging teljist því ekki afleiða í skilningi laga nr. 108/2007. Varnaraðili bendir í þessu sambandi sérstaklega á að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 38/2001 falli afleiðusamningar ekki undir ákvæði VI. kafla laganna, þar sem er hins vegar kveðið á um verðtryggingu lánsfjár. Þá kveður varnaraðili verðtryggðar lánsskuldbindingar vera frábrugðnar afleiðum í verulegum atriðum, svo sem að því er varðar lengd lánstíma. Varnaraðili kveður þannig ályktun sóknaraðila um að verðtrygging sé í eðli sínu afleiða, beinlínis ranga og hafi auk þess ekki þýðingu í málinu. 

Varnaraðili mótmælir því að umrætt veðskuldabréf mæli ekki fyrir um ákveðna peningafjárhæð, sbr. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991.  Heimildir laga nr. 90/1991 um hvenær heimilt sé að krefjast beinnar nauðungarsölu, sbr. 6.-8. gr. laganna, séu skýrar. Þær heimildir mæli fyrir um rétt varnaraðila til að krefjast beinnar nauðungarsölu á eign sóknaraðila. Af þeim sökum sé engin þörf á túlkun þeirra laga nú eins og sóknaraðilar virðist gera ráð fyrir í greinargerð. Varnaraðili byggir á því að engin óvissa liggi fyrir í málinu um hvernig fjárhæð veðskuldabréfsins er fundin út enda liggi það skýrt fyrir í skilmálum veðskuldabréfsins sjálfs, sem sóknaraðilar hafi undirritað og samþykkt án athugasemda. Þá hafnar varnaraðili því með vísan til sömu forsendna að hann hafi ekki getað sýnt fram á hvernig skuldin samkvæmt veðskuldabréfinu sé fundin út. 

Varnaraðili kveðst mótmæla staðhæfingu sóknaraðila um að bréfið sé ekki í vanskilum. Samkvæmt gögnum málsins hafi bréfið verið í vanskilum frá 1. ágúst 2010.

Varnaraðili kveður sóknaraðila halda því fram í greinargerð að bréfið hafi ekki verið gjaldfellt í heild sinni þar sem varnaraðili hafi ekki sýnt fram á  með hvaða hætti það hafi verið gert. Varnaraðili mótmælir þessu og vísar m.a. til greiðslu­áskorunar þess efnis þar sem fram komi að skuldin öll sé fallin í gjalddaga. Í nauðungarsölubeiðni til sýslumanns, dags. 10. maí 2012, komi fram hið sama. Varnaraðili hafi haft heimild til að gjaldfella veðskuldabréfið í heild sinni skv. ákvæðum bréfsins sjálfs, sbr. liður 4, en þar komi fram að heimilt sé að gjaldfella skuldina fyrirvaralaust og án uppsagnar verði vanskil á greiðslu afborgana eða vaxta/vísitöluálags af veðskuldabréfinu. Varnaraðili hafi þannig verið í fullum rétti til að gjaldfella veðskuldabréfið í heild sinni án tilkynningar til sóknaraðila, enda hafi veðskuldabréfið verið í vanskilum frá 1. ágúst 2010.

Varnaraðili kveðst mótmæla sem rangri og ósannaðri fullyrðingu sóknaraðila um að skilmálabreytingar hafi ekki verið getið í uppboðsbeiðni og þar af leiðandi hafi ekki verið krafist uppboðs með hliðsjón af skilmálabreytingunni.  Þá tekur varnaraðili það fram að lög nr. 90/1991 geri ekki kröfu um að skilmálabreytingar séu tilgreindar í nauðungarsölubeiðni og kveður það ekki tíðkast. Nauðungarsölubeiðni varnaraðila hafi verið í fullu samræmi við áskilnað laganna.

Varnaraðili kveður sóknaraðila halda því fram í fimmta lagi að lög um nauðungarsölu nr. 90/1991 takmarki rétt neytenda skv. tilskipun ráðsins nr. 93/13/EBE og stangist þar af leiðandi á við þær skyldur sem íslenska ríkið hefur tekið á sig með innleiðingu tilskipunarinnar. Vegna þessa kveður varnaraðili að tilskipun ráðsins nr. 93/13/EBE fjalli um óréttmæta skilmála í neytendasamningnum og hafi hún leitt til lögfestingar 36. gr. a.-d. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, sbr. lög nr. 14/1995, sbr. einkum 36. gr. c. Varnaraðili kveðst hafna því að dómur Evrópudómstólsins frá 14. mars 2013 í málinu nr. C-415/11, Mohamed Aziz gegn Caixa d´Estalvis de Catalunya, Tarragona i Manresa (Catalunyacaixa), þar sem hafi verið til umfjöllunar það álitaefni hvort ákvæði spænskra laga um nauðungarsölu samrýmdust tilskipun nr. 93/13/EEC, eigi við í málinu. Málavextir þar hafi verið þeir að aðili hafi tekið lán til fasteignakaupa í júlí 2007. Hann hafi hætt að greiða af láninu í júní 2008. Eftir árangurslausar greiðsluáskoranir bankans hafi bankinn hafið nauðungarsöluferli gegn aðilanum. Uppboð hafi farið fram og þar sem ekkert boð hafi komið fram hafi bankinn leyst eignina til sín á 50% af markaðsvirði eignarinnar en það hafi verið skv. ákvæðum spænskra laga. Þann 20. janúar 2011 hafi aðilinn verið borinn út af heimili sínu. Stuttu áður hafi aðilinn hafið mál þar sem hann hafi krafist ógildingar á ákvæði lánsins á þeim grundvelli að það væri ósanngjarnt og þar af leiðandi nauðungarsöluferlið einnig. Dómarinn í málinu hafi leitað eftir áliti um samræmanleika spænskra laga við ákvæði tilskipunarinnar, sbr. það sem að ofan greinir. Niðurstaða dómsins hafi verið að spænsk lög tryggðu neytendum ekki nægjanlega þá vernd sem tilskipun nr. 93/13/EBE mælti fyrir um, þar sem neytandinn hafi ekki getað fengið úrlausn dómstóla um gildi samningsskilmála veðskuldabréfs áður en að eign hans, sem seld var á uppboði, var afsöluð endanlega til bankans og hann borinn út af eigninni. Íslensk lög um nauðungarsölu komi aftur á móti í veg fyrir slíka niðurstöðu sbr. 3. mgr. 55. gr. og 1. mgr. 56. gr. l. nr. 90/1991. Af þeim sökum telur varnaraðili áðurnefndan dóm Evrópudómstólsins ekki eiga við í málinu. Þá mótmælir varnaraðili því að íslensk lög um nauðungarsölu takmarki þann rétt neytenda sem tilskipun nr. 93/13/EBE sé ætlað að tryggja. Þá mótmælir varnaraðili því að neytendur geti ekki látið reyna á ákvæði samningsskilmála við lánveitendur áður en nauðungarsöluferlinu er með öllu lokið, sbr. áðurnefnd ákvæði laga nr. 90/1991. Kveður varnaraðili þolendur nauðungarsölu geta látið reyna á efnisleg atriði fyrir dómstólum áður en að nauðungarsöluferli ljúki að fullu og eign sé afsalað til kaupanda, sbr. 1. mgr. 56. gr. laganna.  Að mati varnaraðila séu aðrar ályktanir sóknaraðila byggðar á misskilningi á ákvæðum laga nr. 90/1991. Þá kveðst varnaraðili mótmæla öllum túlkunum sóknaraðila á áðurnefndum dómi Evrópudómstólsins sem röngum. Varnaraðili ítrekar að hvorki tilskipun nr. 93/13/EBE né fyrrgreindur dómur Evrópudómstólsins eigi við í málinu.  Þá byggir varnaraðili á að reglur EES-samningsins geti ekki gengið framar íslenskum lögum við úrlausn ágreiningsmála fyrir íslenskum dómstólum og væri önnur niðurstaða á skjön við viðurkennd sjónarmið íslensk réttar um tengsl EES-réttar og landsréttar sem endurspeglist jafnframt í EES- samningnum, sbr. og lög nr. 2/1993, sem hafi veitt honum lagagildi hér á landi. Jafnvel þótt talið yrði að íslenskur réttur væri að þessu leyti í andstöðu við EES-rétt fengi það engu breytt um réttarstöðu sóknaraðila gagnvart varnaraðila, sbr. meðal annars tvíeðliskenningu lands- og þjóðarréttar. Slíkt gæti einungis skapað hugsanlega bótaskyldu íslenska ríkisins, en það sé varnaraðila óviðkomandi.

Varnaraðili kveðst hafna því að 60. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eigi við í málinu, en það sé alfarið órökstutt af hálfu sóknaraðila hvernig þau ákvæði eigi við í málinu. Varnaraðili sé með lögmæta kröfu á hendur sóknaraðilum sem hafi verið í vanskilum frá 1. ágúst 2010. Af þeim sökum sé varnaraðili í fullum rétti að innheimta þá kröfu og byggi m.a. á meginreglum kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða.

Varnaraðili hafnar málsástæðum sóknaraðila um að þau hafi kært ákvörðun umboðsmanns skuldara til kærunefndar í greiðsluaðlögunarmálum og þannig leitað sér aðstoðar samkvæmt lögum nr. 101/2010 og að þess vegna hefði sýslumaður því átt að fresta uppboðsaðgerðum. Varnaraðili vísar í þessu sambandi til 11. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun. Þar sé mælt fyrir um frestun greiðslna þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Varnaraðila sé ekki kunnugt um að sóknaraðilar hafi fengið samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun enda liggi engin gögn um það fyrir í gögnum málsins. Þá liggi engin gögn fyrir í málinu um meinta ákvörðun umboðsmanns skuldara eða kæru sóknaraðila til kærunefndar í greiðsluaðlögunarmálum.

Vegna málsástæðna sóknaraðila um að varnaraðili hafi ekki uppfyllt upplýsingaskyldu sína í samræmi við lög um neytendalán nr. 121/1994 hafnar varnaraðili því þar sem skortur á upplýsingagjöf geti, skv. lögum nr. 121/1994 um neytendalán, aðeins leitt til  skaðabótaskyldu, sbr. 1. mgr. 27. gr. laganna, en leiði ekki til ógildingar samnings.  Slík krafa yrði þvert á móti að styðjast við almennar ógildingarreglur íslensks samningaréttar, sbr. lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Sóknaraðilar beri hins vegar hvorki fyrir sig neinar slíkar málsástæður í þessu samhengi, og þær að öðrum kosti í öllu falli vanreifaðar, né setji þeir fram skaðabótakröfu. Auk þess verði ekki ráðið að lögin hafi verið brotin með þeim hætti sem sóknaraðilar telji og sé lögskýringu þeirra mótmælt. Varnaraðili hafi að fullu gætt að þeirri upplýsingaskyldu sem lög um neytendalán geri ráð fyrir.

Varnaraðili kveður að sóknaraðilum virðist yfirsjást sérákvæði 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 þar sem segi sérstaklega að ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skuli reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Í lögunum sé þannig skýrt tiltekið að miða skuli við að verðlag verði óbreytt til loka lánstímans ef lánssamningur er verðtryggður. Neytendalánsútreikningur varnaraðila hafi þannig verið í fullu samræmi við ákvæði laga um neytendalán. Varnaraðili kveðst því ítreka mótmæli sín um að hann hafi ekki sinnt skyldum sínum í samræmi við lög nr. 121/1994 eða að upplýsingar sem hann veitti hafi með nokkrum hætti verið misvísandi. Þá bendir varnaraðili á að sóknaraðilar beri það ekki fyrir sig að meintir ofangreindir annmarkar séu þess eðlis að sóknaraðilar hefðu getað varnað nauðungaruppboði og sé því ekkert hald í málsástæðum sóknaraðila um þetta.

Varnaraðili kveðst hafna tilvísun sóknaraðila til laga um neytendalán nr. 33/2013 þar sem þau hafi ekki tekið gildi og eigi því ekki við í málinu.

Varnaraðili kveður sóknaraðila halda því fram í áttunda lagi að varnaraðili hafi ekki öðlast veðréttindi þau sem uppboðsheimildin byggi á. Varnaraðili hafnar þessari fullyrðingu sóknaraðila með öllu og vísar til þess sem áður hefur verið sagt.

Varnaraðili kveður sóknaraðila halda því fram í níunda lagi, að innheimta varnaraðila brjóti gegn 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 þar sem hann hafi eignast margnefnt veðskuldabréf á helmingi andvirði þess. Varnaraðili kveðst telja þessa röksemd sóknaraðila vanreifaða og hafnar henni jafnframt með öllu, enda séu skilyrði beitingar reglunnar ekki fyrir hendi. Þá telur varnaraðili að krafa um ógildingu veðskuldabréfs á grundvelli ofangreindra laga samrýmist ekki ákvæðum laga nr. 90/1991, sbr. 75. og 77. gr. laganna. Þá kveðst varnaraðili mótmæla því að ákvæði skaðabótaréttar um ólögmæta auðgun eigi við í málinu og að sóknaraðilar hafi með einhverjum hætti átt forkaupsrétt að veðskuldabréfi því sem um ræðir í málinu enda séu fullyrðingar sóknaraðila með öllu órökstuddar og vanreifaðar.

Varnaraðili kveður sóknaraðila halda því fram í tíunda lagi að framgangur nauðungarsölunnar hafi ekki verið lögum samkvæmt. Varnaraðili mótmælir þeirri ályktun sóknaraðila og vísar til fyrri umfjöllunar. Varnaraðili kveður sóknaraðila ekki hafa sýnt fram á eða rökstutt með hvaða hætti framgangur nauðungarsölunnar hafi verið ólögmætur. Þá sé því ranglega fram haldið af hálfu sóknaraðila að frumrit veðskuldabréfsins hafi ekki legið frammi við framhald uppboðs þann 23. apríl 2013, en frumrit veðskuldabréfsins hafi verið sent með nauðungarsölubeiðni varnaraðila til sýslumannsins á Selfossi og legið frammi við allar fyrirtökur málsins hjá sýslumanninum á Selfossi. Þá hafi sýslumaður gætt leiðbeiningarskyldu sinnar vel og með ítarlegum hætti.

Varnaraðili kveðst mótmæla því að það hafi þýðingu í málinu hver sé viðskiptabanki sýslumannsins á Selfossi, en varnaraðili telur sér óheimilt um að veita upplýsingar um hvort svo er og vísar um það til 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Varnaraðili ítrekar að allar mótbárur sóknaraðila er varða lög um neytendalán nr. 121/1994 haggi ekki gildi nauðungarsölunni þar sem þau lög geti aðeins valdið skaðabótaskyldu lánveitanda, en ekki ógildingu lánsins. Af því leiði jafnframt að mótbárur sóknaraðila þess efnis að ekki séu uppfyllt lagaskilyrði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 90/1991 standist ekki. Öll skilyrði laganna séu uppfyllt.

Varnaraðili kveðst árétta að sóknaraðilar beri sönnunarbyrði fyrir þeim fullyrðingum, sem fram koma í mála­tilbúnaði þeirra og vísar um það til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunar­byrði.

Um lagarök vísar varnaraðili m.a. til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og laga nr. 121/1994 um neytendalán. Jafnframt er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og almennra reglna einkamálaréttarfars. Jafnframt kveðst varnaraðili vísa til reglna viðskiptabréfaréttarins, og almennra reglna kröfuréttar og meginreglna samningaréttar um skuldbindingagildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fái m.a. stoð í lögum nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Varnaraðili kveðst einnig vísa til reglna samningaréttar um skýringu og túlkun samninga og jafnframt reglna um skuldbindingargildi samninga og að gilda löggerninga skuldi halda. Þá kveðst varnaraðili vísa til reglna einkamálaréttarfars um sönnun og sönnunarbyrði. Þá vísar varnaraðili til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.

Um málskostnað vísar varnaraðili til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um málskostnað.

Niðurstaða.

Í málinu gerir varnaraðili ekki kröfu um að málinu verði vísað frá dómi, en kveður þó kröfur og málatilbúnað sóknaraðila svo vanreifaðan og óskýran að réttilega ætti að vísa málinu frá þar sem málatilbúnaðurinn uppfylli ekki skilyrði 80. gr. laga nr. 91/1991, einkum d, e og f liða.  Það er álit dómsins að málatilbúnaður og málsútlistun sóknaraðila hefði á köflum að ósekju mátt vera skýrari og gagnorðari.  Allt að einu þykja ekki alveg næg efni til að vísa málinu frá dómi og þykir rétt að dæma málið efnislega eins og það er vaxið.

Sóknaraðilar vísa til þess að skuldabréfið verði að bera með sér hver sé kröfuhafi þess skuldarinnar og hvernig hafi verið greitt af bréfinu. 

Á bréfinu sjálfu kemur það fram að upphaflega var bréfið gefið út af sóknaraðilum til Kaupþings Búnaðarbanka hf.  Segir að sóknaraðilar skuldi Kaupþingi Búnaðarbanka hf., eða þeim sem eignist skuldabréfið á löglegan hátt. Bréfið sjálft er áritað um framsal Kaupþings Búnaðarbanka hf. til Kaupthing mortgages institutional investor fund þann 29. mars 2006. Þann 18. október 2011 var nafni  Kaupthing mortgages institutional investor fund breytt í Arion bank mortgages Institutional investor fund. Þann 4. maí 2012 er bréfið áritað um framsal frá Arion bank mortgages Institutional investor fund til varnaraðila. Þá liggur fyrir að eftir að Fjármálaeftirlitið ákvað 9. október 2008 að yfirtaka vald hluthafafundar Kaupþings banka hf. var ákveðið 21. október 2008 að eignir Kaupþings banka hf. færðust yfir til Nýja Kaupþings banka hf., skv. heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002. Ekki verður þannig fallist á það með sóknaraðilum að óljóst sé hver er kröfuhafi bréfsins og skuldarinnar og að óljóst sé um eignarhald varnaraðila á bréfinu. Er þannig jafnljóst að varnaraðili er að innheimta skuldina fyrir sjálfan sig en ekki samkvæmt umboði fyrir einhvern annan. Þá er ekki nauðsynlegt skilyrði þess að uppboð megi ná fram að ganga að fram komi nákvæmlega hvernig hafi verið greitt af bréfinu. Varnaraðili hefur gert grein fyrir því að greiðslufall hafi orðið af bréfinu frá og með 1. ágúst 2010 og ekki greitt af því frá þeim tíma. Ekki hefur þessu verið mótmælt af hálfu sóknaraðila og ekki hefur verið sýnt fram á að greitt hafi verið af bréfinu eftir téð tímamark.  Þá hefur verið lagt fram í málinu yfirlit yfir greiðslur af bréfinu fram til umrædds tímamarks.  Ekki er það skilyrði uppboðs að fyrir liggi áritað á bréfinu sjálfu hvernig greitt hafi verið af því og breytir vísun sóknaraðila til tilskipunar frá 9. febrúar 1789 engu um það, enda bera sóknaraðilar ekki fyrir sig kvittanir á lausum blöðum. Ótilgreind vísun til laga nr. 121/1994 í þessu samhengi getur engu breytt.

Undir sömu málsástæðu bera sóknaraðilar fyrir sig þá málsástæðu að upplýsa beri á hvaða verði varnaraðili eignaðist kröfuna og að ósanngjarnt sé að varnaraðili krefjist fullrar greiðslu ef rétt sé að hann hafi fengið kröfuna á rétt rúman helming andvirðis hennar. Vísa sóknaraðilar í þessu efni til 36. gr. laga nr. 7/1936 og ótilgreindra kvartana ESA. Á þessi sjónarmið verður ekki fallist. Ekkert er upplýst um það að varnaraðili hafi eignast umrædda kröfu á undirverði, enda myndi það vart skipta máli gagnvart sóknaraðilum sem hafa gengist undir skuldbindinguna gagnvart upphaflegum lánadrottni og þeim sem á eftir koma og hafa eignast kröfuna á löglegan hátt, en ekki hefur verið sýnt fram á að varnaraðili hafi ekki eignast kröfuna á löglegan hátt. Jafnvel þó svo hefði verið að varnaraðili hefði fengið kröfuna á undirverði hefði það ekki haggað gildi bréfsins sem slíks og heimildum kröfuhafa vegna vanefnda skuldara. Órökstudd skírskotun sóknaraðila til ótilgreindra kvartana ESA getur heldur ekki breytt þessu. Tilvitnun sóknaraðila til 1. tl. 4. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð getur heldur ekki breytt þessu enda kemur fram í 1. tl. 2. gr. laganna að ákvæði þeirra séu frávíkjanleg og hljóta ákvæði bréfsins sjálfs að ganga framar að þessu leyti. Verður því þannig hafnað að samningurinn og veðrétturinn hafi ekki hlotið réttarvernd. Þá kemur það fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2009 að öll tryggingarréttindi, þ.m.t. veðréttindi, færist frá Kaupþingi banka hf. yfir til Nýja kaupþings banka hf., auk þess að vera ekki undanskilin við framsölin á bréfinu.

Sóknaraðilar byggja á því að bréfið hafi aldrei orðið viðskiptabréf þar sem aðilaskipti hafi ekki orðið fyrir venjuleg og eðlileg viðskipti heldur vegna svokallaðs hruns og aðgerða opinberra aðila í því sambandi. Þar af leiði að sóknaraðilar geti borið fyrir sig allar málsástæður og sé fært að neita að greiða nema varnaraðili sýni fram á lögformlega heimild til bréfsins. Dómurinn fellst ekki á þetta.  Bréfið er skv. eðli sínu og uppruna viðskiptabréf og um það gilda þær reglur sem um slík bréf gilda.  Ljóst er að bréfið var framselt á lögformlegan hátt frá Kaupþingi banka hf. til  KMIIF og þaðan eftir nafnbreytingu frá ABMIIF til varnaraðila, sbr. áritanir á bréfinu sjálfu.  Yfirfærslan til Nýja Kaupþings banka hf. skv. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins breytir þessu ekki og ekki heldur tilvísun sóknaraðila til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 121/1994.

Sóknaraðilar vísa til þess að grundvallarregla sé það í öllum málum til fullnustu peningakröfu að höfuðstóll kröfunnar verði að vera skýr og skiljanlegur, sbr. 6. gr. laga nr. 90/1991 og 7. gr. laga nr. 90/1989.  Verði að vera unnt að ráða það af bréfinu sjálfu hver sé fjárhæð skuldarinnar og hvernig fjárhæð vaxta og verðbóta verði fundin, þ.e. reiknigrundvöllurinn. Reikningsaðferð varnaraðila sé ekki í samræmi við lög heldur sé farið eftir reglum Seðlabankans nr. 492/2001 og sé því lánskostnaðurinn ólöglegur og rangur en reglugerðin hafi ekki lagastoð að þessu leyti. Verulegt ósamræmi sé milli reikningsaðferðanna. Þá sé um að ræða svokallað verðtryggt jafngreiðslulán en útreikningur slíks láns sé svo flókinn að ekki sé nema á færi hæfustu sérfræðinga að glöggva sig á þeim og eðli þeirra, en þar af leiði að þau séu svokallaðar afleiður, en þess vegna geymi skuldabréfið ekki tiltekna fjárhæð og hafi því ekki fullnægt skilyrðum laga um beinar uppboðsheimildir.  Lánið geti ekki verið í vanskilum ef það byggi á ólögmætum útreikningi og ekki hafi verið sýnt fram á að skuldin sé gjaldfallin í skilningi laga nr. 90/1991. 

Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 segir að krefjast megi nauðungarsölu á eign til fullnustu gjaldfallinni peningakröfu, samkvæmt m.a. þinglýstum samningi um veðrétt í eigninni fyrir tiltekinni peningakröfu, enda sé slíkt tekið fram í samningi berum orðum eins og nánar er lýst í ákvæðinu. Í 2. mgr. 6. gr. laganna segir að til peningakröfu teljist eftir því sem átt geti við m.a. verðbætur, vextir, dráttarvextir og önnur samnings- eða lögbundin vanskilaálög. Í nauðungarsölubeiðni varnaraðila kemur fram að gjaldfelldur höfuðstóll er tiltekinn kr. 20.479.301. Höfuðstóll er tiltekinn í veðskuldabréfinu sjálfu kr. 13.300.000. Þá er lýst í bréfinu hvernig höfuðstóllinn breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs. Verður ekki annað séð en að uppfyllt séu skilyrði um tiltekna peningakröfu skv. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laganna, enda segir berum orðum í 2. mgr. 6. gr. að til peningakröfu skv. ákvæðinu teljist m.a. verðbætur, vextir og dráttarvextir og önnur samnings- eða lögbundin vanskilaálög. Er grundvelli útreiknings skuldarinnar lýst í bréfinu sjálfu.  Ljóst er að krafan er gjaldfallin enda liggur fyrir samkvæmt framlögðum gögnum sóknaraðila sjálfra að þeir hættu að greiða af skuldinni á árinu 2010. Var bréfið gjaldfellt eftir það.  Þá þykir það engu breyta að í nauðungarsölubeiðni hafi ekki verið getið um skilmálabreytingu þá sem gerð var á bréfinu enda hún til hagsbóta fyrir sóknaraðila og breytir ekki efnislegu inntaki greiðsluskyldu þeirra eða heimildum varnaraðila til gjaldfellingar eða þess að krefjast nauðungarsölu.

Þá vísa sóknaraðilar til þess að útreikningur verðtryggingar lánsins skv. ákvæðum bréfsins sé ekki í samræmi við lög heldur reglur Seðlabanka Íslands nr. 492/2001, en útreikningsaðferðir reglnanna eigi sér ekki lagastoð. Ekki hafa sóknaraðilar bent á eða gert grein fyrir hverju þetta skipti og hvort einhverju muni um tölulegar niðurstöður eftir því hvort „greiðslur“ eða „höfuðstóll“ sé verðtryggður.  Hafa sóknaraðilar hvorki gert grein fyrir tölulegum mun á þessu né hverju þetta skipti.  Þvert á móti hefur verið lagt fram í málinu rækilegt bréf Seðlabankans til Umboðsmanns Alþingis, dags. 30. ágúst 2011, þar sem gerð er grein fyrir því að efnisleg niðurstaða sé sú sama og verður þá ekki séð að útreikningurinn sé lögum andstæður ef hann leiðir til efnislega sömu niðurstöðu, en það hefur ekki verið hrakið af hálfu sóknaraðila. Kveða sóknaraðilar enga heimild fyrir því „viðbótarláni“ sem höfuðstólsfærslur verðbóta feli í sér. Á þetta verður ekki fallist skv. framansögðu enda skuldin verðtryggð svo sem lýst var og ekki verið sýnt fram á annað en að tölulegur útreikningur sé lögum samkvæmur. Eru þannig téðar höfuðstólsfærslur „viðbótarláns“, sem er í raun og veru breyting höfuðstólsins, samkvæmt ákvæðum bréfsins sjálfs og þarf ekki að leita víðar að heimildinni.

   Sóknaraðilar benda á að lánið sé svokallað verðtryggt jafngreiðslulán eða annuitetslán.  Þetta er samkvæmt ákvæðum bréfsins sjálfs, sem sóknaraðilar gáfu sjálfir út óþvingaðir með eigin undirskrift sinni. Verður að ætla að sóknaraðilar hafi gert sér grein fyrir inntaki og efni eigin loforðs, en engu þykir breyta gagnvart uppboðsheimildinni sjálfri að útreikningurinn kunni að vera flókinn.  Kveða sóknaraðilar að flækjustig útreiknings lánsins sé svo hátt að hin „meinta“ gjaldfallna skuld byggist á afleiðu, en afleiður hafi verið skilgreindar á tiltekinn hátt sem lýst er í málatilbúnaði sóknaraðila.  Ekkert kemur fram hvaðan sú skilgreining er komin og vísa sóknaraðilar ekki til neinna lagaákvæða eða heimilda um skilgreiningu á afleiðu en margar slíkar eru til. Verður þó að ætla að verðtryggð lán teljist ekki vera afleiða í skilningi laga nr. 38/2001 enda segir berum orðum í 13. gr. laganna, þar sem fjallað er um verðtryggð lán, að afleiðusamningar falli ekki undir ákvæði þess kafla. Verður þannig hafnað röksemdum sóknaraðila um að uppboðið beri að ógilda á grundvelli þess að um sé að ræða annuitetslán og afleiðu. Verður að telja að uppboðsheimildin sé nægilega skýr að þessu leyti. Sóknaraðilar kveða að óheimilt hafi verið að veita slíkt lán og að krafan geti ekki verið lögmæt þar sem brotið hafi verið gegn upplýsingaskyldu samkvæmt lögum nr. 121/1994 við veitingu lánsins. Ekki hafi verið upplýst um verðbætur en þær séu hluti þess kostnaðar sem skylt sé að upplýsa um.  Geti því krafa varnaraðila ekki verið lögmæt. Á þetta fellst dómurinn ekki. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994, sem giltu þá er umrætt veðskuldabréf var gefið út, segir að ef „lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.“ Verður ekki betur séð en að þetta hafi verið gert og lánveitingin þannig í samræmi við téð ákvæði. Þess utan verður ekki séð að það geti leitt til ógildingar samningsákvæða eða haft það í för með sér að uppboðsheimild ónýtist þó að ekki hefði verið farið að ákvæðum laganna að þessu leyti, en í 1. mgr. 27. gr. laganna segir að brot á lögunum geti valdið skaðabótaskyldu. Þessu til viðbótar vísa sóknaraðilar til laga um neytendalán nr. 33/2013, en ekki geta þau komið til álita í málinu þar sem þau tóku ekki gildi fyrr en 1. nóvember 2013. Í tengslum við þetta vísa sóknaraðilar til tilskipunar 87/102/EBE sem hafi verið innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 121/1994. Að framan var komist að því að við lánveitinguna hafi ekki verið gengið gegn ákvæðum laga nr. 121/1994 í sambandi við upplýsingaskyldu og upplýsingagjöf við lánveitinguna og að ekki hefðu verið færð að því fullnægjandi rök, en jafnframt að ef svo hefði verið þá væri ekki sýnt fram á að það gæti varðað öðru en bótaskyldu skv. 27. gr. laganna, en ekki því að samningur væri ógildur eða að ekki væri unnt að framfylgja honum með fullnustuheimildum í samræmi við efni hans. Samhliða þessu er þá óhjákvæmilegt að byggja á því að ekki geti téð tilskipun og efni hennar orðið til þess að ógilda uppboð það sem um er fjallað í málinu.

Þá vísa sóknaraðilar til tilskipunar EBE frá 5. apríl 1993 nr. 93/13/EBE án nánari tilgreiningar, ásamt forúrskurði Evrópudómstólsins í máli nr. C-415/11, sem hafi verið innleidd í íslenskan rétt og verði því að taka mið af nefndum forúrskurði við úrlausn málsins og að óheimilt hafi verið að ganga að eign sóknaraðila með beinni aðfarargerð. Í þessu samhengi geta sóknaraðilar þess jafnframt að forsendubrestur hafi orðið eftir svokallað bankahrun og að ósanngjarnt sé að þeir beri hann einir en kröfuhafi fái aðstoð ríkisins til að innheimta skuldina.  Ekki gera sóknaraðilar nánari grein fyrir meintum forsendubresti og er ekki unnt að byggja niðurstöðu í málinu á honum, en óljóst er að mati dómsins á hvaða hátt það geti verið ósanngjarnt að kröfuhafi innheimti kröfu sína með aðstoð ríkisins þegar sú aðstoð er aðeins fólgin í því að leita með mál sitt til löglegs yfirvalds eins og sýslumannsins á Selfossi samkvæmt þeim lagareglum sem um það fjalla, enda kröfuhafa ófært að krefjast fullnustu með aðför án aðkomu handhafa ríkisvalds.

 Það er mat dómsins að tilvísun sóknaraðila til téðs dóms Evrópudómstólsins geti ekki leitt til þess að ógilda margumrætt uppboð. Er til þess að líta að samkvæmt lögum nr. 90/1991 verður afsal ekki gefið út til kaupanda fyrr en að liðnum fresti til að láta reyna á uppboðsgerðina fyrir dómi eða að lyktir slíks máls eru komnar fram, sbr. 1. mgr. 56. gr. laganna, og að ekki verður umráðamanni eignar, gegn mótmælum hans, vikið af eign áður en leyst er úr slíku máli nema með sérstökum úrskurði um það, sbr. 3. mgr. 55. gr. laganna, en önnur atriði sem um er fjallað í téðum forúrskurði eru ekki þess eðlis að geti orðið til að ógilda margnefnda uppboðsgerð, en í því sambandi er þess að geta að ekki hefur verið sýnt fram á það af hálfu sóknaraðila að lánssamningurinn hafi sett sóknaraðila í óhagstæðari lagalega stöðu en gildandi löggjöf gefur tilefni til og að ekkert liggur fyrir um að sóknaraðili hefði ekki samþykkt ákvæði samningsins innan ramma einstaklingsbundinna samningaumleitana enda ekki verið byggt á því í málinu af hálfu sóknaraðila.

Sóknaraðilar hafa vísað til þess að þeir hafi kært ákvörðun Umboðsmanns skuldara til kærunefndar í greiðsluaðlögunarmálum og þannig leitað sér aðstoðar samkvæmt lögum nr. 101/2010. Geti því réttur þeirra til greiðsluaðlögunar enn verið fyrir hendi. Vegna þessa hefði sýslumanni borið að fresta uppboðsaðgerðum.  Ekki liggja fyrir í málinu gögn um þetta önnur en afrit af bréfi sóknaraðila til kærunefndarinnar, dags. 19. apríl 2013. Liggur t.a.m. ekki fyrir hvort kæran uppfyllir skilyrði um kærufrest sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 101/2010. Ekki getur þetta þó orðið til þess að ógilda hina umdeildu uppboðsgerð sýslumanns, enda hefst tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laga nr. 101/2010 fyrst við það að umsókn skuldara hafi verið samþykkt af Umboðsmanni skuldara, en ekkert liggur fyrir um að slík umsókn sóknaraðila hafi nokkru sinni verið samþykkt.

Loks kveða sóknaraðilar að afgreiðsla málsins hjá sýslumanni hafi ekki verið lögum samkvæm og vísa til þess að frumrit veðskuldabréfsins hafi ekki legið frammi við uppboðssöluna og að þegar greinargerð sóknaraðila var dagsett 11. júní 2013 hafi sýslumaður ekki verið búinn að afhenda sóknaraðilum ljósrit úr gerðabókum og þar af leiði að sýslumaður hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu sinnar og beri að ógilda uppboðið af þeim sökum, en auk þessa alls sé varnaraðili viðskiptabanki embættis sýslumannsins á Selfossi. Í athugasemdum sýslumanns kemur fram að frumrit margnefnds bréfs hafi legið frammi við uppboðssöluna en auk þess kom þetta fram við aðalmeðferð málsins og var bréfið sýnt í réttinum. Þá kemur fram í téðum athugasemdum að sýslumaður hafi sent sóknaraðilum staðfest endurrit úr gerðabók sem og ljósrit af öllum gögnum málsins og liggja þessi gögn fyrir í málinu og verður ekki uppboð ógilt af þeim sökum, aukin heldur að um er að ræða atvik eftir að uppboði lauk og geta þau því ekki snúið að framgangi uppboðs og meðferð þess.  Verður ekki séð að leiðbeiningarskylda sýslumanns hafi verið vanrækt. Þá er alls óupplýst hvort embætti sýslumannsins á Selfossi hefur bankaviðskipti sín við varnaraðila, en auk þess telur dómurinn fjarri lagi að það geti skipt nokkru máli við úrlausn þessa máls.

Að öllu framansögðu virtu ber að hafna öllum kröfum sóknaraðila í málinu.

Úrskurða ber að sóknaraðilum beri að greiða varnaraðila málskostnað sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og þykir hann hæfilega ákveðinn kr. 500.000, og bera sóknaraðilar solidariska ábyrgð á greiðslu hans gagnvart varnaraðila.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum sóknaraðila, Páls Böðvars Valgeirssonar og Sigríðar Jónsdóttur, er hafnað.

Sóknaraðilar greiði varnaraðila, Arion banka hf., kr. 500.000 í málskostnað in solidum.