Endurrit úr gerðabók Hæstaréttar við kjör forseta Íslands 25. júní 2016 í tilefni af kærum


  • Miðvikudaginn 15. júní 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

        Ár 2016, miðvikudaginn 15. júní, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni, Gretu Baldursdóttur, Helga I. Jónssyni, Karli Axelssyni og Viðari Má Matthíassyni og Ingibjörgu Benediktsdóttur og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómurum.
        Hæstarétti hefur borist erindi 8. júní 2016 með yfirskriftinni: „Fyrirhugað kjör forseta Íslands þ. 25. þ.m., lög, reglur og framkvæmd“ frá Baldri Ágústssyni, sem hér á eftir verður nefndur kærandi, en í niðurlagi erindisins lýsir hann því yfir að hann kæri „fyrirhugaðar kosningar“ og geri kröfu um „að boðað verði til nýrra kosninga.“ Með því að kærandi vísaði í erindi sínu til atriða varðandi undirbúning forsetakjörs, sem eiga eftir ákvæðum laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands ýmist undir forsætisráðherra eða innanríkisráðherra gaf Hæstiréttur ráðuneytum þeirra beggja kost á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 13. júní 2016.
        Að ákvörðun þessari standa níu af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fer kjör forseta Íslands fram 25. júní 2016. Í auglýsingunni var tekið mið af því að samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 beri þeim, sem hafi hug á að gefa kost á sér í forsetakjöri, að skila til innanríkisráðuneytisins ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag framboði ásamt tilteknum fjölda meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Vísar kærandi til þess að innanríkisráðuneytið hafi í tengslum við þetta látið frá sér fara reglur, sem kærandi nefnir svo, og látið þess getið þar að hver maður mætti aðeins gerast meðmælandi eins frambjóðanda. Hafi þetta valdið þeim, sem hugðu á framboð, vandkvæðum við söfnun undirskrifta meðmælenda, enda hafi ráðuneytið tekið fram að nöfn þeirra, sem gerðust meðmælendur fleiri en eins frambjóðanda, yrðu strikuð út af báðum eða öllum meðmælendalistunum. Allmargir sem hafi tilkynnt opinberlega að þeir hygðust bjóða sig fram hafi ekki náð að safna nægilegum fjölda meðmælenda og því ekki komist í framboð, þar á meðal kærandi. Í lögum nr. 36/1945 verði ekki fundin regla um bann við því að sami maður gerist meðmælandi tveggja eða fleiri frambjóðenda. Þótt vísað sé í þeim lögum um ýmis atriði til ákvæða laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, sé hvergi í lögum nr. 36/1945 vitnað til VII. kafla laga nr. 24/2000 eða 3. mgr. 34. gr. þeirra, sem heyri til þess kafla. Regla sem þar sé að finna um að ekki skuli telja mann, sem gerist meðmælandi fleiri en eins framboðslista við alþingiskosningar, til meðmælenda nokkurs listans gildi því ekki við forsetakjör. Af þessum sökum telur kærandi að undirbúningur og framkvæmd fyrirhugaðs forsetakjörs stangist á við lög nr. 36/1945 og rétt sinn, sem varinn sé af ákvæðum stjórnarskrárinnar, til að gefa kost á sér í kjörinu. Því geri hann þær kröfur sem áður var getið. 
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af framangreindu erindi, er byggt á því að það leiði af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 að ákvæði laga nr. 24/2000 um meðmælendur við alþingiskosningar gildi um önnur atriði við forsetakjör en þau sem beinlínis sé mælt fyrir um í fyrrnefndu lögunum. Vegna þessa gildi 3. mgr. 34. gr. laga nr. 24/2000, sem áður var getið, sbr. einnig 2. mgr. 33. gr. sömu laga, um forsetakjör. Í athugasemdum forsætisráðuneytisins var efnislega vísað til þess sem innanríkisráðuneytið lét frá sér fara af þessu tilefni.

    II

        Samkvæmt 2. gr. laga nr. 36/1945 eru undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir við forsetakjör þær sömu og við alþingiskosningar, en auk þeirra skal Hæstiréttur hafa með höndum þau störf, sem mælt er fyrir um í lögunum. Þau störf felast nánar tiltekið í fyrsta lagi í því að Hæstiréttur tekur við gögnum frá innanríkisráðuneytinu um framboð við forsetakjör og auglýsingu þess um hverjir séu í kjöri, sbr. 4. gr. laganna. Í öðru lagi úrskurðar Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna um hvort fresta þurfi forsetakjöri vegna andláts forsetaefnis og undirbúa kjör að nýju. Í þriðja lagi ber Hæstarétti að halda sérstaka gerðabók um málefni vegna forsetakjörs, sbr. 8. gr. laganna. Í fjórða lagi tekur Hæstiréttur samkvæmt 11. gr. laganna að afstöðnum forsetakosningum við eftirriti úr gerðabókum yfirkjörstjórna og ágreiningskjörseðlum og boðar síðan forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar, þar sem úrskurða skal um gildi ágreiningsseðla, lýsa úrslitum kosninga og gefa út kjörbréf handa forsetaefni, sem flest atkvæði hefur hlotið, en rísi ágreiningur um kjörgengi forsetaefnis sker Hæstiréttur úr. Í fimmta lagi gefur Hæstiréttur samkvæmt 12. gr. laganna út kjörbréf þegar að liðnum framboðsfresti handa forsetaefni, sem reynist vera eitt í kjöri. Í sjötta lagi ber réttinum samkvæmt 13. gr. laganna að senda eftirrit af kjörbréfi til forseta Alþingis og þess ráðherra, sem fer með málefni forseta Íslands. Loks tekur Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna við kærum um „ólögmæti forsetakjörs“, öðrum en refsikærum, og leysir úr þeim, en þær verða að berast í síðasta lagi fimm dögum fyrir fund samkvæmt 11. gr. laganna.
        Í þeim ákvæðum laga nr. 36/1945, sem að framan eru rakin, er hvergi að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar tilteknar ákvarðanir eða gerðir ráðherra, kjörstjórna eða annarra stjórnvalda um undirbúning eða framkvæmd forsetakjörs. Almenna heimildin, sem felst í 2. mgr. 14. gr. laganna til að beina til réttarins kærum um ólögmæti forsetakjörs, leiðir á hinn bóginn til þess að leita megi eftir ógildingu forsetakjörs í heild, þar á meðal vegna afmarkaðra annmarka á undirbúningi þess eða framkvæmd, en Hæstiréttur getur ekki á þeim grunni ógilt tilteknar ákvarðanir um slík efni eða breytt þeim. Kjör forseta Íslands á að fara fram 25. júní 2016. Eðli máls samkvæmt getur Hæstiréttur ekki fjallað um gildi forsetakjörs sem ekki hefur verið lokið. Stendur því engin heimild í lögum nr. 36/1945 til að beina erindi kærandans til Hæstaréttar og er því af þessum sökum vísað frá réttinum.

     
  • Miðvikudaginn 15. júní 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

     

        Ár 2016, miðvikudaginn 15. júní, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni, Gretu Baldursdóttur, Helga I. Jónssyni, Karli Axelssyni og Viðari Má Matthíassyni og Ingibjörgu Benediktsdóttur og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómurum.
        Hæstarétti hefur borist „kæra vegna ólögmætrar utankjörfundarkosningu í forsetakjöri 2016“, dagsett 2. júní 2016, frá Bjarna V. Bergmann, Þórólfi Júlían Dagssyni og Birni Leví Gunnarssyni, sem hér á eftir verða nefndir kærendur. Með bréfi réttarins 3. júní 2016 var þeim gefinn kostur á að gera nánari grein fyrir þessu erindi og barst af því tilefni greinargerð þeirra 6. sama mánaðar. Með því að fram kom í greinargerðinni að kæru væri beint að innanríkisráðherra og utanríkisráðherra var þeim gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 13. júní 2016.
        Að ákvörðun þessari standa níu af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fer kjör forseta Íslands fram 25. júní 2016. Í greinargerð kærenda segir að kæra snúi að framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar vegna forsetakjörsins, en þó aðeins á tímabilinu 30. apríl til 25. maí 2016. Að þessari framkvæmd standi innanríkisráðuneytið að því er varðar atkvæðagreiðsluna innanlands, en utanríkisráðuneytið hafi hana á hendi að því leyti sem hún fari fram erlendis. Sé þess krafist að „utankjörfundarkosning í forsetakjöri 2016“ á framangreindu tímabili „verði felld úr gildi.“
        Um rök fyrir þessari kröfu vísa kærendur til þess að samkvæmt auglýsingum utanríkisráðuneytisins 28. apríl 2016 og innanríkisráðuneytisins 30. sama mánaðar hafi síðastgreindan dag mátt hefja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, bæði utanlands og innanlands. Framboðsfresti við forsetakjörið hafi þó ekki lokið fyrr en 20. maí 2016, sbr. 4. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands, og hafi innanríkisráðherra birt auglýsingu 25. sama mánaðar, þar sem komið hafi fram að níu nafngreindir menn væru í framboði. Kærendur telji að helst verði ráðið að ákvörðun um að hefja mætti atkvæðagreiðslu utan kjörfundar 30. apríl 2016 hafi verið tekin með tilliti til 57. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, þar sem segi að hefja skuli slíka atkvæðagreiðslu svo fljótt sem kostur sé eftir að kjördagur hafi verið ákveðinn, en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Ákvörðun þessi hafi á hinn bóginn farið í bága við 6. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 36/1945, enda segi í 1. mgr. fyrrnefndu lagagreinarinnar að kjósandi, sem greiði atkvæði utan kjörfundar, riti á kjörseðil nafn þess frambjóðanda, sem hann vilji kjósa af þeim sem í kjöri séu. Allt þar til innanríkisráðherra hafi birt fyrrnefnda auglýsingu 25. maí 2016 hafi í raun engir frambjóðendur verið í kjöri og hafi kjósendur af þeim sökum ekki getað fyrir þann tíma greitt atkvæði utan kjörfundar í samræmi við reglu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945. Með þessu hafi orðið veruleg hætta á að fyrir borð séu bornir almannahagsmunir, bæði gagnvart frambjóðendum, sem eigi rétt á að framboð þeirra hljóti sambærilega og réttláta meðferð stjórnvalda, og gagnvart kjósendum, sem hafi hagsmuni af því að vera upplýstir um valkosti sem þeim standi til boða í kosningum.
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið beindu hvort fyrir sitt leyti til Hæstaréttar í tilefni af framangreindri kæru, er efnislega vísað til þess að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildi lög um kosningar til Alþingis eftir því sem við á um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör, að gættri áðurnefndri reglu 1. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt því gildi við forsetakjör ákvæði 57. gr. laga nr. 24/2000, þar sem fram komi að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar megi hefjast átta vikum fyrir kjördag, en um kosningar til Alþingis gildi þessi regla þó svo að framboðsfrestur við þær renni ekki út fyrr en 15 dögum fyrir kjördag. Í tengslum við það verði að gæta að því að samkvæmt 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sem gildi við forsetakjör eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, geti kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, gert það aftur hvort heldur á sama hátt eða á kjörfundi. Þennan rétt geti kjósandi nýtt hafi hann greitt atkvæði utan kjörfundar manni, sem síðan reynist ekki vera í framboði, eða vilji hann fremur greiða öðrum frambjóðanda atkvæði sitt.

    II

        Samkvæmt 2. gr. laga nr. 36/1945 eru undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir við forsetakjör þær sömu og við alþingiskosningar, en auk þeirra skal Hæstiréttur hafa með höndum þau störf, sem mælt er fyrir um í lögunum. Þau störf felast nánar tiltekið í fyrsta lagi í því að Hæstiréttur tekur við gögnum frá innanríkisráðuneytinu um framboð við forsetakjör og auglýsingu þess um hverjir séu í kjöri, sbr. 4. gr. laganna. Í öðru lagi úrskurðar Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna um hvort fresta þurfi forsetakjöri vegna andláts forsetaefnis og undirbúa kjör að nýju. Í þriðja lagi ber Hæstarétti að halda sérstaka gerðabók um málefni vegna forsetakjörs, sbr. 8. gr. laganna. Í fjórða lagi tekur Hæstiréttur samkvæmt 11. gr. laganna að afstöðnum forsetakosningum við eftirriti úr gerðabókum yfirkjörstjórna og ágreiningskjörseðlum og boðar síðan forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar, þar sem úrskurða skal um gildi ágreiningsseðla, lýsa úrslitum kosninga og gefa út kjörbréf handa forsetaefni, sem flest atkvæði hefur hlotið, en rísi ágreiningur um kjörgengi forsetaefnis sker Hæstiréttur úr. Í fimmta lagi gefur Hæstiréttur samkvæmt 12. gr. laganna út kjörbréf þegar að liðnum framboðsfresti handa forsetaefni, sem reynist vera eitt í kjöri. Í sjötta lagi ber réttinum samkvæmt 13. gr. laganna að senda eftirrit af kjörbréfi til forseta Alþingis og þess ráðherra, sem fer með málefni forseta Íslands. Loks tekur Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna við kærum um „ólögmæti forsetakjörs“, öðrum en refsikærum, og leysir úr þeim, en þær verða að berast í síðasta lagi fimm dögum fyrir fund samkvæmt 11. gr. laganna.
        Í þeim ákvæðum laga nr. 36/1945, sem að framan eru rakin, er hvergi að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar tilteknar ákvarðanir eða gerðir ráðherra, kjörstjórna eða annarra stjórnvalda um undirbúning eða framkvæmd forsetakjörs. Almenna heimildin, sem felst í 2. mgr. 14. gr. laganna til að beina til réttarins kærum um ólögmæti forsetakjörs, leiðir á hinn bóginn til þess að leita megi eftir ógildingu forsetakjörs í heild, þar á meðal vegna afmarkaðra annmarka á undirbúningi þess eða framkvæmd, en Hæstiréttur getur ekki á þeim grunni ógilt tilteknar ákvarðanir um slík efni eða breytt þeim. Kjör forseta Íslands á að fara fram 25. júní 2016. Eðli máls samkvæmt getur Hæstiréttur ekki fjallað um gildi forsetakjörs sem ekki hefur verið lokið. Stendur því engin heimild í lögum nr. 36/1945 til fyrirliggjandi kæru og er henni því vísað frá Hæstarétti.

     

  • Miðvikudaginn 22. júní 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

     

        Ár 2016, miðvikudaginn 22. júní, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Gretu Baldursdóttur og Helga I. Jónssyni og Ingibjörgu Benediktsdóttur og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómurum.
        Hæstarétti hefur borist erindi 15. júní 2016 með yfirskriftinni: „Kæra til Hæstaréttar Íslands um ólögmæti forsetakjörs þann 25. júní 2016“ frá Magnúsi Ingberg Jónssyni, sem hér á eftir verður nefndur kærandi, en þar krefst hann þess að „forsetakjör það sem fyrirhugað er þann 25. júní ... verði úrskurðað ólögmætt.“ Með því að kæran lýtur að atriðum, sem eiga eftir ákvæðum laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands undir innanríkisráðherra, gaf Hæstiréttur ráðuneyti hans kost á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 21. júní 2016.
        Að ákvörðun þessari standa sex af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fer kjör forseta Íslands fram 25. júní 2016. Í auglýsingunni var tekið mið af því að samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 beri þeim, sem hafi hug á að gefa kost á sér í forsetakjöri, að skila til innanríkisráðuneytisins ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag framboði ásamt tilteknum fjölda meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga, en framboðsfrestur í þessu forsetakjöri rann út á miðnætti aðfaranótt 21. maí 2016.
        Kærandi kveðst hafa stefnt að framboði til forsetakjörs, en af ástæðum, sem megi einkum rekja til villandi upplýsinga frá yfirkjörstjórnum, hafi innanríkisráðuneytið ekki metið framboð hans gilt. Hafi ástæða þess verið sú að með framboðinu hafi aðeins verið skilað vottorðum yfirkjörstjórna um kosningarbærni 820 meðmælenda úr Sunnlendingafjórðungi, þótt tala meðmælenda úr öðrum landfjórðungum hafi verið nægileg. Í kærunni greinir kærandi frá samskiptum sínum við nafngreinda menn, sem eigi sæti í yfirkjörstjórnum Suðurkjördæmis og Suðvesturkjördæmis. Segir kærandi manninn í fyrrnefndu yfirkjörstjórninni hafa sagt sér að skila mætti listum með meðmælendum úr Sunnlendingafjórðungi til þeirrar kjörstjórnar ef meiri hluti þeirra væri úr Suðurkjördæmi, en þegar skammt hafi verið til loka framboðsfrests hafi sami maður tilkynnt sér að kærandi þyrfti sjálfur að skila listum með meðmælendum úr Suðvesturkjördæmi og báðum kjördæmum Reykjavíkur til viðkomandi yfirkjörstjórna. Að því er varðar samskipti við mann í yfirkjörstjórn Suðvesturkjördæmis segist kærandi hafa veitt tilteknum manni umboð til að koma fram fyrir sína hönd í sambandi við forsetakjörið og hafi umboðsmaðurinn afhent yfirkjörstjórnum í Suðvesturkjördæmi og Reykjavík meðmælendalista. Yfirkjörstjórnin í Suðvesturkjördæmi hafi 19. maí 2016 neitað að afhenda umboðsmanninum vottorð um kosningarbærni meðmælenda og beint því til kæranda að sækja það sjálfur. Erfitt hafi reynst að koma því við og hafi þá kjörstjórnarmaðurinn sagt kæranda að hann „skyldi sækja um frest“ og fengi hann vottorðið 21. sama mánaðar. Kærandi hafi að kvöldi 20. maí 2016 skilað framboði sínu til innanríkisráðuneytisins og hafi fylgt því vottorð yfirkjörstjórna í öllum kjördæmum að frátöldu Suðvesturkjördæmi. Hann hafi þá óskað eftir fresti til 23. sama mánaðar „til að skila gögnum sem upp á vantar, þ.e. meðmælendum úr Sunnlendingafjórðungi og vottorði yfirkjörstjórnar“, en því hafi verið hafnað. Kærandi telji sig á framangreindan hátt hafa fengið rangar og villandi upplýsingar frá umræddum yfirkjörstjórnum og hafi þetta valdið því að honum hafi ekki reynst unnt að skila framboði. Því krefjist hann þess að fyrirhugað forsetakjör „verði dæmt ólögmætt“, en um heimild til að bera upp kæruna vísar hann til 2. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 11. gr. laga nr. 36/1945.
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af framangreindri kæru, er vísað til þess að í samræmi við 5. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1945 hafi verið tiltekið í auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 að frambjóðendur til forsetakjörs þyrftu að leggja fyrir meðmæli frá minnst 1.215 kosningarbærum mönnum úr Sunnlendingafjórðungi, 62 úr Vestfirðingafjórðungi, 163 úr Norðlendingafjórðungi og 60 úr Austfirðingafjórðungi. Kærandi hafi náð þessum fjölda meðmælenda úr þremur síðastnefndum landsfjórðungum, en á hinn bóginn hafi hann einungis skilað vottorðum yfirkjörstjórna um kosningarbærni 820 meðmælenda úr Sunnlendingafjórðungi. Í 4. gr. laga nr. 36/1945 sé enga heimild að finna handa innanríkisráðuneytinu til að veita frambjóðenda frest fram yfir lok framboðsfrests til að afla fleiri meðmælenda og vottorða yfirkjörstjórna um kosningarbærni þeirra. Hafi framboð kæranda því ekki verið gilt.

    II

        Samkvæmt 2. gr. laga nr. 36/1945 eru undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir við forsetakjör þær sömu og við alþingiskosningar, en auk þeirra skal Hæstiréttur hafa með höndum þau störf, sem mælt er fyrir um í lögunum. Þau störf felast nánar tiltekið í fyrsta lagi í því að Hæstiréttur tekur við gögnum frá innanríkisráðuneytinu um framboð við forsetakjör og auglýsingu þess um hverjir séu í kjöri, sbr. 4. gr. laganna. Í öðru lagi úrskurðar Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna um hvort fresta þurfi forsetakjöri vegna andláts forsetaefnis og undirbúa kjör að nýju. Í þriðja lagi ber Hæstarétti að halda sérstaka gerðabók um málefni vegna forsetakjörs, sbr. 8. gr. laganna. Í fjórða lagi tekur Hæstiréttur samkvæmt 11. gr. laganna að afstöðnum forsetakosningum við eftirriti úr gerðabókum yfirkjörstjórna og ágreiningskjörseðlum og boðar síðan forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar, þar sem úrskurða skal um gildi ágreiningsseðla, lýsa úrslitum kosninga og gefa út kjörbréf handa forsetaefni, sem flest atkvæði hefur hlotið, en rísi ágreiningur um kjörgengi forsetaefnis sker Hæstiréttur úr. Í fimmta lagi gefur Hæstiréttur samkvæmt 12. gr. laganna út kjörbréf þegar að liðnum framboðsfresti handa forsetaefni, sem reynist vera eitt í kjöri. Í sjötta lagi ber réttinum samkvæmt 13. gr. laganna að senda eftirrit af kjörbréfi til forseta Alþingis og þess ráðherra, sem fer með málefni forseta Íslands. Loks tekur Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna við kærum um „ólögmæti forsetakjörs“, öðrum en refsikærum, og leysir úr þeim, en þær verða að berast í síðasta lagi fimm dögum fyrir fund samkvæmt 11. gr. laganna.
        Í þeim ákvæðum laga nr. 36/1945, sem að framan eru rakin, er hvergi að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar tilteknar ákvarðanir eða gerðir ráðherra, kjörstjórna eða annarra stjórnvalda um undirbúning eða framkvæmd forsetakjörs. Almenna heimildin, sem felst í 2. mgr. 14. gr. laganna til að beina til réttarins kærum um ólögmæti forsetakjörs, leiðir á hinn bóginn til þess að leita megi eftir ógildingu forsetakjörs í heild, þar á meðal vegna afmarkaðra annmarka á undirbúningi þess eða framkvæmd, en Hæstiréttur getur ekki á þeim grunni ógilt tilteknar ákvarðanir um slík efni eða breytt þeim. Kjör forseta Íslands á að fara fram 25. júní 2016. Eðli máls samkvæmt getur Hæstiréttur ekki fjallað um gildi forsetakjörs sem ekki hefur verið lokið. Þá verður kæra í þessu tilviki heldur ekki studd við 2. mgr. 11. gr. laga nr. 36/1945, sem kærandi hefur einnig vísað til, enda snertir kæruefnið á engan hátt álitaefni um kjörgengi forsetaefnis samkvæmt 4. gr. stjórnarskrárinnar. Stendur því engin heimild í lögum nr. 36/1945 til að beina erindi kærandans til Hæstaréttar og er því af þessum sökum vísað frá réttinum.

  • Föstudaginn 8. júlí 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

     

        Ár 2016, föstudaginn 8. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni, Karli Axelssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómara.
        Hæstarétti bárust 24. júní 2016 kærur vegna kjörs forseta Íslands 25. sama mánaðar frá Arngrími Pálmasyni og Páli Siggeirssyni, sem hér verða eftir því sem við á nefndir sameiginlega kærendur. Þá barst réttinum 28. júní 2016 kæra, sem Arngrímur Pálmason stóð einn að. Meginmál kæranna frá 24. júní 2016 er samhljóða og er kæran frá 28. sama mánaðar viðauki við þær. Verður því tekin ákvörðun um allar kærurnar þrjár í einu lagi.
        Að ákvörðun þessari standa sjö af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Áðurnefndar kærur eru allar handritaðar. Eftir því sem best verður séð segir eftirfarandi í kærunum frá 24. júní 2016: „Undirritaðir kærum alla framkvæmd og framsetningu landskjörstjórnar og svæðiskjörstjórna á framkvæmd forsetakosninga lýðveldisins Íslands sem fram eiga að fara laugardaginn 25. júní 2016. Landskjörstjórn er einkaframkvæmd án valdheimildar í lögum til að stýra kosningum. Einstaklingarnir, sem sitja í landskjörstjórn og öllum svæðiskjörstjórnum eru að taka sér vald sem þeir ekki hafa. Því ber að stöðva framkvæmd kosninga þann 25. júní 2016 sem öll telst lögleysa.“ Í kærunni frá 28. júní 2016 virðist segja eftirfarandi: „Undirritaður kærði og kæri alla framkvæmd og framsetningu á forsetakosningum lýðveldisins Íslands ... sem fram fóru laugardaginn 25. júní 2016. Krafist er í þessari viðbótar kæru að hver og einn einstaklingur í landskjörstjórn leggi fram persónu leyfi sitt til dómsákvörðunar í lögsögu Reykjavíkur ... Leyfi í lögsögu Rvk er skilyrði til þess að stýra kosningum til forseta lýðveldisins. Sjá t.d. Norðurlandasamning um sjálfstæði sveitafélaga frá 1930 og fl. alþjóðasamninga um sjálfstjórn sveitafélaga.“

    II

        Líta verður svo á að í framangreindum kærum felist krafa um að forsetakjör 25. júní 2016 verði fellt úr gildi, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Þá verður ekki annað séð en að ástæður, sem færðar eru fyrir kærunum, snúi að valdheimildum kjörstjórna við framkvæmd forsetakjörsins. Um kjörstjórnir við forsetakjör eru fyrirmæli í 2. gr. laga nr. 36/1945. Þar kemur fram að undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir séu þær sömu og við alþingiskosningar, en auk þessara kjörstjórna hafi Hæstiréttur með höndum þau störf, sem tiltekin séu í lögunum. Landskjörstjórn, sem gegnir störfum við alþingiskosningar samkvæmt lögum nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis og kjörin er eftir 12. gr. þeirra laga, kemur hvergi við sögu í forsetakjöri og geta atriði varðandi hana því engu skipt um lögmæti þess. Yfirkjörstjórnir, sem starfa á hinn bóginn við forsetakjör samkvæmt áðurnefndri 2. gr. laga nr. 36/1945, eru kosnar af Alþingi samkvæmt 13. gr. laga nr. 24/2000, en undirkjörstjórnir og aðrar kjörstjórnir eru kjörnar af sveitarstjórnum samkvæmt 15. gr. síðarnefndu laganna. Ekkert liggur fyrir um að annmarkar hafi verið á kosningu þessara kjörstjórna eftir fyrirmælum laga nr. 24/2000 eða að brestir hafi verið á hæfi þeirra, sem þar eiga sæti, til að gegna lögbundnum störfum sínum við forsetakjör. Að þessu virtu eru ekki efni til að ógilda forsetakjör 25. júní 2016 vegna atriða sem kærendur hafa fært fram.

  • Föstudaginn 8. júlí 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

         Ár 2016, föstudaginn 8. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni, Karli Axelssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómara.

        Hæstarétti barst 27. júní 2016 kæra „vegna ólögmæti utankjörstaðakosninga“ við kjör forseta Íslands 25. sama mánaðar frá Birni Vernharðssyni fyrir hönd „framboðs Sturlu Jónssonar“. Í kærunni var þess krafist að „kosningarnar verði dæmdar ólögmætar eða að kosningum verði frestað og undirbúningur að kosningum fari að lögum um framboð og kjör forseta Íslands nr. 36/1945.“ Með því að kæran lýtur að atriðum, sem eiga eftir ákvæðum laga nr. 36/1945 undir innanríkisráðherra, gaf Hæstiréttur ráðuneyti hans kost á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 29. júní 2016.
        Með vísan til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 verður að líta svo á að fyrrgreindar kröfur kæranda beinist að því að forsetakjör 25. júní 2016 verði fellt úr gildi.
        Að ákvörðun þessari standa sjö af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fór kjör forseta Íslands sem fyrr segir fram 25. júní 2016. Í auglýsingunni var tekið mið af því að samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 beri þeim, sem hefur hug á að gefa kost á sér í forsetakjöri, að skila til innanríkisráðuneytisins ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag framboði ásamt tilteknum fjölda meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga, en framboðsfrestur í þessu forsetakjöri rann þannig út 20. maí 2016. Í samræmi við 4. gr. laganna birti innanríkisráðherra auglýsingu 25. maí 2016, þar sem fram kom að níu nafngreindir menn væru í framboði við forsetakjörið. Áður en þetta lá fyrir hafði atkvæðagreiðsla utan kjörfundar staðið yfir á fjórðu viku eða frá 30. apríl 2016.
        Í kæru er vísað til þess að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hafi byrjað „áður en kjöri var lýst.“ Kærandi kveðst hafa orðið þess var að kjósendur, til dæmis á Norðurlöndunum, hafi þurft að fara langan veg til að greiða atkvæði á þennan hátt og megi af því sjá „að fyrirkomulagið sé eitthvað ekki í lagi.“ Áður en framboðsfresti lauk hafi sitjandi forseti meðal annarra tilkynnt að hann myndi bjóða sig fram, en dregið það síðan til baka. Í 4. gr. laga nr. 36/1945 sé „því lýst hvernig og hvenær hverjir séu í kjöri“, en í 6. gr. laganna sé „aðeins vísað til þeirra sem í kjöri eru.“ Geti því atkvæðagreiðsla utan kjörfundar ekki hafist „fyrr en það er búið að sinna skyldu 4. gr.“ Kærandi spyrji hvar heimild sé að finna til að innanríkisráðuneytið ákveði að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefjist „áður en því er lýst yfir formlega hverjir séu í kjöri“. Ráðuneytið hafi í bréfi til kæranda 27. maí 2016 vísað um þetta til ákvæða laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, en þar sé „ekki neitt sem heimilar utankjörstaðakosningar fyrr en kjöri er lýst“, heldur aðeins „að hefja megi kosningar sem fyrst og ekki fyrr en 8 vikum fyrir kjördag.“
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af framangreindri kæru, segir að lög nr. 36/1945 séu fáorð um framkvæmd forsetakosninga og sé þar um flest sem hana varðar vísað til laga nr. 24/2000. Þannig komi meðal annars fram í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 að um kosningaathöfn við forsetakjör, undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari í öðrum atriðum en þeim, sem beinlínis er mælt fyrir um í lögunum, eftir lögum um kosningar til Alþingis. Hafi því upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör alla tíð farið eftir reglum laga um kosningar til Alþingis sem hafi verið í gildi á hverjum tíma. Allt til ársins 1987 hafi atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við alþingiskosningar ekki getað byrjað fyrr en framboðsfrestur hafi verið liðinn, en á því hafi orðið breyting með lögum nr. 80/1987 um kosningar til Alþingis. Regla um þetta, sem þá var tekin upp, komi nú fram í 57. gr. laga nr. 24/2000, þar sem mælt sé svo fyrir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar megi hefjast átta vikum fyrir kjördag. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildi þessi regla um forsetakjör, en hafa megi í huga að þótt hefja megi atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við kosningar til Alþingis með þessum fyrirvara renni framboðsfrestur við þær ekki út fyrr en 15 dögum fyrir kjördag. Þá verði jafnframt að gæta að því að samkvæmt 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sem gildi við forsetakjör eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, geti kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, gert það aftur hvort heldur á sama hátt eða á kjörfundi. Í athugasemdum ráðuneytisins er þess einnig getið að samkvæmt upplýsingum, sem það hafi aflað, hafi innan við 1.500 kjósendur greitt atkvæði utan kjörfundar við forsetakjörið á tímabilinu frá 30. apríl til 25. maí 2016.

    II

        Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, eins og greininni var breytt með 2. gr. laga nr. 6/1984, kemur fram að kjósandi, sem greiðir atkvæði utan kjörfundar við forsetakjör, riti á kjörseðil nafn þess frambjóðanda, sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru. Atkvæði skuli ekki meta ógilt þótt sleppt sé kenninafni eða ættarnafn eitt sett ef greinilegt er eftir sem áður við hvern sé átt. Í lögunum er ekki mælt frekar fyrir um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör að öðru leyti en því að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. þeirra fer um þá atkvæðagreiðslu samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
        Síðastnefnd tilvísun í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 nær til ákvæða XII. kafla laga nr. 24/2000. Til þess kafla heyrir 57. gr. laganna, þar sem mælt er fyrir um rétt kjósanda til að greiða atkvæði utan kjörfundar. Þar segir meðal annars að hefja skuli kosningu utan kjörfundar svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Af 1. mgr. 30. gr. og 57. gr. laga nr. 24/2000 leiðir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við kosningar til Alþingis getur þannig hafist átta vikum fyrir kjördag eða 41 degi áður en fimmtán daga framboðsfresti við þær lýkur. Samkvæmt því hefur löggjafinn ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti byrjað við kosningar til Alþingis þótt ekki liggi endanlega fyrir hverjir bjóði sig þar fram. Vegna fyrrgreindrar tilvísunar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildir sama regla við forsetakjör án tillits til þess að það valdi því að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti hafist þremur vikum áður en fimm vikna framboðsfresti lýkur og í það minnsta fjórum vikum áður en auglýst er eftir 4. gr. sömu laga hverjir séu í kjöri. Þessu getur orðalag fyrri málsliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 ekki breytt, en til þess verður og að líta að ef ekki væri unnt að beita ákvæði 57. gr. laga nr. 24/2000 við forsetakjör myndi engin lögfest regla gilda um hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar gæti hafist þar. Þá verður einnig að taka tillit til þess að rúmur tími til slíkrar atkvæðagreiðslu er settur kjósendum til hagsbóta samhliða því að þeir geti allt fram á kjördag kosið á nýjan leik eftir áðurnefndum ákvæðum 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, en þann rétt getur kjósandi meðal annars nýtt hafi hann greitt atkvæði utan kjörfundar manni, sem síðan reynist ekki vera í framboði við forsetakjör, eða vilji hann fremur greiða öðrum frambjóðanda atkvæði sitt. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að verða við kröfu kæranda um ógildingu forsetakjörs 25. júní 2016.

  • Föstudaginn 8. júlí 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

     

        Ár 2016, föstudaginn 8. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni, Karli Axelssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómara.
        Hæstarétti barst 4. júlí 2016 erindi frá Halldóri Sigurþórssyni og Jóhannesi Þór Hilmarssyni, sem hér á eftir verða sameiginlega nefndir kærendur. Í erindinu kæra þeir forsetakjör, sem fór fram 25. júní sama ár, með vísan til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands og krefjast þess að það verði ógilt. Með því að kæra þessi lýtur að atriðum, sem eiga eftir ákvæðum fyrrnefndra laga undir innanríkisráðherra, gaf Hæstiréttur ráðuneyti hans kost á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 6. júlí 2016.
        Að ákvörðun þessari standa sjö af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fór kjör forseta Íslands sem fyrr segir fram 25. júní sama ár. Í auglýsingunni var tekið mið af því að samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 beri þeim, sem hefur hug á að gefa kost á sér í forsetakjöri, að skila til innanríkisráðuneytisins ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag framboði ásamt tilteknum fjölda meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Framboðsfrestur í þessu forsetakjöri rann þannig út 20. maí 2016. Í samræmi við 4. gr. laganna birti innanríkisráðherra auglýsingu 25. sama mánaðar, þar sem fram kom að níu nafngreindir menn væru í framboði við forsetakjörið. Áður en þetta lá fyrir hafði atkvæðagreiðsla utan kjörfundar staðið yfir á fjórðu viku eða frá 30. apríl 2016.
        Í kæru er um röksemdir í fyrsta lagi vísað til þess að samkvæmt 6. gr. laga nr. 36/1945 eigi kjósandi, sem greiðir atkvæði utan kjörfundar við forsetakjör, að rita á kjörseðil nafn þess frambjóðanda, sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hafi í skýrslu 29. júlí 2009 lýst því áliti að ekki ætti að hefja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar fyrr en kjörstjórn hefði staðfest framlögð framboð auk þess sem endurskoða þyrfti lagaákvæði um slíkar atkvæðagreiðslur. Þrátt fyrir þessa skýrslu hafi „íslensk stjórnvöld ekki uppfært lögin“, heldur efnt til forsetakjörs þvert á athugasemdir í henni „og virt að vettugi góðar lýðræðishefðir.“ Í öðru lagi reisa kærendur kröfu sína á því að samkvæmt 6. gr. laga nr. 36/1945 greiði kjósandi atkvæði utan kjörfundar við forsetakjör með því að rita á kjörseðil fullt nafn frambjóðandans sem hann vill kjósa. Í lögunum sé hvergi að finna heimild til að nota stimpla með nöfnum frambjóðenda við forsetakjör og sé ekki um það rætt í ákvæðum laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, sem vísað er til í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945. Að auki sé í 47. gr. laga nr. 24/2000 tiltekið að meðal kjörgagna við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við alþingiskosningar séu stimplar með listabókstöfum, en ekki sé þar getið um stimpla með nöfnum frambjóðenda. Með þessu séu tekin af tvímæli um að regla þessi geti ekki átt við um forsetakjör, sbr. einnig 62. gr. sömu laga. Í þriðja lagi vísa kærendur til þess að „fjölmörg dæmi“ hafi verið um að stimplum með nöfnum frambjóðenda í forsetakjörinu hafi verið „raðað upp með sérstökum hætti í kjörklefa þannig að stimplar með nöfnum einstakra frambjóðenda voru staðsettir útí horni á meðan öðrum var stillt upp fyrir miðju.“ Sé þetta þekkt aðferð „við uppröðun á vörum í verslunum til að hafa áhrif á val neytenda“ og virðist sem vísvitandi hafi verið reynt með þessu að hafa áhrif á val kjósenda. Í kæru er þessu til stuðnings að finna ljósmynd, sem virðist hafa verið tekin í kjörklefa við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakosningarnar, en á henni má sjá hvernig stimplum hafi verið raðað upp á borði við það tækifæri. Kveðast kærendur telja augljóst að ólögmæt framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar hafi haft áhrif á niðurstöðu kosninganna og sé því óhjákvæmilegt að ógilda forsetakjörið.
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af framangreindri kæru, segir að lög nr. 36/1945 séu fáorð um framkvæmd forsetakosninga og sé þar um flest sem hana varðar vísað til laga nr. 24/2000. Þannig komi meðal annars fram í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 að um kosningaathöfn við forsetakjör, undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari í öðrum atriðum en þeim, sem beinlínis er mælt fyrir um í lögunum, eftir lögum um kosningar til Alþingis. Um fyrstnefndar röksemdir kærenda hér að framan vísar ráðuneytið til þess að upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör hafi í samræmi við framangreind lagaákvæði alla tíð farið eftir reglum laga um kosningar til Alþingis sem hafi verið í gildi á hverjum tíma. Allt til ársins 1987 hafi atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við alþingiskosningar ekki getað byrjað fyrr en framboðsfrestur hafi verið liðinn, en á því hafi orðið breyting með lögum nr. 80/1987 um kosningar til Alþingis. Regla um þetta, sem þá var tekin upp, komi nú fram í 57. gr. laga nr. 24/2000, þar sem mælt sé svo fyrir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar megi hefjast átta vikum fyrir kjördag. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildi þessi regla um forsetakjör, en hafa megi í huga að þótt hefja megi atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við kosningar til Alþingis með þessum fyrirvara renni framboðsfrestur við þær ekki út fyrr en 15 dögum fyrir kjördag. Þá verði jafnframt að gæta að því að samkvæmt 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sem gildi við forsetakjör eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, geti kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, gert það aftur hvort heldur á sama hátt eða á kjörfundi. Í athugasemdum ráðuneytisins er þess einnig getið að samkvæmt upplýsingum, sem það hafi aflað, hafi innan við 1.500 kjósendur greitt atkvæði utan kjörfundar við forsetakjörið á tímabilinu frá 30. apríl til 25. maí 2016. Um aðrar röksemdir kærenda, sem áður var getið, vísar ráðuneytið til þess að ákvæðum 6. gr. laga nr. 36/1945 hafi verið breytt með lögum nr. 6/1984 meðal annars til þess að hægar yrði um vik að beita lögum um kosningar til Alþingis við forsetakjör. Í 47. og 62. gr. laga nr. 24/2000 sé í samræmi við ákvæði fyrri laga um alþingiskosningar mælt fyrir um notkun stimpla við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og hafi það verið gert um árabil. Hafi þetta reynst sjóndöprum og hreyfihömluðum kjósendum þarfaþing og í mörgum tilvikum orðið til þess að þeir hafi ekki þurft á aðstoð að halda við atkvæðagreiðslu, en einnig hafi komið fram að notkun stimpla hafi dregið úr fjölda ógildra atkvæða. Stimplar, sem notaðir hafi verið við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í forsetakjörinu 25. júní 2016, hafi verið með fullum nöfnum frambjóðenda og hafi við framkvæmd hennar verið fylgt þeirri almennu reglu að raða stimplum upp í kjörklefum í stafrófsröð.

    II

        Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, eins og greininni var breytt með 2. gr. laga nr. 6/1984, kemur fram að kjósandi, sem greiðir atkvæði utan kjörfundar við forsetakjör, riti á kjörseðil nafn þess frambjóðanda, sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru. Atkvæði skuli ekki meta ógilt þótt sleppt sé kenninafni eða ættarnafn eitt sett ef greinilegt er eftir sem áður við hvern sé átt. Í lögunum er ekki mælt frekar fyrir um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör að öðru leyti en því að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. þeirra fer um þá atkvæðagreiðslu samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
        Síðastnefnd tilvísun í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 nær til ákvæða XII. kafla laga nr. 24/2000. Til þess kafla heyrir 57. gr. laganna, þar sem mælt er fyrir um rétt kjósanda til að greiða atkvæði utan kjörfundar. Þar segir meðal annars að hefja skuli kosningu utan kjörfundar svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Af 1. mgr. 30. gr. og 57. gr. laga nr. 24/2000 leiðir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við kosningar til Alþingis getur þannig hafist átta vikum fyrir kjördag eða 41 degi áður en fimmtán daga framboðsfresti við þær lýkur. Samkvæmt því hefur löggjafinn ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti byrjað við kosningar til Alþingis þótt ekki liggi endanlega fyrir hverjir bjóði sig þar fram. Vegna fyrrgreindrar tilvísunar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildir sama regla við forsetakjör án tillits til þess að það valdi því að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti hafist þremur vikum áður en fimm vikna framboðsfresti lýkur og í það minnsta fjórum vikum áður en auglýst er eftir 4. gr. sömu laga hverjir séu í kjöri. Þessu getur orðalag fyrri málsliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 ekki breytt, en til þess verður og að líta að ef ekki væri unnt að beita ákvæði 57. gr. laga nr. 24/2000 við forsetakjör myndi engin lögfest regla gilda um hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar gæti hafist þar. Þá verður einnig að taka tillit til þess að rúmur tími til slíkrar atkvæðagreiðslu er settur kjósendum til hagsbóta samhliða því að þeir geti allt fram á kjördag kosið á nýjan leik eftir áðurnefndum ákvæðum 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, en þann rétt getur kjósandi meðal annars nýtt hafi hann greitt atkvæði utan kjörfundar manni, sem síðan reynist ekki vera í framboði við forsetakjör, eða vilji hann fremur greiða öðrum frambjóðanda atkvæði sitt. Þegar af þessum ástæðum eru ekki efni til að verða við kröfu kærenda á grundvelli röksemda þeirra varðandi upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
        Um aðrar röksemdir kærenda er þess að gæta að í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 er ekki tæmandi talning á þeim ákvæðum laga um kosningar til Alþingis, sem beitt verður við forsetakjör, svo sem berlega verður ráðið af 3. mgr. 6. gr. fyrrnefndu laganna. Tilvísunin í þessu síðastgreinda lagaákvæði nær sem áður segir til XII. kafla laga nr. 24/2000, en í 2. mgr. 62. gr. þeirra laga, sem er að finna í þeim kafla, kemur fram að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við kosningar til Alþingis fari þannig fram að kjósandi stimpli eða riti á atkvæðaseðil bókstaf þess lista sem hann vill kjósa. Eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 verður þessari reglu eðli máls samkvæmt beitt að breyttu breytanda við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör á þann hátt að kjósendum standi þar til boða stimplar með nöfnum frambjóðenda í stað stimpla með listabókstöfum við alþingiskosningar. Styðst þetta jafnframt við þau efnisrök að hagræði, sem sjóndaprir eða hreyfihamlaðir kjósendur geta haft af notkun stimpla við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við kosningar til Alþingis, er ekki síður fyrir hendi í slíkri atkvæðagreiðslu við forsetakjör, því ella þyrfti að rita fullt nafn frambjóðanda á kjörseðil. Við forsetakjör dregur þetta að auki enn frekar úr hættu á ógildi atkvæðis og kemur einnig í veg fyrir að kjörseðill beri fjölda bókstafa með rithönd kjósanda þannig að tryggt er að leyndar sé gætt um hvernig hann hafi greitt atkvæði. Um uppröðun stimpla á borðum í kjörklefum gilda ekki lögfestar reglur, en ekki eru efni til að vefengja að við framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í forsetakjörinu hafi almennt verið farin sú leið, sem greind er í athugasemdum innanríkisráðuneytisins og áður var getið, að raða stimplum með nöfnum frambjóðenda í stafrófsröð. Hafi í einhverjum tilvikum orðið misbrestur á því, sem ljósmynd í kæru getur ekki ein og sér nægt til að sýna fram á, fer fjarri að raunhæf hætta hafi verið á að handahófskennd uppröðun stimpla hafi nokkru getað ráðið um hvernig einstakir kjósendur kunni að hafa greitt atkvæði fremur en staðsetning eftir nöfnum frambjóðenda í stafrófsröð mundi gera.
        Að virtu öllu framangreindu verður ekki orðið við kröfu kærenda um ógildingu forsetakjörs 25. júní 2016.

  • Föstudaginn 8. júlí 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

     

        Ár 2016, föstudaginn 8. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni, Karli Axelssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómara.
        Hæstarétti barst 4. júlí 2016 erindi frá Hauki Haraldssyni og Kristni Jónssyni, þar sem þeir kæra forsetakjör, sem fór fram 25. júní sama ár, með vísan til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Þeir krefjast þess að forsetakjörið verði ógilt. Með því að kæra þessi lýtur að atriðum, sem eiga eftir ákvæðum fyrrnefndra laga undir innanríkisráðherra, gaf Hæstiréttur ráðuneyti hans kost á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 6. júlí 2016.
        Að ákvörðun þessari standa sjö af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fór kjör forseta Íslands sem fyrr segir fram 25. júní sama ár. Í auglýsingunni var tekið mið af því að samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 beri þeim, sem hefur hug á að gefa kost á sér í forsetakjöri, að skila til innanríkisráðuneytisins ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag framboði ásamt tilteknum fjölda meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Framboðsfrestur í þessu forsetakjöri rann þannig út 20. maí 2016. Í samræmi við 4. gr. laganna birti innanríkisráðherra auglýsingu 25. sama mánaðar, þar sem fram kom að níu nafngreindir menn væru í framboði við forsetakjörið. Áður en þetta lá fyrir hafði atkvæðagreiðsla utan kjörfundar staðið yfir á fjórðu viku.
        Í kæru er vísað til þess að samkvæmt 6. gr. laga nr. 36/1945 eigi kjósandi, sem greiðir atkvæði utan kjörfundar við forsetakjör, að rita á kjörseðil nafn þess frambjóðanda, sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hafi byrjað 30. apríl 2016 þó svo að ekki hafi þurft að skila framboðum til forsetakjörs fyrr en fimm vikum fyrir kjördag, sbr. 4. gr. sömu laga. Ekki hafi verið tilkynnt hverjir væru í kjöri fyrr en 25. maí 2016. Sé því ljóst að „þúsundir kjósenda“ hafi greitt atkvæði utan kjörfundar án þess að vita fyrir víst hverjir væru í kjöri. Þótt unnt sé að kjósa að nýju utan kjörfundar þegar þetta sé komið fram sé fullvíst að aðstæður margra geri það ófært eða illfært. Sé augljóst að þessi ólögmæta framkvæmd kosninganna hafi haft áhrif á niðurstöðu þeirra, þótt ekki verði fullyrt hvort úrslit hefðu að öðrum kosti orðið önnur. Sé þetta slíkur annmarki á framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar að óhjákvæmilegt sé að ógilda forsetakjörið.
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af framangreindri kæru, segir að lög nr. 36/1945 séu fáorð um framkvæmd forsetakosninga og sé þar um flest sem hana varðar vísað til laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis. Þannig komi meðal annars fram í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 að um kosningaathöfn við forsetakjör, undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari í öðrum atriðum en þeim, sem beinlínis er mælt fyrir um í lögunum, eftir lögum um kosningar til Alþingis. Hafi því upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör alla tíð farið eftir reglum laga um kosningar til Alþingis sem hafi verið í gildi á hverjum tíma. Allt til ársins 1987 hafi atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við alþingiskosningar ekki getað byrjað fyrr en framboðsfrestur hafi verið liðinn, en á því hafi orðið breyting með lögum nr. 80/1987 um kosningar til Alþingis. Regla um þetta, sem þá var tekin upp, komi nú fram í 57. gr. laga nr. 24/2000, þar sem mælt sé svo fyrir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar megi hefjast átta vikum fyrir kjördag. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildi þessi regla um forsetakjör, en hafa megi í huga að þótt hefja megi atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við kosningar til Alþingis með þessum fyrirvara renni framboðsfrestur við þær ekki út fyrr en 15 dögum fyrir kjördag. Þá verði jafnframt að gæta að því að samkvæmt 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sem gildi við forsetakjör eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, geti kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, gert það aftur hvort heldur á sama hátt eða á kjörfundi. Í athugasemdum ráðuneytisins er þess einnig getið að samkvæmt upplýsingum, sem það hafi aflað, hafi innan við 1.500 kjósendur greitt atkvæði utan kjörfundar við forsetakjörið á tímabilinu frá 30. apríl til 25. maí 2016.

    II

        Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, eins og greininni var breytt með 2. gr. laga nr. 6/1984, kemur fram að kjósandi, sem greiðir atkvæði utan kjörfundar við forsetakjör, riti á kjörseðil nafn þess frambjóðanda, sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru. Atkvæði skuli ekki meta ógilt þótt sleppt sé kenninafni eða ættarnafn eitt sett ef greinilegt er eftir sem áður við hvern sé átt. Í lögunum er ekki mælt frekar fyrir um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör að öðru leyti en því að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. þeirra fer um þá atkvæðagreiðslu samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
        Síðastnefnd tilvísun í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 nær til ákvæða XII. kafla laga nr. 24/2000. Til þess kafla heyrir 57. gr. laganna, þar sem mælt er fyrir um rétt kjósanda til að greiða atkvæði utan kjörfundar. Þar segir meðal annars að hefja skuli kosningu utan kjörfundar svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Af 1. mgr. 30. gr. og 57. gr. laga nr. 24/2000 leiðir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við kosningar til Alþingis getur þannig hafist átta vikum fyrir kjördag eða 41 degi áður en fimmtán daga framboðsfresti við þær lýkur. Samkvæmt því hefur löggjafinn ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti byrjað við kosningar til Alþingis þótt ekki liggi endanlega fyrir hverjir bjóði sig þar fram. Vegna fyrrgreindrar tilvísunar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildir sama regla við forsetakjör án tillits til þess að það valdi því að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti hafist þremur vikum áður en fimm vikna framboðsfresti lýkur og í það minnsta fjórum vikum áður en auglýst er eftir 4. gr. sömu laga hverjir séu í kjöri. Þessu getur orðalag fyrri málsliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 ekki breytt, en til þess verður og að líta að ef ekki væri unnt að beita ákvæði 57. gr. laga nr. 24/2000 við forsetakjör myndi engin lögfest regla gilda um hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar gæti hafist þar. Þá verður einnig að taka tillit til þess að rúmur tími til slíkrar atkvæðagreiðslu er settur kjósendum til hagsbóta samhliða því að þeir geti allt fram á kjördag kosið á nýjan leik eftir áðurnefndum ákvæðum 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, en þann rétt getur kjósandi meðal annars nýtt hafi hann greitt atkvæði utan kjörfundar manni, sem síðan reynist ekki vera í framboði við forsetakjör, eða vilji hann fremur greiða öðrum frambjóðanda atkvæði sitt. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að verða við kröfu í kæru um ógildingu forsetakjörs 25. júní 2016.

  • Föstudaginn 8. júlí 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

     

        Ár 2016, föstudaginn 8. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni, Karli Axelssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómara.
        Hæstarétti bárust 24. júní 2016 kærur „um lögmæti utankjörstaðakosninga vegna forsetakosninga 2016“ frá Ástþóri Magnússyni, Sverri Ólafssyni og Páli Siggeirssyni, sem hér á eftir verða sameiginlega nefndir kærendur. Í kærunum var þess krafist að forsetakosningum „25. júní 2016 verði frestað eða þær úrskurðað[ar] ógildar“. Meginmál þessara þriggja kæra er samhljóða og verður því tekin ákvörðun um þær í einu lagi. Með því að þær lúta að atriðum, sem eiga eftir ákvæðum laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands undir innanríkisráðherra, gaf Hæstiréttur ráðuneyti hans kost á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 29. júní 2016.
        Svo sem að framan segir gerðu kærendur þær kröfur í kærum sínum að annaðhvort yrði forsetakosningum 25. júní 2016 frestað eða þær ógiltar. Um þessar kröfur er þess að gæta að Hæstiréttur hefur í fyrri ákvörðunum sínum um kærur vegna forsetakjörs ítrekað slegið því föstu að í lögum nr. 36/1945 sé ekki að finna heimild handa réttinum til að taka til efnismeðferðar kröfur varðandi ólögmæti kjörs, þar á meðal vegna atriða sem varða undirbúning eða framkvæmd þess, fyrr en það er um garð gengið, sbr. meðal annars ákvarðanir frá 15. og 22. júní 2016. Með því að ljóst var af þessum sökum að kærurnar, sem hér eru til úrlausnar, væru ekki tækar til efnismeðferðar að því er varðaði kröfur kærenda um frestun forsetakosninga, taldi Hæstiréttur ekki efni til að taka ákvörðun um þær fyrir kjördag, heldur að rétt væri að bíða fram yfir þann dag og líta svo á að þær fælu einungis í sér kröfur um ógildingu forsetakjörsins, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945. Því til samræmis koma þær kröfur einar hér til úrlausnar.
        Að ákvörðun þessari standa sjö af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fór kjör forseta Íslands fram 25. júní 2016. Í auglýsingunni var tekið mið af því að samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 beri þeim, sem hefur hug á að gefa kost á sér í forsetakjöri, að skila til innanríkisráðuneytisins ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag framboði ásamt tilteknum fjölda meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga, en framboðsfrestur í þessu forsetakjöri rann þannig út 20. maí 2016. Í samræmi við 4. gr. laganna birti innanríkisráðherra auglýsingu 25. maí 2016, þar sem fram kom að níu nafngreindir menn væru í framboði við forsetakjörið. Áður en þetta lá fyrir hafði atkvæðagreiðsla utan kjörfundar staðið yfir á fjórðu viku eða frá 30. apríl 2016.
        Í kærum allra kærendanna þriggja er vísað til þess að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hafi byrjað „áður en kjöri var lýst.“ Þeir kveðast hafa orðið þess varir að kjósendur, til dæmis á Norðurlöndunum, hafi þurft að fara langan veg til að greiða atkvæði á þennan hátt og megi af því sjá „að fyrirkomulagið sé eitthvað ekki í lagi.“ Áður en framboðsfresti lauk hafi sitjandi forseti meðal annarra tilkynnt að hann myndi bjóða sig fram, en dregið það síðan til baka. Í 4. gr. laga nr. 36/1945 sé „því lýst hvernig og hvenær hverjir séu í kjöri“, en í 6. gr. laganna sé „aðeins vísað til þeirra sem í kjöri eru.“ Geti því atkvæðagreiðsla utan kjörfundar ekki hafist „fyrr en það er búið að sinna skyldu 4. gr.“ Af þeim sökum hafi verið óheimilt að láta atkvæðagreiðsluna byrja fyrr en lýst hafi verið yfir eftir 4. gr. laganna hverjir væru í kjöri.
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af framangreindum kærum, segir að lög nr. 36/1945 séu fáorð um framkvæmd forsetakosninga og sé þar um flest sem hana varðar vísað til laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis. Þannig komi meðal annars fram í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 að um kosningaathöfn við forsetakjör, undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari í öðrum atriðum en þeim, sem beinlínis er mælt fyrir um í lögunum, eftir lögum um kosningar til Alþingis. Hafi því upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör alla tíð farið eftir reglum laga um kosningar til Alþingis sem hafi verið í gildi á hverjum tíma. Allt til ársins 1987 hafi atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við alþingiskosningar ekki getað byrjað fyrr en framboðsfrestur hafi verið liðinn, en á því hafi orðið breyting með lögum nr. 80/1987 um kosningar til Alþingis. Regla um þetta, sem þá var tekin upp, komi nú fram í 57. gr. laga nr. 24/2000, þar sem mælt sé svo fyrir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar megi hefjast átta vikum fyrir kjördag. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildi þessi regla um forsetakjör, en hafa megi í huga að þótt hefja megi atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við kosningar til Alþingis með þessum fyrirvara renni framboðsfrestur við þær ekki út fyrr en 15 dögum fyrir kjördag. Þá verði jafnframt að gæta að því að samkvæmt 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sem gildi við forsetakjör eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, geti kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, gert það aftur hvort heldur á sama hátt eða á kjörfundi. Í athugasemdum ráðuneytisins er þess einnig getið að samkvæmt upplýsingum, sem það hafi aflað, hafi innan við 1.500 kjósendur greitt atkvæði utan kjörfundar við forsetakjörið á tímabilinu frá 30. apríl til 25. maí 2016.

    II

        Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, eins og greininni var breytt með 2. gr. laga nr. 6/1984, kemur fram að kjósandi, sem greiðir atkvæði utan kjörfundar við forsetakjör, riti á kjörseðil nafn þess frambjóðanda, sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru. Atkvæði skuli ekki meta ógilt þótt sleppt sé kenninafni eða ættarnafn eitt sett ef greinilegt er eftir sem áður við hvern sé átt. Í lögunum er ekki mælt frekar fyrir um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör að öðru leyti en því að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. þeirra fer um þá atkvæðagreiðslu samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
        Síðastnefnd tilvísun í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 nær til ákvæða XII. kafla laga nr. 24/2000. Til þess kafla heyrir 57. gr. laganna, þar sem mælt er fyrir um rétt kjósanda til að greiða atkvæði utan kjörfundar. Þar segir meðal annars að hefja skuli kosningu utan kjörfundar svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Af 1. mgr. 30. gr. og 57. gr. laga nr. 24/2000 leiðir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við kosningar til Alþingis getur þannig hafist átta vikum fyrir kjördag eða 41 degi áður en fimmtán daga framboðsfresti við þær lýkur. Samkvæmt því hefur löggjafinn ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti byrjað við kosningar til Alþingis þótt ekki liggi endanlega fyrir hverjir bjóði sig þar fram. Vegna fyrrgreindrar tilvísunar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildir sama regla við forsetakjör án tillits til þess að það valdi því að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti hafist þremur vikum áður en fimm vikna framboðsfresti lýkur og í það minnsta fjórum vikum áður en auglýst er eftir 4. gr. sömu laga hverjir séu í kjöri. Þessu getur orðalag fyrri málsliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 ekki breytt, en til þess verður og að líta að ef ekki væri unnt að beita ákvæði 57. gr. laga nr. 24/2000 við forsetakjör myndi engin lögfest regla gilda um hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar gæti hafist þar. Þá verður einnig að taka tillit til þess að rúmur tími til slíkrar atkvæðagreiðslu er settur kjósendum til hagsbóta samhliða því að þeir geti allt fram á kjördag kosið á nýjan leik eftir áðurnefndum ákvæðum 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, en þann rétt getur kjósandi meðal annars nýtt hafi hann greitt atkvæði utan kjörfundar manni, sem síðan reynist ekki vera í framboði við forsetakjör, eða vilji hann fremur greiða öðrum frambjóðanda atkvæði sitt. Að þessu öllu virtu eru ekki efni til að verða við kröfum kærenda um ógildingu forsetakjörs 25. júní 2016.

  • Miðvikudaginn 20. júlí 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

        Ár 2016, miðvikudaginn 20. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómara.
        Hæstarétti var eftir hádegi mánudaginn 18. júlí 2016 afhent bréf frá Arngrími Pálmasyni með fyrirsögninni: „Kæra“, sem kann að mega skilja sem kæru um ólögmæti forsetakjörs 25. júní 2016, en í niðurlagi bréfsins er þess þó krafist „að núverandi forseti Íslands skeri úr um lögmæti kosninganna 25. júní 2016 ... fyrir 1. ágúst 2016.“ Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands er heimilt að bera upp við Hæstarétt kæru um ólögmæti forsetakjörs, en fresti til þess lýkur fimm dögum fyrir fund sem um ræðir í 11. gr. laganna og haldinn er með frambjóðendum eða umboðsmönnum þeirra til að taka afstöðu til kjörseðla, sem ágreiningur hefur orðið um, lýsa úrslitum forsetakosninga og gefa út kjörbréf. Vegna forsetakjörs 25. júní 2016 verður sá fundur haldinn föstudaginn 22. júlí 2016, svo sem auglýst var í Lögbirtingablaði 27. júní sama ár. Kærufresti samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 lauk þannig klukkan 24.00 sunnudaginn 17. júlí 2016 og barst fyrrgreint bréf ekki innan þess tíma. Þegar af þeirri ástæðu er kæru þessari vísað frá Hæstarétti.

  • Miðvikudaginn 20. júlí 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

        Ár 2016, miðvikudaginn 20. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómara.
        Hæstarétti barst 16. júlí 2016 kæra um ólögmæti forsetakjörs 2016 frá Guðmundi Rafni Geirdal Bragasyni, sem hér á eftir verður nefndur kærandi. Hann vísar um heimild til kæru til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Með því að kæran lýtur að atriðum, sem eiga eftir ákvæðum þeirra laga undir innanríkisráðherra, gaf Hæstiréttur ráðuneyti hans kost á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 19. júlí 2016.
        Að ákvörðun þessari standa fimm af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fór kjör forseta Íslands fram 25. júní sama ár. Framboðsfrestur í forsetakjörinu rann út 20. maí 2016. Í samræmi við 4. gr. laga nr. 36/1945 birti innanríkisráðherra auglýsingu 25. sama mánaðar, þar sem fram kom að í kjöri til forsetaembættisins væru níu nafngreindir menn.
        Í kæru er ítarlega greint frá röksemdum kæranda, en þær snúa flestar að annmörkum, sem hann telur hafa verið á kjörseðlum sem kjósendur fengu í hendur við atkvæðagreiðslu á kjörfundi 25. júní 2016. Vísar kærandi í þessu sambandi til þess að á kjörseðlum hafi ekki komið fram orðið „forsetaefni“, en af 5. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. laga nr. 36/1945, sbr. einnig 11. gr. sömu laga, leiði að það hefði borið að gera. Aðeins hafi verið „notað orðið frambjóðendur á kjörseðlinum“, en kærandi kveðst ekki minnast þess „hvort við tók orðalagið til forseta eða forseta Íslands“. Á kjörseðlunum hafi ekki verið vísað til stjórnarskrárinnar, sem geri þá ólögmæta, og hafi heldur ekki verið getið um lög nr. 36/1945. Þá bendir kærandi á að samkvæmt 6. gr. þeirra laga skuli kjósandi, sem greiði atkvæði utan kjörfundar, rita á kjörseðil fullt nafn forsetaefnis sem hann vilji kjósa, en ætla megi samkvæmt jafnræðisreglu að borið hefði að tilgreina fullt nafn forsetaefna á kjörseðlum við atkvæðagreiðslu á kjörfundi. Á því hafi á nánar tiltekinn hátt verið annmarkar varðandi þrjú af forsetaefnunum, en þörf hefði verið á skýrari auðkenningu til að greina þessi forsetaefni frá öðrum sem beri sama nafn. Einnig hafi vantað að taka fram á kjörseðlunum að setja ætti kross framan við nafn forsetaefnis og hafi í engu verið getið um hvort hann mætti setja aftan við nafnið, yfir það eða „almennt í hæð við eitt tiltekið nafn.“ Ekki hafi verið prentaður auður ferningur framan við nöfn forsetaefna til að setja kross í og þar hafi heldur ekki verið að finna „undirstrikunarlínu“ til að sjá mætti hvar ætti nákvæmlega að setja slíkan kross. Jafnframt hafi vantað „lárétta dæld þvert á miðju kjörseðils, til að auðvelda kjósanda að brjóta kjörseðilinn rétt saman“, en seðlarnir hafi verið á mjög þykkum pappír. Því hafi verið hætta á að kjósendum mistækist þetta þannig að aðrir gætu séð hvernig þeir hafi greitt atkvæði og hafi kosning því ekki verið leynileg. Á kjörseðlunum hafi heldur ekki verið strik á milli nafna forsetaefna. Jafnframt vísar kærandi til þess að í fyrirsögn fréttar frá 25. maí 2016, sem innanríkisráðuneytið hafi birt á kosningavef sínum, hafi verið rætt um frambjóðendur til kjörs forseta Íslands 2016, en ekki um forsetaefni, svo sem hefði átt að gera í samræmi við 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar. Fréttin hafi því ekki verið gild eða lögmæt og eigi það sama við um auglýsingar ráðuneytisins í útvarpi og Lögbirtingablaði hafi orðfæri þar verið það sama. Að auki hafi nánar tilteknir annmarkar verið á efni á kosningavef ráðuneytisins, þar sem gefnar hafi verið leiðbeiningar um kjörgengi og framboð.
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af kærunni, segir að kjörseðlar við forsetakjörið 25. júní 2016 hafi verið gerðir með svipuðum hætti og við margar undanfarnar forsetakosningar, bæði varðandi fyrirsögn á seðlunum og tilgreiningu á nöfnum forsetaefna. Í lögum nr. 36/1945 sé ekki ráðgert að greint sé frá forsetaefnum á kjörseðlum á annan hátt en hér var gert, enda hafi forsetakjörið áður verið auglýst. Áður en kjörseðlar voru prentaðir hafi ráðuneytið kallað eftir óskum allra forsetaefna um hvernig nöfn þeirra skyldu rituð og hafi verið farið að þeim óskum í öllum tilvikum, enda hafi forsetaefnin, sem vildu stytta nafnritun sína, talið að þannig myndu þau þekkjast best. Þá vísar ráðuneytið til þess að fyrirmæli í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis um að prenta skuli ferning framan við hvern listabókstaf á kjörseðlum við alþingiskosningar hafi verið tekin upp í þau lög með 7. gr. laga nr. 15/2003, en samsvarandi breyting hafi ekki verið gerð á 5. gr. laga nr. 36/1945. Kjörseðlar við forsetakjör séu með einfaldara sniði en við alþingiskosningar og hafi því væntanlega verið litið svo á að ekki væri þörf á að breyta síðastnefndu lagaákvæði á samsvarandi hátt. Strik hafi verið prentuð þvert yfir kjörseðlana fyrir ofan og neðan nafn hvers forsetaefnis, strikin hafi öll verið jafnbreið og hverju forsetaefni gefið sama rými á seðlunum. Eins og löngum hafi verið gert í almennum kosningum hér á landi hafi verið brot á miðjum kjörseðlunum þegar þeir voru afhentir kjósendum í kjördeildum. Kjósandi hafi getað sett seðil sinn aftur í sama brot eftir að hann greiddi atkvæði, með óprentaðri hlið seðilsins út á við, og sett hann í kjörkassa. Í kjörfundarstofum hafi legið frammi leiðbeiningar handa kjósendum, sem ráðuneytið hafi látið gera vegna forsetakjörsins, og hafi meðal annars verið tekið þar fram með áberandi hætti að kjósandi ætti að nota blýant í kjörklefa til að setja kross á kjörseðil sinn framan við nafn þess frambjóðanda sem hann vildi greiða atkvæði. Pappír, sem kjörseðlarnir hafi verið prentaðir á, hafi verið þyngri en áskilið sé í 2. mgr. 50. gr. laga nr. 24/2000 og telji ráðuneytið það hafa aukið á kosningaleynd. Loks lýsir ráðuneytið því áliti að skrif á kosningavef þess hafi efnislega verið í samræmi við lög nr. 36/1945 og ákvæði laga nr. 24/2000, sem fyrrnefndu lögin vísi til.

    II

        Samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 skal skila framboðum til forsetakjörs í hendur innanríkisráðuneytinu ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag. Skal ráðuneytið innan viku auglýsa í útvarpi og Lögbirtingablaði hverjir séu í kjöri til forsetaembættisins og afgreiða svo til Hæstaréttar öll framangreind skjöl. Því til samræmis sendi ráðuneytið Hæstarétti skjöl þessi 25. maí 2016. Meðal þeirra var auglýsing samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945, dagsett 25. maí 2016, en í henni kom fram að í „kjöri til forsetaembættisins“ væru Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson. Við nafn hvers þeirra var tiltekið heimilisfang, en þó þannig að varðandi Ástþór Magnússon sagði: „Bretlandi, dvalarstaður Vogaseli 1, Reykjavík“. Efst á prentuðum kjörseðlum, sem gerðir voru til afnota við atkvæðagreiðslu á kjörfundi, stóð „FORSETAKJÖR 2016“ og þar neðan við var breitt lárétt strik. Undir því striki voru síðan prentuð í lóðréttri röð nöfn forsetaefnanna eftir stafrófi og voru lárétt strik, mun fíngerðari, á milli nafna þeirra og jafnframt undir nafni þess forsetaefnis sem neðst stóð á seðlunum. Nöfn forsetaefnanna voru tilgreind á sama hátt og í auglýsingu innanríkisráðuneytisins 25. maí 2016. Frekari texti var ekki á kjörseðlunum, en þeir voru brotnir saman um miðju þannig að óprentaða hliðin sneri út.
        Um það, sem koma þarf fram á kjörseðlum til afnota við atkvæðagreiðslu á kjörfundi við forsetakjör, segir það eitt í síðari málslið 5. gr. laga nr. 36/1945 að þar skuli prenta skýru letri nöfn forsetaefna í stafrófsröð. Ekki verður leitt af þessu lagaákvæði, 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar eða fyrirmælum laga nr. 24/2000, sem átt geta við um forsetakjör samkvæmt 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, sbr. 2. gr. laga nr. 6/1984, að nokkuð annað en þetta hafi þurft að koma fram í texta á kjörseðlunum. Hvorki þurfti því að tiltaka berum orðum að um væri að ræða kjör forseta Íslands 2016 né að nöfnin á kjörseðlunum væru nöfn forsetaefna, enda var það sjálfgefið og mátti hverjum manni vera augljóst. Að lögum voru enn síður efni til að vísa til stjórnarskrárinnar eða laga nr. 36/1945 í texta á kjörseðlunum eða taka þar upp leiðbeiningar um hvernig kjósandi ætti að nýta kjörseðil til að greiða gilt atkvæði. Um það síðastnefnda er þess jafnframt að gæta að samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 77. gr. laga nr. 24/2000, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, bar að festa kosningaleiðbeiningar upp á vegg í kjörfundarstofum, en með athugasemdum innanríkisráðuneytisins til Hæstaréttar fylgdi sýnishorn af slíkum leiðbeiningum og var efni þeirra í engu áfátt. Á kjörseðlunum voru ekki prentuð full nöfn þriggja forsetaefna, svo sem nöfn þeirra eru tilgreind í þjóðskrá, þeirra Ástþórs Magnússonar Wium, Guðna Thorlacius Jóhannessonar og Sturlu Hólm Jónssonar. Um þetta er til þess að líta að í 5. gr. laga nr. 36/1945 er ekki boðið að prenta skuli full nöfn forsetaefna á kjörseðla, en að virtri 1. mgr. 52. gr. laga nr. 24/2000 hefði ekki verið ástæða til að gera slíkt eða tiltaka nánari upplýsingar um forsetaefni, svo sem stöðu, starfsheiti eða heimili, nema nauðsynlegt hefði verið til auðkenningar. Sem fyrr segir kveðst innanríkisráðuneytið hafa farið að óskum hvers forsetaefnis um ritun nafns þess á kjörseðlunum. Ekki verður horft fram hjá því að í aðdraganda forsetakjörsins fór fram viðamikil kynning á forsetaefnum, þar á meðal í fjölmiðlum, og mátti kjósendum þannig vera ljóst hverjir þeir níu menn væru sem þar voru í kjöri. Verður ekki séð að haldbær ástæða sé til að ætla að kjósendur, sem greiddu Ástþóri Magnússyni, Guðna Th. Jóhannessyni eða Sturlu Jónssyni atkvæði, hafi getað gert það í villu um að þetta væru aðrir menn sem beri sömu eða lík nöfn eftir þjóðskrá. Sem fyrr segir voru nöfn forsetaefna á kjörseðlunum aðgreind með láréttum strikum og var eyða vinstra megin við þau, þar sem koma mátti fyrir bókstafnum „x“ til að greiða einhverju þeirra atkvæði. Hvorki var skylt eftir lögum nr. 36/1945 né af öðrum sökum þörf á að afmarka frekar rými til þess með prentuðum ferningum framan við nöfn forsetaefna. Þá voru kjörseðlar gerðir þannig úr garði að kjósendur fengu þá í hendur samanbrotna um miðju og sneri sem áður greinir óprentaða hliðin út, svo sem boðið er í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 24/2000, sem hér á við samkvæmt 5. gr. og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945. Ekki eru efni til að draga í efa að kjörseðlarnir hafi að öðru leyti verið gerðir í samræmi við fyrirmæli fyrri málsliðar 2. mgr. 50. gr. laga nr. 24/2000. Fréttir eða leiðbeiningar, sem innanríkisráðuneytið kann að hafa birt á kosningavef sínum, voru ekki settar þar til að þjóna lögbundnum tilgangi og getur efni þeirra þegar af þessari ástæðu engu skipt um gildi forsetakjörsins.
        Að virtu öllu framangreindu verður ekki orðið við kröfu kæranda um ógildingu forsetakjörs 25. júní 2016.

  • Miðvikudaginn 20. júlí 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

     

        Ár 2016, miðvikudaginn 20. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómara.
        Hæstarétti barst 17. júlí 2016 kæra um ólögmæti forsetakjörs frá Bjarna V. Bergmann, sem hér á eftir verður nefndur kærandi. Hann krefst „ógildingar á kjöri forseta Íslands, sem stóð frá 30. apríl 2016 fram til kjördags“ 25. júní sama ár. Um heimild til kæru vísar kærandi til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Með því að kæran lýtur að atriðum, sem eiga eftir ákvæðum þeirra laga undir innanríkisráðherra, gaf Hæstiréttur ráðuneyti hans kost á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 19. júlí 2016.
        Að ákvörðun þessari standa fimm af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fór kjör forseta Íslands fram 25. júní sama ár. Í auglýsingunni var tekið mið af því að samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 beri þeim, sem hefur hug á að gefa kost á sér í forsetakjöri, að skila til innanríkisráðuneytisins ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag framboði ásamt tilteknum fjölda meðmælenda úr hverjum landsfjórðungi og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Framboðsfrestur í forsetakjörinu rann þannig út 20. maí 2016.
        Um rök fyrir kröfu sinni vísar kærandi annars vegar til þess að samkvæmt tilkynningum utanríkisráðuneytisins 28. apríl 2016 og innanríkisráðuneytisins 30. sama mánaðar hafi síðastgreindan dag mátt hefja atkvæðagreiðslu utan kjörfundar, bæði innanlands og erlendis. Framboðsfresti við forsetakjörið hafi þó ekki lokið fyrr en 20. maí 2016 og hafi innanríkisráðherra birt auglýsingu 25. sama mánaðar, þar sem komið hafi fram hverjir væru í framboði. Kærandi telji að helst verði ráðið að ákvörðun um að hefja mætti atkvæðagreiðslu utan kjörfundar 30. apríl 2016 hafi verið tekin með tilliti til 57. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, þar sem segi að hefja skuli slíka atkvæðagreiðslu svo fljótt sem kostur sé eftir að kjördagur hafi verið ákveðinn, en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Ákvörðun þessi hafi á hinn bóginn farið í bága við 6. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 36/1945, enda segi í 1. mgr. fyrrnefndu lagagreinarinnar að kjósandi, sem greiði atkvæði utan kjörfundar, riti á kjörseðil nafn þess frambjóðanda, sem hann vilji kjósa af þeim sem í kjöri séu. Allt þar til innanríkisráðherra hafi birt auglýsinguna 25. maí 2016 hafi í raun engir frambjóðendur verið í kjöri og hafi kjósendur af þeim sökum ekki getað fyrir þann tíma greitt atkvæði utan kjörfundar í samræmi við 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945. Í þessu sambandi geti engu skipt að nafngreindir menn hafi áður lýst yfir að þeir hygðu á framboð, enda sé alkunna að slíkt kunni að verða dregið til baka. Með þessu hafi orðið veruleg hætta á að fyrir borð væru bornir almannahagsmunir, bæði gagnvart frambjóðendum, sem hafi átt rétt á að framboð þeirra hlytu sambærilega og réttláta meðferð stjórnvalda, og gagnvart kjósendum, sem hafi haft hagsmuni af því að vera upplýstir um valkosti sem hafi staðið þeim til boða í kosningunum. Hins vegar vísar kærandi til þess að hann hafi orðið þess var eftir að auglýsingin 25. maí 2016 var birt að búnir hafi verið til stimplar með nöfnum þeirra, sem hafi boðið sig fram í forsetakjörinu, og hafi stimplarnir verið notaðir upp frá því við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Þetta samrýmist ekki 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, enda segi þar að við slíka atkvæðagreiðslu riti kjósandi nafn frambjóðanda á kjörseðil og sé hvergi í lögum að finna heimild til að stimpla á seðilinn.
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af kærunni, segir að lög nr. 36/1945 séu fáorð um framkvæmd forsetakosninga og sé þar um flest sem hana varðar vísað til laga um kosningar til Alþingis. Þannig komi meðal annars fram í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 að um kosningaathöfn við forsetakjör, undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari í öðrum atriðum en þeim, sem beinlínis er mælt fyrir um í lögunum, eftir lögum um kosningar til Alþingis. Upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör hafi í samræmi við framangreind lagaákvæði alla tíð farið eftir reglum laga um kosningar til Alþingis sem hafi verið í gildi á hverjum tíma. Allt til ársins 1987 hafi atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við alþingiskosningar ekki getað byrjað fyrr en framboðsfrestur hafi verið liðinn, en á því hafi orðið breyting með lögum nr. 80/1987 um kosningar til Alþingis. Regla um þetta, sem þá var tekin upp, komi nú fram í 57. gr. laga nr. 24/2000, þar sem mælt sé svo fyrir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar megi hefjast átta vikum fyrir kjördag. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildi þessi regla um forsetakjör, en hafa megi í huga að þótt hefja megi atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við kosningar til Alþingis með þessum fyrirvara renni framboðsfrestur við þær ekki út fyrr en 15 dögum fyrir kjördag. Þá verði jafnframt að gæta að því að samkvæmt 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sem gildi við forsetakjör eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, geti kjósandi, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, gert það aftur hvort heldur á sama hátt eða á kjörfundi. Í athugasemdum ráðuneytisins er þess einnig getið að samkvæmt upplýsingum, sem það hafi aflað, hafi innan við 1.500 kjósendur greitt atkvæði utan kjörfundar við forsetakjörið á tímabilinu frá 30. apríl til 25. maí 2016. Þá vísar ráðuneytið til þess að ákvæðum 6. gr. laga nr. 36/1945 hafi verið breytt með lögum nr. 6/1984 meðal annars til þess að hægar yrði um vik að beita lögum um kosningar til Alþingis við forsetakjör. Í 47. og 62. gr. laga nr. 24/2000 sé í samræmi við ákvæði fyrri laga um alþingiskosningar mælt fyrir um notkun stimpla við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og hafi það verið gert um árabil. Hafi þetta reynst sjóndöprum og hreyfihömluðum kjósendum þarfaþing og í mörgum tilvikum orðið til þess að þeir hafi ekki þurft á aðstoð að halda við atkvæðagreiðslu, en einnig hafi komið fram að notkun stimpla hafi dregið úr fjölda ógildra atkvæða.

    II

        Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, eins og greininni var breytt með 2. gr. laga nr. 6/1984, kemur fram að kjósandi, sem greiðir atkvæði utan kjörfundar við forsetakjör, riti á kjörseðil nafn þess frambjóðanda, sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru. Atkvæði skuli ekki meta ógilt þótt sleppt sé kenninafni eða ættarnafn eitt sett ef greinilegt er eftir sem áður við hvern sé átt. Í lögunum er ekki mælt frekar fyrir um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör að öðru leyti en því að eftir 3. mgr. 6. gr. þeirra fer um þá atkvæðagreiðslu samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
        Síðastnefnd tilvísun í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 nær til ákvæða XII. kafla laga nr. 24/2000. Til þess kafla heyrir 57. gr. laganna, þar sem mælt er fyrir um rétt kjósanda til að greiða atkvæði utan kjörfundar. Þar segir meðal annars að hefja skuli kosningu utan kjörfundar svo fljótt sem kostur er eftir að kjördagur hefur verið auglýstur, en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Af 1. mgr. 30. gr. og 57. gr. laga nr. 24/2000 leiðir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við kosningar til Alþingis getur þannig hafist átta vikum fyrir kjördag eða 41 degi áður en fimmtán daga framboðsfresti við þær lýkur. Samkvæmt því hefur löggjafinn ákveðið að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti byrjað við kosningar til Alþingis þótt ekki liggi endanlega fyrir hverjir bjóði sig þar fram. Vegna fyrrgreindrar tilvísunar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 gildir sama regla við forsetakjör án tillits til þess að það valdi því að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti hafist þremur vikum áður en fimm vikna framboðsfresti lýkur og í það minnsta fjórum vikum áður en auglýst er eftir 4. gr. sömu laga hverjir séu í kjöri. Þessu getur orðalag fyrri málsliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 ekki breytt, en til þess verður og að líta að ef ekki væri unnt að beita ákvæði 57. gr. laga nr. 24/2000 við forsetakjör myndi engin lögfest regla gilda um hvenær atkvæðagreiðsla utan kjörfundar gæti hafist þar. Þá verður einnig að taka tillit til þess að rúmur tími til slíkrar atkvæðagreiðslu er settur kjósendum til hagsbóta samhliða því að þeir geti allt fram á kjördag kosið á nýjan leik eftir áðurnefndum ákvæðum 88. gr. og 2. mgr. 91. gr. laga nr. 24/2000, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, en þann rétt getur kjósandi meðal annars nýtt hafi hann greitt atkvæði utan kjörfundar manni, sem síðan reynist ekki vera í framboði við forsetakjör, eða vilji hann fremur greiða öðrum frambjóðanda atkvæði sitt. Þegar af þessum ástæðum eru ekki efni til að verða við kröfu kæranda á grundvelli röksemda hans varðandi upphaf atkvæðagreiðslu utan kjörfundar.
        Um aðrar röksemdir kæranda er þess að gæta að í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 er ekki tæmandi talning á þeim ákvæðum laga um kosningar til Alþingis, sem beitt verður við forsetakjör, svo sem berlega verður ráðið af 3. mgr. 6. gr. fyrrnefndu laganna. Tilvísunin í þessu síðastgreinda lagaákvæði nær sem áður segir til XII. kafla laga nr. 24/2000, en í 2. mgr. 62. gr. þeirra laga, sem er að finna í þeim kafla, kemur fram að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar við kosningar til Alþingis fari þannig fram að kjósandi stimpli eða riti á atkvæðaseðil bókstaf þess lista sem hann vill kjósa. Eftir 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 verður þessari reglu eðli máls samkvæmt beitt að breyttu breytanda við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við forsetakjör á þann hátt að kjósendum standi þar til boða stimplar með nöfnum frambjóðenda í stað stimpla með listabókstöfum við alþingiskosningar. Styðst þetta jafnframt við þau efnisrök að hagræði, sem sjóndaprir eða hreyfihamlaðir kjósendur geta haft af notkun stimpla við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar við kosningar til Alþingis, er ekki síður fyrir hendi í slíkri atkvæðagreiðslu við forsetakjör, því ella þyrfti að rita fullt nafn frambjóðanda á kjörseðil. Við forsetakjör dregur þetta að auki enn frekar úr hættu á ógildi atkvæðis og kemur einnig í veg fyrir að kjörseðill beri fjölda bókstafa með rithönd kjósanda þannig að tryggt er að leyndar sé gætt um hvernig hann hafi greitt atkvæði.
        Að virtu öllu framangreindu verður ekki orðið við kröfu kæranda um ógildingu forsetakjörs 25. júní 2016.

  • Miðvikudaginn 20. júlí 2016

    Endurrit
    úr
    gerðabók
    Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
    ---ooo000ooo---

        Ár 2016, miðvikudaginn 20. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómara.
        Hæstarétti barst 17. júlí 2016 erindi frá Baldri Ágústssyni, þar sem hann kærir forsetakjör, sem fór fram 25. júní sama ár, með vísan til 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Hann krefst þess að forsetakjörið verði ógilt. Með því að kæra þessi lýtur að atriðum, sem eiga eftir ákvæðum fyrrnefndra laga undir innanríkisráðherra, gaf Hæstiréttur ráðuneyti hans kost á að koma á framfæri athugasemdum og bárust þær réttinum 19. júlí 2016.
        Að ákvörðun þessari standa fimm af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.

    I

        Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fór kjör forseta Íslands sem fyrr segir fram 25. júní sama ár. Í auglýsingunni var tekið fram að framboðum til forsetakjörs skyldi skila til innanríkisráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir væru kosningabærir ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag. Skyldi forsetaefni hafa meðmæli minnst 1500 kosningabærra manna, en mest 3000 sem skyldu skiptast eftir landsfjórðungum með nánar tilteknum hætti. Framboðsfrestur í þessu forsetakjöri rann þannig út 20. maí 2016. Í samræmi við 4. gr. laga nr. 36/1945 birti innanríkisráðherra auglýsingu 25. sama mánaðar, þar sem fram kom að níu nafngreindir menn væru í framboði við forsetakjörið.
        Í kæru er vísað til þess að innanríkisráðuneytið hafi látið frá sér fara fyrirmæli, sem kærandi nefnir svo, „um að hver meðmælandi mætti einungis mæla með einum forsetaframbjóðanda“. Fyrirmælin hafi virkað „tefjandi og sem bein hindrun við söfnun meðmælenda“ og orðið „jafnframt til þess, að nokkrir „frambjóðendur“ náðu ekki nægum fjölda meðmælenda og féllu út.“ Kærandi hafi verið einn þeirra. Í kærunni er síðan komist svo að orði: „Ljóst er og óviðunandi, að einstaklingar misstu af því að nota stjórnarskrárbundinn rétt sinn til framboðs forseta Íslands beinlínis vegna fyrirmæla frá innanríkisráðuneytinu, sem ekki eiga sér stoð í lögum.“ Í kæru, sem Hæstarétti barst frá kæranda 8. júní 2016 og vísað er til í umræddri kæru hans, kemur meðal annars fram að í lögum nr. 36/1945 verði ekki fundin regla um bann við því að sami maður gerist meðmælandi tveggja eða fleiri frambjóðenda. Þótt vísað sé í þeim lögum um ýmis atriði til ákvæða laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, sé hvergi í lögum nr. 36/1945 vitnað til VII. kafla laga nr. 24/2000 eða 3. mgr. 34. gr. þeirra, sem heyri til þess kafla. Regla sem þar sé að finna um að ekki skuli telja mann, sem gerist meðmælandi fleiri en eins framboðslista við alþingiskosningar, til meðmælenda nokkurs listans gildi því ekki við forsetakjör. Af þessum sökum telur kærandi „að krafan um að hver meðmælandi megi aðeins mæla með einum frambjóðanda, sé ólögleg krafa ... sem leiði til þess, að kosningarnar 25. júní sl. séu ógildar.“
        Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af framangreindu erindi, segir að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 fari um kosningaathöfnina sjálfa, sem og undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á. Gildi því ákvæði laga nr. 24/2000 um meðmælendur við forsetakjör að því leyti sem annað leiði ekki af ákvæðum laga nr. 36/1945. Vegna þessa gildi 3. mgr. 34. gr. laga nr. 24/2000, sem áður var getið, sbr. einnig 2. mgr. 33. gr. sömu laga, um forsetakjör. Þá er tekið fram að þó að ráðuneytið hafi í kynningarefni sínu vakið athygli á því að hverjum meðmælanda sé einungis heimilt að mæla með framboði eins forsetaefnis séu það yfirkjörstjórnir sem yfirfari og taki afstöðu til meðmælendalistanna og gefi vottorð um fjölda kosningabærra meðmælenda hvers forsetaefnis, sbr. 4. gr. laga nr. 36/1945 og ákvæði VII. kafla laga nr. 24/2000, sbr. 3. mgr. 6. gr. fyrrgreindu laganna.

    II

        Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar skal forseti Íslands kjörinn beinum leynilegum kosningum af þeim er kosningarétt hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningabærra manna og mest 3000. Síðastnefnt skilyrði um fjölda meðmælenda með forsetaefni, sem tekið var upp í stjórnarskrána að tillögu sameinaðra stjórnarskrárnefnda beggja deilda Alþingis samhliða því að lagt var til að forseti skyldi þjóðkjörinn en ekki þingkjörinn, var skýrt svo í áliti nefndanna: „Rétt þykir að gera nokkuð strangar kröfur um meðmælendafjölda við forsetakjör, og er hér gert ráð fyrir minnst 1500 meðmælendum, en mest 3000, eftir því sem nánar verður tiltekið í kosningalögum.“ Í 2. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar segir að ákveða skuli með lögum um framboð og kjör forseta að öðru leyti en því, sem fyrir er mælt í 1. mgr. greinarinnar, þar á meðal megi ákveða að tiltekin tala meðmælenda skuli vera úr landsfjórðungi hverjum í hlutfalli við kjósendatölu þar.
        Í 4. gr. laga nr. 36/1945 er kveðið á um að framboðum til forsetakjörs skuli skila í hendur innanríkisráðuneytinu ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir ekki síðar en 5 vikum fyrir kjördag og skuli ráðuneytið auglýsa með sama hætti og segi í 3. gr. laganna innan viku hverjir séu í kjöri til forsetaembættisins. Önnur ákvæði um framboð við forsetakjör er ekki að finna í lögunum, þar á meðal er ekki kveðið á um, hvorki af né á, hvort sami kjósandi megi mæla með fleiri en einum til framboðs til embættis forseta.
        Að öðru leyti en því, sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945, fer eftir 3. mgr. greinarinnar um kosningaathöfnina sjálfa við forsetakjör, sem og undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á. Þegar síðastgreint ákvæði var upphaflega sett voru í gildi lög nr. 80/1942 um kosningar til Alþingis. Í VI. kafla þeirra laga var fjallað um framboð og var þar ekki, frekar en í lögum nr. 36/1945, kveðið á um hvort sami kjósandi mætti mæla með fleiri en einum manni eða lista til framboðs. Í VIII. kafla laga nr. 80/1942 voru ákvæði um kosningaundirbúning, í X. kafla um kjörstaði, atkvæðakassa og fleira, í XI. kafla um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og í XII. kafla um atkvæðagreiðslu á kjörfundi. Að þessu virtu getur sú tilvísun 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 að við undirbúning kosningaathafnar við forsetakjör skuli fara samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis ekki tekið til framboðs til embættis forseta.
        Í 2. mgr. 33. gr. laga nr. 24/2000 segir að sami kjósandi megi ekki mæla með fleiri en einum lista við sömu alþingiskosningar. Í samræmi við þá reglu er kveðið á um í 3. mgr. 34. gr. laganna að berist yfirkjörstjórn meðmælendalistar þar sem sami kjósandi mælir með fleiri en einu framboði verði kjósandinn ekki talinn meðmælandi neins þeirra. Í greinargerð með frumvarpi til laganna var tekið fram að ákvæðið í 2. mgr. 33. gr. væri nýmæli. Þar væri kveðið á um að sama kjósanda væri einvörðungu heimilt að mæla með einum framboðslista við hverjar alþingiskosningar. Vafi hafi þótt leika á hvort þetta væri heimilt og væri lagt til að tekið skyldi af skarið um að það skyldi óheimilt. Einnig kom fram að ákvæði 3. mgr. 34. gr. væri nýmæli og tæki til þess að sami kjósandi mælti með fleiri en einu framboði sem ekki væri heimilt samkvæmt 2. mgr. 33. gr. Með setningu síðargreinda ákvæðisins hefur löggjafinn tekið af skarið um að sami kjósandi megi ekki mæla með fleiri en einum lista við alþingiskosningar. Verður að líta svo á að hér sé um að ræða meginreglu í íslenskum rétti, sem taki til meðmæla við framboð í almennum kosningum.
        Eins og áður greinir er ekki kveðið á um það í lögum nr. 36/1945 að sami kjósandi megi ekki mæla með fleiri en einum til framboðs til embættis forseta Íslands. Þótt ekki sé þar vísað til 2. mgr. 33. gr. laga nr. 24/2000 samræmist sú regla, sem þar er að finna, fyrrgreindu markmiði að baki skilyrðinu um fjölda meðmælenda með forsetaefni í 1. mgr. 5. gr. stjórnarskrárinnar þar sem ekki fer milli mála að ótakmörkuð heimild sama kjósanda til að mæla með framboði fleiri en eins forsetaefnis ynni gegn því. Samkvæmt þessu gildir fyrrgreind meginregla eftir eðli máls um forsetakjör og er af þeim sökum hafnað kröfu kæranda um að kjör forseta Íslands, sem fram fór 25. júní 2016, verði ógilt.